12.2.2007 | 13:37
It´s hard to be "umhverfisverndarsinni"
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, frambjóðandi VG í Kraganum, sagði í Silfri Egils að það að vera umhverfisverndarsinni er erfitt. Því myndu skv. henni flestir af hinum "nýju" umhverfisverndarsinnum ekki hafa úthald til að vera raunverulegir umhverfisverndarsinnar, - bara VG.
Ég er sammála henni, þ.a.s. varðandi erfiðleikana við að vera raunverulegur umhverfisverndarsinni. Meira að segja Steingrímur J. hefur átt í erfiðleikum við að segja skilið við stóra jeppann sem og margir af þeim sem mættu á fundinn í Árnesi í gær til að mótmæla virkjunum í Þjórsá. Ómar Ragnarsson hvatti til aukinnar bílaumferðar (lesist: aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda) í miðborg Reykjavíkur og er ekki hættur að fljúga þrátt fyrir að vera orðinn helsti talsmaður hægri grænna í landinu. Og hversu mörg af okkur veltu fyrir okkur koldíoxíðssmengun þegar við vorum að panta síðustu Londonarferðina eða skipuleggja sumarfríið til Spánar?
Þess vegna hef ég aldrei skilgreint mig sem umhverfisverndarsinna.
Þrátt fyrir ýmsa hegðun sem mætti flokka sem umhverfisvæna s.s. að flokka samviskusamlega málma og gler úr heimilissorpinu, og taka rafhlöður til hliðar. Þrátt fyrir að ég fari með gos- og glerflöskurnar í endurvinnsluna. Þrátt fyrir að ég versli í Góða hirðinum og velji frekar íslenskar vörur en erlendar. Þrátt fyrir að ég hafi áhyggjur af hækkandi hitastigi í heiminum sem má rekja til gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, fiskiskipum, flugvélum, vinnuvélum og bifreiðum.
Það er líka mín skoðun að það eigi ekki að vera erfitt að vera umhverfisverndarsinni. Maður á ekki að þurfa að fórna sér, gerast píslavottur til að lifa umhverfisvænu lífi líkt og Guðfríður Lilja og félagar hennar í VG boða. Það á að vera hluti af lífinu. Verð á vörum á að endurspegla hvort þær séu slæmar fyrir umhverfið eður ei. Af hverju tökum við t.d. ekki upp koldíoxíðsskatta á innflutt matvæli, frekar en að vera með einhverja tolla og vörugjöld? Af hverju skyldum við ekki fyrirtæki til að vinna gegn þeirri mengun sem þau eru að orsaka s.s. skógrækt og landgræðslu? Af hverju ekki leggja álögur á sparneytna Toyota Hybrid bílinn og Ford pick-upinn í samræmi við mengun frá þeim?
Þetta á að vera hlutverk stjórnvalda, og þetta er eitthvað sem ég vil beita mér fyrir. Ekki bara setja upp píslarvottssvipinn og tala um hverjir séu hinu einu sönnu umhverfisverndarsinnar.
Ekki bara tala!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Facebook
Athugasemdir
Kæra Eygló, þetta hefði þinn Framsóknarflokkur átt að vera búinn að gera fyrir löngu. Alltaf gott að koma rétt fyrir kosningar með góðar tillögur. Við þurfum hinsvegar fólk sem framkvæmir og gerir umbætur í umhverfismálum en situr ekki í ríkisstjórn í 12 ár og gerir ekkert nema að sökkva landi og selja orku á spottprís til álbræðslu. Þið getið velt þessu fyrir ykkur næstu árin í stjórnarandstöðu. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 12.2.2007 kl. 14:47
Sæll Hlynur,
Ég er alveg sammála þér. Það var t.d. gaman að sjá hversu kröftuglega vinstri grænir stóðu gegn Hellisheiðarvirkjun innan R-listans, - oops nei það gerðu þeir víst ekki! Og það þurfti Sjálfstæðismenn bæði í Reykjanesbæ og á Akureyri til að fara að bjóða frítt í strætó, - á meðan VG/Samfylkingarkonan Björk Vilhelmsdóttir dútlaði við að leggja almenningssamgöngur í rúst á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig hef ég saknað mjög lagafrumvarpa frá VG um að draga úr gróðurhúsalofttegundum, eða skynsamlegar tillögur um umbætur í umhverfismálum án þess að hrekja fyrirtæki hreinlega úr landi. Og VG á Húsavík voru fyrstir til að fagna hugmyndum um álver þar.
Það er svo gott og blessað að vera umhverfisverndarsinni þegar það hefur engin áhrif á manns eigin lífsstíl.
Bkv. Eygló
PS. Það getur nefnilega verið svo ansi þægilegt að vera í stjórnarandstöðu og getað gasprað ábyrgðarlaust
Eygló Þóra Harðardóttir, 12.2.2007 kl. 16:44
Sæl aftur Eygló, þetta er hópur af rangfærslum hjá þér. Vg á Húsvík fögnuðu ekki álveri. Hellisheiðavirkjun var ekki á óskalista Vg í Reykjavík. Björk rústaði ekki almenningssamgöngum. Í besta falli eru þetta útúrsnúningar hjá þér og í versta falli bull. Óska þér samt alls hins besta,
Hlynur Hallsson, 12.2.2007 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.