5.2.2007 | 14:35
Hver á að draga úr gróðurhúsaáhrifunum?
Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um gróðuhúsaáhrifin og breytingar á loftslagi heimsins hefur verið mikið í fréttum upp á síðkastið. Með fréttunum hafa fylgt lýsingar á áhrifum hækkandi hitastigs, þar á meðal bráðnun jökla, hækkandi sjávaryfirborð og óútreiknanlegt veður. Síðan hafa sérfræðingar stigið fram og sagt að þetta verður nú ekki alslæmt fyrir okkur Íslendinga, allavega næstu 50 -100 árin. Hafsstraumar munu líklega ekki breytast, bráðnun jökla þýðir meiri framleiðsla á rafmagni og veðrið mun batna.
Svona áður en rokið er til til að kaupa ný sundföt og sólgleraugu, ætla ég að velta fyrir mér hvað við getum gert til að stoppa þessa þróun. Margir benda á uppbyggingu stóriðju, og ljóst er að iðnaður og álver þar á meðal eiga sinn hlut í losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis.
Landvernd hefur verið með Loftslagsverkefni í gangi sem skilaði af sér tillögum um aðgerðir árið 2005. Í verkefninu kom fram eftirfarandi skipting heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi eftir atvinnugreinum (2001):
- Jarðhiti 5%
- Fiskiskip 20%
- Iðnaður 36%
- Heimili: 1%
- Samgöngur og tæki 26%
- Annað 12%
Í framhaldi af verkefninu lagði Landvernd til nokkrar tillögur um aðgerðir. Meðal þeirra helstu voru:
- Breyta olíu- og bensíngjaldi í koldíoxíðsskatt sem eigi að skila sama í ríkissjóð og olíu- og bensíngjöld plús vörugjöld áður.
- Km-gjald á allan akstur (breytilegt eftir bifreiðum og því álagi sem þær valda á vegakerfi, umhverfi og umferðaröryggi. Hærri taxta á álagspunktum í anda veggjalda).
- Stjórnvöld komi á efnahagslegum hvötum svo einkaaðilar sjái sér hag í því að draga úr losun gróðhúsalofttegunda frá eigin starfsemi, eða styrkja aðgerðir sem miða að því að binda kolefni til að vega upp á móti losun viðkomandi fyrirtækja.
- Stofna kolefnissjóð sem einkaaðilar geta fjárfest í.
- Samning við fyrirtæki í ferðaþjónustu um að bjóða kolefnisfría þjónustu t.d. flugmiða þar sem innifalið er í verði kolefnisbinding á móti því kolefni sem losnar við bruna eldsneytis við flugið.
- Þungaskattur vöruflutningabíla verði hækkaður til samræmis við tilkostnað vegna slits sem þeir valda á vegum.
- Hafnargjöld vegna strandflutninga verði lækkuð til samræmis við tilkostnað.
- Stjórnvöld innleiði hvatakerfi sem stuðli að bættri eldneytisnýtingu fiskiskipa ásamt eflingu rannsókna og þróunar á sviði veiðiaðferða og orkunýtingar fiskiskipa. (Bara þetta eitt er áætlað geta leitt til 40% minni losunar en ella árið 2030 hjá greininni).
Sem sagt fullt af aðgerðum sem snúa að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi. T.d. kom fram að tegund veiðafæra hjá fiskiskipum skiptir miklu máli varðandi orkunotkun og krefjast togveiðarfæri langmestrar orku.
Því miður hefur lítið verið fjallað um þessar tillögur Landverndar, og er það einna helst km-gjaldið sem hefur heyrst af úr Samgönguráðuneytinu. Ekkert hefur heyrst frá Sjávarútvegsráðuneytinu, nema vera skyldi mótmæli þeirra við fyrirhuguðu banni Sameinuðu þjóðanna við botnvörpuveiðum (lesist: togveiðarfæri) á úthöfunum.
Ég spurði í upphafi hver á að draga úr gróðurhúsaáhrifunum? Að mínu mati verðum við öll að fara hysja upp um okkur buxurnar og gera okkar til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum.
Undirrituð þar á meðal.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta voru skelfilegar fréttir og umfjöllun Halldórs Þorgeirssonar frá París merkileg þegar hann líkti þessu við reykingafólkið. Það er ef þið hættið ekki að reykja þá verðið þið veik.
Ég trúi því að Jónína ráðherra nafna mín taki þessi mál föstum tökum eins og henni einni er lagið og komi skýrum skilaboðum út til almennings. Við verðum að forgangsraða þannig að við Ísland "veikist ekki". Eins og veðrið er í dag t.d. skiptir það mestu að Ísland sé í gjörgæslu hvað það varðar.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 14:55
Sammála og bíð spennt yfir að sjá hvaða útspil hún kemur með. Ég er sannfærð um að hún lætur ekki þagga niður í sér í þessu máli. Hún hefur þegar sýnt að hún hefur bein í nefinu þegar hún benti á að ályktunin um botnvörpuveiðarnar hjá SÞ kæmi nú fleiri ráðuneytum við en bara Sjávarútvegsráðuneytinu.
Eygló Þóra Harðardóttir, 5.2.2007 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.