23.2.2011 | 08:06
Þingræði og meirihlutaræði
Á blaðamannafundinum á Bessastöðum fékk forsetinn spurningu um hvort að hann væri ekki að vega að þingræðinu með því að vísa Icesave samningnum í annað sinn til þjóðarinnar. Undir það tók svo Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í utandagskrárumræðu um Icesave í gær í þinginu.
Ég get tekið undir það að forsetinn hefur markað ný spor í sögu forsetaembættisins og íslensku þjóðarinnar með því að vera fyrsti forsetinn sem nýtir sér ákvæði 26.gr. stjórnarskrárinnar.
En ég er ekki sammála því að hann sé með því að vega að þingræðinu.
Í máli hans hefur hann ítrekað lagt áherslu á að líf ríkisstjórnarinnar eigi ekki að vera undir í hvert sinn sem hann ákveður að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðarinnar. Þingræði hefur nefnilega verið þýtt þannig að ríkisstjórn situr með stuðningi meirihluta Alþingis ,og svo lengi sem meirihluti þingmanna styður við ríkisstjórnina situr hún áfram.
Hins vegar getur þessi ákvörðun forsetans breytt því hvernig Alþingi starfar. Stjórnarliðar verða núna að taka virkari þátt í umræðum, í stað þess að láta stjórnarandstöðuna eina um að ræða flókin og erfið mál. Stjórnarliðar þurfa að standa fyrir máli sínu og reyna að sannfæra bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina um að það sem þau eru að gera sé það rétta.
Þannig gæti beiting forsetans á 26. greininni styrkt umræðuhefðina á Alþingi, og leitt til þess að alþingismenn þurfi að færa fram betri rök fyrir sinni afstöðu, hlusta á gagnrök í stað þess að treysta á meirihlutaræðið.
Niðurstaðan gæti þannig orðið sterkara og betra Alþingi, -raunverulegt þingræði í stað meirihlutaræðis til stuðnings ríkisstjórnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Stjórnin getur greinilega ekki farið svona í hlutina, vegna þess að þeyr geta ekki leist erfið og flókin mál, og svo þola gerðir þeirra ekki dagsljósið. Svo hafa þau ekki umboð þjóðarinnar til að leysa Icesave deiluna né troða okkur inn í ESB, og það vita þau þess vegna þora þau ekki að leysa upp þing og boða til kosninga, sem væri auðvitað eina leiðin til að losna við þau!!
ESB og ICESAVE er eitt og sama málið, hjá þessari Ríkisóstjórn!!!
Það er gott að hafa Forseta sem virðir Lýðræðið! Undir svona stjórn!!!
Eyjólfur G Svavarsson, 23.2.2011 kl. 14:24
Ég get ekki séð að hann vegi að lýðræði með gjörðum sínum. Það er frekar að þegar jafnumdeilt mál og þetta komi fram að því sé vísað til þjóðarinnar. Það að hafa vísað þessum lögum til þjóðarinnar er rökrétt miðað við að svipuð lög um sama mál voru send til þjóðarinnar áður.
Má kanski ekki segja þetta en ég held að ríkisstjórn sjálfstæðis og framsóknar hefði staðið betur að þessum málum öllum samann...
Kveðja
Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 23.2.2011 kl. 17:01
Sæl Eygló
Á vísindavef HÍ, sjá hér, er að finna þessa tilvitnun:
Hugmyndir hafa komið fram um að nefna þingræðisregluna skýrum orðum í stjórnarskránni, m.a. í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983 en í núverandi stjórnarskrá leikur vafi á því hvort orðalagið "þingbundin stjórn" feli þingræðisregluna í sér. [?] Ólafur Jóhannesson bendir réttilega á að orðalagið "þingbundin" lögfesti ekki þingræðisregluna á Íslandi. Þá vaknar engu að síður sú spurning hvaða stjórnskipunarreglu höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlað sér að innleiða með þessu ákvæði. Hvergi í umræðum á Alþingi er að finna viðhlítandi skýringu á þessu orðalagi að öðru leyti en því að í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að þessi grein geri "enga efnisbreytingu á þeirri skipan, sem nú er, svo langt sem hún nær." (Alþ. tíð. A, 1919: 104.)
Það að halda því fram að hér eigi og hafi átt að vera þingræði getur ekki verið rétt. Með því að lesa stjórnarskrána þá er ljóst að hér á að vera forsetaræði að franskri fyrirmynd.
Vegna þess að hér er ekki stjórnlagadómstóll sem hefur staðið vörðu um stjórnarskrána og ákvæði hennar þá hafa þingmenn og ráðherrar getað túlkað stjórnarskrána eins og þeim hefur hentað hverju sinni.
Engin getur stöðvað brot á stjórnarskránni nema meirihluti Alþingis og kært slík brot til Landsdóms. Þegar meirihluti Alþingis stendur fyrir slíkum brotum þá er ekkert hægt að gera þegar engin er stjórnarskrárdómstóllinn. Þess vegna kemst þingið upp með að túlka stjórnarskrána eins og því einu sinni dettur í hug.
Þess vegna vill þingið að hér sé "þingræði" því þannig hefur þingið náð framkvæmdavaldinu úr höndum forsetaembættisins. Þingmönnum hefur aldrei nægt að sýsla bara við lagasetningu. það vill stýra og stjórna í gegnum framkvæmdavaldið. Þannig hefur Alþingi náð að ræna forsetaembættið völdum sínum, miðað við það sem stendur í stjórnarskránni.
Þess vegna eru með með þetta einkennilega kerfi sem engin veit í raun hvernig virkar.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.2.2011 kl. 22:17
Þetta er rétt hjá Friðrik Hansen Guðmundssyni, svo langt sem það nær. Vandinn er að það var ekki við forsetann sem þingið var að kljást heldur konung sem neitaði að skipa ríkisstjórnir í samræmi við vilja kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Það var heldur ekki á Íslandi sem strögglið fór fram heldur í Danmörku.
Þingræðisregluna fengum við frá Dönum, stjórnarskrána (sem getur rúmað konungsstjórn/forsetastjórn án þingræðislegrar ríkisstjórnar) fengum við líka í tannfé fullveldisins. Þessu átti að breyta eftir lýðveldisstofnunina en hefur dregist, eins og menn vita.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.