2.2.2007 | 12:15
Bankarnir græða víst á okkur!
Undur og stórmerki gerast enn. Af einhverri ástæðu komst Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, í Spegilinn til að benda á að ég ásamt öðrum sem teljast til almennings á Íslandi á stóran þátt í hagnaði íslensku bankanna.
Áróðursmaskína bankana hefur heldur betur klikkað hér. Viðbragðsferli þeirra við ofurhagnaðartölunum hefur verið að yfirmenn bankanna og litli jakkafatagaurinn hjá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja hafa trítlað fram í fjölmiðlum og útskýrt fyrir okkur, sauðsvörtum almúganum að í raun hefði þetta ekkert með okkur að gera. Þess vegna væri ekkert svigrúm til að lækka vexti, þjónustugjöld eða styðja við bakið á okkur í baráttunni um að fella niður stimpilgjaldið.
Og svo er málið ekki rætt frekar.
Áróðursmaskínan hefur staðið sig svo vel að ég var farin að hafa áhyggjur að bankarnir væru bara ekki að græða nóg á okkur. Að þeir væru hreinlega að gera okkur greiða með því að vera hérna og styðja við bakið á okkur vesalingunum, í staðinn fyrir að flytja bara til útlanda þar sem þeir væru virkilega að græða alvöru pening.
Samkvæmt Ólafi Darra eru verðbólgutekjur bankanna af verðtryggðu lánum almennings að skila 36 milljörðum og vextir af yfirdráttarlánum almennings skiluðu 15 milljörðum á síðasta ári. Síðan eru víst einhver þjónustugjöld sem við erum að borga o.fl.
Líður okkur ekki öllum miklu betur núna?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Facebook
Athugasemdir
Það er heimska hjá almenningi að taka yfirdráttarlán og það tíðkast yfirleitt ekki erlendis. Yfirdrátturinn er hér yfirleitt notaður til að fjármagna óþarfa neyslu, fína bíla, utanlandsferðir og tískufatnað. Og hvaða vit er í því að taka 90% lán til húsnæðiskaupa og greiða það upp á 40 árum?! Íslendingar kunna yfirleitt ekki að fara með peninga og eru búnir að eyða kaupinu sínu í tóma steypu áður en þeir fá útborgað. Kaupa allt með kreditkortum og borga margir hverjir 200 þúsund á ári, mánaðarlaun, fyrir yfirdráttinn. Þetta er bara heimska og ekkert annað.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 13:03
Bíddu bíddu bíddu Eiríkur! Hvernig ætlar þú að koma þaki yfir höfuðið á þér ef þú ert að stofna fjölskyldu og átt engan höfuðstól eins og flestir sem eru að fóta sig í lífinu?
Ég veit nú ekki betur en að maður þurfi að greiða 1,5% í stimpilgjald bara fyrir að taka lánið eða sem samsvarar 150þús fyrir hverjar 10mill. Þessi viðbjóðisskattur þarf að staðgreiða hjá sýsla. slíkur skattur verður oftast til þess að fólk neyðist til að brúa bilið með skammtímaláni og yfirdráttur er fljótlegur kostur en dýr. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá eru lánin verðtryggð og höfuðstóllinn hækkar í verðbólgunni, skemmtilegt að borga af slíkum lánum eða þannig!
Önnur gjöld við íbúðakaup/sölu sem má nefna og standast varla mannúðarsjónarmið eru uppgreiðslugjöld. Hveru fáránlegt sem það hljómar en þá er manni refsað fyrir að greiða upp skuldina. Guðjón Rúnarsson yfirlygari bankasamtakanna sagði í hádegisviðtalinu að þetta væri mjög eðlilegt gjald og sett á til að hagnaður bankanna myndi ekki skerðast, sumsé enn ein baktryggingin. Belti, axlarbönd og girt oní brækur til að halda buxunum uppi!
Ekki gleyma því líka að við höfum ekkert val, mér væri sléttsama ef einn eða tveir bankar myndu haga sér svona en þeir gera það allir og þ.a.l. ríkir hér á landi fákeppni og í mínum huga samráð án vafa.
Einn þjónustufulltrúinn sagði við mig þegar ég var að kanna viðskiptakjörin á milli bankanna að bestu kúnnarnir væru þeir sem skulduðu mikið í yfirdrætti, hreinskilið og skemmtilegt...
Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 12:27
Ég byrja á því að leggja fyrir, í staðinn fyrir að kaupa bíl 17 ára gamall án þess að eiga krónu, og borga hann upp á 7 árum, eins og margir gera, Svavar. Legg fyrir milljón á ári í tíu ár og fæ svo vexti og vexti líka af þeim. Da da da!
Eiríkur Kjögx, ríkasti fátæklingurinn (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.