Samvinna um skuldavanda og atvinnu

Mótmælin á Austurvelli sýna mikla örvæntingu, reiði og hræðslu við framtíðina. Vandinn er gífurlegur. Við stöndum frammi fyrir gjaldþrota bankakerfi, gjaldþrota fyrirtækjum, gjaldþrota einstaklingum og nánast gjaldþrota ríkissjóði. Enginn, ég endurtek, enginn stjórnmálamaður leikur sér að því að leggja til 30-40 milljarða króna niðurskurð á velferðarkerfinu.

Enginn stjórnmálamaður vill sjá nokkra fjölskyldu missa heimili sitt á uppboði. Enginn stjórnmálamaður vill sjá íslenskt atvinnulíf í þeim lamasessi sem það er í dag.

Þetta er þó sá ömurlegi veruleiki sem við höfum staðið frammi fyrir síðan í október 2008.

Síðustu daga hafa fjölmargir tölvupóstar borist til þingmanna. Margir lýsa yfir vantrú sinni á að þingmenn geti yfir höfuð starfað saman. Stjórnvöld standa í einu horninu, stjórnarandstaðan í öðru, hagsmunasamtök atvinnurekenda og launþega í því þriðja og lífeyrissjóðirnir í því fjórða, allir með boxhanskana á lofti. Í miðjunni stendur svo almenningur og á honum dynja höggin úr öllum áttum.

Því hafa mjög blendnar tilfinningar bærst í mínu brjósti. Ein af spurningunum sem ég hef spurt mig er hvernig stjórnmálamenn Íslendingar vilja. Viljum við stjórnmálamenn sem segja það hreint út að engin kanína sé í hattinum og að engar töfralausnir séu til? Eða viljum við stjórnmálamenn sem segja okkur það sem við viljum heyra?

Það er sannfæring mín að það séu til lausnir en þær eru ekki einfaldar. Almenn skuldaleiðrétting er ekki einföld, en hún er framkvæmanleg. Réttlátur niðurskurður í velferðarkerfinu er ekki einfaldur en hann er framkvæmanlegur. Endurreisn atvinnulífsins er ekki einföld en hún er framkvæmanleg. Sanngjörn skipting byrðanna er ekki einföld en hún er framkvæmanleg.

Í ályktun þingmannanefndarinnar voru þingmenn hvattir til að sýna heiðarleika, hugrekki og festu í störfum sínum. Það viljum við Framsóknarmenn gera. Við viljum að tekið verði á skuldavanda heimila og fyrirtækja af festu. Dreifa verður byrðunum og allir verða að axla ábyrgð á vandanum af hugrekki. Ekki bara skuldarar, ekki bara lífeyrisþegar, ekki bara atvinnurekendur og ekki bara launþegar. Heldur við öll.

Skilaboð okkar Framsóknarmanna eru því skýr. Við viljum samvinnu um almennar aðgerðir í þágu heimilanna og endurreisn atvinnulífsins. Við erum reiðubúin til samvinnu við hvern þann sem vill takast á við það mikla verkefni með okkur.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 7. október 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Er það virkilega ætlun framsóknarflokksins að blása lífi í þetta hræ sem hann hefur á samvisku sinni?

Kjartan Sigurgeirsson, 8.10.2010 kl. 16:31

2 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Aðalatriðið í okkar huga eru málefnin, ekki stjórnarmynstur.

Eygló Þóra Harðardóttir, 8.10.2010 kl. 20:30

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

      Eygló, þið þurfið að standa undir þessu stöðuga áreiti v/fyrri leiðtoga ykkar,en ég vil segja þið hafið staðið  ykkur vel gegn Icesave og Esb,óværunni. Látið ekki undan hvað sem er í boði, vinnið Íslandi allt, sameinumst í einu liði,með eitt takmark, SJÁLFSTÆÐI Íslands.

Helga Kristjánsdóttir, 9.10.2010 kl. 04:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband