Bíð enn eftir SÍ og FME...

Þann 13. júlí síðastliðinn var haldinn sameiginlegur fundur efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar um forsendur tilmæla Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. 

Á fundinum lögðum við Birkir Jón Jónsson fram skriflegar spurningar og óskuðum eftir að FME, SÍ og efnahags- og viðskiptaráðuneytið svöruðum þeim eftir bestu getu.

Í dag þann 27. júlí hefur aðeins efnahags- og viðskiptaráðuneytið haft fyrir að svara spurningum okkar, en þó að mjög takmörkuðu leyti.  SÍ hefur þó svarað fyrirspurn umboðsmanns Alþingis, en hér má finna svarbréf bankans.

Hér má finna þær spurningar sem við lögðum fyrir þessar stofnanir:

Tilmælin
1. Á hvaða lögfræðilega mati byggjast tilmæli Seðlabankans og FME?  (Minnisblað eða annar rökstuðningur fyrir lögmæti þeirra, t.d. frá lögfræðisviði bankans eða utanaðkomandi lögfræðilegu mati og/eða útreikningar).

2. Er hætta á mögulegri skaðabótaábyrgð ríksins vegna tilmæla FME og SÍ?

3. Hver er skoðun FME, SÍ og ráðuneytisins á tilmælum talsmanns neytenda og tilmælum HH?

4. Hyggjast ráðuneytið og stofnanir bregðast á einhvern hátt við tilmælum talsmanns neytenda?

Ábyrgð
5. Voru gerðir útreikningar um mögulega niðurstöðu dómsins og áhrif á fjármálastöðugleika fyrir dóminn? Miðað við eftirfarandi forsendur: Lögleg, samningsvextir, óverðtryggðir vextir Seðlabankans, verðtrygging plús samningsvextir, bílalán, húsnæðislán og fyrirtækjalán.

6. Er til lögfræðiálit sem Seðlabankinn og FME létu gera fyrir dóminn um væntanlegt lögmæti gengistryggðra lána? (Fá lögfræðiálit).

7. Hver ber ábyrgð á því að samþykkja uppgjör milli gömlu og nýju bankanna án þess að gera ráð fyrir því að það væri vafi á lögmæti gengistryggðra lána? Hver ber ábyrgð innan FME, hver ber ábyrgð innan SÍ, hver ber ábyrgð innan efnahags- og viðskiptaráðuneytis?

8. Á hvern máta hafa viðkomandi axlað ábyrgð eða hyggjast axla ábyrgð á mögulegu 100 milljarða króna tapi ríkissjóðs, skv. yfirlýsingum efnahags- og viðskiptaráðherra?

9. Hverjar eru líkurnar á mögulegum skaðabótakröfum frá kröfuhöfum vegna uppgjörsins á milli gömlu og nýju bankanna, þar sem ekki var tekið tillit til þess við uppgjörið að vafi leiki á lögmæti gengistryggðu lánanna?


Icesave

10. Hver verða áhrif dómsins á Icesave?

11. Er búið að reikna áhrif dómsins á heimtur úr gamla Landsbankanum vegna Icesave út frá þeim forsendum að öll bílalán, húsnæðislán og fyrirtækjalán verði gerð upp miðað við samningsvexti, vexti Seðlabankans?

Það má kannski vona að þeir finni tíma til að svara þingmönnum þegar búið er að svara umboðsmanni Alþingis...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband