Kjarklaus dómari

Héraðsdómur Reykjavíkur bognaði undan þrýstingi frá stjórnvöldum og dæmdi óverðtryggða seðlabankavexti á gengistryggð lán.  Síðasta tilraun stjórnvalda, FME, SÍ, skilanefndum bankanna og annarra fulltrúa fjármálakerfisins til að hafa áhrif á dóminn var birt orðrétt í fréttum RÚV í gær "Allt riðar vegna bílalánsdóms á morgun".

Dómarinn ákvað að víkja til hliðar neytendasjónarmiðum og stöðu aðila við samningsgerðina og leggur megináherslu á að aðilar máls hafi báðir gert sér grein fyrir að gengistryggingin væri verðtrygging.  Vextir miðuðust svo við þessa verðtryggingu.  Því sé ástæða til að víkja til hliðar vöxtum samningsins,- en til að henda smá dúsu til aumingja lántakandans þá ákveður hún að setja á óverðtryggða vexti SÍ í stað verðtryggingar, sem hún taldi þó báða aðila hafa sæst á.

Engin umræða er svo um hvort lántakandinn hefði yfir höfuð tekið lánið, verðtryggt eða óverðtryggt, vitandi það sem hann veit núna að þetta eru víst "verðtryggð" krónulán með óverðtryggða vexti...

Varðhundar kerfisins höfðu betur og dómarinn stóðst ekki þrýstinginn.

Til hamingju gamla Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Hjartanlega sammála þér. Endalaus þrýstingur frá kerfinu. Og síðan makalaus fréttaflutningur Kristins Hrafnsonar.

Sigurður Sigurðsson, 23.7.2010 kl. 13:38

2 identicon

Til hamingju framsóknarmenn - varðhundar gamla spillta kerfisins.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 14:05

3 Smámynd: Smjerjarmur

Þeir sem tóku lán í erlendri mynt meðan krónan var allt of hátt skráð tóku mikla áhættu sem þeir hefðu ekki tekið hefðu þeir vitað sínu viti.  Sama fólk hefði hugsanlega tekið mjög upplýsta ákvörðun um að taka ekki verðtryggð lán, en hversu líklegt er það í reynd?  

Smjerjarmur, 23.7.2010 kl. 14:21

4 identicon

Ósammála Framsókn = Kjarklaus.  Þessi ummæli þin eru þér til minnkunar.  Þú sem þingmaður ættir ekki að tjá þig svona um dómskerfið okkar. 

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 14:36

5 identicon

Árinni kennir illur ræðari, Eygló! Arnfríður er allt annað en kjarklaus, ég þekki hana persónulega sem vel siðvæddri, heilbrigðri og heiðarlegri kjarnakonu sem hefur verið treyst á ýmsum vettvangi. Það eru hinsvegar alþingismenn (já líka þú!) sem bera ábyrgð á því lagaumhverfi sem hefur framlengt bráðabirgðaráðstöfun (=verðtryggð lán) og leyft ólöglega viðskiptahætti (=gengistengd lán) hér um langan tíma.

Skammastu þín fyrir þessi skrif Eygló Þóra og gerðu eitthvað í málinu á Alþingi, strax!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 14:57

6 identicon

Skammat þú þín Carlos!

Það erað minnsta kosti umdeilanlegt að dómarinn dæmi eftir lagaumhverfunu. Því miður.

Carlos.

Hefðir þú tekið lán ef skilmálarnir hefðu verið 21% vextir?
Ég held ekki. Ekki frekar en konan sem nú hefur verið dæmd til að greiða 21% vexti. Hvar er lagabókstafurinn fyrir því?

Hallur Magnússon (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 15:08

7 identicon

Teitur.  Síðan hvenær var héraðsdómur hafinn yfir gagnrýni?

Hvert einasta orð Eyglóar stendur.

Nú reynir reyndar fyrst á dómskerfið - hæstiréttur mun væntanlega standa í lappirnar.

Ummæli þín sýna fyrst og fremst eðlislæga andúð þína á Framsóknarflokknum.

Rök?

Nei - þarf ekki þegar Framsókanrmenn eiga í hlut. Það má hrauna yfir þá - þess vegan með haugalygi - ef þig langar.

Hallur Magnússon (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 15:13

8 identicon

Fyrir hvað? Ég er ekki þingmaður (1. valdið), ekki dómari (2. valdið) og ekki sýslumaður (3. valdið), heldur óbreyttur lítill bloggari (4. valdið) sem hefur nánast engin áhrif.

Þingmaðurinn veit, að hann hefur ekkert með það að gera að stjórna dómaranum beint. Hann veit líka að ef dómarinn lætur þingmanninn hafa áhrif á sig (eða utanaðkomandi annan) þá er sá sami dómari brottrekstrarhæfur.

Nú set ég þér afarkosti, Hallur og þér, Eygló!

Sannið að Arnfríður fór ekki að lögum í dómi sínum.

Eða biðjist afsökunar og dragið orð ykkar til baka!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 15:17

9 identicon

Varðandi 21% vextina ... þið framsóknarfólk hefðuð átt að hugsa ykkur betur um áður en þið leyfðuð einkavæðingu bankanna, kvótans og allt þetta RUGL sem þið stóðuð fyrir undanfarin 30 ár eða svo, verandi í stjórn og allt!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 15:19

10 identicon

Það er sérkennilegt við þennan dóm að rökin sem dómarinn notar fyrir því að samþykkja kröfur Lýsingar eru að lántakandi og lánveitandi hafi báðir vitað að verið væri að verðtryggja lánið. Samkvæmt þeim rökum hefði dómarinn eðlilega átt að setja á verðtryggða vexti SÍ. Hún gerir það ekki og víkur þar með frá þeirri verðtryggingu sem hún taldi að samningsaðilar hefðu sæst á.

Ef tekið er mið af þeim rökum sem dómarinn færir fyrir úrskurði sínum hefði hún haft tvo valkosti, að mínu mati: Láta samningsvexti standa, eða setja á verðtryggða vexti Seðlabankans. Hvorugt þorði hún að gera og lýsir það kjarkleysi að mínu mati.

Hvað varðar athugasemdir Carlosar um að reyna að hafa áhrif á dómara: Hvað telur hann Seðlabankann, FME og ráðherra ríkisstjórnarinnar hafa verið að gera síðustu vikur, nú síðast með yfirmáta einhliða frétt á RÚV í gærkvöldi?

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 15:36

11 Smámynd: Halla Rut

Hvernig væri að spyrja Dómarann í þessu máli hver besti vinur eiginmanns hennar er.

Þegar þú kemst að því þá kemur þessi dómur ekki á óvart.

Halla Rut , 23.7.2010 kl. 15:39

13 identicon

Ég er sammála Carlosi. Hins vegar þekki ég dómarann ekki neitt og get ekki tjáð mig um hana persónulega. Mér þykir hins vegar yfirleitt skynsamlegra að ræða málefnalega en hjóla í (kven)manninn.

Það er til þess fallið að grafa undan réttarkerfinu og virðingu manna fyrir dómsstólum þegar alþingismenn, ráðherrar eða lögfræðingar brigsla dómurum um að annað hafi ráðið úrskurði þeirra en lögin í landinu. Þetta gerir bæði lögfræðingur stefnda í hádegisfréttum er hann brigslar dómaranum að ganga erinda fjármálafyrirtækja og alþingismaðurinn Eygló sem brigslar dómaranum um hugleysi. Ég lít svo á að bæði lögfræðingurinn og alþingismaðurinn séu að vinna hermdarverk gegn réttarríkinu og það beri að víta þá fyrir vikið.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 15:59

14 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæl og takk fyrir athugasemdirnar. 

Það verður víst seint sem ég mun hætta að fá athugasemdir sem byggja fyrst og fremst á skoðunum fólks á Framsóknarflokknum og þeim verkum sem hann hefur staðið að síðustu 94 árin. 

Alveg eins og ég get ekki þakkað mér öll þau góð verk sem flokkurinn hefur staðið að,  ætla ég ekki að axla ábyrgð á þeim mistökum sem hann hefur gert.

Það verða aðrir að gera.

Dómskerfið hefur verið undir gífurlegum áróðri og þrýstingi frá stjórnvöldum, embættismannakerfinu og fjármálakerfinu.  Það höfum við séð í þeim yfirlýsingum og stórkarlalegum tölum sem fólk hefur verið að kasta fram án þess að útreikningar hafi verið lagðir fram.  Ég er enn þá að bíða eftir skriflegum svörum frá FME og SÍ um þeirra lagalega rökstuðning og útreikninga sem þeir byggðu sínar yfirlýsingar á, sem ég lagði fram á sameiginlegum fundi efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar ásamt Birki Jóni Jónssyni.

Ég tel  að dómarinn hafði í raun aðeins tvo valkosti, að láta samningsvextina standa eða setja á verðtryggða vexti miðað við þann rökstuðning sem hún setur fram.  Hún gerði hvorugt, heldur ákvað að reyna að "sætta" menn og setja á óverðtryggða vexti, svona sem smá sárabót gagnvart því að setja samningsvexti til hliðar.

Kjarkleysið felst í því.

Eygló Þóra Harðardóttir, 23.7.2010 kl. 16:09

15 identicon

Það sem þú kallar kjarkleysi, kalla ég raunsæi, Eygló. Í fyrsta lagi getur Arnfríður Einarsdóttir náttúrlega reynt að skrifa lög með dómum sínum (bíddu, er það ekki hlutverk ÞITT sem þingmanns), vitandi að Hæstiréttur muni kollvarpa þeim (það ættirðu líka að vita!). Í annan stað getur hún farið að settum lögum, burtséð frá því hverjir reyna að hafa áhrif á hana. Hæstiréttur mun síðan skera úr um hvort dómur hennar stenst.

Þú segir að stjórnvöld hafi reynt að beita dómstóla þrýstingi. Þú tekur þátt í þeim hráskinnaleik með þessari bloggfærslu og grefur þannig undan gæðum dóma. Það er ekki þér og kollegum þínum á Alþingi að þakka, Eygló, að dómarar á borð við Arnfríði Einardóttir geta ekki unnið verk sín í friði fyrir ómálefnanlegri gagnrýni og vondum stjórnmálum. Þér og kollegum þínum á Alþingi er nær að semja einföld, skýr og umfram allt fagleg lög en að hnýta í einstaka dómara.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 16:32

16 identicon

Það hafa sorglegir atburðir gerst í þessu máli og ég held að þetta sé hönnuð atburðarás af stjórnvöldum ef hæstiréttur lætur þennan dóm standa þá held ég að stór hluti þjóðarinnar muni hætta að fara að lögum og reglum þar sem þessi dómur sýnir svo ekki sé um villst að réttlætið á Íslandi er ekki fyrir alla.

Enn hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þegar 40.000 manns með bílalán og kannski annað eins af fólki með gengistryggð húsnæðislán hætta að borga?

Það sem er sorglegast við þennan dóm er samt að greiðsluvilji sem var til staðar gufar nú upp á hraða ljósins rétt eins og traustið á Íslenskt fjármálalíf gufaði upp þegar Glitnir var yfirtekinn af miklum dómgreindarleysi.

Jens Jónsson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 16:36

17 identicon

"Alveg eins og ég get ekki þakkað mér öll þau góð verk sem flokkurinn hefur staðið að,  ætla ég ekki að axla ábyrgð á þeim mistökum sem hann hefur gert.

Það verða aðrir að gera"(!)

Eygló Þóra Harðardóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og sanntrúuð í sinni fjórflokksspillingu. Í dag lætur hún gamminn geysa og þyrlar upp populisku moldviðri í sönnum hausaveiðastíl - allt fyrir atkvæðið.
 
Hitt er svo annað mál að EÞH gerir sér ef til vill grein fyrir því að ef hún og aðrir núverandi þingmenn framsóknarflokksins ættu að axla ábyrgð á landráðum framsóknarflokksins í stjórnartíð hans og FLokksins þá sæti hún ekki á þingi.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 16:45

18 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Er við hæfi að Alþingismaður tali svona um dómara. Minni á að dómarinn dæmir eftir lögum sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur koma að.

Magnús Helgi Björgvinsson, 23.7.2010 kl. 16:47

19 identicon

Get ekki orða bundist um þessa bloggfærslu þína Eygló. Mér finnst það ansi bratt af alþingismanni að vega að dómskerfinu með þeim hætti sem þú gerir í bloggfærslunni. Svo bætirðu enn frekar í þegar þú segir: „Dómskerfið hefur verið undir gífurlegum áróðri og þrýstingi frá stjórnvöldum, embættismannakerfinu og fjármálakerfinu.“ Hvað áttu við? Ertu að gefa í skyn að dómarar dæmi ekki skv. skilningi sínum og túlkun á lögunum sem þið alþingismenn setjið en láti þess í stað framkvæmdavaldið segja sér fyrir verkum um það hvaða niðurstöðu þeir iegi að komast að? Finnst þér það í lagi að alþingismaður fjalli á þennan hátt um dómskerfið og einstaka dómara?

Anna Ólafs (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 17:08

20 identicon

Athyglisvert er að ef blessuð krónan hefði nú verið stöðug gagnvart þessum gjaldniðlum, þá hefðu fjármálafyrirtækin gert sig ánægð með 4.34% fasta vesti af þessu láni, en þar sem algjör

forsendubrestur verður við hrun fjármálakerfisins, og forsendubresturinn er algjör,þá skulu þessir vextir verða ca. 18%.

lægstu vestir Seðlabankans á tímabilinu.

Siggi T (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 17:24

21 identicon

Ég er þess fullviss að þessi dómur er eftir pöntun framkvæmdavaldsins og reyndar alveg samhljóma því sem þeir töldu sig geta náð að kreista út úr almenningi.

það er alveg hlálegt að þessi atburðarás skuli koma frá Norrænu Velferðarstjórninni sem hefur slegið skjaldborg um heimilin í landinu.

Jens Jónsson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 17:33

22 Smámynd: Smjerjarmur

Halla Rut, ömurleg smjörklípa hjá þér og vekur spurningar, þó ekki um Arnfríði sem á sér flekklausan feril sem afburða embættismaður. 

Smjerjarmur, 23.7.2010 kl. 17:40

23 identicon

Gott að sjá að fleiri en ég átta sig á því að Arnfríður hefur flekklausan feril sem dómari og embættismaður. Jens talar um pantaðan dóm, hinsvegar kunna fleiri lög en dómarar (t.d. embættismenn í ráðuneytum) og kannski er eitthvað hæft í þeirri staðhæfingu, að leiðsögn stjórnar til banka um hvernig taka eigi á Hæstaréttadómnum hafi verið sniðinn með hliðsjón af gildandi lögum.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 18:05

24 identicon

Ég held að það geti vel verið að báðir samningsaðilar hafi litið á gengistrygginguna sem tryggingu gagnvart erlendum myntum. Sú verðtrygging gat hins vegar sveiflast í báðar áttir, líka til hagsbóta fyrir lántakendann. Hins vegar tóku svo lánastofnanir stöðu gegn krónunni og þar með gegn viðskiptavinum sínum.

    Það skiptir samt engu máli hvað samningsaðilar voru að hugsa, sé hluti samnings dæmdur ólögmætur stendur restin óhögguð.

Baldur Örlygsson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 19:07

25 identicon

Stúdentspróf FB 1992. Fil.kand.-próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla 2000. Framhaldsnám í viðskiptafræði HÍ síðan 2007.

--

Lærðiru svona mikið í lögfræði í listasögunni að þú getir, sem hluti löggjafarvalds, lagt svona afdrífaríkan skoðun yfir þessum dóm? Get verið að þér skorti menntun til að skilja forsendur dómsins?

hs (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 19:24

26 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Mér finnst hins að héraðsdómi hefði verið í lófa lagið að setja dómara í málið þar sem enginn vafi hefði á leikið varðandi hæfi. Það var ekki gert og nú er stór hluti þjóðarinnar í uppnámi. Engu skiptir þótt viðkomandi dómari sé frábær dómari og embættismaður.

Teitur af hverju má fulltrúi löggjafarvaldsins ekki tjá sig um niðurstöðu dómsvaldsins í jafn umdeildu máli og hér um ræðir. Hafa alþingismenn ekki tjáningarrétt? Ég ætla rétt að vona að þrígreining ríkisvaldsins sé þrígreining í raun?

Guðmundur St Ragnarsson, 23.7.2010 kl. 19:48

27 Smámynd: Skríll Lýðsson

Carlos, það eru ekki til flekklausir einstaklingar í þessu umhverfi einungis einstaklingar sem tekst misvel að fela sína fortíð, síðan skaltu átta þig á því að dómara BER að dæma eftir LÖGUM en þessi dómari hefur ákveðið að líta framhjá neytendaverndarlögum einhverra hluta vegna.

Skríll Lýðsson, 23.7.2010 kl. 19:51

28 identicon

Algengir vextir af fasteignaláni í Danmörku eru ca. 1.9% engin

verðtrygging,en á Íslandi vill héraðsdómur að íslendingurinn borgi 10 sinnum hærri vexti eða ca. 18-19%vexti,sökum þess að fjármálafyrirtækin tóku stöðu gegn krónunni og feldu hana niður fyrir allt sem talið er vera eðlilegt. Maður spyr sig stundum hvort maður sé staddur á fávitahæli, og ég er farinn að hallast að því að svo sé.

Helstu lögspekingar landsins hafa lýst því yfir opinberlega að

þeirra skoðun sé sú að samningsvextirnir 4-5% skulu standa,

og treysti ég þeim betur en héraðsdómaranum.

Siggi T (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 20:10

29 identicon

Þetta er einmitt mjög kjarkaður dómari því hann hefur eflaust gert sér grein fyrir að lýðskrumarar þessa lands myndu hrökkva af hjörunum í þeim tilgangi að espa upp ráðvillta alþýðu landssins og krækja sér í auðfengnar vinsældir í leiðinni með órökstuddum dylgjum og kjaftæði eins og sjá má í þessari bloggfærslu. Þingmaðurinn dylgjar hér um óheiðarleika og lögbrot dómarans og leyfir sér svo að bera það á borð að lántakendur hafi ekki vitað að gengistrygging væri eitt form verðtryggingar. Þetta er kjaftæði sem er ekki þingmanni, sem vill láta taka sig alvarlega, sæmandi.

Gísli (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 20:26

30 identicon

ÞÖGUL MÓTMÆLI ALLRA STÉTTA ÍSLENSKA LÍKVELDISINS ER SAMA SEM OG, EKKERT LÝÐRÆÐI.

Kristján Loftur Bjarnason (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 20:59

31 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Stærsta málið við þennan dóm er ekki að niðurstaðan var óverðtryggðir vextir Seðlabankans.  Nei, stærsta málið er að dómarinn telur að lánveitandi hafi liðið forsendubrest þegar Hæstiréttur úrskurðaði að lánveitandinn hafi brotið lög með því að gengistryggja lánin.  Já, lánveitandinn leið fyrir forsendubrest!!!  Lánveitandinn braut lög og dómarinn ákveður að bæta lögbrjótnum fyrir lögbrotið. 

Segjum að ég sé kjötsali, sem hefur í mörg ár selt kýrkjöt sem hágæða nautakjöt og haft góðar tekjur af því.  Svo einn daginn kemst einn viðskiptavinur að því að þetta var eftir allt kýrkjöt og stefnir mér.  Ef dómurinn í dag væri yfirfærður, þá myndi ég ekki þurfa að endurgreiða kúnnanum mismuninn á verði nautakjöts og kýrkjöts, vegna þess að ég hafði reiknað með því að fá tekjur eins og um nautakjöt hafi verið að ræða.

Ég tel mjög mikilvægt að fá álit ESA eða EFTA dómstólsins um áhrif neytendaverndartilskipunar ESB á vexti lána sem áður voru gengistryggð.  Ég eiginlega furða mig á því, að álits hafi ekki verið leitað.  En núna er augljóslega komið forsenda sérstaklega með vísan til þeirra orða Arnfríðar um "villu þeirra beggja".  Hvað á dómarinn við með þessum orðum?  Hver var villa lántakans?  Hann tók neytendalán á markaði og mátti treysta því að það væri lögleg afurð.  Lánveitandinn átti aftur að vita að óheimilt er samkvæmt lögum að nota gengistryggingu sem verðtryggingu.

Marinó G. Njálsson, 23.7.2010 kl. 21:20

32 identicon

Þarna missti ég allt álit á þér Eygló.  Reikna nú með að halda áfram að kjósa Framsókn, en þitt nafn verður hér eftir alltaf strikað út, aumkunarverður lýðskrumari.  

GÞF (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 21:25

33 identicon

E.t.v. rétt hjá mörgum sem benda á að lántakandinn hefði ekki tekið lán miðað við þessa skilmála. Að öllum líkindum hefði lántakandinn tekið lán í erlendri mynt sem mér skilst að sé löglegt. Lántakendur geta eflaust fengið gengisbundnu lánunum breytt í erlenda mynt.

SE (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 21:44

34 identicon

Marinó
Þetta dæmi þitt er ágætt - en þú klúðrar niðurstöðunni.  Lánveitendur töldu sig selja erlend lán (nautakjöt) en skv dómsorði voru þetta íslensk lán (kýrkjöt).  Munurinn á þessu tvennu er í raun það sem Lýsing fer fram á, verðið á kýrkjötinu er verðskrá Lýsingar á íslenskum lánum.  Dómurinn gengur lengra en að láta Lýsingu endurgreiða muninn á verðinu á nautakjöti og kýrkjöti, hann lætur Lýsingu endurgreiða miðað við kostnaðarverð bóndans sem seldi sláturhúsinu dýrið sem svo seldi Lýsingu kjötið.  Álagning milliliða og söluaðila á kýrkjöti er hafnað og hann látin endurgreiða muninn á kostnaðarverði sláturhússins og því sem viðskiptavinurinn borgaði.  Reibor vextir er hrátt kostnaðarverð á íslensku krónunni sem engum lögaðila hefur staðið til boða áður.

GÞF (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 21:44

35 identicon

Lánveitandinn leið klárlega forsendubrest þar sem verðtryggingin sem fólst í tenginu við gengið var dæmd ólögleg. Þar með var meginforsenda á kjörum lánsins brostin. Undir þennan samning, með þessu ólöglega ákvæði, skrifuðu bæði lántakendur og lánveitandi. Lántakendur voru ekki bara illa upplýstir einstaklingar og fyrirtæki. Einnig stórfyrirtæki og löglærðir menn.

Bilið á milli ólöglegs láns og löglegs láns er ekki svo stórt, enda hefur héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að einu af fyrsta málinu sem höfðað var, að tengingin var lögleg. Þá fór ekki mikið fyrir gagnrýni ýmissra aðila á gengistengingu þessara lána fyrir 2008.

Vafalaust hafa lánin þróast út í gengistenginu af hreinum praktískum ástæðum. Í upphafi stóðu menn í því að lána beint gjaldeyri inn á gjaldeyrisreikning sem þurfti síðan að skipta í ísl.krónur. Ákvæði samninga hljóðuðu upp á erlent lán í erlendum gjaldmiðli og skyldi endurgreitt á sama hátt. Síðan fjölgaði þessum samningum gríðarlega og til einföldunar voru ákvæði samningsins látin vísa í ísl. krónur og  borgaðar beint til lántaka. Tengingin var sett við gjaldmiðil. Þetta er í raun bara blæbrigðamunur sem hefur ekki þýðingu nema ef viðkomandi lánastofnun er að lána gjaldeyri sem hún hefur ekki undir höndum t.d. erlend lán til endurláns. Það var hins vegar ekki málið. Bankarnir höfðu meiri erlend lán til að endurlána en þeir komust yfir.

Efnislega má því segja að forsendur samninganna voru því réttar. Undir þetta skrifuðu eins og áður sagði bæði lánveitendur og lántakar.

Annað mál væri ef bankarnir væru raunverulega að lána ísl.krónur en tengdar erlendum gjaldmiðli. Það var ekki raunin.

Á þessu er í raun skýr greinarmunur sem þeir sem hneykslast mest þessa dagana mega hafa í huga.

Það að segja að dómarinn sé kjarklaus og hafi bognað undir þrýstingi segir meira en margt annað um hve innihaldslaus gagnrýni Eyglóar er. Það má alveg eins segja að dómarar sem segja samningana ógilda séu að bogna undan þrýstingi almennings. Það er bara della.

Þessi ummæli Eyglóar eru því henni til skammar. Þingmenn eiga ekki að ganga fram og draga úr tiltrú fólks á dómstólum. Hver sem niðurstaðan er.

Kristján (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 21:50

36 identicon

Smá efnisvilla hér: 

Tengingin var sett við gjaldmiðil. Þetta er í raun bara blæbrigðamunur sem hefur ekki þýðingu nema ef viðkomandi lánastofnun er að lána gjaldeyri sem hún hefur ekki undir höndum t.d. erlend lán til endurláns. Það var hins vegar ekki málið.

Ofaukið er "t.d. erlend lán til endurláns".

Kristján (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 22:11

37 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

GÞF. Ertu svo barnalegur að halda að lánveitandinn og allir hans sérfræðingar geti ekki gert greinarmun á nauti og belju (svo við tökum upp þráðinn með þessa skemmtilegu dæmisögu Marínós)? Lánveitandinn hafði á sínum snærum dýralækna, slátrara, kjötiðnaðarmenn og markaðsmenn. Allir sérfræðingar lánveitandans voru gríðarlega vel launaðir og báru mikla ábyrgð og höfðu meiri þekkingu á kýrkjöti og nautakjöti en kaupandinn sem var blekktur. Auðvitað þekkti lánveitandinn á Bola og Búkollu.

Guðmundur St Ragnarsson, 23.7.2010 kl. 22:14

38 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

muninn á - á þetta vera í síðustu setningunni.

Guðmundur St Ragnarsson, 23.7.2010 kl. 22:15

39 identicon

Sammála Kristján.

Þegar dómar er Eygló þóknanlegir þá eru dómarnir rökréttir og miklir gæðamenn. Þegar þeir eru það ekki, þá er eru þeir rökleysa og dómarinn vanhæfur og jafnvel ýjað að því að hann hafi látið undan þrýstingi yfirvalda og áróðri.

Slíkir sleggjudómar eru ekki alþingismanni sæmandi.

Atli Geir (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 22:17

40 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þetta er einungis "huglægur dómur"!!!  Dómari setur sig í hugarheim lántakanda og skynjar að hann hafi viljað þetta og hitt!!!!  

Þvílík dómsorð!!!

Ég trúi því varla að Hæstiréttur staðfesti huglægar hugsanir dómara í héraði. Ef hann gerir það þá eru lögin orðin marklaus. Þá getum við útilokað að nokkur erlendur fjárestir komi til landsins með sína aura og fjárfesti í neinu verkefni hérna. 

Ég tel dómara Héraðs Reykjavíkur hafa lagt sig niður á lægsta stig  siðmenningar. Siðmenningar sem skópu LÖG landsins og eru skrifuð. 

Ég  vil gjarnan sjá þau lög sem dómari dæmir eftir, þ.e. sanngirnislögin.

Ég hér með, lýsi eftir þeim sérstaklega.

Því ef þau lög finnast,  og það finnast afturvirk ákvæði í þeim, þá tel ég að margir íslendingar geti  hafið málsóknir til að fá "sanngirni" í sína þágu dæmda, til að rétta sinn hlut.

Enn og aftur lýsi ég eftir þeim "sanngirnislögum" sem dómari Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi eftir.!!!

Eggert Guðmundsson, 23.7.2010 kl. 22:25

41 identicon

Sæll Guðmundur
Hvernig var kaupandin blekktur?  Kaupandinn vissi nákvæmlega hvað hann var að kaupa, það bara mátti ekki selja honum það sem hann keypti.  Ansi margir högnuðust á þessu fyrir árið 2008.

GÞF (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 22:26

42 identicon

Ég held að menn ættu aðeins að bakka og fara yfir feril Arnfríðar Einarsdóttur sem dómara og embættismanns áður en þeir gerast sekir um starfsróg.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 22:35

43 identicon

Sorry.. en hún er bullandi vanhæf, og sá sem heldur öðru fram er geggjaður !!! skiptir engu hversu traust og góð hún sé etc etc bla bla bla .... Ef að þetta verður dæmt svona í hæstarétti líka, þá er ljóst að réttarkerfið er fallið og út brýst styrjöld....kanski best að svo fari, er það ekki ???

Óli (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 23:10

44 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristján (21:50), ég hef einmitt haldið því fram að hugsanlega gætu stærri aðilar verið í óhagstæðari stöðu gagnvart ákvörðun um vaxtastig, þar sem þeir hafi haft getu til að ráða lögfræðinga til að fara yfir lánin og kynna sér viðeigandi lög.

Carlos (22:35) tek undir það að ekki er ástæða til að efast um hæfi Arnfríðar, en vangaveltur Eyglóar eiga samt alveg rétt á sér.  Mér finnst t.d. með ólíkindum að hún hlaupi eftir því að Lýsing hafi liðið forsendubrest þegar gengistryggingin var dæmd ólögleg, en lætur sem 135% hækkun jensins hafi bara verið eðlileg áhætta sem lántaki tók.  Bara þetta atriði orkar svo tvíræðis, að mér finnst dómurinn hreinlega ekki marktækur.  Hann er eingöngu aðgöngumiði að Hæstarétti og ekkert annað.

Marinó G. Njálsson, 23.7.2010 kl. 23:17

45 identicon

Kristján skrifar:

Annað mál væri ef bankarnir væru raunverulega að lána ísl.krónur en tengdar erlendum gjaldmiðli. Það var ekki raunin.

Á þessu er í raun skýr greinarmunur sem þeir sem hneykslast mest þessa dagana mega hafa í huga.

Umsögn.

Bankar sem lána íslenzkar krónur þurfa að hafa krónur handbærar annað hvort í mynd innlána viðskiptavina eða andvirðis gjaldeyris sem þeir selja Seðlabanka Íslands.

Bankar sem vilja auka innlend krónulán geta því fjármagnað þau á tvennan hátt - með krónuinnlánum eða með andvirði gjaldeyris sem þeir taka að láni erlendis og selja til Seðlabanka Íslands til þess að auka tiltækan krónuforða sinn.

Eini munurinn á þessum tveimur fjármögnunarleiðum er sú að gengisáhætta tengist öllum erlendum lántökum bankanna.

Gengisbinding krónulána miðar gagngert að því að verja bankann gegn breytingum á gengi krónunnar - að koma gengisáhættunni yfir á innlenda lántakendur.

Lög nr. 38/2001 banna slíka gengisbindingu höfuðstóls krónulána.

Gengisáhætta hefur ekkert með vexti að gera - ef gengi krónu er óbreytt út lánstímann þá liggur í augum uppi að lánveitendur sætta sig við samningsvexti.

Ef gengisáhætta er flutt yfir á lántakendur, þá sætta lánveitendur sig við samningsvexti.

Vandi lánveitenda núna er einfaldlega sá að gengisvörn þeirra - flutningur gengisáhættu yfir á lántakendur - brýtur gegn lögum nr. 38/2001.

Í lögunum eru ákvæði um endurgreiðslu af hálfu lánveitenda á upphæðum sem þeir hafa haft af lántakendum með brotum á lögunum að viðbættum sektum.

Með öðrum orðum, að íslenzkum lögum eru slíkir lánveitendur lögbrjótar og verða að svara fyrir lögbrot sín líkt og aðrir lögbrjótar.

Það er ekkert "sanngjarnt" eða "réttlátt" við það að héraðsdómari deili refsingunni "bróðurlega" milli lögbrjóts og þess sem brotið er á.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 23:34

46 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristján, það er rétt að fólk var ekki mikið að gagnrýna lánin fyrst.  Raunar var það þannig, að þau sem slík voru ekki gagnrýnd heldur var óskað eftir lausn á skuldavanda fljótlega eftir hrun.  Það var algjör tilviljun að menn komust að því að þau voru líklega ólögleg.  Fyrst var beiðni um leiðréttingu skuldanna eingöngu byggð á því það hafði orðið forsendubrestur vegna falls krónunnar.  Allt snerist í kringum 36. gr. laga nr. 7/1936.  Það var ekki fyrr en í apríl í fyrra sem fyrst var bent á að gengistrygging væri hugsanlega ólögleg verðtrygging.  Það var bara nýtt vopn í baráttuna.  Því miður ákváðu stjórnvöld að hunsa þessa umræðu. Héldu sig líklegast geta stjórnað dómstólunum.  Það mistókst.

Að fólk hafi ekki sett út á gengistrygginguna gerir hana ekki í lagi.  Þetta er eins og að segja að einhver maður sé sómakær, vegna þess að við vissum ekki að hann misnotaði börnin sín fyrr en eftir að börnin voru orðin eldri.  Gengistrygging er og var alltaf ólögleg, við bara vissum það ekki.  Ég hefði aldrei tekið svona lán, ef ég vissi að það hefði allan tímann verið ólöglegt.  Ekkert frekar en að ég kaupi ekki eiturlyf eða geng með byssu á mér.

Ég held að þér yfirsjáist eitt atriði.  Ekki var hægt að þinglýsa lánasamningi í erlendri mynt á íslenska eign.  Það er óheimilt.  Þess vegna þurfti að útbúa tryggingabréf og þinglýsa því.  Með því að hafa höfuðstólinn í íslenskri mynt var hægt að þinglýsa skuldabréfinu og þess vegna fóru menn þessa leið að vera með gengistengingu við íslenskan höfuðstól, en um leið voru ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 brotin.  Það má því segja að ákveðinn vinnusparnaður hafi valdið því að menn fóru að brjóta lög.  Klaufalegt, klúður eða vissu menn hvað þeir voru að gera, en vonuðust bara eftir því að verða ekki gripnir.

Mig langar bara að benda á, að það var lögfræðingur innan úr bankakerfinu sem benti mér í apríl 2009 að skoða 13. og 14. gr. laganna betur, en ég hafði birt tilvísun í þær á blogginum mínu í febrúar 2009 og sett spurningu undir með vangaveltu hvort gengistrygging væri kannski ólögleg.

Marinó G. Njálsson, 23.7.2010 kl. 23:36

47 identicon

@ Carlos Ferrer, 23.7.2010 kl. 18:05

Já ég fullyrði að þessi dómur er pantaður af stjórnvöldum og hafi Arnfríður haft flekklausan feril fyrir þennan dóm þá þykir mér sárt fyrir hennar hönd að horfa á eftir því núna því hún hefur ekki lengur flekklausan feril sem dómari og mun vonandi ekki verða Hæstaréttardómari í framtíðinni.

Allt þetta mál er skrípaleikur til þess eins að fresta því óhjákvæmilega að ríkisstjórnin falli vegna þess að hún ræður ekki við þetta verkefni, það mátti sjá dauðafölvan á ríkisstjórn Geirs H Haarde talsvert áður en hún féll vegna aðgerðaleysis og sama helgríma er að myndast á þessari ríkisstjórn, ekki vegna aðgerðaleysis heldur vegna svika við almenning og eigin stefnumál.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að svo lágu plani sem þessi fyrsti hreini vinstri meirihluti á alþingi Íslendinga er kominn, Jöfnuður og Velferð hafa breyst í þjófnað og helferð gegn almenningi.

Jens Jónsson (IP-tala skráð) 24.7.2010 kl. 00:02

48 identicon

Ekki er ég lögspekingur en ætla að halda trú á réttarkerfið okkar og finnst mér þingmaðurinn komin útá ansi hálan ís með því að véfengja dóminn og dómarann á þennan hátt.  Ekki er nú líklegt að virðing fólks fyrir Framsóknarflokknum aukist við þennan gjörning og varla á bætandi við þann makalausa söng sem flokksfélagar hennar Tvöþúsundkarlarnir hafa gjammað undanfarin misseri.  Hvernig á ég sem einstaklingur að öðlast meira traust á Alþingi og réttarríkið þegar þingmenn sjálfir sjá um að draga í sífellu undan því. 

Varðandi málið sem slíkt þá finnst mér alveg magnað að fólki finnist það eðlilegt upp til hópa að það sleppi frá þessum skuldum sem það sjálft stofnaði til á þennan ódýra hátt og láti sem þau séu fórnalömb.  Langar í því samhengi að segja smá sögu: Einn félagi minn keypti sér Toyotu jeppa og á honum var 5 miljón króna erlent lán fyrir hrun, ég keypti notað á 1,5.  Er eðlilegt að hann gangi svo til hreinn frá sínu en ég sé ennþá að borga helvítis drusluna af því að ég hafði þá skoðun að gengislán væru mjög áhættusöm.  Er hann fórnarlamb?  Hann vissi nákvæmlega að hverju hann var að ganga og tilkynnti það reglulega hversu frábær þessi erlendu lán væru og hvort ég ætlaði ekki að fara að fá mér betri bíl, það væru svo frábær kjör á þessum erlendu lánum.  nei ég þrjóskaðist við en nú er staðan sú að sá sem fór glannalega er "fórnarlamb" bankamanna en við hin sem höfðum meiri tiltrú á okkar gjaldmiðli sitjum eftir eins með svartapétur.

Jóhann (IP-tala skráð) 24.7.2010 kl. 01:53

49 identicon

Þú hlýtur þá að geta rökstutt mál þitt, Jens með rökum, sönnunum, tilvísunum í samtöl við þá sem þekkja til ... komdu með þá. Þetta á við þig líka, Eygló Harðardóttir, sem lætur þér ekki nægja að kalla dóminn kjarklausan heldur ferð alla leið í aðförinni að Arnfríði og kallar hana kjarklausa punktur og basta.

Merkilegt hversu fljótt heilsteypt manneskja er orðin að liðleskju fyrir illa hugsað blogg einnar Alþingiskonu.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.7.2010 kl. 04:56

50 identicon

Marínó, 135% hækkun vegna gengisfalls krónunnar var áhætta sem við tókum á okkur öll, sem tókum þessi bévuðu gengislán. Hún er staðreynd, hvort sem okkur líkar eða ekki.

Spurning Eyglóar, hvort við hefðum tekið "verðtryggð krónulán með óverðtryggða vexti" á rétt á sér, dylgjur hennar um kjarkleysi og undanlátsemi Arnfríðar undan þrýstingi (=hún er starfinu sínu ekki vaxin) eru hreinar dylgjur og atvinnurógur í opnum miðli.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.7.2010 kl. 05:04

51 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Rökkréttur dómur og sanngjarn þegar horft er á heildarmyndina. Spái því að Hæstiréttur staðfesti hann.

Kolbrún Baldursdóttir, 24.7.2010 kl. 11:57

52 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Var 135% gengisfall krónunnar e.t.v. að stórum hluta til komin vegna þess að lántakandinn sem veitti lán í erlendum gjaldmiðli hóf fljótlega og skipulega að taka stöðu gegn krónunni til að hagnast enn meir á útlánum sínum? Ef svo er (sem ég ætla ekki að fullyrða en margt bendir til að sé) þá halda þessi rök þín ekki vatni Carlos, þ.e. að neytendur hefðu tekið þá áhættu að krónan hryndi. Máttu neytandinn s.s. gera ráð fyrir því að lánveitandinn gerði sitt besta til að fá lánið hækkað? Það er sama hvaða dómur hefði komið frá Arnfríði hún hefði alltaf verið gagnrýnd. Hins vegar voru það mistök hjá héraðsdómi að setja dómara í málið þar sem gagnrýna mætti hæfi og vanhæfi.

Guðmundur St Ragnarsson, 24.7.2010 kl. 12:03

53 identicon

"Var 135% gengisfall krónunnar e.t.v. að stórum hluta til komin vegna þess að lántakandinn sem veitti lán í erlendum gjaldmiðli hóf fljótlega og skipulega að taka stöðu gegn krónunni til að hagnast enn meir á útlánum sínum?"

Þessi staða sem þú nefnir, Guðmundur, eins líkleg eða ólíkleg sem hún kann að vera, var ekki undir í þessu máli. Dómarinn getur ekki tekið á því. Sérstakur ríkissaksóknari eða einkaaðili þurfa að höfða mál vegna þessa.

Varðandi hæfi eða meint vanhæfi Arnfríðar er best að vísa í frétt RÚV, http://www.ruv.is/frett/domurinn-fell-lysingu-i-vil-0, neðst:

"Arnfríður Einarsdóttir, sem dæmdi í málinu, er eiginkona Brynjars Níelssonar lögmanns sem leigir húsnæði af lögmannstofunni Lagasstoð. Lögmaður Lýsingar, Sigurmar Kristján Albertsson, er einn eigenda lögmannsstofunnar. Í ljósi þess að lögmaður sækjandans og maki dómarans hafa skrifstofu á sama stað, þótti rétt að skoða vel hvort Arnfríður væri hæf samkvæmt lögum þar um. Það var mat dómsstjórans og Arnfríðar sjálfrar að hún sé hæf."

Þess ber að geta, að dómstjórinn er sjálfur dómari, þannig að matið á hæfi er ekki í höndum leik- heldur fagmanns.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.7.2010 kl. 14:51

54 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Meira bullið í sumu fólki. Eygló Þóra haltu áfram á þinni braut. Þú ert manneskja sem stendur með fólkinu en ekki á móti því eins og þessi vesæla ríkisstjórn. Ef maður gæti kosið persónur en ekki flokka þá myndi ég kjósa þig. Go girl,

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 25.7.2010 kl. 00:41

55 identicon

Eygló, ég er alveg sammála þér og ég hef enga trú á öðru en að hæstiréttur muni hnekkja þessum dómi og láta samningsvexti standa.

Það er fáránlegt að gefa sér að fólk hefði tekið óverðtryggð lán á 18% vöxtum ef myntkörfulánin hefðu ekki verið í boði, það er líklegra að fólk hefði þá bara sleppt því yfir höfuð að taka lán.

Mín skoðun er sú að þessi fjármögnunarfyrirtæki séu rekin af glæpamönnum og ég vona svo sannarlega að þeir eigi eftir að vera látnir svara fyrir sín brot fyrir dómstólum, fyrr eða síðar.

Kristján Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband