25.6.2010 | 10:47
Viljum við afnema verðtryggingu?
Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að draga eigi úr vægi verðtryggingar og stjórnarandstaðan hefur að stærstum hluta tekið undir þessi markmið stjórnarflokkanna. Í því ljósi lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram frumvarp um að setja skyldi 4% þak á verðtrygginguna á meðan leitað væri frekari leiða til að afnema hana.
Eftir mikla baráttu Framsóknarmanna varð það niðurstaðan að sett yrði á stofn þverpólitísk nefnd sem skal koma með tillögur um hvernig megi draga úr umfangi verðtryggingar án þess að ógna fjármálastöðugleika.
Hún skal kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi, meta kosti og galla þess að draga úr vægi hennar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru bestar í því skyni. Nefndin á að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt. Tillögurnar skulu liggja fyrir í lok árs 2010.
Ekki lesið stjórnarskrána
Í ljósi þessara markmiða ríkisstjórnarinnar er því heldur einkennilegt að sjá stjórnarliða taka undir að setja eigi verðtryggingu á hin svokölluðu erlendu lán eftir að Hæstiréttur felldi dóm sinn um ólögmæti gengistryggingar. Yfirlýst markmið stjórnarinnar var að draga úr vægi og umfangi verðtryggingar, ekki að bæta við nýjum, stórum lánaflokki. Hvergi kemur fram í dómnum hvort eitthvað eigi að koma í staðinn fyrir gengistrygginguna, aðeins að hún er ólögleg samkvæmt íslenskum lögum. Því er það svo að þrátt fyrir að rifist sé fram og tilbaka um vaxtaákvæði samninganna og hvernig eigi að reikna höfuðstól og endurgreiðslur, er enginn sem heldur því fram á grunni lagalegra raka að setja eigi verðtryggingu á lánin í staðinn.
Það skal viðurkennast að ég hélt að lánveitendur myndu hugsanlega gera varakröfu um þetta fyrir Hæstarétti svo dómsóllinn gæti tekið afstöðu varðandi þau atriði. Svo var ekki og því ekki á valdi stjórnmálamanna að fara að smyrja verðtryggingu á lán sem voru að mati Hæstaréttar aldrei verðtryggð til að byrja með. Slíkt heitir afturvirkni til skaða fyrir þann sem fyrir verður og er bannað skv. stjórnarskránni (sjá greinar 27, 69, 72 og 77).
Flestir þingmenn með smá þingreynslu ættu að átta sig á að slík stjórnarskrárbrot líðast ekki.
Eykur verðtrygging verðbólgu?
Frá seinni hluta áttunda áratugarins fram á miðjan þann níunda var mikil verðbólga viðvarandi vandamál á Íslandi. Ástæður verðbólgunnar voru margvíslegar; ytri áföll, þaninn vinnumarkaður, gengisfellingar og seðlaprentun eða í stuttu máli almenn efnahagsleg óstjórn þar sem áherslan var á að skapa atvinnu fremur en hemja verðbólgu. Marinó Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, hefur reiknað út að verðbólga síðustu 40 ára var að meðaltali 82.262%, síðustu 30 ár um 5.214%, síðustu 20 ár 154% og síðustu 10 árin 84,7%. Með miklu átaki náðist verðbólgan niður í tveimur skrefum og var undir 3% um tíma á tíunda áratugnum.
Verðtryggingin var viðbragð við almennri óstjórn í efnahagsmálum og tók alls ekki á sjúkdómnum sjálfum, verðbólgunni. Ýmsar vísbendingar eru uppi um að verðtrygging geri stjórn efnahagsmála erfiðari og flóknari og dragi tennurnar úr stýrivöxtunum sem eru einmitt helsta tæki Seðlabankans við að draga úr verðbólgu. Einnig hefur samspil verðbólgu og verðtryggingar lítið verið rannsakað.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á að hugsanlega sé verðtryggingin verðbólguhvetjandi í sjálfu sér vegna áhrifa verðbóta á efnahagsreikning fjármálastofnana. Verðbólga er mæling á fjármagni í umferð. Hærri verðbólga hækka verðbætur á efnahagsreikning bankanna, efnahagsreikningurinn stækkar, bankarnir geta lánað meiri pening, sem eykur aftur peninga í umferð. Afleiðingin er því hærri verðbólga.
Á þeim tíma sem verðtrygging hefur verið í gildi hefur þjóðfélagslegur sparnaður aukist, en þá fyrst og fremst lögþvingaður sparnaður í gegnum lífeyrissjóðina. Á sama tíma hafa skuldir heimilanna margfaldast. Því virðist verðtrygging sparifjár ekki hafa hvatt til aukins sparnaðar hjá almenningi heldur frekar hvatt til skuldsetningar.
Mikilvægt er fyrir nefndina að skoða verðtrygginguna út frá hagsmunum allra. Allir Íslendingar verða að axla ábyrgð á sínum efnahagsmálum á sama máta og aðrar þjóðir. Hluta af þeim vanda sem við stöndum núna frammi fyrir varðandi gengistryggðu lánin má rekja til verðtryggingarinnar. Fólk var einfaldlega að leita eftir sambærilegum vaxtakjörum og þekkjast hjá þeim þjóðum sem eru okkur næstar. Engin fordæmi eru í hinum vestræna heimi fyrir sambærilegri útbreiðslu verðtryggingar, hvað þá á neytendalánum. Markmið íslenskrar efnahagsstjórnar á að vera stöðugleiki, sem mun endurspeglast í lágri verðbólgu, stöðugra gengi og raunverulegri verðmætasköpun.
Allir Íslendingar verða að bera sameiginlega ábyrgð á því að draga úr verðbólgu. Enginn er undanskilinn í því stríði. Ekki fjármagnseigendur eða skuldarar, ekki lífeyrissjóðir eða Íbúðalánasjóður, ekki stjórn eða stjórnarandstaða.
Verðtryggingin er hækja og við verðum að finna leiðina til að kasta henni.
(Greinin birtist fyrst í DV, 23. júní 2010)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Facebook
Athugasemdir
Komdu með frumvarp,FRJÁLSAR SMÁBÁTAVEIÐAR.
ÞAÐ eru 17.ooo. SAUTJÁNÞÚSUND MANNESKJUR ATVINNU LAUSAR.
ÞAÐ ER GLÆPUR GAGNVART ÞJÓÐINI AÐ GERA EKKI NEITT.
VAKNAÐU MANNESKJA.
Aðalsteinn Agnarsson, 25.6.2010 kl. 11:34
Áhugaverð færsla hjá þér Eygló.
Þessi blessaða verðtrygging hefur haft alltof blekkjandi áhrif á lántakendur. Of margir sem höfðu ekki áttað sig á þeim gríðarlegu áhrifum sem hún getur haft. Óvissuþátturinn fyrir lántakendur er alltof mikill þegar tekið er verðtryggt lán..
Birgir (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 15:17
Lestu greinina hans Kristins H. Gunnarssonar í Fréttablaðinu í gær, minnir mig. Í henni finnur þú svarið, segir allt sem segja þarf.
Kolbrún Baldursdóttir, 25.6.2010 kl. 16:38
Kolbrún, hvar finnur þú svar við spurningum Eyglóar í grein Sleggjunnar. Það er ekki einu sinni óslitinn þráður í greininni hans.
Staðreyndin er að Ísland er eina landið í heiminum þar sem vægi verðtryggingar í neytendalánum er hærra en annarra lána. Að meira en helmingur lána heimilanna séu verðtryggð er fráleitt. Askar Capital skýrðu út af hverju við þyrftum verðtryggingu: Jú, bjóða verður fjárfestum upp á áhættulausa fjárfestingarleið.
Það er allt í lagi að hafa áhættulausa fjárfestingu, en hún á ekki að vera á kostnað neytenda. Hún á að vera á kostnað stórfyrirtækja eða ríkissjóða, eins og er alls staðar annars staðar í hinum vestræna heimi, nema kannski Ísrael. Almenningur á ekki að vera buffer fyrir fjármálafyrirtæki til að ná jöfnuði á hinum og þessum þáttum rekstrarins. Almenningur á að geta leitað til fjármálafyrirtækja, þ.e. viðskiptabanka sinna, eftir lánum sem hann ræður við og setur hann ekki á hausinn þó ójafnvægi verði í hagkerfinu. Kolbrún, horfðu til Noregs, þar geta lántaka húsnæðislána skipt um vaxtaform með stuttum fyrirvara til að bregðast við ytri aðstæðum. Hér á landi eru það fjármálafyrirtækin sem breyta vöxtunum. Í Englandi getur almenningur tekið lán með LIBOR vöxtum í annarri mynt. Það er síðan fjármálafyrirtækisins að verja sig gegn vaxtaþróuninni. Almenningur tekur ekki gengiáhættuna, vegna þess að það er ósanngjarnt.
Við búum við sjúkt fjármálaumhverfi, þar sem fagfólkið sem er útlært í að stjórna fjármálum er stikkfrí frá allri áhættu og setur hana yfir á almenning. Þar sem fjármálafyrirtæki, sem flest eru í slitameðferð, töldu það heilaga skyldu sína að taka stöðu gegn viðskiptavinum sínum í staðinn fyrir að vernda hagsmuni þeirra. Hvers konar bull er þetta? "Sleggjan" staðfestir einmitt þetta.
Ef við byggjum við sömu reglur og í Bretlandi, þá hefði almenningur getað tekið íslensk lán með LIBOR-vöxtum (samkvæmt vef British Bankers' Association, www.bba.org.uk ef fólk skoða LIBOR vexti fer það á www.bbalibor.com), en lántakinn hefði ekki tekið gengisáhættuna bara vaxtaáhættuna. Þannig er það nefnilega í hinum siðmenntaða heimi að áhættan á jöfnuði hvort heldur vegna gjaldeyris eða verðtryggingar er ekki velt yfir á almenning og það á ekki að vera hægt að velta því yfir á almenning. Hann býr ekki yfir þeirri þekkingu eða tækifærum til að verja sig áhættunni. Nei, ekki á Íslandi. Hér á landi eru þeir einu sem eiga að vera 'save' eru fjármálafyrirtækin.
En svo ég snúi mér að færslunni hennar Eyglóar. Ég hlakka til að fylgjast með vinnu nefndarinnar, Eygló, og vona innilega að þetta verði ekki enn ein nefndi sem skilar engu. Við verðum að koma böndum á verðtrygginguna og við verðum að fá alvöru, faglega úttekt hlutlausra aðila á áhrifum verðtryggingarinnar á hagkerfið og hvernig sé hægt að draga úr verðtryggingu á neytendalán. Og ekki fleiri fúsk skýrslur, takk. Við hjá HH höfum ekki sent viðskiptanefnd svör okkar við skýrslu Askar vegna þess að okkur finnst að þeir eigi að fá skýrsluna í hausinn og endurgreiða okkur skattgreiðendum það sem þeim var greitt!
Marinó G. Njálsson, 25.6.2010 kl. 23:46
Já.
Toni (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 00:01
Ég gleymdi alveg að setja þennan tengil inn. Færsla Friðriks Jónssonar á Eyjunni, Verðtryggingarvíma.
Marinó G. Njálsson, 26.6.2010 kl. 00:12
Treysti ykkur Eygló og Marinó, sem eruð skeleggir málssvarar þess að minnka vægi verðtryggingar eða jafnvel afnema hana. Greinar ykkar tveggja segja allt sem segja þarf. Sumir stjórnmálamenn telja það einu leiðina að ganga í ESB til að fá mannsæmandi vexti á lánum. Er það ekki einum of langt gengið, nær að taka til hér heima. Fólk sætti sig áður við þessa verðtryggingu þegar íbúðarhúsnæði hækkaði í verði. ( þó ekki þeir sem stóðu í fyrstu kaupum ) En að borga verðtryggða vexti af t.d. bílalánum þegar bílar hríðlækka í verði sem og af húsnæðislánum er, ja ég veit ekki hvað, bilun myndu sumir segja.
Sigurður Ingólfsson, 26.6.2010 kl. 09:33
Það á aldrei að setja fjármálakerfi upp þanni, að alið sé á slæmri hegðun.
----------------
Einn vandi verðtryggingarinnar tengist einmitt þessari forsendu, þ.e. þ.s. lánveitendur hafa allt sitt á þuru, með öðrum orðum lántakinn tekur alla áhættuna, hafa þeir mun lakari hvatningu en ella til að skoða lántakendur með varfærni og einnig til að íhuga ytri áhættur þegar þeir veita lán.
---------------
Þ.e. í eðli sínu afskaplega ósanngjarnt, að viðhafa fyrirkomulag þ.s. annar aðilinn hefur svo mikið sterkari stöðu - má alveg líta á sem stjórnarskrárbrot þ.e. brot á prinsippinu að allir séu jafnir fyrir lögum.
---------------
Þ.s. áhætta lánveitenda er svo tiltölulega lítil, hvetur það þá einnig til að taka áhættu í lánveitingum - en munum að einmitt ein af stóru ástæðunum fyrir hruninu var stórfelld áhættusækni viðskiptabankanna, en ekki bara þeirra heldur alls lánakerfisins, þ.s. gríðarlegur fé var sóað í reynd í lán sem aldrei verða borguð aftur.
--------------
Fyrir hagstjórn er verðtrygging einnig mjög út frá annarri forsendu, þ.e. að hún dregur mjög úr virkni vaxta sem hagstjórnartæki - í reynd eru hér tveir gjaldmiðlar þ.e. króna og verðtryggð króna.
Þetta veldur því, að vextir hafa mjög skert slæfandi áhrif á veitingu útlána, á vilja aðila að taka lán og þar með á veltu þjóðfélagsins - ef þess er þörf að hægja á hagkerfinu. Með þessum hætti, má það vera að verðtryggingin hafi einnig verið einn af orsakaþáttum hrunsins.
---------------
---------------
Það verður að losna við verðtrygginguna - alveg sama hvað það kostar.
Hún er alvarlegur sjúkdómur á lánskerfinu - á hagkerfinu einnig.
Hún bitnar á öllum - og ég get ekki séð nokkurt gagn sem hún gerir, sem réttlætir hið gríðarlega ógang er hún vinnur.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 1.7.2010 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.