Hvað er sparisjóður?

Á fundi viðskiptanefndar í gær var farið yfir stöðu sparisjóðanna eftir að Byr og Sparisjóðurinn í Keflavík höfðu verið teknir yfir af FME.    

Mjög athyglisvert er að Byr var gert að hlutafélagi á meðan Sparisjóðurinn í Keflavík heldur áfram sem sparisjóður. Töluvert hefur verið talað um nauðsyn þess að hagræða í bankakerfinu, og það sé alltof stórt miðað við stærð hagkerfisins og umsvifa fjármálafyrirtækjanna.  Eftir fundinn fékk ég sterklega á tilfinninguna að framundan séu sameiningar bæði innan sparisjóðakerfisins og við aðrar fjármálastofnanir þegar búið verður að ganga endanlega frá endurfjármögnun minni sjóðanna.

Þá kemur einnig upp spurningin, hvað er sparisjóður? Er sparisjóður sparisjóður ef hann er í eigu ríkisins?  Hver eru þá tengsl sparisjóðsins við sveitarfélögin sem hann starfar í, viðskiptavini sína og starfsmenn? 

Í sumar þegar lögum um sparisjóði var breytt og samþykkt að skrifa mætti stofnfé niður, - reyndi stjórnandstaðan ítrekað að fá að hreint hvernig stjórnarliðar sæju fyrir sér að losa ríkið út og koma sjóðunum í samfélagslega eigu.   

Stjórnarliðar svöruðu því til að það væri framtíðarmúsík, - nú þyrfti bara að klára frumvarpið því endurskipulagningin var alveg á næsta leyti.  Ekki væri tími til að skoða löggjöf annarra landa eða íhuga hvernig væri hægt að opna sparisjóðina og fjölga stofnfjáreigendum á nýjan leik.  Keyra yrði málið í gegn, enda menn nánast tilbúnir að skrifa undir samkomulag. 

Svo leið tíminn.

Nú fleiri mánuðum seinna liggur fyrir að SpKef og Byrs eru komnir í þrot, stofnfjáreigendur hafa tapað öllu sínu, og stjórnvöld hafa enn þá ekki hugmynd um hvernig ríkið á að komast út úr eignarhaldi sínu á sparisjóðunum og þróa sparisjóðina áfram.

Ein af hugmyndunum sem ég vildi ræða í sumar var að allir þeir sem eiga innistæður fyrir ákveðna lágmarksupphæð í sparisjóði geta gerst stofnfjáreigendur.  Ég vildi einnig aftengja upphæðina frá atkvæðisréttinum, þannig að hver stofnfjáreigandi færi með eitt atkvæði.  Stjórn sjóðsins yrðu skipuð fulltrúum stofnfjáreiganda (kosnir á stofnfjáreigenda fundi), fulltrúum sveitarfélaga sem hann starfar í og fulltrúa starfsfólks.  

En nei, enginn tími var til að ræða svona hugmyndir enda ansi byltingarkenndar fyrir Ísland.

Kannski er kominn tími núna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef nú alltaf átt í vandræðum með að skilja hugatakið "sparisjóður".  Ég skil ekki konseptið en veit að það var andstyggilegt kerfi bakvið þetta.  Sumir fengu að kaupa en sumir ekki.  Þeir sem fengu að kaupa græddu ógurlega (og töpuðu öllu núna).

Ég skil ekki hugmyndina sem að baki liggur.  Er þetta ekki bara ósköp venjulegur banki?

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 07:32

2 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Já, og þú ert ekki einn um að skilja ekki hugtakið.  Ég er einmitt að skrifa grein til að svara betur þessari spurningu.

Sparisjóður byggir á annarri hugmyndafræði en hlutafélög og aðrir bankar.  Hugmyndafræðin er sambærileg þeirri sem býr að baki gagnkvæmum tryggingafélögum, samvinnufélögum, sjálfeignarstofnunum og jafnvel frjálsum félagasamtökum.  "Eigendurnir" eiga að vera þeir sem nota sér þjónustu fyrirtækisins og hagnaðurinn af starfseminni á að skila sér til þeirra í formi lægri þjónustugjalda, lægri vaxta, afsláttar af vörum og/eða í gegnum samfélagssjóði sem styðja við mann- og menningarlíf á viðkomandi svæðum. 

Grundvallarhugsun í þessum félögum er lýðræði, einn maður eitt atkvæði en ekki hversu mikla peninga þú átt.  

Áróður gegn þessari tegund af starfsemi hefur verið stöðugur, ekki bara í nokkur ár heldur áratugum saman. Menn innan þessara félaga misstu einnig sjónar af tilgangi þeirra og endurspeglast það í samsetningu stofnfjáreigenda í mörgum sparisjóðum.  Erfitt var að fá að gerast stofnfjáreigandi nema þú "þekktir" mann eða varst í réttum stjórnmálaflokki. 

Í Noregi eru lög um sparisjóði líkt og ég lýsti hérna að ofan, þannig að sjóðunum er stýrt af stofnfjáreigendum, fulltrúum sveitarfélaganna og starfsmönnum og allir sem vilja eiga í viðskiptum við viðkomandi sjóð geta orðið stofnfjáreigendur.  Upphæðin sem þú þarft að eiga inn á reikning er lág, 5-10 þús.kr. og þar geturðu óskað eftir að verða stofnfjáreigandi og taka þátt í kosningu í stjórn og starfi sjóðsins. 

Eygló Þóra Harðardóttir, 24.4.2010 kl. 07:54

3 identicon

Sparisjóðakerfið er s.s einskonar samvinnukerfi.   þar sem ég bý í Svíþjóð, er kaupfélagaformið mjög sterkt.  Ein stærsta matarverslunarkeðjan er t.d kaupfélag.  það heitir COOP (co-op)  Mjög fínar búðir.

 Það var synd að Íslendingar (lesist: Framsóknarflokkurinn) skuli hafa eyðilagt kaupfélgakerfið.  Það er margt mjög sniðugt við þetta.

Sennilega þarf að blása lífi í hugmyndina að nýju.  Ef rétt er að staðið og stöðugt haldið í upphaflegu gildin, gæti þetta alveg gengið og gott betur en það.

Sparisjóðakerfið var rotið.  Ofboðslega vont kerfi.  Alveg einstaklega vont. 

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 11:14

4 identicon

Af af hverju í ósköpum er verið að endurfjármagna þessa tvo sjóði?

Af hverju er þeir ekki látnir fara í þrot?

Af hverju er verið a nota skattfé almennings til þess að halda starfsemi þessara sjóða gangandi þegar, eins og þú segir sjálf, að hér er allt yfirfullt af bönkum og fjármálastofnunum og það verið að sameina þá?

Af hverju er þessum sjoppum ekki lokað?

Af hverju er ekkert aðhald í fjármálum ríkisins þegar kemur að bönkunum?

Af hverju geta bankamenn gengið að vild að skattfé almennings?

Af hverju er verið að dæla endalaust skattfé inn í fjármálasstofnanir sem eru rotnar niður í rót?

Af hverju sega trúnaðarmenn almennings á Alþingi ekki stopp, hingað og ekki lengra?

Sniddan (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband