12.1.2007 | 17:19
Er Alþingi óþarfi?
Að undanförnu hefur stjórnarandstaðan bókstaflega verið að springa af spenningi yfir kosningunum í vor og hugsanlegri félagshyggjustjórn stjórnandstöðuflokkanna að þeim loknum. Þannig bar æsingurinn yfir væntanlegum stjórnarskiptum formenn Vinstri-Grænna og Samfylkingarinnar ofurliði í Kryddsíldinni á gamlársdag. Í upphafi stefndi í frekar tíðindalitla Kryddsíld, en skyndilega upphófst orðaskak milli Ingibjargar Sólrúnar og Steingríms J. um hver ætti að verða forsætisráðherra í væntanlegri félagshyggjustjórn.
Eftir þáttinn sat ég eilítið hugsi. Var það virkilega svo að fyrsta mál stjórnarandstöðunnar var að ákveða hver yrði forsætisráðherra? Ekki hver stefnan yrði í Evrópu-, umhverfis-, efnahags- eða innflytjendamálum? Nei, ráðherrastólarnir voru mikilvægastir. Þessi umræða sýnir í hnotskurn þann vanda sem íslensk stjórnskipun er komin í.
Þrískipting valdsins?
Einn af grundvöllum vestræns lýðræðis er þrískipting valdsins í framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Á Íslandi hefur dómsvaldið áþreifanlega sýnt sjálfstæði sitt með dómum sem hafa ekki fallið sérstaklega í kramið hjá hinum kjörnu fulltrúum. En er hægt að greina á milli löggjafar- og framkvæmdavaldsins hér á landi?
Síðastliðinn vetur tók ég um tíma sæti á Alþingi sem varaþingmaður og starfaði mikið í nefndum þingsins. Það sem kom mér mest á óvart var hversu lítið löggjafarstarf fór í raun fram í nefndunum. Lagafrumvörp voru lögð fram af ráðuneytunum og fylgdu starfsmenn viðkomandi ráðuneyta þeim úr hlaði og virtust oft hafa lítinn áhuga á að heyra skoðanir hinna kjörnu fulltrúa.
Þeir sem enginn kaus
Jarðtenging starfsmanna ráðuneytanna við hinn almenna borgara virtist einnig stundum vera lítil. Má nefna sem dæmi að í einu tilfelli tók ég eftir ákvæði í lagafrumvarpi þess efnis að öll fyrirtæki í landinu ættu að birta ákveðinn texta á vefsíðu sinni. Öll fyrirtæki spurði ég og benti síðan á að Óli pípari og Nonni bóndi sæu sér engan hag í að halda úti vefsíðum í sínum rekstri, en ef frumvarpið færi óbreytt í gegn væri þeim skylt að leggja út í þann kostnað. Þannig virðist vald Alþingis að miklu leyti hafa færst yfir til ráðherranna og í framhaldi af því til starfsmanna ráðuneytanna, sem enginn kaus.
Í flestum lýðræðisríkjum er lögð mikil áhersla á þrískiptingu valdsins. Þannig eru ráðherrar í Bandaríkjunum ekki þingmenn og í Svíþjóð er það svo að ef þingmenn eru útnefndir ráðherrar þurfa þeir að víkja sæti á þingi á meðan þeir gegna ráðherradómi. Enda er það svo að í þessum ríkjum er staða þingforseta raunveruleg valdastaða, ólíkt því sem gerist hér á landi.
Aðskiljum löggjafar- og framkvæmdavaldið
Meðal íslenskra stjórnmálamanna virðist lítill áhugi á að ræða nauðsyn raunverulegs aðskilnaðar löggjafar- og framkvæmdavalds. Stjórnarandstaðan er föst í umræðunni um ráðherrastólana og því miður má það sama má segja um ríkisstjórnarflokkana. Einna helst hefur Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, reynt að vekja upp umræðu um þessi mál við litlar undirtektir.
Það er nauðsynlegt lýðræðinu á Íslandi að tekin verði skref sem tryggi skýra aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdavalds. Setning laga á að vera í höndum kjörinna fulltrúa, en ekki nafnlausra embættismanna á kontórum uppi í ráðuneyti. Ráðherrar eiga að framkvæma vilja Alþingis. Ekki öfugt.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. janúar 2007
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér þykir gaman að sjá manneskju í stjórnmálum setja spurningamerki við Alþingi. Auðvitað eiga ráðherrar að framkvæma vilja Alþingis, og Alþingi á að spegla skoðanir okkar kjósenda. En eins og staðan er í dag virðist engu skipta hvað sauðsvartur almúginn er að hugsa..
Hins vegar er lausnin sem ég myndi vilja sjá aðeins öfgakenndari. Ég vil sjá Alþingi lagt niður í þeirri mynd sem það er í dag. Ég vil sjá stjórnarfar Íslands hverfa aftur til fornaldar þar sem hver sem nennti mátti mæta á Alþingi, koma með tillögur og kjósa um málefni. Þá væru allir íslendingar orðnir Alþingismenn og við gætum loksins kennt okkur sjálfum um ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. En auðvitað yrði að kjósa ráðherra engu að síður, en ég tel að ef þetta yrði framkvæmt rétt, þá væri þetta skásti kosturinn. Þá yrðum við líka fyrsta lýðræðisríkið, í öllum skilningi þess hugtaks.
Sverrir Garðarsson, 12.1.2007 kl. 17:37
mætti alveg leggja þessa stofnun niður
Ólafur fannberg, 12.1.2007 kl. 18:50
Þú talar um stjórnarandstöðu sem eina heild. Hvers vegna? Samfylking og Vinstri grænir karpa. Það er ekki stjórnarandstæðan. Guðjón Arnar formaður Frjálslynda flokksins sat líka í fyrrgreindum þætti en fékk lítið vægi á við hina hrægammana alla. Hann er prúðmenni. Rífist þið bara öll um auð og völd eins og sagt er í kvæði einu góðu. En gleymið ekki Frjálslynda flokknum því þið þurfið öll á honum að halda í framtíð. Kv HBJ
hanna birna jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 19:40
Ja ég verð nú að segja einhvað. Mér hefur sýnst að framsóknarflokkurinn sé deyjandi flokkur rétt eins og loðnustofninn. Guðni heldur verndarvæng yfir bændastéttinni sem er kanski ekki alslæmt. Hvað ætlið þið framsóknarmenn að gera í framtíðinni? Ekki dugar að vera hækja fyrir sjálfstæðisflokkinn endalaust. Mig langar að vita margt og spyrja um marg áður en ég geri upp hug minn fyrir kosningarnar í vor. Í öllum flokkum er gott fólk en líka hellingur af eiginhagsmunaseggjum sem hugsa bara um rassin á sjálfum sér. Ég nenni ekki að mæta á þessa framboðsfundi, en hefði gaman af að fá að spyrja þig nokkura spurninga.
Kveðja Runólfur.
Runólfur Hauksson (IP-tala skráð) 14.1.2007 kl. 04:03
Hef stundum velt þessu fyrir mér að ráðherrar mættu ekki starfa á þingi og komist að því að það hefur engan tilgang.
Ráðherrarnir eru það fáir að þeir hafa ekki svo mikið vald á þingi. Það sem gefur þeim valdið er leiðtogablindni samflokksmanna þeirra eða þannig lítur það út fyrir leikmann sem stendur fyrir utan þetta allt saman.
Væntanlega þó að ákvörðunnarvald og framkvæmdarvald yrði aðskilið þá myndu ráðherrar vera ráðnir af meirihluta þingsins.
Ágúst Dalkvist, 14.1.2007 kl. 16:52
Sæll Runólfur,
Endilega sendu mér póst á eyglo@eyglohardar.is ef þú hefur einhverjar spurningar til mín.
kv,
Eygló
Eygló Þóra Harðardóttir, 14.1.2007 kl. 18:43
Embættismenn hafa of mikil völd, eða þeir leika of mikið lausum hala. Einnig væri það mjög skynsamlegt að þeir sem sitji á ráðherrastóli afsali sér þingmennsku, á meðan þeir gegna því embætti.
Ef mig minnir rétt þá hafa hugmyndir þess efnis oft komið upp innan Framsóknarflokksins en ég man ekki hvernig hvort það var samþykkt eður ei.
Einnig hefur mér perónuleg fundist vanta allan eldmóð og allar hugsjónir í þingmenn yfir höfuð undanfarin ár...
Eiður Ragnarsson, 23.1.2007 kl. 02:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.