24.1.2010 | 12:38
Svar frá Páli Magnússyni
Ég sendi bréf til Páls Magnússonar útvarpsstjóra sem var nánast samhljóða pistlinum "RÚV á rangri leið". Páll hefur gefið góðfúslegt leyfi til að birta svar hans við spurningum mínum.
Menntamálanefnd stefnir jafnframt að því að funda fljótlega um málið.
---------------------------
Svar Páls:
"Aðalatriði málsins sem lýtur að erindi þínu er þó þetta:
Kostnaður við innkaup á erlendu sjónvarpsefni er afar lítill hluti af heildarútgjöldum við dagskrárframboð Sjónvarpsins, - þótt það sé umtalsverður hluti af útsendingartíma þess. Skerðing á því kemur því alltaf fram sem bein stytting á útsendingartíma því ekkert ódýrara efni er til sem kæmi í staðinn. Þó minnkuðum við innkaup á erlendu efni talsvert í síðasta niðurskurði fyrir rúmu ári og styttum frumflutta kvölddagskrá Sjónvarps sem því nam.
Með einföldun mætti segja að margfeldisstuðullinn í samanburði á kostnaði við erlent og innlent efni sé nálægt því að vera 10. Fyrir hvern klukkutíma sem við spöruðum í erlendu efni fengjum við þannig gróflega 6 mínútur af innlendu efni.
Meginþunginn af dagskrárkostnaði Sjónvarpsins liggur sem sé í innlendu efni og enginn umtalsverður árangur næst í sparnaði nema að hann kom þar niður.
Það má líka setja þessi stærðarhlutföll í annað samhengi: kaup á erlendu dagskrárefni fyrir Sjónvarpið nema rúmlega 300 milljón króna á ári. Skerðing stjórnvalda á tekjum RÚV nemur 420 milljónum. Þótt við skærum niður ÖLL kaup á erlendu efni og styttum þannig sjónvarpsdagskrána niður í 2-3 klukkutíma á dag þá vantaði okkur enn 120 milljónir til að mæta tekjuskerðingunni!!
Vona að þetta skýri málið eitthvað en er sem sé reiðubúinn að fara nánar yfir þetta á hvaða vettvangi sem er. Líka í þingflokki framsóknarmanna ef þú vilt!"
Páll Magnússon
----------------------------------
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Stjórnmálamenn eiga ekki að standa í hnútukasti við embættismenn. Ef stjórnmálamenn telja að ríkisforstjórar séu ekki að standa sig þá á alþingi að rækja eftirlitsskylduna með óháðri úttekt. Ríkisendurskoðun er ekki það tæki. Opinberar rannsóknar þingnefndir sem hefðu vald til að áminna og jafnvel reka ríkisforstjóra er réttlátari farvegur. Það þarf nefnilega að endurskoða þessi lög um ríkisendurskoðanda, og jafnvel gera rannsókn á hans úttektum í gegnum árin. Nægir að nefna úttekt hans á sölu bankanna, en kannski eru framsóknarmenn ekkert hrifnir af slíkri tillögu?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.1.2010 kl. 14:23
Margt nýtilegt og athyglisvert kemur út úr úttektum ýmiskonar og aukið vald þingnefnda til slíks hefur verið mér hugstætt áhugaefni.
Nefni að gamni eitt dæmi um úttekt sem þrátt fyrir mikla vinnu að baki hennar og góðum tillögum breytti nánast engu á sinni tíð.
Fyrir 15 árum gerði Ríkisendurskoðun úttekt á rekstri Ríkisútvarpsins. Ýmislegt almenns eðlis kom þar fram en ekki gekk endurskoðunin svo langt að gerðar væru tillögur um uppsagnir ákveðins fólks.
Ein undantekning var þó þar á.
Þegar Rendi fór yfir mannahald stofnunarinnar kom í ljós að einn maður af ca 450 hefði ekki átt að vera ráðinn í það starfsheiti sem hann hafði, en það var undirritaður.
Ef fara hefði átt að tillögum Renda hefði því átt að segja mér upp eða reka einhvern annan og setja mig í hans stað.
Sem betur fór var síðari kosturinn ekki tekinn, það hefð ég aldrei getað hugsað mér, - frekar viljað hreinan brottrekstur.
Ómar Ragnarsson, 24.1.2010 kl. 14:48
Ómar, þú ættir að sækja um embætti útvarpsstjóra þegar ráðningartíma Páls lýkur. Ég er viss um að þú nýtur víðtæks stuðnings
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.1.2010 kl. 15:08
Eitt af hlutverkum Alþingis er eftirlit með framkvæmdarvaldinu og með því vinna að því að tryggja lýðræðislega, skilvirka og réttláta framkvæmd ríkisvaldsins.
RÚV er fjármagnað af ríkinu með nefskatti sem Alþingi lagði á einstaklinga og fyrirtæki. Alþingi setti einnig lög um RÚV þar sem markmiðin með þessari stofnun eru skilgreind. Það er hlutverk okkar þingmanna að fylgjast með að farið sé með þetta mikla fé á þann máta sem við ætluðum.
Ríkisendurskoðun fylgist einnig með framkvæmd ríkisvaldsins sem og umboðsmaður Alþingis. Ég get einnig svarað því til að við Framsóknarmenn kveinkum okkur ekkert undan úttektum á vinnu Ríkisendurskoðanda né annarra.
Öll eigum við að vinna að því að tryggja framgang lýðræðisins og réttláta framkvæmd ríkisvaldsins.
Hluti af því er að taka þátt í opinberri umræðu, sérstaklega jafn áhugaverðri og RÚV og eftirlit Alþingis.
Eygló Þóra Harðardóttir, 24.1.2010 kl. 15:32
Ég hef unnið við kvikmyndagerð í 23 ár og upplifði það í fyrsta skipti nýverið að vinna innan veggja RUV í nokkrar vikur. Ég fékk nett áfall að sjá þessa þunglamalegu risaeðlu sem ríkisstofnunin RUV sannarlega er.
Það þarf virkilega að minnka umfangið á rekstri, millistjórnendum og óarðbærri innanhússframleiðslu. Þannig er hægt að spara mikla fjármuni sem nýta má í vandað efni sem verður áhorfendum sýnilegt. Það þarf að hætta að nota ostaskerann og tálga smá utan af bákninu þegar spara þarf og fá aðila sem hafa hugrekki til að breyta Ruv í skilvirkan menningarmiðil sem stendur við þær skuldbindinar til ráðuneytisins og þjóðarinnar.
Eins og staðan er þá er stjórn RUV og Páll að svíkja gerða samninga við Ráðuneytið og eru því ekki starfi sínu vaxin.
Drögum upp ýktustu myndina af RUV sem nútíma stofunun sem hefði það hlutverk að nýta fjármuni sína sem best til miðlunar menningar og frétta:
Þá væri hagkvæmast og skilvirkast að hafa bara fréttastofuna með einum menningartengdum þætti unnið innanhúss.
Allt annað væri boðið út af 3-5 manna dagskrárnefnd sem skipt væri út reglulega.
Þannig næðust hagstæðir samningar í útboðum og sjálfstæð innlend dagskrárgerð mundi blómstra áhorfendum/þjóðinni til bæði hagsbótar, betri fræðstu og aukinnar skemmtunar.
Ef fast starfsfólk RUV er samkeppnishæft við sjálfstæða kvikmyndagerðarmenn þá þyrfti það líka engar áhyggjur að hafa. Heldur geta unnið á frjálsum markaði meðal okkar hinna.
En svona drastískar breytingar um lítið Ruv með stórt hjarta, í stað stóra steypukassa RUV þar sem maður rekst á sofandi fólk inni í krókum og kimum er sennilega fjarlægur draumur.
Vona samt innilega að einhvern daginn hafi bæði stjórnmálamenn og stjórnendur RUV kjark til að gera það sem gera þarf. Menningarinnar vegna. Katrín og VG hefur brugðist. Páll Magnússon og stjórn RUV hefur líka brugðist.
Vandamálið er gamalt en í ástandinu núna verður það enn alvarlegra.
denni Karlsson (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 01:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.