29.3.2010 | 18:34
Njósnir á Íslandi?
Wikileaks er magnað fyrirbæri, og stundum virðast atburðir tengdir vefsíðunni og fylgismönnum hennar vera eins og njósnareyfari eftir Tom Clancy eða John le Carré. Ísland hefur komið nokkrum sinnum fyrir á síðunni og las ég þar fyrst um lánasafn Kaupþings og tilboð Breta og Hollendinga til Íslendinga í nýju Icesave viðræðunum.
Fréttir af síðunni hafa gerst æ reyfarakenndari. Síðast bárust fréttir af pilti, sem starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Wikileaks, hefði verið handtekinn með tölvu í fórum sér sem tilheyrði Wikileaks. Julian Assange, forystumaður Wikileaks, fullyrti svo að njósnað hefði verið um þá á Íslandi, og að í yfirheyrslum lögreglunnar hafi piltinum verið sýnd mynd af honum og Julian, auk þess sem tölvan var gerð upptæk.
Dómsmálaráðherra og lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins kannast ekki við neitt.
Forystumenn Wikileaks hafa góða ástæðu til að vera tortryggnir og birti síðan nýlega gögn þess efnis að bandaríska leyniþjónustan taldi ástæðu til að leggja niður vefsíðuna. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki neitað þessum fréttum, né frétt um að nota ætti afganskar konur til að auka velvilja gagnvart stríðinu í Afganistan, sem kom stuttu seinna.
Svo kemur ný sprengja tengd Wikileaks, - að bandaríska sendiráðið taki saman gögn um ráðamenn hér á landi. DV birtir fréttina fyrst og Wikileaks lofar að birta skýrslurnar fljótlega.
Ef þetta er allt satt þá tel ég þetta mjög mikið áhyggjuefni.
29.3.2010 | 11:34
Af kisusögum...
Ég skemmti mér ágætlega yfir hinum ýmsu bloggum um svokallaða þingketti yfir morgunmatnum og ákvað að skella inn nokkrum linkum lesendum til ánægju og yndisauka.
Jónas Kristjánsson, Jóhanna gefur undan sér.
Eiríkur Bergmann, Sárir þingkettir og annað smalafé
Jenný Anna Baldursdóttir (frekar pirruð), Kattarslagurinn ógurlegi
Gísli Ásgeirsson, Að smala köttum er góð skemmtun
og svo Henrý Þór Baldursson jafn flottur og venjulega, Kisustjórnin
23.3.2010 | 08:58
Jóhanna hissa
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var í viðtali á R2 í morgunn. Þar lýsti hún yfir mikilli undrun á því að Samtök atvinnulífsins (SA) hefðu sagt sig frá stöðugleikasáttmálanum.
Einhvern veginn hafði hún alveg misst af því á fjölda funda með SA að þeir hygðust segja sig frá stöðugleikasáttmálanum ef frumvarp sjávarútvegsráðherra um m.a. aukningu á skötuselskvóta yrði að lögum.
Frumvarpið varð að lögum í gær.
Hvað átti SA að gera? Segja bara sorrí, allt í plati, við meintum ekki það sem við sögðum aftur og aftur skv. Vilhjálmi Egilssyni.
Svo er Jóhanna bara ofsalega hissa á að einhver vilji standa við orð sín.
![]() |
Stöðugleikasáttmálinn rofinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2010 | 09:10
Áhugaverðar niðurstöður
Fréttablaðið birti í dag nýja skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna.
Fjölmargir líta á skoðanakannanir sem einkunnagjöf, einhvers konar skyndipróf sem gefur til kynna hvernig við munum svo standa okkur í sjálfu lokaprófinu. Ég hef alltaf haft mikinn metnað og viljað standa mig vel í öllum prófum sem ég tek. Því skal viðurkennast að ég hefði gjarnan viljað sjá flokkinn minn mælast hærri en fagna því um leið hvað kjörfylgi okkar virðist vera stöðugt.
En könnunin í heild er mjög áhugaverð. Stjórnarflokkarnir missa fylgi, meira að segja VG sem mælist yfirleitt hærri í könnunum en í kosningum. Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar. Sjálfstæðisflokkurinn mælist mjög hár, kominn með 40% fylgi. Flokkurinn mælist oft hár í FBL könnunum, og sérstaklega þegar hlutfall óákveðinna er mjög hátt.
Áhugaverðast er hversu stór hluti kjósenda er samkvæmt könnuninni óákveðinn, eða um 40% þrátt fyrir ítrekaðar spurningar. Stór hluti kjósenda er ósáttur eða óákveðinn. Í þeim hópi hljóta að vera stuðningsmenn Borgarahreyfingarinnar, Samfylkingarinnar og jafnvel einhverjir Frjálslyndir. Ég á einhvern veginn mjög erfitt með að sjá fyrir mér að þeir muni enda með að setja X við D í næstu Alþingiskosningum.
Þetta stóra hlutfall hlýtur að endurspegla mikið vantraust á stjórnmálamönnum og Alþingi, en aðeins 13% þjóðarinnar segjast bera traust til Alþingis.
Það er verkefni okkar Framsóknarmanna að vinna trausts þessa fólks með öflugri stjórnarandstöðu en ekki síður skýrri sýn á framtíð Íslands.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2010 | 08:29
Lesist!
Ég vil hvetja alla til að lesa nýjasta pistilinn hans Marinó Njálssonar! Þar kemur fram að árið 2001 hafi forveri Samtaka fjármálafyrirtækja skilað inn umsögn um lagafrumvarp um vexti og verðtryggingu.
Í umsögninni er bent á að samkvæmt frumvarpinu yrði ólöglegt að gengistryggja lán.
Svo bendir umsögnin einnig á að eina leiðin til að lána erlent lán yrði: "Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni. Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár."
Vissu bankarnir frá árinu 2001 að gengistrygging lána væri ekki lögleg?
8.3.2010 | 09:51
Kjósa um sjávarútveginn?
Nýjasta nýtt er að kjósa eigi um hvort við viljum núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi eða þær tillögur sem svokölluð sáttanefnd um sjávarútveginn á að koma með.
Mér finnst þetta persónulega athyglisverð hugmynd. Því vona ég að forsætisráðherra sé ekki að kasta þessu fram í þeirri von að stjórnarandstaðan vilji alls ekki kjósa um þetta. (Mér fannst votta aðeins fyrir því hjá henni í Silfri Egils í gær, - en vonandi var það bara ímyndun).
Sterkur og öflugur sjávarútvegur skiptir öllu máli fyrir Ísland og framtíð þess. Ég er hins vegar komin á þá skoðun að það verði aldrei sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið, enda hagsmunirnir gífurlegir.
Kannski er eina lausnin að kjósa um mismunandi kerfi?
Núverandi stjórnarflokkar vilja breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, þannig að forsætisráðherra hlýtur telja sig hafa meirihluta á Alþingi fyrir að leggja breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í dóm þjóðarinnar. Spurning er hvort þau ætli að gera það með sambærilegri "skoðanakönnun" og á að fara fram um samninginn um aðild að Evrópusambandinu eða hvort þau séu tilbúin að breyta stjórnarskránni og láta þjóðaratkvæðagreiðsluna hafa eitthvað lagalegt gildi.
Ég er sannfærð um að Alþingi gæti sameinast um að breyta stjórnarskránni, - setja inn að ákveðið hlutfall þjóðarinnar geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu og/eða minnihluti þingsins og að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi lagalegt gildi.
Ég er ekki jafn sannfærð um að við gætum sameinast um að haldnar yrðu Alþingiskosningar sem fyrst til að gefa stjórnarskrárbreytingunum lagalegt gildi.
En það er aldrei að vita ;)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.2.2010 | 18:17
Ó,ó - það svíður undan þessu
16.2.2010 | 12:22
Spádómsgáfa Seðlabankans
Á vb.is kemur fram að búferlaflutningar frá landinu á síðasta ári voru umtalsvert meiri en þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands gerði ráð fyrir.
"...samkvæmt upplýsingum frá Þórarni G. Péturssyni aðalhagfræðingi bankans. Gert var ráð fyrir fækkun eða samdrætti upp á 0,5% á síðasta ári en reyndin varð 1,5%, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Á síðasta ári fluttu 4.835 fleiri frá landinu en til þess."
ALDREI, frá því að mælingar hófust, hafa jafnmargir flutt frá landinu. Seðlabankinn taldi víst að fólksflóttinn myndi fyrst hefjast á þessu ári. Má þá gera ráð fyrir að enn þá fleiri flytji frá landinu á þessu ári en síðasta?
Lykilforsenda fyrir hagvexti er fólksfjölgun. Ein helsta gagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni á forsendur Seðlabankans fyrir því að Icesave væri ekkert mál, var að þeir gerðu ráð fyrir að okkur myndi halda áfram að fjölga.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (bls 5-6) gerði einmitt athugasemdir við þetta á úttekt sinni á forsendum Seðlabankans og Fjármálaráðuneytisins og útreikningum vegna Icesave og annarra skuldbindinga. Þeir útreikningar hafa síðan verið nánast samhljóða útreikningum AGS.
Aðrir sem talað hafa fyrir því að Icesave sé lítið vandamál eins og Þórólfur Matthíasson, fulltrúi ríkisstjórnarinnar í eftirlitsnefnd vegna skulda heimila og fyrirtækja og Ann Siebert, fulltrúi Samfylkingarinnar í Seðlabankanum hafa stuðst við þessa útreikninga í sínum málflutningi.
Skyldu þau vera núna tilbúin til að horfast í augu við staðreyndir eða á að treysta áfram á kristalskúluna?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2010 | 08:09
Réttaróvissa vegna erlendra lána
Þann 12. febrúar síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ákvæði lánasamningsins um gengistryggingu voru dæmd ólögmæt þar sem lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum. Áður hafði fallið annar dómur við sama dómstól þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu í mjög svipuðu máli.
Því er ljóst að fullkomin réttaróvissa ríkir um þetta álitaefni og úr henni verður ekki skorið nema fyrir Hæstarétti. Að öllu óbreyttu verður málið ekki tekið fyrir þar fyrr en í fyrsta lagi undir næstu áramót.
Hvað er erlent lán?
Hagsmunasamtök heimilanna, talsmaður neytenda og fjöldi annarra hafa ítrekað bent á hugsanlegt ólögmæti erlendra lána. Sérstaklega hefur verið bent á ákvæði laga um vexti og verðtryggingu þar sem blátt bann er lagt við að skuldbindingar í íslenskum krónum sé bundnar dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Einnig hefur verið bent á að hugsanlega sé ekki hægt að skilgreina lánasamninga á milli tveggja innlendra aðila sem erlent lán. Þannig fari eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf séu flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. Þannig ræður mynt lánsins engu um hvort lánið sé innlent eða erlent, heldur aðeins búseta útgefandans.
Í grein eftir Gunnlaug Kristinsson, löggiltan endurskoðanda, segir: Nánast undantekningalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins... Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins.
Með þessum rökum eru lán milli innlendra aðila alltaf í íslenskum krónum, hvernig sem lánasamningarnir eru orðaðir, ef enginn erlendur gjaldmiðill skiptir raunverulega um hendur.
Miklar hagsmunir
Af þessu er ljóst að gífurlegir hagsmunir eru af því að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort gengistryggðir lána- og kaupleigusamningar eru löglegir eða ekki.
Viðskiptaráðherra upplýsti í svari við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar í júlí í fyrra, að yfir 40.000 einstaklingar eru með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt að upphæð yfir 115 milljarðar króna. Þá upplýsti félags- og tryggingamálaráðherra í svari við fyrirspurn Helgu Sigrúnar Harðardóttur að gengisbundin skuldabréf til heimila voru um 315 milljarðar króna í lok september 2008 og voru 107 milljarðar skilgreindir sem erlend íbúðalán. Þá eru ónefndir sambærilegir lánasamningar fyrirtækja.
Þótt ýmsir hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að flýta meðferð þessara mála, liggur fyrir að dómstólar taka ekki við fyrirmælum um slíkt frá ráðherrum eða öðrum. Því má telja einsýnt að dómstólar telji sér óheimilt að flýta málum þar sem reynir á lögmæti innlendra lána- og kaupleigusamninga í erlendri mynt. Einnig hafa bæði lögfræðingar og nú síðast efnahags- og viðskiptaráðherra bent á að gengistryggðir lánasamningar eru ekki allir af sama toga og þar með ekki sjálfgefið að niðurstaða Hæstaréttar í ofangreindu máli hafi almennt fordæmisgildi.
Enginn vilji hefur verið hjá ríkisstjórninni að taka á gengistryggðum lánum á heildstæðan máta, þrátt fyrir að talsmaður neytenda hafi lagt fram tillögur á sínum tíma um gerðardóm til að leita ásættanlegrar lausnar fyrir bæði lánveitendur og lántakendur.
Á sama tíma og ráðherrar varpa frá sér allri ábyrgð og segja beinlínis að hver og einn þurfi að stefna bönkum og eignaleigufyrirtækjum hafa þeir markvisst unnið að því að draga úr möguleikum almennings til að gera einmitt það. Stjórnvöld hafa hækkað kostnað við málsóknir og ekkert gert til að auka möguleika fólks til gjafsóknar.
Tryggjum réttláta meðferð
Ég hef því ákveðið að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi þar sem heimilt verður að óska eftir flýtimeðferð fyrir héraðsdómi og Hæstarétti ef viðkomandi hyggst höfða mál vegna lögmætis lána- og kaupleigusamninga sem eru gengistryggðir. Jafnframt verði nauðungarsölum vegna samskonar lánasamninga frestað þar til niðurstaða liggur fyrir hjá Hæstarétti um lögmæti þeirra.
Vonast ég eftir að sem flestir þingmenn gerist meðflutningsmenn með mér í þessu máli, svo hægt verið að aflétta sem fyrst réttaróvissu, takmarka hugsanlega skaðabótaábyrgð málsaðila og tryggja hraða og réttláta meðferð þessara mála í dómskerfinu.
(Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2010)
15.2.2010 | 15:32
Slæleg vinnubrögð umhverfisráðherra
Stjórn Samtök sunnlenskra sveitarfélaga samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum þann 12. febrúar kl. 11.00:
,,Stjórn SASS gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu umhverfisráðherra að synja aðalskipulagi sveitarfélaganna beggja staðfestingar. Sú niðurstaða er ekki í samræmi við stjórnsýslu umhverfisráðherra á undanförnum árum sem hefur margsinnis staðfest aðalskipulagstillögur þar sem þeir aðilar sem að framkvæmdum standa hafa kostað breytingar á aðalskipulagi. Greinilegt er að jafnræðis hefur ekki verið gætt og nauðsynlegt er því að ráðherrann geri sérstaklega grein fyrir því misræmi. Réttaróvissa um fyrri staðfestingar umhverfissráðherra á aðalskipulagi hefur einnig skapast sem sveitarfélögin geta ekki búið við.
Þá er synjun ráðherrans í algjöru ósamræmi við markaða stefnu umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytisins sem hefur tvisvar frá árinu 2007 lagt fram frumvörp þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin geti lagt á gjöld til að mæta kostnaði við skipulagsvinnu.
Almenn samstaða var um þetta sjónarmið enda þótt frumvörpin hafi ekki verið afgreidd. Raunar er ekkert í núverandi lögum sem bannar slíkt. Afar óeðlilegt er að að slíkur kostnaður sé greiddur af almennu skattfé og þar með íbúum viðkomandi sveitarfélaga. Ljóst má vera að
gjaldtökuheimild frumvarps til skipulagslaga sem lagt var fram á vorþingi 2008, en varð ekki að lögum á því þingi, er mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra og hljóta sveitarfélögin því að leggja áherslu á að áfram verði gert ráð fyrir slíkri lagaheimild þrátt fyrir fyrrgreindar ákvarðanir umhverfisráðherra.
Þá vekur athygli að umhverfisráðherra sem réttlætir ákvörðun sína með vísan til skipulagslaga skuli á sama tíma brjóta skýr fyrirmæli laganna um þann tímafrest sem ráðherra hefur til að taka ákvörðun um staðfestingu aðalskipulags. Aðalskipulagstillögur sveitarfélaganna
voru samþykktar annars vegar fyrir 11 mánuðum og hins vegar fyrir 14 mánuðum, en ráðherrann hefur 6 mánað frest skv. lögunum.
Stjórn SASS átelur einnig harðlega að ráðherrann skuli með ákvörðunum sínum leggja stein í götu virkjanaframkvæmda sem hafa mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðfélag í miðri efnahagskreppu.
Fyrir liggur að Landsvirkjun hefur þegar frestað viðræðum við fyrirtæki um sölu á orku. Stjórn SASS vekur sérstaka athygli á að um virkjun endurnýjunarlegrar orku er að ræða. Samkvæmt fyrri hluta rammaáætlunar frá 2003 þá er ljóst að virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár eru meðal þeirra allra vænlegustu m.t.t. til umhverfissjónarmiða auk þess sem um hagkvæma virkjunarkosti er að ræða.
Að endingu mótmælir stjórn SASS sérstaklega þeim ávirðingum sem fram koma í úrskurði ráðherrans um að sveitarstjórnarmenn hafi þegið greiðslur frá Landsvirkjunar vegna funda í tengslum við skipulagsgerðina. Upplýst er að svo hafi ekki verið og hafði ráðuneytinu verið grein fyrir því áður en úrskurðinn var upp kveðinn.