Gefum þorskinum séns, segir Binni

Þetta kalla ég að sýna kjark.  Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Krisgeirsson eða Binni, sýnir enn á ný að það segir honum enginn fyrir verkum.  Á skip.is er vitnað í grein sem hann ritaði í nýjasta tölublaði Fiskifrétta:

,,Við verðum að draga úr sókn í þorskinn, með öðrum orðum að minnka heildarkvóta í þorski um nokkurra ára skeið.  Slíkt mun verða sjávarútveginum dýrt á meðan á því stendur, en stjórnmálamenn geta lagt sitt af mörkum til að draga úr sársaukanum á samdráttarskeiðinu og stutt jafnframt sjávarútveginn við uppbyggingu til lengri tíma litið.” 

Í greininni skorar hann á menn að skoða niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um ástand þorskstofnsins.  Hér má finna slóð á vefsíðu Hafró með aflahorfur 2006/2007. 

Núverandi aflaregla hefur verið að aflamark næsta fiskveiðiárs reiknast sem 25% af meðaltali viðmiðunarstofns í upphafi úttektarárs og næsta árs á eftir.  Að auki mega breytingar á úthlutuðu aflamarki ekki sveiflast um meira en 30 þús. tonn á milli ára. 

Stofnunin mælir með að þessu verði breytt og aflareglan verði 18% eða lægri til að ná hrygningarstofninum í ásættanlega stærð. 

Þetta er eitthvað sem ég vil styðja við og tel raunar lífsnauðsynlegt ef við eigum að tryggja viðgang sjávarbyggðanna og sjávarútvegsins hér á landi um ókomna tíð. 


Hver á að draga úr gróðurhúsaáhrifunum?

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um gróðuhúsaáhrifin og breytingar á loftslagi heimsins hefur verið mikið í fréttum upp á síðkastið.  Með fréttunum hafa fylgt lýsingar á áhrifum hækkandi hitastigs, þar á meðal bráðnun jökla, hækkandi sjávaryfirborð og óútreiknanlegt veður.  Síðan hafa sérfræðingar stigið fram og sagt að þetta verður nú ekki alslæmt fyrir okkur Íslendinga, allavega næstu 50 -100 árin.  Hafsstraumar munu líklega ekki breytast, bráðnun jökla þýðir meiri framleiðsla á rafmagni og veðrið mun batna. 

Svona áður en rokið er til til að kaupa ný sundföt og sólgleraugu, ætla ég að velta fyrir mér hvað við getum gert til að stoppa þessa þróun.  Margir benda á uppbyggingu stóriðju,  og ljóst er að iðnaður og álver þar á meðal eiga sinn hlut í losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis.

Landvernd hefur verið með Loftslagsverkefni í gangi sem skilaði af sér tillögum um aðgerðir árið 2005.  Í verkefninu kom fram eftirfarandi skipting heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi eftir atvinnugreinum (2001):

  • Jarðhiti 5%
  • Fiskiskip 20%
  • Iðnaður 36%
  • Heimili: 1%
  • Samgöngur og tæki 26%
  • Annað 12% 

Í framhaldi af verkefninu lagði Landvernd til nokkrar tillögur um aðgerðir.  Meðal þeirra helstu voru:

  1. Breyta olíu- og bensíngjaldi í koldíoxíðsskatt sem eigi að skila sama í ríkissjóð og olíu- og bensíngjöld plús vörugjöld áður.
  2. Km-gjald á allan akstur (breytilegt eftir bifreiðum og því álagi sem þær valda á vegakerfi, umhverfi og umferðaröryggi. Hærri taxta á álagspunktum í anda veggjalda).
  3. Stjórnvöld komi á efnahagslegum hvötum svo einkaaðilar sjái sér hag í því að draga úr losun gróðhúsalofttegunda frá eigin starfsemi, eða styrkja aðgerðir sem miða að því að binda kolefni til að vega upp á móti losun viðkomandi fyrirtækja.
  4. Stofna kolefnissjóð sem einkaaðilar geta fjárfest í.
  5. Samning við fyrirtæki í ferðaþjónustu um að bjóða kolefnisfría þjónustu t.d. flugmiða þar sem innifalið er í verði kolefnisbinding á móti því kolefni sem losnar við bruna eldsneytis við flugið.
  6. Þungaskattur vöruflutningabíla verði hækkaður til samræmis við tilkostnað vegna slits sem þeir valda á vegum.
  7. Hafnargjöld vegna strandflutninga verði lækkuð til samræmis við tilkostnað.
  8. Stjórnvöld innleiði hvatakerfi sem stuðli að bættri eldneytisnýtingu fiskiskipa ásamt eflingu rannsókna og þróunar á sviði veiðiaðferða og orkunýtingar fiskiskipa. (Bara þetta eitt er áætlað geta leitt til 40% minni losunar en ella árið 2030 hjá greininni). 

Sem sagt fullt af aðgerðum sem snúa að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi.  T.d. kom fram að tegund veiðafæra hjá fiskiskipum skiptir miklu máli varðandi orkunotkun og krefjast togveiðarfæri langmestrar orku.

Því miður hefur lítið verið fjallað um þessar tillögur Landverndar,  og er það einna helst km-gjaldið sem hefur heyrst af úr Samgönguráðuneytinu.  Ekkert hefur heyrst frá Sjávarútvegsráðuneytinu, nema vera skyldi mótmæli þeirra við fyrirhuguðu banni Sameinuðu þjóðanna við botnvörpuveiðum (lesist: togveiðarfæri) á úthöfunum.

Ég spurði í upphafi hver á að draga úr gróðurhúsaáhrifunum?  Að mínu mati verðum við öll að fara hysja upp um okkur buxurnar og gera okkar til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum. 

Undirrituð þar á meðal. 


Ég vil iPhone

Það viðurkennist hér með.  Ég vil fá mér nýjan síma og ekki bara hvaða síma sem er, heldur iPhone.   Yfirleitt er það eiginmaðurinn sem fellur fyrir svona dóti, en í þessu tilviki held ég það verði nauðsynlegt að kaupa tvo ef ekki eiga koma upp heiftarlegar umræður um nýja dótið, notkunar- og eignarrétt.  

Ég hef lengi talað um að ég skil ekki af hverju allt tæknidótið er ekki gert einfaldara.  T.d. nota myndir og snertiskjái í staðinn fyrir tölustafi og hnappa.  Steve Jobs hlýtur að hafa verið að hlusta því hann er að uppfylla alla mína drauma og bæta þó nokkrum við.  

Ef þið trúið mér ekki kíkið endilega á iPhone á vefnum. 

Sumir eru ekki jafn hrifnir (lesist: samkeppnin) og hér getið þið lesið sumt af því sem þeir segja. 

PS. Þetta heitir víst óbein markaðssetning en það verður bara að hafa það.  Ég varð að tjá hrifningu mína og svo er sunnudagur og þá er við hæfi að viðhafa léttara hjal Smile


Bankarnir græða víst á okkur!

Undur og stórmerki gerast enn.  Af einhverri ástæðu komst Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, í Spegilinn til að benda á að ég ásamt öðrum sem teljast til almennings á Íslandi á stóran þátt í hagnaði íslensku bankanna.  

Áróðursmaskína bankana hefur heldur betur klikkað hér.   Viðbragðsferli þeirra við ofurhagnaðartölunum hefur verið að yfirmenn bankanna og litli jakkafatagaurinn hjá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja hafa trítlað fram í fjölmiðlum og útskýrt fyrir okkur, sauðsvörtum almúganum að í raun hefði þetta ekkert með okkur að gera.  Þess vegna væri ekkert svigrúm til að lækka vexti, þjónustugjöld eða styðja við bakið á okkur í baráttunni um að fella niður stimpilgjaldið.

Og svo er málið ekki rætt frekar.

Áróðursmaskínan hefur staðið sig svo vel að ég var farin að hafa áhyggjur að bankarnir væru bara ekki að græða nóg á okkur.  Að þeir væru hreinlega að gera okkur greiða með því að vera hérna og styðja við bakið á okkur vesalingunum, í staðinn fyrir að flytja bara til útlanda þar sem þeir væru virkilega að græða alvöru pening.

Samkvæmt Ólafi Darra eru verðbólgutekjur bankanna af verðtryggðu lánum almennings að skila 36 milljörðum og vextir af yfirdráttarlánum almennings skiluðu 15 milljörðum á síðasta ári.  Síðan eru víst einhver þjónustugjöld sem við erum að borga o.fl.  

Líður okkur ekki öllum miklu betur núna?   


Fleiri álögur á landsbyggðina?

Lagt er til af starfshópi á vegum Umhverfisráðherra að draga úr svifryksmengun með m.a. lækkun gjalda á "góð dekk" sem eru loftbólu- og grófkornadekk.  Ég skil þessi sjónarmið og tel mikilvægt að dregið verði úr svifryksmengun sem hefur oft verið að mælast vel yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu. 

En er þetta ekki landsbyggðarskattur?  Það getur vel verið að það sé ekkert mál að aka án nagladekkja á Akureyri og Reykjavík en hvað  með dreifbýlið?   Í greininni er sagt að:  "Í því sambandi ber hæst að starfshópurinn telur ekki raunhæft að banna nagladekk, miðað við þær margbreytilegu aðstæður sem við er að glíma í vetrarakstri á Íslandi."

Ég hef þurft að ferðast mikið um Suðurkjördæmi á undanförnu og virðurkenni að eitt af því fyrsta sem ég gerði áður en ég lagði í þau ferðalög var að setja nagladekk á bílinn.  

Er alveg á hreinu að grófkorna- og loftbóludekkin eru jafn góð í hálku og slæmri færð?  Það virðist starfshópurinn ekki tilbúinn til að fullyrða, og væntanlega mun fólk sem keyrir mikið utan þéttbýlisstaðanna yfir veturinn (lesist: íbúar dreifbýlisins) þurfa greiða meira fyrir sín dekk.

Sem sagt enn einn landsbyggðarskatturinn.

mbl.is Vilja lækka gjöld á ónegldum hjólbörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir og þjóðlendurnar

Ég held að margir jarðeigendur sem hafa átt í deilum við ríkið um eignarupptöku á landi sínu  sitji núna og klóri sér í kollinn.   

Var sem sagt ekkert að marka þessa eignarupptöku eða þjófnað á landi eins og sumir hafa kallað aðfarir óbyggðanefndar og fjármálaráðuneytisins? 

Í frétt mbl.is segir Geir H. Haarde forsætisráðherra að frumvarpið sé "...mikilvægt til að draga úr öllum vafa um að Landsvirkjun hefði þetta svæði til ráðstöfunar með sama hætti og reikningar fyrirtækisins hefðu gert ráð fyrir og lánardrottnar gengið út frá. Því væri um sértæka aðgerð að ræða."

Þetta hlýtur að gilda líka um aðrar jarðir sem ríkið hefur gert að þjóðlendum.  Margir jarðeigendur töldu sig vera með þinglýstar eignir og hafa án efa veðsett þær eignir að einhverju marki.  Hvernig getur forsætisráðherrann svo haldið því fram að um sértæka aðgerð sé að ræða.

Eða er sértæka aðgerðin kannski bara sú að þetta er Landsvirkjun?  

 


mbl.is Þjóðlendur í einkaeign?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG gegn Ómarisma

Kolbrún Halldórsdóttir skrifaði stuttan en hnitmiðaðan pistil á heimasíðu sinni um hugmyndir Ómars Ragnarssonar um að endurvekja rúntinn.

Þar segir hún: "...Bílar í báðar áttir, á báðar hendur, akandi án markmiðs, hring eftir hring, blásandi og spúandi. Meiri útblástur, meira svifryk, meiri hljóðmengun. Og minna pláss fyrir gangandi vegfarendur..."

Ég hafði nefninlega líka setið yfir þessu sama Kastljósi og fannst e-hv furðulegt við þennan bút.  Er Ómar ekki orðinn umhverfissinni?  Hann hlýtur að vera búinn að leggja bílnum sínum og flugvélinni, er það ekki?  Er hann ekki örugglega farinn að ganga og hjóla um allt? Af hverju hefur hann svona miklar áhyggjur af minni bílaumferð um miðbæinn?

Að mínu mati er þetta bara enn eitt dæmið um hvað við Íslendingar eru skammt á veg komin í sambandi við umhverfismál.  Við sorterum ekki ruslið okkar í neinu mæli, við höfum aldrei ferðast meira með flugvélum, við viljum gsm-möstur út um allt land, við teljum eðlilegt og gott að plægja hafsbotninn með botnveiðarfærum, við ræðum ekki einu sinni mengunina sem fiskiskipaflotinn veldur og við viljum gjarnan keyra um allt landið á stórum amerískum bensín jeppum.  

En það er gott að sjá að Kolbrún er allavega samkvæm sjálfri sér. 

Nú er bara að vona að Steingrímur J. sé búinn að fá sér umhverfisvænt farartæki í stað Toyotu Land Cruiser jeppans sem hann keyrði um á hérna áður fyrr.


Þöggun MATÍS?

Í nýjasta tölublaði BHM tíðinda skrifar Stefán Aðalsteinsson um aðfarirnar við sameiningu Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, rannsóknarstofnun Umhverfisstofnunar og Matvælarannsóknir Keldnaholti í fyrirtækið Matís ohf.

Þar bendir hann á að lítil umræða hefur verið um þá staðreynd að um 20% starfsmanna þessara stofnana hafa ákveðið að þiggja ekki nýráðningu hjá Matís.  Þetta sé alveg einstakt við hlutafélagavæðingu opinberra stofnana, og meira segja virðist hafa gengið betur hjá Flugstoðum en hjá Matís.

Hverju er um að kenna?  Skv. Stefáni má rekja þetta til óbilgirni stjórnar og stjórnenda Matís en í nýjum ráðningarsamningi sem starfsmönnum var boðinn voru ákvæði um að starfsmenn fái ekki greitt fyrir yfirvinnu sína og sinni öllum störfum sem þeim eru falin.

Engar takmarkanir eru þannig á hversu mikla vinnu yfirmenn félagsins geta krafist að starfsmenn inni af hendi.

Eru þetta mun verri kjör en starfsmennirnir höfðu áður, en þá takmarkaðist vinnan við 20% af dagvinnu og fengu starfsmenn greitt sérstaklega fyrir hana.

Í lokaorðum sínum segir Stefán: "Eftir stendur því að starfsmönnum Matís ohf. eru boðin verri ráðningarkjör en áður.  Ekki verður séð að slíkt hafi verið vilji Alþingis ... og ekki ætla ég sjávarútvegsráðherra, sem fer með eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu, það heldur enda er það brot á aðilaskiptalögunum sem gilda um þetta fyrirtæki."

Það skyldi nú aldrei vera að sjávarútvegsráðherra vilji þagga niður þetta mál? 


mbl.is Einar K. farinn að blogga á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2100 - 59

Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi samþykkti framboðslistann sinn í gær.  Kosið var um tvær tillögur, annars vegar tillögu kjörstjórnar um að utanaðkomandi tæki 3. sætið á listanum og hins vegar tillögu um að færa listann upp og láta niðurstöðu prófkjörsins gilda.

Fyrst var kosið um tillöguna um að færa listann upp og var hún felld með naumum meirihluta, 59 atkvæðum gegn 49.

Síðan var tillaga kjörstjórnar samþykkt.

Hmmm.  Rúmlega 2.100 atkvæði sem ég hlaut í prófkjörinu eða 59 atkvæði á kjördæmisþinginu? 

Ég hef talað mikið í þessari viku um mikilvægi þess að virða leikreglur lýðræðisins, hvort sem um er að ræða kosningar til Alþingis, sveitarstjórnar eða prófkjörs.  Því skal það aldrei sagt að ég virði ekki leikreglur lýðræðisins.  Ég tel mikilvægt að ofarlega á listanum sé manneskja sem líti á sig sem fulltrúa alls kjördæmisins og er ekki rígbundin á klafa þúfupólítíkur. 

Ég mun því hlusta á raddir þeirra sem kusu mig og vildu sjá mig á lista Framsóknarmanna fyrir kosningar í vor. 

 


Virðum leikreglur lýðræðisins!

Stjórn Framsóknarfélags Vestmannaeyja var að álykta í framhaldi af frétt í Blaðinu í morgun.

Hér er ályktunin.

Hér er hægt að skoða fréttina í Blaðinu, í dag 26.01.2007


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband