22.2.2007 | 17:28
Skák bara fyrir stráka?
Á föstudaginn ætla ungir skákmenn í Taflfélagi Vestmannaeyja að reyna að tefla samfleytt í 24 klst í fjáröflunarskyni. Taflfélagið hefur staðið fyrir mjög öflugu starfi í Eyjum og margir af bestu skákmönnum landsins á aldrinum 6-13 ára er frá Vestmannaeyjum.
Dóttir mín er ein þeirra sem hafa verið að mæta á æfingar hjá Taflfélaginu og mun mæta til að tefla á föstudeginum. Mætti hún heim með blað þar sem bæjarbúar voru hvattir til að mæta, tefla við skákmennina ungu og heita á þá ákveðinni upphæð. Því hikstaði ég aðeins þegar ég las eftirfarandi setningu: "Eru bæjarbúar hvattir til að kíkja á skákstað og tefla við strákana. Með undirskrift minni heiti ég á drengina..."
Síðan heyrði ég í einum forráðamanni skákfélagsins og þá kom að sjálfsögðu í ljós að þetta voru bara mistök. Í samtali okkar veltum við líka fyrir okkur hver er ástæðan fyrir því að stúlkur eru mun færri í skákklúbbum en strákar. Skyldi það vera sama ástæðan og að strákar eru mun færri í fimleikum og ballett? Af því að við foreldrarnir (eða jafnvel mæðurnar) veljum fyrir börnin okkar og veljum í samræmi við mótaðar hugmyndir okkar um hvað sé gott fyrir stráka og hvað sé gott fyrir stelpur.
Ég veit allavega að ég vil að dóttir mín haldi áfram að tefla því það er skemmtilegt, krefst hugsunar og einbeitingar og getur nýst henni vel í námi og starfi í framtíðinni.
Því segi ég að skák á að vera jafnt fyrir bæði stelpur og stráka, - alveg eins og fótboltinn, tennisinn og ballettinn.
22.2.2007 | 16:24
Vald fólksins
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með blogginu og pólitíkinni á undanförnu um fyrirhugaða klámráðstefnu. Fréttin var ekki fyrr farin í loftið en að allt ætlaði bókstaflega að verða vitlaust á blogginu. Menn kölluðu eftir aðgerðum og ályktanir fóru að berast í stríðum straumum frá hinum ýmsu félögum og samtökum.
Meira að segja allir þingflokkar á Alþingi og borgarstjórnarflokkar í Reykjavík voru allt í einu sammála. Þetta gæti ekki gengið. Mér fannst fréttin ekki góð, og varð bara verri þegar ég gerði mér grein fyrir að ráðstefnan yrði haldin á sama hóteli í byrjun mars líkt og flokksþing okkar Framsóknarmanna.
Allt þetta hafði áhrif, því nú var að berast sú frétt að Radisson SAS hótelið og bændasamtökin hefðu ákveðið að vísa klámframleiðendunum á dyr. Viðskipti þeirra væru óæskileg og virtist talsmaður bændasamtakanna hafa litlar áhyggjur af hugsanlegri skaðabótaskyldu.
Aukin áhrif almennings eru eitt af því sem má kalla nýja trenda í stjórnmálum í dag. Fólk hefur mun meiri aðgang að upplýsingum og er betur menntað auk þess sem vald fjölmiðla (sjónvarp, útvarp, blöð og blogg) hefur aldrei verið meira. Pólitísk hugmyndafræði er að þróast meira fyrir utan hið hefðbundna flokkakerfi og má t.d. nefna Framtíðarlandið, Sólarsamtökin, hagsmunasamtök aldraðra og öryrkja o.s.frv.
Því finnst mér eins og við sem erum að vinna innan hins hefðbundna flokkakerfis eru miklu frekar að bregðast við hugmyndum en að móta þær.
En í þessu tilviki var allavega brugðist mjög hratt og vel við.
Valdið til fólksins!
![]() |
Klámframleiðendur ætla að leita lögfræðiaðstoðar vegna fjárhagslegs tjóns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2007 | 11:47
Frjálslyndir karlar
Frjálslyndi flokkurinn virðist vera að klára listana sína fyrir Alþingiskosningarnar. Athygli vekur að eftir að Margrét Sverrisdóttir yfirgaf skútuna er eins og frjálslyndu karlarnar hafi bara gefist upp á konum. Allavega virðast þeir ætla að skipta bróðurlega á milli sína fyrstu sætunum á listunum, og konur verða væntanlega bara neðar svona til "skrauts" eins og Jón orðað svo pent í títtnefndum tölvupósti.
- Grétar Mar Jónsson í Suðurkjördæmi
- Magnús Þór Hafsteinsson í Reyjavík
- Jón Magnússon í Reykjavík
- Valdimar Leo Friðriksson í Kragann
- Guðjón Arnar og Kristinn H. í NV-kjördæmi
- Sigurjón Þórðarson í NA-kjördæmi
Svo er bara að sjá hvort þeim takist að draga upp einn útlending eða tvo á listana til að halda sama hlífiskildi yfir flokknum og Margrét gerði árum saman gagnvart konum.
![]() |
Magnús Þór væntanlega í framboð í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2007 | 22:30
Hver stal trjánum?
Varla hefur það verið Trölli, enda var hann meira í að stela jólunum og eins og einu jólatréi. En að öllu gamni sleppt þá hefur það verið kunnuglegt að fylgjast með tilburðum Gunnars Birgissonar og verktakafyrirtækisins Klæðningu við að verja gjörðir þeirra í Heiðmörkinni.
Málavextir eru að verktakar á vegum Klæðningar voru teknir við að grafa mikinn skurð vegna vatnsleiðslu í Heiðmörk, þ.á.m. í Þjóðhátiðarlundinum, á landsvæði Reykjavíkurborgar og án framkvæmdaleyfis. Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur ætlar að kæra Klæðningu og Kópavogsbæ fyrir jarðrask og spjöll í Heiðmörk vegna lagningar vatnsleiðslunnar. Gengið verður frá kærunni í dag og hún send lögreglu til meðferðar. Fréttamenn stöðvar 2 grófu upp að svo virðist sem hluti trjánna, sem rifin voru upp vegna framkvæmdanna,voru flutt á geymslusvæði í Hafnarfjarðarhrauni en bara hluti þeirra. Stærstu tréin eru ekki þar.
Gunnar Birgisson mætti svo sjálfur í Kastljósið í kvöld þar sem hann hélt því fram að allt þetta væri Reykjavíkurborg að kenna þar sem þeir hefðu klikkað á að gefa út framkvæmdaleyfi samkvæmt samningi á milli sveitarfélaganna og að Klæðning hefði bara verið að passa að trjánum yrði ekki stolið.
Þetta allt saman rifjaði upp minningar frá búsetu minni í Kópavogsbæ en áður en ég gerðist Eyjakona bjó ég í Salahverfi í Kópavogsbæ. Á þeim tíma stóðu Gunnar og verktakafyrirtækið hans að mikilli "jarðvegssýnatöku" við Elliðavatn. Ekki var búið að ganga fyllilega frá öllum leyfum og pappírum, og var gerð athugasemd við að verið væri að taka út grunna fyrir byggingaframkvæmdir. Gunnar hélt því statt og stöðugt fram að þetta væri allt fullkomlega eðlilegt, - bara smá jarðvegssýni. Síðan keyrði maður fram hjá Gunnari og gröfunum hans við sístækkandi holu (sem minnti ansi mikið á grunn) við Elliðavatn. Veit ekki betur en að jarðvegssýnaholan hafi verið nýtt sem grunnur fyrir hús.
Kannski er ekki að undra að Klæðningu fannst ekkert óeðlilegt við að hefja gröftinn án framkvæmdaleyfis, - því það læra börnin sem fyrir þeim er haft...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2007 | 20:57
Já, forseti
Skyldi Ólafur Ragnar Grímsson vera að íhuga að skipa sinn forsætisráðherra eftir næstu kosningar? Í Silfri Egils um helgina tjáði forsetinn sig um skilning hans á stjórnskipulegri stöðu forsetaembættisins og benti á að forsetinn heyri ekki undir neitt ráðuneyti, - og frekar mætti líta á að stjórnskipulega séu ráðuneyti deild í forsetaembættinu.
Ef þetta er svo, er eitthvað því til fyrirstöðu í stjórnarskrá Íslands að forsetinn skipi hvern þann sem honum hugnast sem forsætisráðherra? Bara Jón Jónsson út í bæ? Kemur einhver staðar fram í stjórnarskránni að ráðherrar verði að vera alþingismenn eða að Alþingi verði að samþykkja skipun ráðherra?
Ekki hef ég rekist á það í stjórnarskránni, en það kemur skýrt fram að forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim (15. gr.) og hann getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það. (20.gr.) Lög nr. 33/1944. Alþingi getur hafnað þessu með því að leysa hann frá störfum (3/4 atkvæða) og þá þarf að kjósa um hvort skipta eigi út forsetanum í þjóðaratkvæðagreiðslu... (11.gr.) og svo til að gera starfið enn skemmtilegra ber hann enga ábyrgð á nokkru sem ráðherrar hans gera.
Haldið þið ekki að það væri gaman að skoða forsíðu Moggans og leiðarann morguninn eftir?
19.2.2007 | 17:45
Kennslustund í almannatengslum?
Það er áhugavert að sjá að fyrirtæki telja ástæðu til að tilkynna sérstaklega að þeir ætli að lækka verð þegar virðisaukaskattur mun lækka um næstu mánaðarmót. Umræðan hefur verið þannig að væntanlega er ástæða fyrir fleiri fyrirtæki en Skjáinn að tilkynna neytendum um fyrirhugaða lækkun.
Ég vona að við munum öll finna fyrir áhrifum af lækkuninni, ekki bara beint heldur líka í gegnum vísitölur = verðtryggðu lánin okkar.
Allavega er einhver í almannatengslum hjá Skjánum að vinna fyrir kaupinu sínu
![]() |
Skjárinn lækkar áskriftarverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2007 | 09:55
Ráðherra í 2.604 daga
Valgerður Sverrisdóttir var að ná þeim áfanga að vera sú kona sem lengst hefur setið í stól ráðherra hér á landi. Rósa Guðrún Erlingsdóttir, ein af Trúnó konum, veltir fyrir sér í framhaldi af þessari frétt tilhneigingu talsmanna flokka til að hreykja sér af bara "...30%, 25% eða jafnvel 17% jafnrétti á framboðslistum, í ríkisstjórn, á Alþingi eða í bæjar- og sveitarstjórnum." í pistli sínum Hausatalning og tímamæling - saga öll? Ég benti einmitt nýlega á skrif Ágústs Ólafs, varaformanns Samfylkingarinnar um "góða stöðu" flokksins í jafnréttismálum, en aðeins ein kona (tæp 17%) leiðir lista Samfylkingarinnar fyrir næstu alþingiskosningar.
Hugsanlega er ein ástæðan fyrir þessari stöðu hjá Samfylkingunni að fólk þar fór að líta á jafnrétti sem eitthvað sjálfsagt. Eitthvað sem myndi gerast af sjálfu sér þar sem kona væri orðin formaður flokksins. Þetta er eitthvað sem Framsóknarmenn gera ekki. Við vitum að jafnrétti er ekki eitthvað sem er sjálfsagt hvorki innan flokksins eða utan, - heldur þarf að minna á það hvern einasta dag.
- Þess vegna var eftirfarandi grein samþykkt á flokksþingi 2005: "Við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægra en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Jafnréttisnefnd og LFK skulu eftir þörfum vera til ráðgjafar um að ná markmiði þessu fram."
- Þess vegna hefur Valgerður Sverrisdóttir ekkert sérstaklega hampað verkum sínum við að reyna að rétta hlut kvenna í atvinnulífinu, s.s. fjölgun kvenna í stjórnun fyrirtækja, sérstök áhersla á að veita konum sem hyggja á atvinnurekstur aðstoð við stofnun fyrirtækja í gegnum Impru og námskeiðið Brautargengi, Lánatryggingarsjóður kvenna, né verkum sínum í Utanríkisráðuneytinu s.s. breyttum áherslum í þróunarsamvinnu.
- Þess vegna eru 50% konur sem leiða lista hjá okkur, og af 12 efstu mönnum eru 42% konur.
Því við Framsóknarmenn vitum að það er ekki nóg að tala bara um pólitískan vilja til breytinga.
![]() |
Lengst kvenna í ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.2.2007 | 16:48
82,9% vilja Íbúðalánasjóð áfram
Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, hefur verið einn þeirra sem hafa haft andúð á starfsemi sjóðsins og talið að best væri að gera sjóðinn að heildsölubanka eða hreinlega leggja hann niður. Því er ekki að undra að það komi fram ákveðinn pirringur í garð sjóðsins í nýlegum pistli hans um viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs meðal almennings. Í síðustu könnun kom nefnilega fram að 80% af íslenskum almenningi er mjög eða frekar jákvæður gagnvart sjóðnum. Langflestir eða 82,9% vilja sjá sjóðinn starfa áfram í óbreyttri mynd og aðeins 6,4% vilja sjá bankana taka alfarið yfir íbúðalán.
Eitt af því sem Borgar Þór og ég höfum verið mest ósammála um er sú skoðun hægri manna að best sé að einkaframtakið sjái um nánast alla þætti samfélagsins. Ég hef ekki séð að einkavæðing Landsímans hafi skilað miklu, ég sé ekki hvernig einkavæðing RÚV ætti að skila betri þjónustu og það er langt frá því að bankarnir njóti sama trausts meðal almennings og Íbúðalánasjóður.
Því styð ég að Íbúðalánasjóður starfi áfram í óbreyttri mynd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.2.2007 | 13:56
Stoppum bankaokrið
Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur á undanförnu vakið athygli á hversu gífurlega vaxtatekjur og þjónustugjöld bankanna hafa aukist frá því þeir voru einkavæddir. Á fjórum árum, frá 2002-2006 hækkuðu vaxtatekjurnar úr rúmum 24 milljörðum upp í tæpa 131, eða um 435% og þjónustutekjurnar um 594% eða úr rúmum þrettán milljörðum króna upp í rúma 92.
Bankarnir hafa enn á ný brugðist við þessum tölum með því að kenna Seðlabankanum um. Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sagði í viðtali við FBL: Bankarnir stjórna því ekki hverjir vextirnir eru í hagkerfinu. En stjórna þeir ekki hver vaxtamunurinn er á milli stýrivaxta Seðlabankans og bankanna? Stjórna þeir ekki líka hversu mikið þeir rukka í þjónustugjöld?
Allavega telur Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, að miðað við hagnað bankanna eigi þeir að geta boðið fólki miklu betri kjör. Hann segir:...stýrivextir Seðlabankans segja nákvæmlega ekki neitt um upphæð þeirra þjónustugjalda sem bankarnir eru að taka og það er vandamálið, það er vaxtamunurinn og þjónustugjöldin. Þótt talsmenn bankanna telji sig lítið hafa um vaxtamuninn að segja, þá hefur almenningur og stjórnvöld heilmikið um að segja hvort hvatt sé til aukinnar samkeppni í fjármálageiranum.
Því vil ég hvetja Jón Sigurðsson til aðgerða gegn fákeppni á bankamarkaði með því að auðvelda nýjum bönkum að koma til landsins og fólki að flytja sig á milli banka s.s. með því að fella niður opinbera gjaldtöku á lánum. Viðskipta- og iðnaðrráðuneytið hefur sýnt og sannað að það er fullfært um að laða erlend stórfyrirtæki til landsins og ég er sannfærð um að SE banken eða Danske bank hefðu bara gaman af því að keppa við Kaupþing og Glitni á heimavelli.
17.2.2007 | 13:38
Catherine de Medici
Lengi hef ég haft áhuga á ævisögum kvenna sem höfðu áhrif á sögu mannkyns. Þær voru óvanalega margar á sextándu öldinni. Sú þekktasta er eflaust Elizabeth I Englandsdrottning en samtíma henni voru Mary Tudor, Mary Stuart og Marie of Guise, móðir Mary Stuart. Í Hollandi stjórnaði Margaret af Austurríki og Margaret af Parma og Juana de Loca var að nafninu til drottning Castile eftir móður sína Isabellu. En sú alræmdasta og áhrifamesta var án efa Catherine de Medici.
Catherine de Medici var eiginkona Henri II, móðir Francis II, Charles IX og Henri III Frakklandskonunga og Elisabeth Spánardrottningar og Margot drottningar af Navarre og Frakklandi og tengdamóðir Mary Stuart, Skotadrottningar. Sú mynd sem ég hafði af henni var svartklædda ekkjan í bíómyndinni La Reine Margot þar sem haldið er fram að hún hafi viðhaldið völdum sínum og sona með líkamsmeiðingum, fjöldamorðum og sifjaspellum.
En hvað er satt og hvað er logið?
Áhugi minn á Catherine de Medici vaknaði fyrir alvöru þegar eiginmaður minn og ég heimsóttum Chateau de Chenonceau eða Chateau des Dames fyrir tveimur árum. Höllina tók Catherine af Diane de Poitiers, ástkonu eiginmanns síns eftir andlát hans. Í bókinni Catherine de Medici eftir Leonie Frieda, færir höfundur rök fyrir því að hún hafi verið að berjast fyrir börnunum sínum, og án hennar hefðu synir hennar aldrei haldið völdum. Frakkland logaði stafnanna á milli í trúardeilum á milli mótmælenda og kaþólikka auk þess sem áhrifamiklir aðalsmenn og þjóðhöfðingjar annarra landa hefðu ásælst Frakkland.
Henry IV, tengdasonur hennar og konungur Frakklands skrifaði um hana: I ask you, what could a woman do, left by the death of her husband with five little children on her arms, and two families of France who were thinking of grasping the crown--our own [the Bourbons] and the Guises? Was she not compelled to play strange parts to deceive first one and then the other, in order to guard, as she did, her sons, who successively reigned through the wise conduct of that shrewd woman? I am surprised that she never did worse.
En Catherine var kona og á sextándu öldinni var ...an aberration for a woman to govern ´monstriferous´... eða eins og John Knox orðaði það (Jane Dunn; Elizabeth&Mary; 2003).
En hvað sem líður viðhorfum John Knox og skoðunum manna á Catherine þá mæli ég með heimsókn til Chenonceau