25.3.2007 | 20:26
Magnað Kastljós
Sunnudagsviðtalið var einstaklega sterkt í kvöld og Eva María sannar enn á ný að hún er einn langbesti sjónvarpsmaður sem við eigum. Það var nokkrum sinnum sem manni vöknaði um auga á meðan viðtalinu við "Baugalínu" stóð. Ég var ótrúlega stolt af kjark og styrk þessarar konu að koma fram og tala svona opinskátt um þessi mál. Mér fannst líka koma svo sterkt fram hvernig kynferðisafbrot brjóta ekki bara niður einstaklinginn sem verður fyrir þeim, heldur fjölskylduna og þá sem standa nálægt.
En um leið að það er hægt að leita sér hjálpar, það er hægt að ná að byggja sig upp aftur.
Það er von, - með því að þegja EKKI!
24.3.2007 | 19:15
Fjármálaráðherra hórumangari?
Fyrsta frétt í kvöld hjá Stöð 2 er nánast eins og framhald af vangaveltum mínu um hvort ríkið megi græða á vændi. Þar kemur fram að ónefndur maður hyggst greiða ríkinu VSK af vændisþjónustu sem hann hefur veitt. Þegar það er búið, ætlar hann að kæra fjármálaráðherra fyrir sem fulltrúa ríkisins, fyrir að vera þriðji aðili. Fjármálaráðherra gæti átt í hættu að lenda í margra ára fangelsi ef málið telst sannað.
Hmmm...
Varla var það þetta sem menn höfðu í hug þegar þeir samþykktu þessar lagabreytingar
22.3.2007 | 17:06
Elizabeth Edwards með brjóstakrabbamein
John Edwards ætlar ekki að hætta baráttu sinni fyrir tilnefningu Demókrata fyrir forsetakosningarnar. Þetta var hann að tilkynna nú fyrir nokkrum mínútum, þrátt fyrir að konan hans hafi verið að greinast aftur með brjóstakrabbamein, og nú ólæknandi. Krabbameinið hefur dreift úr sér og er komið í rifbeinin.
Ég veit ekki hvortþað séu fleiri sem lifa með krabbamein í kringum mig nú en áður, eða hvort fjölgunin sé eðlilegur fylgifiskur þess að eldast. Allavega finnst mér ég þekkja miklu fleiri í dag, en fyrir 5 árum sem eru að berjast við krabbamein, og deyja úr krabbameini.
Næsta laugardag fer ég í jarðarför góðrar vinkonu og félaga, sem lést úr krabbameini. Byrjaði í brjóstinu og fór síðan út um allan líkamann. Yndisleg kona sem kvartaði aldrei og vildi vera bjartsýn á framtíðina.
Edwardshjónin eiga alla mína samúð. Þetta er ekki og verður ekki auðvelt...
![]() |
Edwards hættir baráttu fyrir útnefningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.3.2007 | 09:18
Má ríkið græða á vændi?
Í Alþingi var samþykkt breyting á almennum hegningarlögum hvað varðar kynferðisbrot. Nú er ekki lengur ólöglegt að stunda vændi. Hins vegar er áfram ólöglegt fyrir þriðja aðila að græða á vændi. Maður hringdi inn á Bylgjuna í gærmorgunn og spurði: Má ríkið þá skattleggja vændi?
Við gætum hugsanlega lent í því að ferðamenn komi hingað til að stunda vændi, líkt og brasilíska konan hér um daginn (nema núna þarf hún að hafa atvinnuleyfi), passa sig að auglýsa ekki opinberlega, og þeir síðan neitað að borga skatta... þar sem ríkið væri þar með að hafa atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra.
Steinþór Haraldsson, yfirlögfræðingur hjá ríkisskattstjóra talar þannig í frétt á visir.is eins og ætlunin sé að skattleggja vændi, væntanlega bæði með virðisaukaskatti og tekjuskatti. Segir hann að horft verði til danskra laga, þar sem líka er löglegt að stunda vændi og vændiskonur hafa getað fengið ýmis rekstrarkostnað endurgreiddan af starfsemi sinni.
Þar á meðal brjóstastækkanir...
En væri ekki þar með hægt að dæma skattstjóra til fangelsis allt að 4 árum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.3.2007 | 12:46
Ísland í BBC
BBC virðist vera farið að sýna Íslendingum aukinn áhuga. Allavega fannst mér það eftir að hafa fyrst rekist á grein á bbc.co.uk um vilja Íslendinga, Norðmanna, Svisslendinga og íbúa Liechtenstein til að vera fyrir utan ESB og svo hlustað á frétt á BBCWorld Service um orkuframleiðslu á Íslandi, - bara núna í morgun.
Greinin Happy to be outside the EU club er áhugaverð. Mér finnst alltaf gaman að lesa um skoðanir annarra á okkur. Töluvert hefur verið rætt um ESB-aðild hér á blogginu, og höfundur greinarinnar, Kjetil Wiedswang virðist telja að þessi fjögur lönd hafi það ágætt fyrir utan Evrópusambandið. Við fáum hrós fyrir að vera fljót að taka upp reglur sambandsins, jafnvel fljótari en ESB ríkin sjálf og rífast lítið eða ekki neitt á leiðtogafundum. Þetta segir hann um Ísland: "The second largest non-EU member of the EEA is Iceland, which has a single reason for not being a EU member - a deep fear of the EU Common Fisheries Policy. That fear is absolutely rational and Iceland's position is not going to change any time soon."
Hann telur einnig litlar líkur á að þetta breytist á næstunni, þar sem "...the EU's 27 insiders and four Western outsiders seem reluctantly satisfied with the arrangement."
Í umfjöllun BBCWorld Service um Kárahnjúka og álverið í Reyðarfirði var talað við Ómar Ragnarsson og Jón Sigurðsson. Var mjög vel unnin og hlutlaus, - rætt um mikilvægi framkvæmdanna fyrir byggð á Austfjörðum og umhverfisskaðann sem virkjunin hefur í för með sér. Spurningin sem spurð er í lokin er: "So which is worth more - green energy or unproductive wilderness?" Hafnfirðingar fá víst að svara þessu fljótlega.
En stóra spurningin sem ég myndi vilja fá svar við er:
Skyldum við geta þakkað Baugi þessa athygli?
![]() |
Fjallað um umhverfis- og stóriðjumál Íslands í BBC og Independent |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2007 | 08:24
Slæmt, slæmt, slæmt!
Kristinn Björnsson, fyrrum forstjóri var í Kastljósinu í gær. Viðtalið byrjaði illa og varð bara verra og verra. Hver ráðlagði honum eiginlega að fara í viðtal og útskýrði ekki fyrir honum undirstöðuna í PR-fræðum? Maður réttlætir ekki, heldur biðst afsökunar og biðst aftur afsökunar. Viðurkennir sína sekt, en reynir ekki að réttlæta eða kenna öðrum um.
Stuttar setningar og einfaldar! Maður kennir ekki Samkeppniseftirlitinu um, eða segir að þetta hafi bara verið nokkur skipti, ekki hundruð, og að í dag myndi maður nota síma ekki tölvupóst. Af hverju? Til að það væri ekki hægt að rekja slóðina?
Talandi um tæknileg mistök...
20.3.2007 | 16:16
Erfitt að vera jafnaðarmaður
Ég stóðst ekki freistinguna og kíkti á kappræður þeirra, og fannst Mona vera soldið stressaðri en Fredrik en að öðru leyti stóð hún sig vel. Það var helst fyndið hvað Fredrik virtist vilja gera hana sammála sér í flestum málum, - sem Mona var að sjálfsögðu ekki alveg sátt við. Í könnun á vefnum segja 62% af Fredrik hafi staðið sig betur, en aðeins 35% Mona.
Nú sitja borgarlegar stjórnir við völd í Danmörku, Svíþjóð, Finnland og að sjálfsögðu hér á Íslandi. Aðeins í Noregi halda Jafnaðarmenn enn völdum. Hér á landi virðist heldur ekki útlit fyrir að næstu ríkisstjórn verði stjórnað af Jafnaðarmönnum.
Aumingja Jafnaðarmenn

20.3.2007 | 09:58
Í meðaltalinu
Ég sé að við hjónin erum bara í meðaltalinu í barneignum. Við eigum tvær stelpur, eina sex ára og eina 7 mánaða = 2,0 . Að auki fengum við okkur kött um leið og sú yngri fæddist þannig ég ætla að dirfast að hækka mig upp í 2,07 með kettinum.
Ég var líka í meðaltalinu með hvenær ég byrjaði eignast þessi blessuð börn, 26 ára með þá eldri og 33 ára með þá yngri. Foreldrarnir að sjálfsögðu löngu orðnir úrkulna vonar um að þau yrði einhvern tímann afar og ömmur, - en svo tókum við systkinin okkur á!
Ungt fólk er að seinka barneignum, bíða þar til þeir eru búnir að ferðast og læra, jafnvel koma sér fyrir í húsnæði og kaupa rétta bílinn. En góða við þessa frétt er að við erum ekki hætt að eiga börn, - líkt og ungar konur í Þýskalandi, Spáni og Ítalíu eru að gera.
Lengi lifi frjósemin!
![]() |
Barnsfæðingum fjölgaði á síðasta ári og frjósemi kvenna vex |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2007 | 09:11
Hryllilegt!
Að ráðist sé á einstakling á salerni, þar sem hver og einn getur gengið inn. Opinberum stað! En stuttu eftir að ég las þessa frétt rakst ég á aðra sambærilega frá hinu heimalandi mínu, Svíþjóð. Þar var ráðist á konu á salerni á Odenplan í Stokkhólmi. Henni nauðgað og hún rænd.
Kannski er þetta ekki eins sjaldgæft og maður hélt?
En líkt og ýmsir aðrir bloggarar hafa bent á þá finnst mér athyglisvert að sjá að enn á ný er tekið sérstaklega fram að viðkomandi hafi verið erlendur. Miðað við lýsinguna á manninum þá held ég að flestir hafi getað ætlað að hann væri ekki af íslenskum uppruna.
Var það ekki nóg?
![]() |
Vísbendingar í kjölfar auglýsinga leiddu til handtöku meints nauðgara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2007 | 19:25
Björgum breskum kusum
Country Living, uppáhaldstímaritið mitt, hefur hafið baráttu til að bjarga breskum landbúnaði og landslagi. Átakið heitir Fair trade for british farmers og byggist á að aðeins 18% breskra neytenda velja að kaupa breskar landbúnaðarvörur. Afleiðingin er að á síðustu 50 árum hefur mjólkurbændum fækkað úr 200.000 í 12.000.
Ekki bara hefur bændum fækkað, heldur eru 14 af 41 tegundum af nautgripum í útrýmingarhættu og 9 hafa þegar horfið. Önnur líkleg afleiðing er að landslagið í Bretlandi á eftir að taka miklum breytingum eftir því sem bóndabýlum fækkar. Landbúnaður hefur mótað landið og án hans hverfa graslendur, gróðurtegundum fækkar og skógar og votlendi breiða úr sér.
Í mjólkurframleiðslu er vandamálið einfalt. Það kostar 21p að framleiða 1 L af mjólk en bændur fá bara greitt 17p. Útsöluverð á lítranum úr búð er 50 p. Þegar búið er að fara í gegnum alla kostnaðarliði á virðiskeðjunni segir breska Landbúnaðarráðuneytinu að um 18p séu óútskýrð í verðlagningunni. Aukin hagræðing, meiri mjólkuframleiðsla pr. kú og aukin eftirspurn eftir mjólk og mjólkurvörum hefur engu breytt. Talið er að eftir 5-10 ár muni Bretar þurfa að flytja inn stóran hluta af neyslumjólk sinni.
Mér fannst þetta frekar athyglisvert sérstaklega þar sem það kemur fram í greininni að líkt og Íslendingar telja um 86% af Bretum að landbúnaðarvöru eigi að vera framleiddar í heimalandi þeirra. Eflaust myndu þeir svara jákvætt um að þeir vilji gjarnan kaupa breskar landbúnaðarvörur, líkt og Íslendingar, - en raunin reynist svo allt önnur þegar valið stendur á milli ódýrs nautakjöts frá Suður Ameríku eða kjöts sem kostar eitthvað meira frá Bretlandi.
Eftirsóknarvert eða hvað?