22.6.2007 | 13:32
Sammála Össuri
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, skrifar á vefsíðu sinni að hann telji að flytja eigi Hafrannsóknastofnunin í burtu frá Sjávarútvegsráðuneytinu. Ég er algjörlega sammála þessari tillögu hans.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Hafrannsóknastofnunin sem rannsakar ástand fiskistofnanna eigi alls ekki að vera undir stjórn þess ráðherra sem ákvarðar hversu mikið á að veiða úr þeim.
Hvað þá að vera með fulltrúa hagsmunaaðila í stjórn, líkt og er nú.
Jafnvel er spurning hvort rannsóknastofnun af þessu tagi eigi einu sinni að vera undirstofnun hjá ráðuneyti. Er ekki eðlilegra að rannsóknirnar fari fram í háskólunum? Að Hafrannsóknastofnunin yrði hluti af Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri?
Kristinn H. Gunnarsson flutti (að ég held allavega 2 sinnum) tillögu þess efnis á síðasta kjörtímabili um að flytja Hafrannsóknastofnunina undir Umhverfisráðuneytið. Össur leggur til að stofnunin fari undir annað hvort það ráðuneyti eða Menntamálaráðuneytið.
Vonandi mun þessi hugmynd ekki týnast í þingnefndum Alþingis líkt og tillaga Kristins gerði...
20.6.2007 | 15:05
Internetið læknar félagsfælni
Einn af hverjum fjórum fær einhvern tímann á ævinni kvíðaeinkenni s.s. óróleika, fælni eða ofsakvíða. Einn af hverjum fimm er greindur með þunglyndi. Þetta er því stórt vandamál, bæði fyrir einstaklingana og samfélagið. Atferlismeðferð hefur reynst vera mjög góð aðferð til að takast á við bæði fælni og þunglyndi og hefur aðferðinni yfirleitt verið beitt í hóp- eða einstaklingsmeðferðum undir stjórn sérfræðings (geðhjúkrunarfræðings, sálfræðings eða geðlæknis).
En bráðum verður það ekki lengur nauðsynlegt, allavega ekki í Svíþjóð. Niðurstaða rannsóknar á vegum SBU, Stofnun ríkisins um mat á læknisfræðilegum aðferðum í Svíþjóð sýnir að hægt sé að nota tölvutæknina við atferlismeðferð.
Sjúklingarnir geta einfaldlega sótt sér hjálp sjálfir í gegnum netið við tölvuna. Til stuðnings við tölvumeðferðina er sálfræðingur sem er í reglulegu sambandi við sjúklingana í gegnum tölvupóst eða síma. Sjálfsmeðferð í gegnum tölvu getur verið jafn góð, og í sumum tilvikum betri en meðferð með lyfjum, hópmeðferð eða heimsókn hjá sérfræðingi.
Og ódýrari.
Þetta er eitthvað sem íslenska heilbrigðiskerfið þarf að skoða strax. Í dag ræður heilbrigðisþjónustan engan veginn við þá aukningu sem orðið hefur á ýmsum tegundum geðsjúkdóma. Meirihluti þeirra sérfræðinganna eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og geðheilbrigðisþjónusta er hreinlega útópísk draumsýn fyrir flesta sem búa á landsbyggðinni. Nema náttúrulega leggja á sig mikil ferðalög og kostnað til Reykjavíkur þar sem er mikill skortur á sérfræðingum, þ.á.m. á geðdeild Landspítalans.
Því er þetta að mínu mati einfalt reikningsdæmi:
Jafngóð eða betri + ódýrari = Já, takk!
PS. Og hvar er síðan háhraðatengingin sem búið var að lofa landsbyggðinni?
19.6.2007 | 09:05
Edwards er frá NC
Smá leiðrétting á frétt um kosningarnar um forseta Bandaríkjanna. John Edwards var fæddur í South Carolina (SC) en ólst upp í North Carolina (NC). Hann gekk í skóla í NC, starfaði þar (og þénaði milljónir á að fara í mál við tryggingarfélög) og náði þar kjöri sem senator.
Málið er mér soldið skylt þar sem NC er mitt fylki þar sem ég bjó þar í eitt ár sem skiptinemi.
Þannig að þótt Obama leiði í SC þarf það ekki að þýða neitt. En ég skil vel að menn skulu vera spenntir fyrir Fred Thompson þar sem það virðist stundum vera nóg að virka forsetalegur.
Hvað þá að hafa leikið forseta...
![]() |
Obama og Thompson njóta mests fylgis í Suður-Karólínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.6.2007 | 14:37
Nota svín smokka?
Nei, samkvæmt nýrri auglýsingu frá Trojan smokkaframleiðandanum. Ný auglýsing þeirra sýnir fjölda svína á bar talandi í gsm-síma og algjörlega hunsaða af kvenfólkinu. Allavega þangað til eitt þeirra hefur vit á að vagga fram á karlaklósett og kaupa Trojan smokk. Þá breytist svínið í flottan karlmann sem vekur töluvert meiri áhuga hjá kvenfólkinu frammi.
Textinn sem rúllar í lok auglýsingarinnar hljómar: "Evolve. Use a condom every time."
Fréttin á New York Times var ekki beint um smokkaauglýsinguna hjá Trojan, þótt hún þætti ansi skemmtileg og sniðug. Nei, fréttin er um tvískinnung CBS og Fox sjónvarpsstöðvanna, sem neituðu að birta auglýsinguna. Uppgefin ástæða er að það er í lagi að nota smokka til að koma í veg fyrir sjúkdóma, en það er ekki í lagi að nota smokka til að koma í veg fyrir getnað.
Eða eins og talsmaður Fox orðaði það: Contraceptive advertising must stress health-related uses rather than the prevention of pregnancy.
Þannig að við eigum víst að gera ráð fyrir að Grissom í CSI (CBS) og uppáhaldslæknirinn minn hann House (FOX) séu svín?
Enda bara svín sem nota ekki smokka
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2007 | 19:23
Skreyttur fjöðrum Valgerðar
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var að uppgötva óréttlætið sem liggur í eftirlaunum þingmanna og ráðherra. Hann er greinilega alveg miður sín yfir þessu og segir stefnu Samfylkingarinnar skýra í þessu máli í Speglinum í kvöld.
Frumvarp um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara voru síðustu lögin sem samþykkt voru fyrir jólafrí á 130. löggjafarþingi þann 15. desember 2003. Þann dag sáu nokkrir þingmenn sér ekki fært að vera við atkvæðagreiðsluna um frumvarpið. Í þeim hópi voru m.a. þingmennirnir Lúðvík Bergvinsson og Össur Skarphéðinsson.
Hjá sátu við atkvæðagreiðsluna Samfylkingarþingmennirnir Ásgeir Friðgeirsson, Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller, Margrét Frímannsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.
Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem kusu nei voru: Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Katrín Júlíusdóttir og Mörður Árnason.
En er nokkur leið til að ímynda sér hvað þingflokksformaðurinn og þáverandi formaður Samfylkingarinnar hefðu gert ef þeir hefðu ekki þurft nauðsynlega að vera fjarverandi? Jú, ef maður skoðar atkvæðagreiðslu um ýmsar breytingartillögur við frumvarpið þann 13. desember 2003 kemur í ljós að Lúðvík og Össur greiddu ekki atkvæði.
Sátu hjá. Tóku ekki afstöðu.
Í Speglinum í gærkvöldi benti Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, á baráttu sína fyrir því að breyta ekki bara eftirlaunum ráðherra, heldur að lífeyrissréttindi þingmanna verði sambærileg á við aðra þegna landsins. Viðurkenndi hún að sú barátta hennar hefði ekki borið mikinn árangur þar sem málinu hefði verið vísað í nefnd innan flokksins.
En nú virðist Lúðvík telja að það sé kominn tími til að skreyta sig aðeins með fjöðrum Valgerðar og útskýra hina skýru stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli.
Það er gaman að sjá að Lúðvík er farinn að hafa kjark til að taka afstöðu í þessu máli...
14.6.2007 | 13:37
Brjóstgóðir karlar
Töluvert hefur verið rætt um skort á jafnrétti á milli kynjanna. Því ætti í flestum tilvikum að fagna þegar fréttir berast af auknum jöfnuði á milli kynjanna. En kannski ekki í þessu tilviki. New York Times fjallar um aukna eftirspurn ungra pilta eftir brjóstaaðgerðum, en 2006 fóru 14.000 bandarískir piltar í þess konar skurðaðgerð.
Ólíkt ungum konum þá eru ungir karlar ekki að leitast eftir að stækka á sér brjóstin, heldur minnka þau. Aukning á milli ára var um 21% sem þætti ágætt í hvaða bransa sem er. En hvað er það sem rekur þessa pilta áfram í þessar aðgerðir?
Jú, það þykir ekki fallegt að vera karlmaður með brjóst. Karlar eiga að vera eins og grískir guðir með spennta brjóstvöðva og þvottabrettamaga. Alveg eins og konur eiga að vera með vel þrýstin brjóst (helst C-skálar eða stærra), grannt mitti og eftir að Jennifer Lopez sló í gegn þrýstin og útistandandi rass. Ef það er ekki svoleiðis frá náttúrunnar hendi þá er alltaf hægt að leggjast undir hnífinn.
Ástæðurnar fyrir brjóstum karla er ýmsar. Algengastu ástæðurnar eru hormónarbreytingar vegna kynþroska og offita. Í einhverjum tilfellum má rekja brjóstastækkunina til steranotkunar, þar sem notkuninni er hætt og karlhormón minnka snögglega í líkamanum. Í einhverjum tilfellum er þetta meðfætt.
Og ástæðan fyrir fjölgun aðgerða er aukinn vilji bandarískra lýtalækna til að framkvæma aðgerðina, jafnvel í þeim tilvikum þar sem vitað er að brjóstin gætu horfið af sjálfu sér eftir að hormónasveiflur unglingsáranna taka enda.
Einhvern veginn finnst mér eins og við séum ekki alveg á réttri leið hérna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2007 | 17:22
Vantar ekki kennara!
Fyrir stuttu var frétt þess efnis í fjölmiðlum að mikill skortur væri á kennurum í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins. Síðan var farið hringinn í kringum landið, og aldrei þessu vant virtust flestir skólastjórar á landsbyggðinni sem talað var við vera búnir að ráða kennara eða voru með mjög hæfa leiðbeinendur í viðkomandi stöðum.
Það er greinilega af sem áður var.
Fréttamaðurinn virtist vera hálf hissa á þessari staðreynd og leitaði skýringa. Einhver nefndi að það væri ekki jafn mikið framboð af öðrum störfum á landsbyggðinni og því héldist skólum þar betur á kennurum en á höfuðborgarsvæðinu.
Ég myndi vilja benda á aðra skýringu. Ekki er mjög langt síðan farið var að bjóða upp á kennaranám í fjarnámi og fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar voru settar á stofn víðsvegar um landið. Þetta leiddi m.a. til þess að margir leiðbeinendur og aðrir heimamenn ákváðu að drífa sig í Kennaraháskólann eða Háskólann á Akureyri. Þetta fólk hefur verið að mennta sig fyrir ákveðin störf í sinni heimabyggð. Oft hefur það líka getað unnið við kennslu samhliða námi og fest enn frekar rætur í viðkomandi sveitarfélagi og skóla.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sú byggðastefna sem var lengi við lýði að staðsetja allt háskóla- og iðnnám í Reykjavík eigi stóran þátt í fækkun fólks á landsbyggðinni. Fólk fór til Reykjavíkur til að læra, kynntist þar sínum maka, fjárfesti í húsnæði og eignaðist sín börn þar. Þegar námi var lokið, var oft mjög erfitt eða ómögulegt að snúa aftur.
Því tel ég mjög mikilvægt að núverandi stjórnvöld haldi áfram að byggja upp fjarnám og símenntun á landsbyggðinni. Þar skipta þættir eins og háhraðatengingar miklu máli sem og auknar fjárveitingar til helstu menntastofnunar landsins, Háskóla Íslands til að gera honum kleift að bjóða sem flestar námsgreinar í fjarnámi.
Því fjarnám styrkir byggð í landinu.
12.6.2007 | 09:43
Hópsamfarir unglinga
Á síðustu vikum hafa tvö mál farið í gegnum dómskerfið sem fjallað hafa um hvort hópsamfarir unglinga séu nauðgun eður ei. Í báðum málunum eru þeir ákærðu 3-4 ungir piltar sem höfðu samfarir saman við unglingsstúlku og í báðum málunum var sýknað vegna skorts á sönnunum um að nauðgun væri að ræða.
Hvað er það sem fær unglingspilta til að telja það eðlilegt að stunda kynlíf með 2-3 félögum sínum, með stúlkum sem eru ekki lögráða og undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna? Að geta haldið því raunverulega fram og fengið það samþykkt í dómskerfinu að stúlkurnar hafi viljað þetta, og væru í raun hæfar til að segja já við ofangreindu.
Fréttir af dómsmálum sem þessum valda mér miklum áhyggjum og ugg í brjósti.
Unga fólkið okkar virðist vera að fá mjög brenglaðar hugmyndir um hvað sé kynlíf og vil ég rekja það til kláms og Internetsins. Klám hvetur til viðhorfs að það sé í lagi að stunda hópkynlíf, og viðhorfs þess efnis að konur séu viljalaus verkfæri, tilbúnar að leggjast með hvaða karlmanni sem er. Einstaklega auðvelt er fyrir börn og unglinga að nálgast klám, eiginlega auðveldara en að ná í nýjasta lagið með Amy Winehouse eða Maroon 5 eða sakamálamyndina Zodiac og hrollvekjuna Hostel . Því er kannski ekki skrítið að dómskerfið þarf að fást við hópkynlíf unglinga á borð við þetta sem ég nefndi hér í byrjun.
Og ekki bara dómskerfið. Kennarar eru að takast á við orðróm og sögur um að ungar stúlkur séu að kaupa sér aðgang að partýum með munnmökum og óviðeigandi myndatökur með GSM-símum. Og landlæknir þarf að taka umræðuna um hvort endaþarmsmök séu öruggt kynlíf við unglinga.
Í byrjun sumars dynja á okkur auglýsingar þess efnis að við eigum ekki að kaupa áfengi handa börnunum okkar, við eigum að takmarka tímann við tölvuna, fylgjast með útivistartímum og hvort börnin okkar séu hugsanlega farin að nota eiturlyf. En ekki orð um hvað börnin okkar eru að gera ein í herberginu sínu með tölvunni og háhraðatengingunni.
Er ekki kominn tími til að við ræðum klám og áhrifin sem það er að hafa á börnin okkar?
Linkar á dómsmálin:
Fjórir unglingspiltar sýknaðir af nauðgun á jafnöldru sinni
Þrír piltungar sýknaðir af kynferðisbroti vegna sönnunarskorts.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.6.2007 | 16:01
Hvar á að taka út?
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, tók eitt skipti út alla þá fjármuni sem hann átti í KB-banka (áður Búnaðarbankinn og Kaupþing) þar sem honum blöskraði gjörsamlega þau laun sem bankastjórinn og starfandi stjórnarformaður voru með og lokaði reikningnum.
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, virðist ekki vera alveg jafn vandur að virðingu sinni og nafni hans forsætisráðherrann.
Eða kannski veit hann að það tekur enginn neitt út úr Seðlabankanum?
Ekki einu sinni bankastjórana sjálfa.
![]() |
Mánaðarlaun í 1,4 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.6.2007 | 09:16
Hvað með Ísland?
Evrópudómstólinn úrskurðaði í dag að Systembolaget, systurfélag ÁTVR í Svíþjóð, mætti ekki banna einstaklingnum að flytja áfengi inn til Svíþjóðar frá öðrum Evrópusambandsríkjum. Gilti það líka um viðskipti á netinu.
Í fréttinni á mbl.is segir að dómstólinn hafi komist að þessari niðurstöðu þar sem bannið fælið í sér takmörkun á frjálsu vöruflæði og það sé í andstöðu við lög ESB.
Spurningin sem vaknar við þetta er: Hvað með Ísland?
Gott væri ef einhverjir sérfræðingar í EES-samningnum gætu upplýst mig um hvort frjálsa flæðið hjá okkur gildir bara t.d. atvinnu og fólk, en ekki vörur. Við erum með takmarkanir að mér minnir á innflutning sjávarafurða og matvæla.
Fellur áfengi þar undir?
Og hvað með aðrar landbúnaðarafurðir? T.d. kjöt og osta?
![]() |
Svíar mega flytja inn vín sjálfir frá öðrum ESB-ríkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |