13.9.2007 | 16:13
Barnvænni Vestmannaeyjar
Bravó! Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur ákveðið að lækka leikskólagjöld. Grunngjaldið á að lækka um 18,3% og munu foreldrar með barn í átta tíma vistun með fæði spara sér 4.480 kr. á mánuði. Borga núna 26.580 kr. í stað 31.060 kr. áður.
Eða um 53.760 kr. á ári.
Því er um töluverða kjarabót að ræða fyrir foreldra leikskólabarna.
Þetta er líka dæmi um hvað áhrif árvökulir íbúar geta haft með því að láta í sér heyra. Anna Rósa Hallgrímsdóttir, ný Eyjakona, tók sig til og skrifaði grein um há leikskólagjöld í Fréttum fyrir um 2-3 vikum. Henni hafði blöskrað algjörlega munurinn á leikskólagjöldum í Eyjum og í Reykjavík og tók sig til og gerði verðsamanburð á milli nokkurra sveitarfélaga og kom þá í ljós að leikskólagjöld í Eyjum voru langhæst.
En betur má ef duga skal.
Enn þá eru leikskólagjöld í Eyjum töluvert hærri en í Reykjavík. Samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar kostar átta tíma vistun með fæði 20.150 kr. auk þess sem systkinaafsláttur er töluvert hærri.
Samkvæmt þessu munar því 77.160 kr. á fyrsta barn eftir því hvort við búum í Eyjum eða Reykjavík á ársgrundvelli, og dýrara verður það bara ef börnin eru fleiri í leikskóla.
Því segi ég bara: KOMA SVO!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2007 | 09:32
Ekki nógu tilkippilegar?
Fyrir nokkrum árum tóku Flugleiðahótelin sig til og sögðu töluverðum fjölda starfsmanna upp. Áherslan í uppsögnunum virtist vera á eldri konur, konur sem voru með háan starfsaldur og mikla reynslu. Ástæðan var sögð vera að þær hentuðu ekki þeirri ímynd sem fyrirtækið væri að byggja upp.
Nú berast fréttir af uppsögnum flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair, áður Flugleiðir og nú eru það að einhverju leyti konur sem eru annað hvort ófrískar eða í fæðingarorlofi sem verða fyrir barðinu á uppsögnum.
Þetta eru mjög alvarlegar mál ef rétt er. Í morgunútvarpinu sagði viðmælandi að uppsagnir kvenna sem væru ófrískar eða í fæðingarorlofi hefðu farið fyrir félagsdóm og þar hefði niðurstaðan verið að uppsagnir þeirra væru í lagi ef um fjöldauppsagnir væri að ræða. Þetta getur því vel verið löglegt en er algjörlega siðlaust. Fyrirtæki sem gengur ágætlega að flestu leyti getur ekki leyft sér að haga sér svona. Ef um væri að ræða væntanlega rekstrarstöðvun eða gjaldþrot þá væri þetta skiljanlegt, en á stjórnendum Icelandair hefur einna helst verið að heyra að þetta séu mjög eðlileg vinnubrögð. Bara hluti af rekstrarumhverfi félagsins.
Passa þessir starfsmenn kannski ekki ímynd fyrirtækisins. Ímyndinni um flugfreyjunnar sem eru ungar, ljóshærðar og tilkippilegar, líkt og fyrirtækið sjálft auglýsti?
Eða hvað?
PS: 11.02 Í pistli mínum talaði ég um að nú væri verið að segja upp fólki með háan starfsaldur hjá Icelandair. Mér hafa borist ábendingar í framhaldi af þessum pistli að algjörlega hafi verið farið eftir starfsaldri í núverandi uppsögnum hjá Icelandair. Því biðst ég afsökunar á rangfærslum mínum og hef leiðrétt pistilinn í samræmi við það.
![]() |
Mikill hiti í flugþjónum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2007 | 15:00
Höfuðsnillingur verkefnastjórnunar
Þar eru ég og Bjarni Harðar titluð höfuðsnillingar verkefnastjórnunar og erum spurð hvort við viljum að Vegagerðin styðji sig áfram við sömu ráðgjöf og áður í málefnum Grímseyjarferju. Sem höfuðsnillingur verð ég hreinlega að svara í samræmi við þær upplýsingar sem koma fram í níu síðna úttekt Moggans. Ef það er ráðgjöf Sturlu Böðvarssonar og Árna Mathiesenar þá er svarið svo sannarlega nei.
En væntanlega hefur Róbert lítinn áhuga á mínum svörum, eftir að hafa misst svona eftirminnilega kúlið, líkt og Egill Helgason orðaði það.
Hér að neðan er grein mín um Samfylkinguna. Lesið hana endilega

9.9.2007 | 14:57
Aumingja Samfylkingin
Fyrir kosningar hafði ég töluverðar áhyggjur af því hvernig flokknum og formanni hans myndi farnast í ríkisstjórn og skrifaði þá: Flokkur sem ætlar að leiða ríkisstjórn verður að vera trúverðugur. Hann verður að gera sér grein fyrir að ákvarðanir hans og skoðanir munu hafa áhrif á líf og lífsviðurværi fólks í landinu.
Þau orð voru skrifuð í tilefni af skrípaleiknum í kringum Fagra Ísland, þar sem blekið var varla þornað áður en þingmenn flokksins voru farnir að sverja plaggið af sér. Og enn á ný eiga þau ansi vel við þegar hundrað dagar eru liðnir af starfstíma Baugsstjórnarinnar.
Stóriðjustopp, hvað er það?
Eftir að hafa tippexað yfir allt sem viðkom stóriðjustoppi, Evrópusambandi eða viljugum þjóðum tóku forystumenn flokksins til við að sverta orðspor einstaklings sem hafði það einna helst til saka unnið að hafa skilað inn ráðgjafaskýrslu um hugsanleg kaup á ferju.
Kristján Möller, samgönguráðherra og áður einn öflugasti gagnrýnandi Sturlu Böðvarssonar, taldi að þar væri kominn hinn fullkomni blóraböggull. Hann starfaði hvorki hjá ráðuneytinu né Vegagerðinni og var heldur ekki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Marflatur fyrir Sjálfstæðismönnum
Nú síðast þeyttist Össur Skarphéðinsson fram á ritvöllinn eftir að hafa þagað þunnu hljóði um gagnrýni Sigurðar Kára Kristjánssonar á vatnalögin og Byggðastofnun. Eini tilgangur hans var að verja nýju vini sína, sjálfstæðismennina. Það er greinilegt að Össur hefur tileinkað sér smjörklípuaðferð húsdraugsins í Seðlabankanum, en hann á greinilega eftir að læra að sjaldan launar sjálfstæðiskálfurinn ofeldi.
Einhvern veginn sá ég aldrei fyrir mér að Össur leggðist marflatur fyrir Sjálfstæðisflokknum. En svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Birtist fyrst í Fréttablaðinu.
3.9.2007 | 18:02
Aumingja Össur!
Bjarni byrjar af miklum krafti og dregur fram ansi athyglisvert minnisblað um að Fjármálaráðuneytið hafi látið Vegagerðina fá óútfylltan tékka vegna framkvæmda ákveðins hafnfirsk skipasmíðafyrirtækis á Grímseyjarferjunni. Áður hefur verið bent á að Hafnarfjörður kemur ansi víða við sögu í Grímseyjarferjumálinu, en sveitarfélagið hefur verið eitt helsta vígi Mathiesen fjölskyldunnar.
Össur vill greinilega verja heiður nýja besta vinarins, Árna Mathiesen, enda hafa þeir félagar starfað náið saman að tillögum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðarins á þorskkvótanum. Auk þess sem hinn besti vinurinn, Kristján Möller náði að misstíga sig ansi illa í málinu þegar hann reyndi að kenna greyi skipaverkfræðingnum um allt saman.
En í stað þess að ræða um minnisblaðið eða annað sem tengist Grímseyjarferjunni er gripið til smjörklípuaðferðar Davíðs Oddssonar. Úr einum nýjasta pistli Össurar má því lesa: Bendum frekar á Framsóknarmenn og ræðum Byrgismálið eða einhverjar embættisfærslur framsóknarráðherra. Allt annað en fjármálaráðuneytið, Árna eða Grímseyjarferjuna.
Já, hverjum hefði dottið í hug að Össur og Davíð ættu svona mikið sameiginlegt? Allavega örugglega ekki Össur fyrir nokkrum mánuðum síðan.
En líkt og Egill Helgason sagði svo eftirminnilega í Kastljósinu þá eru meira og minna allir þingmenn Samfylkingarinnar óþekkjanlegir.
Bara alveg nýtt fólk með nýjar skoðanir og nýja vini...
![]() |
Ósáttur við að sitja undir ærumeiðingum ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.8.2007 | 10:07
Sósíalismi Sjálfstæðismanna
Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar kynnti í síðustu viku ýmsar mótvægisaðgerðir fyrir atvinnulífið vegna niðurskurðar á þorskkvótanum. Heilmikið af tillögunum byggðu á þátttöku ríkissins en bærinn ætlar greinilega að leggja fram sitt.
Enda allir vasar fullir af Hitaveitu-peningum.
En er sú staðreynd að bærinn og ríkið eigi að draga vagninn í atvinnulífinu ekki soldið sósíalistískt hugsun? Ég hefði vel skilið það ef þessar tillögur hefðu komið frá Framsóknarmönnum eða Samfylkingunni sem telja sig vera félagshyggjuflokka en ekki frá Sjálfstæðismönnum. Er ekki kjarninn í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins trúin á að draga eigi sem mest úr ríkisrekstri og treysta á einstaklingsframtakið og markaðinn?
Ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér var leiðari staðarblaðsins í Grindavík. Grindavíkurbær er annað sveitarfélag þar sem bæjarstjórnin situr á vænum haug af Hitaveitu-peningum og þar sem Sjálfstæðismenn sitja við stjórnvölinn. Ritstjórinn færði í leiðara sínum ágætis rök fyrir því af hverju bærinn ætti bara að dreifa peningunum á þá sem hefðu aflað þeirra. Þ.e.a.s. íbúarnir í sveitarfélaginu.
Gróflega reiknað þá myndi þetta þýða um milljón á hvert mannsbarn hér í Eyjum.
Mín fjölskylda myndi fá um fjórar milljónir kr. og við gætum síðan tekið ákvörðun um hvort við myndum nota peningana til að greiða skuldir eða kaupa nýtt hús. Einhverjir myndu vilja nota sína Hitaveitupeninga til að starta nýjum fyrirtækjum á meðan aðrir sæju tækifæri til að pakka sama og fara.
En svona áður en einhver heldur að ég sé að breytast í meira íhald en Elliði Vignisson og Árni Johnsen til samans þá læt ég fylgja með mínar tillögur sem birtust á eyjar.net.
-----------------------------------------------------------
Byggjum barnvænar Eyjar, - segir Eygló Harðardóttir um söluhagnaðinn í Hitaveitu Suðurnesja.
Spurningin er: Ef þú værir bæjarstjórnin hvað myndirðu leggja til að gert yrði við þessa 3.6 milljarða?
Svar: Að sjálfsögðu skiptir mestu máli að fara vel yfir skuldastöðu bæjarins, greiða upp þau lán sem eru óhagstæð og koma skikki á lífeyrissjóðsmál bæjarstarfsmanna.
Að því loknu verða bæjarfulltrúarnir okkar að skoða hvaða verkefni eru skylduverkefni bæjarins og hvaða verkefni er valkvæm. Það hefur alltof oft verið þannig að peningar bæjarins hafa farið í verkefni sem eru raunar valkvæm líkt og íþróttahúsið í stað verkefna sem eru skylduverkefni sveitarfélaga skv. lögum.
Í viðtali við eyjar.net talaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri um ýmis verkefni sem liggja fyrir í þriggja ára áætlun bæjarins s.s. menningarhús, nýtt knattspyrnuhús og nýja skipalyftu. Síðast þegar ég athugaði hver væru skylduverkefni sveitarfélaga þá stóð ekki orð um að sem flestir yrðu að geta iðkað knattspyrnu á veturna. Skylduverkefni sveitarfélags eru einna helst rekstur grunn- og leikskóla.
Undanfarin ár hefur stefnan verið að draga úr þjónustu á þessu sviði. Grunnskólinn var sameinaður, leikskólinn að Rauðagerði lagður niður og gjaldskrá á mat staðið í stað þrátt fyrir lækkun virðisaukaskatts á mat. Þetta hefur gerst á sama tíma og önnur sveitarfélög hafa verið að auka þjónustana. Fjöldi sveitarfélaga býður upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir 5 ára börn, og stefna að því að allur leikskólinn verði gjaldfrjáls. Aðrir hafa aukið þjónustan með því að taka börn inn yngri í leikskóla eða boðið upp á heilsdagsvistun að lokinni kennslu.
Í Fréttum í vikunni var grein eftir Önnu Rós Hallgrímsdóttur sem var að flytja til Vestmannaeyja ásamt syni á leikskólaaldri. Í samantekt um kostnað vegna leikskólapláss á milli Vestmannaeyja, Reykjavíkur, Kópavogs, Akureyrar, Egilsstaða og Árborgar kom í ljós að barnafjölskyldur í Eyjum eru að borga langhæsta gjaldið fyrir leikskólaplássið. Þar var sýnt svart á hvítu hversu mjög Vestmannaeyjabær hefur dregist aftur úr í þjónustu við barnafjölskyldur.
Sama tel ég að gildi um þjónustu við bæði eldri borgara og hinn almenna íbúa Ég myndi því vilja sjá bæjarfulltrúana með bæjarstjórann í broddi fylkingar rétta úr kútnum hvað þetta varðar og spyrja sig hvað muni nýtast almennum bæjarbúum best: Lækkun matar sem seldur er á vegum bæjarins eða smíði á nýrri skipalyftu? Gjaldfrjáls leikskóli eða tómt knattspyrnuhús til minningar um að börnunum fækkar í sveitarfélaginu?
Ég vil sjá að við nýtum söluhagnaðinn til að búa vel að komandi kynslóðum og að við getum staðið áfram á því fastari en á fótunum að hvergi sé betra að ala upp börn en einmitt í Vestmannaeyjum.
25.8.2007 | 15:01
Af beinskiptum Trabant og sjálfskiptum Mercedes Benz
Má segja að það hafi verið nokkur spurnarsvipur á henni þegar hún kom í þriðja sinn út úr bankanum. Hvernig væri þetta eiginlega með íslensku krónuna? Ég yppti öxlum, enda orðin ansi vön þessum sveiflum eins og flestir Íslendingar, og sagði henni söguna af því þegar ég reyndi að skipta íslenskum og sænskum krónum hjá franska Póstinum. Sænsku krónurnar runnu smurt í gegn en þegar ég rétti fram íslensku 5000 króna seðlana, fékk ég bara: Nei, því miður. Við erum ekki með neitt gengi skráð á þessa mynt. Íslenska krónan var sem sagt ekki til hjá franska Póstinum, sem er með útibú út um allt Frakkland og ætlar sér stóra hluti í bankaviðskiptum þarlendis.
Benzinn betri
Ég fór að hugsa um þetta eftir að ég hafði horft á viðtal við Benn Steil, hagfræðing hjá Council on Foreign Relations í Kastljósinu síðasta fimmtudag. Þar talaði hann um hugtakið þjóðleg gjaldeyrisstefna og hvað áhersla okkar á að hafa svokallaðan sjálfstæðan gjaldmiðil kostar okkur. Líkti hann þessu við muninn á að aka um á beinskiptum Trabant eða sjálfskiptum Mercedes Benz. Við réðum alveg yfir gírkassanum í Trabantinum en það væri bara svo miklu betra og þægilegra að keyra um í Benzinum. T.d. benti hann á að hugtakið viðskiptahalli myndi hreinlega hverfa ef við tækjum upp evruna. Við myndum einnig losa okkur við spákaupmenn sem hafa verið að nýta sér veikleika krónunar með því að fjárfesta í henni til skamms tíma til að græða á okurvöxtunum hérlendis.
Benn Steil sagði í viðtalinu að hann teldi að æ fleiri þjóðir myndu einhliða taka upp evruna á næstu árum, án þess að ganga í Evrópusambandið og undirgangast skilyrði Maastricht samkomulagsins. Þarna er kominn einn sérfræðingur sem virðist taka undir orð Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrum viðskipta- og utanríkisráðherra, um að það sé gjörlegt að taka upp evruna einhliða.
Laus undan reglustikunni
Allavega yrðu kunningjar mínir í útflutningsgreinunum víðs vegar um landið mjög fegnir að geta hætt þessari gengisvitleysu og gert áætlanir mánuði eða jafnvel ár fram í tímann. Síðan gætum við almenningur í landinu kannski séð okkar villtustu drauma verða að raunveruleika um svipaða vexti og tíðkast í Evrópusambandinu.
Svo ég tali ekki um að vera laus undan reglustiku Davíðs Oddssonar...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.8.2007 | 21:49
Bera bankar enga ábyrgð
Fyrir nokkru ruddust bankarnir inn á fasteignamarkaðinn með miklum látum og buðu allt að því 100% íbúðalán og endurfjármögnun á eldri lánum. Samhliða sífellt hækkandi húsnæðisverði í Reykjavík má ætla að ýmsir hafi spennt bogann ansi hátt.
Margir leita til ráðgjafastofu
Í fréttum RÚV nýlega kom fram að sífellt fleiri leita nú til ráðgjafastofu um fjármál heimilanna vegna erfiðleika við að greiða af húsnæðislánum. Samkvæmt viðtali við starfsmann stofunnar hafa margir jafnvel aldrei getað greitt af húsnæðislánum og eru einnig í miklum erfiðleikum með að greiða af yfirdráttarlánum. Og hvað með þá sem ná að halda í horfinu, en verða svo fyrir því að missa vinnuna eða veikjast? Hvað gera bankarnir þá?
Íbúðalánasjóður býður fólki sem lendir í greiðsluerfiðleikum vegna veikinda eða atvinnumissis upp á samninga, skuldbreytingu vanskila, frestun á greiðslum og lengingu lána. Ekkert svona er til staðar formlega hjá bönkunum, allavega ekki þeim íslensku. Í Frakklandi bjóða nánast allir bankar viðskiptavinum sínum upp á aðstoð ef þeir lenda í greiðsluerfiðleikum. Ef viðkomandi verður fyrir áfalli á borð við að missa vinnuna eða maki deyr þá eru bankar skyldugir skv. lögum að aðstoða.
Belti og axlabönd fyrir bankana
Ef staðan er mjög slæm og hætta er á gjaldþroti þá er hægt að leita aðstoðar hjá Commission départementale de surendettement hjá Seðlabanka Frakklands og þeir semja við kröfuhafa fyrir þína hönd. Ef ekki nást samningar, sjá þeir um málshöfðun til að frysta greiðslur eða stoppa kröfuhafa frá því að eignast íbúðarhúsnæði skuldarans. Á móti geta þeir gert þá kröfu að húsnæðið sé selt til að greiða skuldir, en aðeins ef tryggt er að skuldarinn geti fundið annað hentugra íbúðarhúsnæði.
En hér er ekkert svona til staðar. Það er ekkert til staðar til að vernda skuldara fyrir bönkum. Löggjafinn virðist hafa haft fyrst og fremst áhyggjur af hinum stórhættulegu skuldurum og hefur m.a. tryggt að bankar fá hverja einustu krónu til baka á núvirði með verðtryggingunni auk hæstu mögulegu bankavaxta.
Stefnan hefur því verið belti og axlabönd fyrir bankana, á meðan almenningur er skilinn eftir með buxurnar á hælunum. Svo segjumst við ekki skilja neitt í því hvernig bankarnir fara að því að hagnast um milljarð á viku eða meira.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
21.8.2007 | 10:22
Er betra að eiga ekki börn?
Þegar börnin fæðast vill daglegt líf flestra foreldra breytast. Nætursvefninn verður 2-3 klst lúrar, maður er rifinn á fætur eldsnemma til að elda morgunmat og horfa á Mikka mús og Bubba (nei, ekki Bubba kóng, heldur Bubbi byggir), stöðugt er verið að óska eftir að fá að borða, þvottahrúgan margfaldast, og hver kannast ekki við: Ég er búin, mamma! Skipuleggja þarf bíóferðir, erfitt er að vera úti lengur en til miðnættis vegna barnapíunnar og sumarfríið þarf yfirleitt að innihalda barnvæn hótel eða meira af Mikka mús a la Disney.
Corrine Maier, franskur rithöfundur, gaf nýlega út bók sem heitir No kid á ensku og Pas denfant á frönsku. Bókin færir öll þessi rök fyrir því að það er mun betra að eiga ekki börn og hefur ekki beint aukið vinsældir höfundarins heima fyrir.
Höfundurinn bendir á að í Frakklandi hefur lengra fæðingarorlof, betri leikskólar og meiri framlög ríkisins í gegnum skattakerfið lítið hjálpað til í jafnréttisbaráttunni. Segir hún: If 80 per cent of mothers work, only 30 per cent are promoted to positions of responsibility. A bit better than Germany and certainly than Italy, but not as good as the UK and way below the US. Konur eru enn með mun lægri laun en karlar, sitja í fáum stjórnunarstöðum og væru í minnihluta í sveitastjórnum og þingi ef ekki kæmu til sérstök lög um jafnan hlut karla og kvenna.
Í þeim löndum þar sem besta þjónustan er við börn og foreldra þeirra, eru konur mun líklegri til að vinna hjá hinu opinbera eða í lægri og verr launuðum störfum hjá einkafyrirtækjunum s.s. eins og í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi. Konur fórna þannig ekki bara nætursvefninum og brjóstunum fyrir barneignirnar, heldur líka að einhverju leyti möguleikum þeirra á að ná árangri í karlægum heimi.
Bandaríkin eru t.d. dæmi um land þar sem fæðingarorlof er nánast ekki til, leikskólar einkareknir og rándýrir og vinnuálagið ómanneskjulegt. En um leið virðast konur vera að ná ágætis árangri í að minnka launamun og ná æðstu stjórnunarstöðum bæði hjá hinu opinbera og einkafyrirtækjum.
Hvernig skyldi standa á þessu?
En ég get ekki sagt annað en fyrir mína parta þá tel ég að dætur mínar hafi verið fyllilega grindargliðnunarinnar og erfiðsins virði, - enda hvar fær maður jafn yndislega kossa og aðdáun og ást en einmitt frá börnunum sínum.
Og svo eru þær svo yndislegar þegar þær sofa
![]() |
Væntingar og vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.8.2007 | 21:01
Skyldi Vigdís einhvern tímann hafa tapað?
Það er gaman að taka þátt í stjórnmálastarfi og keppa að ákveðnum markmiðum og ná þeim. Jafn fúlt getur síðan verið að ná þeim ekki og tapa. Sérstaklega fyrir fólk eins og mig sem gjarnan keppir og hef mikið keppnisskap :)
En niðurstaðan er komin og Ólöf Pálína Úlfarsdóttir er formaður LFK. Ég óska henni alls hins besta í starfi sínu fyrir LFK. Eftir mikla hvatningu á þinginu tók ég ákvörðun um að setjast í framkvæmdastjórn LFK og mun vonandi geta stutt hana og aðrar LFK konur í þeirra starfi fyrir flokkinn okkar.
Ég er einnig jafn sannfærð og áður um mikilvægi þess að tekist sé á innan stjórnmálahreyfinga, það sér gert drengilega og að loknum átökunum séu sverðin slíðruð. Enda er fátt betri undirbúningur og skóli fyrir alvöru átökin, kosningar til sveitastjórna og Alþingis.
Læt fylgja með ræðuna á þinginu. Fannst hún bara ansi flott og bakka ekki með hugmyndina um karlafrídaginn, sem er vel gjörlegt að mínu mati.
-------------------------------------
Kæru Framsóknarkonur
Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin verið leiðandi afl í kvenréttindabaráttu á Íslandi og Landssamband Framsóknarkvenna hefur leikið þar lykilhlutverk. Þannig hefur vægi kvenna á framboðslistum okkar verið mikið og konur áberandi í ráðherraliði flokksins. Þá lék LFK lykilhlutverk í að innleiða hina svokölluðu 60:40 reglu, sem kveður á um að hlutur hvors kyns skuli ekki vera lægri en 40% þegar skipað er í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins. Aðrir flokkar hafa verið seinni til að tryggja þannig rétt kvenna og þótti til dæmis tíðindum sæta að helmingur ráðherraliðs Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn skyldi vera konur og fréttaefni að kona settist
á stól utanríkisráðherra.
Maður veltir bara fyrir sér hvar fjölmiðlarnir voru síðustu kjörtímabil, því þetta höfum við Framsóknarkonur allt séð áður og teljum varla fréttnæmt.
Það er skoðun mín að einmitt þessi áhersla Framsóknarflokksins á að nýta krafta kvenna geti leitt hann úr þeim táradal sem hann gengur nú í gegnum. Þegar á móti blæs þurfum við öfluga liðsheild sem horfir samstillt fram á við og vinnur flokknum okkar heilt. Við höfum ekki efni á að horfa fram hjá þeim fríða flokki Framsóknarkvenna sem er reiðubúinn að leggja á sig mikla vinnu og erfiði til að vinna flokknum okkar þann sess sem hann á skilinn í íslenskum stjórnmálum. Til þess þurfum við breiðan og öflugan hóp kvenna og því er mikilvægt að til forystu í LFK veljist fólk sem er reiðubúið að leggja á sig þá vinnu og það erfiði sem til þarf.
Ég er reiðubúin til þess.
Ég hef ávalt haft mikinn áhuga á pólitík og einkum kvennapólitík. Bernskuminningar mínar eru af fundum Kvennalistans í Hlaðvarpanum, sem ég sat ásamt móður minni og frænku. Ég var harður stuðningsmaður Vigdísar Finnbogadóttur og var óhrædd að rökræða kosti hennar við hvern sem var í aðdraganda kosninganna 1980 þó ég ætti enn hálft ár í sjö ára afmælið.
Það eru þó ekki nema um það bil 5 ár síðan ég hóf bein afskipti af stjórnmálum. Ástæða þess að Framsóknarflokkurinn varð fyrir valinu var einkum sterk staða kvenna innan flokksins. Ég hef tekið virkan þátt í starfi flokksins síðan, verið varaþingmaður síðan 2003, setið í stjórn Kjördæmissambandsins í Suðurkjördæmi og miðstjórn auk þess að vinna fyrir flokkinn í sveitarstjórnarmálum í Vestmannaeyjum.
Nái ég kjöri mun ég vinna að því að Framsóknarflokkurinn verði sýnilegur sem það leiðandi afl sem hann er í íslenskri kvennapólitík. Þannig þurfum við meðal annars að beita okkur af krafti við að efla stöðu kvenna í sveitarstjórnum og á Alþingi og liður í því er að gera LFK og starf þess enn sýnilegra en nú er og styðja af krafti við þær konur sem vilja starfa fyrir flokkinn.
Ein af þeim hugmyndum sem ég vil hrinda í framkvæmd er að snúa við kvennafrídeginum og gera hann að karlafrídegi. Við höfum sýnt landsmönnum fram á hversu mikilvægar við erum með því að taka okkur frí frá störfum og karlarnir hafa þurft að bjarga sér án okkar. Með því að halda karlafrídag gætum við sýnt öllum að konur geti, einar og óstuddar, rekið og stjórnað Íslandi í einn dag.
Þannig gætu karlar á þingi tekið sér frí og kallað inn varaþingkonur í sinn stað. Þá væri hægt að halda þingfund á karlafrídaginn þar sem aðeins konur sætu í þingsal. Slíkt myndi vekja heimsathygli og hefði þannig áhrif á baráttu kvenna víða um heim.
Ég trúi því að með öflugu starfi LFK getum við lagt grunninn að endurreisn Framsóknar og ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Ég trúi því að með samstilltu átaki getum við Framsóknarkonur lyft
grettistaki og ég mun ekki skorast undan.
Því sækist ég eftir kjöri sem formaður LFK.
![]() |
Ólöf Pálína Úlfarsdóttir kjörin formaður LFK |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |