7.11.2007 | 13:54
Framsóknarblogg, hvað!
Pétur Gunnarsson, ritstjóri eyjan.is, er búinn að vera frekar pirraður undanfarið yfir að hafa verið titlaður Framsóknarbloggari af fréttastofu RÚV og kemur sá pirringur vel fram í pistli sem hann nefnir Frávikshegðun. Egill Helgason grínast með það á sínu bloggi að hann virðist vera kominn heim aftur á Tímann, þar sem hann hóf feril sinn sem fjölmiðlamaður.
Og mér finnst þetta allt þrælfyndið.
Ég held nefnilega að allir sem þekkja Pétur Gunnarsson vita að það segir honum enginn hvað hann eigi að skrifa. Og ég veit fyrir víst að hann lærði það í vist sinni sem starfsmaður Framsóknarflokksins að enginn segir almennt Framsóknarmönnum hvað þeir eiga að segja eða skrifa.
Hvað þá að blogga...
Hins vegar er Egill Helgason velkominn aftur í faðm Framsóknarflokksins hvenær sem er
31.10.2007 | 10:43
Áskorun til Eyjamanna, líka!
Á forsíðu Moggans í morgunn er frétt um undirskriftasöfnun til sveitastjórnarmanna á Suðurnesjunum um að tryggja að Hitaveita Suðurnesja verði áfram í eigu sveitarfélaganna. HS er í dag í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur (í gegnum REI).
Ég tel það skipta miklu fyrir Vestmannaeyjar að HS komist ekki í meirihlutaeigu einkafyrirtækja, þar sem gróðahugsunin skiptir mestu en ekki hagur okkar neytenda. Þegar eru fordæmi um hversu slæmt þetta getur verið fyrir neytendur og má þar nefna orkuskortinn í Kaliforníu, rafmagnsleysið á austurströnd Bandaríkjanna 2003 og úttekt á raforkumarkaðnum í Svíþjóð.
Því vil ég hvetja Eyjamenn og aðra þá sem hafa hagsmuna að gæta varðandi þjónustu Hitaveitunnar til að fara inn á askorun2007.is og skrá nafn sitt þar.
29.10.2007 | 13:51
Er blogg flopp?
Í greininni er verið að velta fyrir sér hvort blogg skipti í alvöru máli í daglegri umræðu? Geta bloggarar stjórnað umræðunni, eða stjórna hefðbundnir fjölmiðlar enn því hvað fær athygli? Kent Asp, prófessor við blaðmannaháskólann í Gautaborg, kallar blogg og þá sérstaklega pólitískt blogg flopp í greininni. Hann segir að bloggið sé aðeins viðbót eða viðhengi við pólitíska umræðu sem fer fram í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi. Ekkert meira...
Pólitískir bloggarar eru þannig fyrst og fremst að hafa áhrif á alla hina pólitísku bloggarana.
Ekki almenning.
Þýðir þetta að ég ætla að hætta að blogga?
Nei, - enda verður maður hreinlega að fá útrás einhver staðar fyrir óstjórnlegan áhuga á pólitík og öllu því sem er að gerast í samfélaginu.
Og þar virkar bloggið svo sannarlega!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.10.2007 | 09:55
Nafnlaus bréf
Ég hef verið soldið hugsi yfir þessu bréfi og málinu öllu. Á Íslandi hefur almennt ekki verið auðvelt að sækja lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk til saka fyrir mistök og hafa heilbrigðisstarfsmenn staðið þétt saman, þar á meðal í þessu máli. Félag lýtalækna fundaði t.d. í gær og lýstu því yfir að Jens nýti fyllsta trausts félagsins. Eini læknirinn sem ég veit til þess að hafi látið af störfum á landspítalnum vegna læknamistaka var Þóra Fischer og minnir mig að það hafi verið hennar ákvörðun.
En réttlæta mistök af þessu tagi að fólk sé svipt ærunni og lífsviðurværinu? Þýða mistök af þessu tagi að viðkomandi læknir sé óhæfur til að gegna læknisstörfum það sem eftir er?
Ekki veit ég það, en ég tel að við verðum að finna eitthvað jafnvægi á milli þess að telja að heilbrigðisstarfsfólk geti engin mistök gert, að þegar eitthvað fari úrskeiðis sé það bara slys og bandarísku leiðarinnar þar sem farið er í mál út af minnsta fráviki frá því sem fólk telur "eðlilegt".
Og ég held að við getum öll verið sammála um að fátt er smekklausara en nafnlaus bréf.
![]() |
Staða læknisins óbreytt á LSP |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2007 | 23:28
Stofnfjárbréf eftirsótt?
Samkvæmt frétt á bloggsíðunni Markaðurinn þá virðist vera mikill titringur í kringum stofnfjárbréfin í Sparisjóðnum í Vestmannaeyjum. Allavega einn aðili hefur auglýst eftir bréfum og þegar áhugasamir hringdu svaraði lögmaður í umboði kaupenda.
Talað hefur verið um að stofnfjárbréfin munu fara á allt að fjörutíu til fimmtíu milljónir króna, sem þykir ágætis ágóði fyrir þá sem lögðu upphaflega fram 55 þúsund krónur eða minna.
Þeir sem helst eru grunaðir um að sækjast eftir bréfunum eru víst Byrs-menn og Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður. Skv. Markaðsblogginu er víst talið betra að hafa Guðmund þar, en í einu af fjöreggjum Eyjamanna, Vinnslustöðinni.
Menn verða þó að stíga varlega til jarðar og hafa í huga hver upphaflegur tilgangur stofnfjáreigenda var og markmið sjóðsins.
Að styðja við samfélagið Vestmannaeyjar.
18.10.2007 | 20:22
Í staðfestri samvist
Ég var nýlega að gera mér grein fyrir því að ég er í staðfestri samvist (19.10.07 kl. 9.22 leiðrétt í samræmi við athugasemd). Þetta var stórmerkileg uppgötvun, enda höfum við maðurinn minn almennt talað um okkur sem hjón og að við værum í hjónabandi, en hefðum verið gefin saman borgaralega. Ástæðan fyrir því að ég gerði þessa merkilegu uppgötvun voru m.a. athugasemdir biskups um að aðeins ákveðin athöfn í kirkju kallast hjónaband sem og umræðan um málþing Samtakanna 78 um hjúskap og staðfesta samvist.
Það er nefnilega enginn munur á borgaralegri vígslu og staðfestri samvist, allavega miðað við nýlega lagabreytingu. Bæði borgaralega vígslan og staðfesta samvistin gera raunar það sama, veita pörum ákveðin lagaleg réttindi og skyldur.
Ég er í Þjóðkirkjunni en maðurinn minn ekki. Maðurinn minn tók ákvörðun fyrir átta árum að ganga úr Þjóðkirkjunni þar sem hann trúði ekki á að það sem hún boðaði. Því var það sameiginleg ákvörðun okkar að gifta okkur borgaralega og var athöfnin mjög hátíðleg og falleg í veislusal Bláa Lónsins.
Því hef ég átt soldið erfitt með að skilja af hverju það skiptir svo miklu að fá að gifta sig í kirkju. Snýst þetta bara um að snúa niður 2000 ára gömul trúarbrögð og fá viðurkenningu þeirra á að þeir hafi rangt fyrir sér? Þó nokkrir hafa sagt að þetta sé spurning um mannréttindi. En eru það mannréttindi að vera í Þjóðkirkjunni?
Sr. Hjörtur Magni Jóhannesson snýr umræðu um hjónavígslu samkynhneigðra í kirkjum upp í umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar og skyldu hvers Íslendings að greiða til kirkjunnar og bendir á að þetta fyrirkomulag er réttlæt með því að Þjóðkirkjan sé kirkja allra landsmanna, s.s. eins og RÚV er útvarp allra landsmanna.
En svo í raun er hún það ekki.
Kenningar hennar hreinlega leyfa það ekki.
Því tel ég að við ættum að íhuga alvarlega að taka fyrsta skrefið í aðskilnaði ríkisins og Þjóðkirkjunnar og leyfa aðeins lögboðnum fulltrúum ríkisins s.s. sýslumönnum, sýslumannsfulltrúum og dómurum að gefa fólk saman. Allir munu þannig fyrst ganga í staðfesta sambúð og geta síðan leitað til sinna trúfélaga um blessun þeirra yfir sambandinu. Þetta er fyrirkomulagið t.d. í Frakklandi. Fyrst er lögformlega athöfnin og svo getur parið ákveðið hvort leitað sé blessunar trúfélagsins.
Greinilegt er að margir prestar eru tilbúnir til að veita þá blessun.
Spurning er bara af hverju ætti samkynhneigt fólk að vera tilbúið til að þiggja hana?
![]() |
Rætt um aðkomu kirkjunnar að staðfestri samvist á kirkjuþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.10.2007 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.10.2007 | 15:10
500 milljón kr. bakreikningur
REI málið virðist engan enda ætla að taka. Í grunninn finnst mér þetta ekki snúast um Björn Inga Hrafnsson, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson eða kaupréttarsamninga eins og mætti halda af fjölmiðlaumræðunni. Þetta snýst um hvað á að vera í einkarekstri og hvað á að vera á vegum hins opinbera.
Ég hef haft áhyggjur af því hvert við værum að stefna með einkavæðingu ýmissa opinberra fyrirtækja. Einkavæðing bankanna hefur t.d. skilað litlu fyrir íbúa landsbyggðarinnar og hefur hennar einna helst orðið var í lokun útibúa og skertri þjónustu. Einkavæðing Símans þýddi enn á ný að störfum fækkað á landsbyggðinni og þjónustan skertist.
Óhugur fór ætíð um mig þegar Sjálfstæðismenn lýstu yfir áhuga sínum á að einkavæða Íbúðalánasjóð eða leggja hann hreinlega niður og nú síðast kom salan á 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Í kjölfarið fylgdu síðan nokkur af minni sveitarfélögunum og seldu sinn hluta. Á tímabili leit meira segja út fyrir að Geysir Green Energy myndu eignast meirihluta í Hitaveitunni. Því var það ákveðinn léttir þegar Reykjavíkurborg (Orkuveitan) og Hafnarfjarðarbær stóðu í lappirnar og tryggðu að stærsti hluti HS yrði áfram í opinberri eigu.
En áhrifin létu samt ekki á sér standa. Nýlega var því ljóstrað upp að HS teldi sig ekki hafa efni á að leggja vatnslögn til Vestmannaeyja í stað þeirrar sem er að liðast í sundur. Það hreinlega borgaði sig ekki, og þar sem reka yrði fyrirtækið almennilega til að greiða nægan arð til þeirra sem greiddu 7 milljarða króna fyrir aðeins 15% hlut ríkisins yrðu peningarnir í lögnina að koma annars staðar frá.
(Lesist: Frá ríkinu)
Og nú með stóra REI málinu kom síðasta kjaftshöggið. Að Orkuveitan hefði í raun ekki staðið í lappirnar heldur ætlaði að leggja HS inn í REI og sameina hana þannig Geysir Green Energy. Geysir Green Energy teldi sig meira að segja hafa forkaupsrétt á hlut Hafnarfjarðarbæjar ef þeir skyldu ákveða að selja.
Þýðir þetta ekki bara hækkandi raforkuverð og/eða lakari þjónusta?
Ég er ekki hissa að Árni Sigfússon og aðrir sveitastjórnarmenn segjast nú bara ekki skilja neitt í neinu, og helst vilja að REI hefði aldrei orðið til. Við í Eyjum verðum víst bara að vona að ríkið verði almennilegt við okkur eða að bæjarstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi sett til hliðar 500 milljónir kr. til að setja í nýja vatnslögn af öllum milljörðunum sem þeir fengu fyrir sinn hlut.
Jafnvel meira ef/þegar við þurfum að setja á stofn Bæjarveitur Vestmannaeyja á ný.
![]() |
Engar ákvarðanir teknar um Hitaveitu Suðurnesja á næstu vikum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2007 | 20:18
Siglingar í Bakkafjöruna í forval
Ég er í tilraunaáskrift á Morgunblaðinu núna og sunnudagsblaðið var að berast með miklum bíladrunum. (Blaðberinn minn ber nefnilega blaðið út á bíl, en ekki tveimur jafnfljótum enda Eyjar stórt svæði að fara yfir ). Eftir að hafa farið í hundavaði yfir pistil um gróðurhúsalofttegundir (og hugsað aftur hlýtt til blaðberans míns) og langlokuviðtals við fyrrum borgarstjóra rakst ég á stórfrétt.
Eiginlega STÓRFRÉTT!
Ríkisskaup er að auglýsa forval um ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru. Úr forvalinu verða valdir þeir sem fá að taka þátt í lokuðu útboði um rekstur ferjunnar, farþegaaðstöðu á báðum stöðum og jafnvel rekstur hafnarinnar á Bakka. Ferjan á að vera í eigu bjóðanda og rúma að lágmarki 250 farþega og 45 bíla.
Skilafrestur er 5. nóvember 2007 kl. 15.00.
Allt í einu varð þetta svo miklu raunverulegra.
4.10.2007 | 14:24
Dauðarósir sjávarbyggðanna
Árið 1998 kom út bókin Dauðarósir eftir Arnald Indriðason. Plottið gekk út á það að reykvískur verktaki keypti skipulega upp kvóta hjá fyrirtækjum umhverfis landið til þess eins að kippa fótunum undan sjávarútvegsfyrirtækjum og svipta þannig íbúa sjávarplássanna lífsviðurværinu. Í kjölfarið flyttu þeir á mölina og hann hafði því tryggt sér kaupendur að þeim þúsundum íbúða sem hann hafði í byggingu.
Fyrst þegar ég las þessa bók þótti mér plottið langsótt og bókin ótrúverðug. Undanfarnar vikur hafa þó verið að renna á mig tvær grímur.
Mikil þensla hefur verið hér á landi undanfarið og hafa menn, bæði til vinstri og hægri, keppst við að kenna virkjanaframkvæmdum á Austurlandi um. Merkilegt nokk er þó mestu þensluna að finna á höfuðborgarsvæðinu, fjarri Kárahnjúkum. Þar keppast verktakar við að hrófla upp nýjum hverfum og nýlega heyrðist í útvarpsfréttum að í Reykjavík vantaði 20 þúsund manns til að fylla þau hverfi og fjármagna fylleríið.
Ríkisstjórnin hefur samt fundið leið til að draga úr þenslunni. Og hver er hún? Á að koma böndum á óheyrilegar fjárfestingar í steinsteypu á SV-horninu? Á að flytja starfsemi á vegum ríkisins út á land? Á að veita fjármagni til uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra í sjávarbyggðum til að treysta búsetu og draga úr fólksflóttanum?
Nei, ríkisstjórnin hefur önnur áform. Hún hefur skorið niður aflaheimildir um þriðjung og þannig kippt fótunum undan því fólki sem enn þraukar í sjávarbyggðum landsins. Mótvægisaðgerðir hennar eru ekkert annað en blaut tuska í andlitið á þessu sama fólki. Og nú síðast fréttist af áætlunum um að múta fólki sem missir vinnuna til að pakka saman og flytja til Reykjavíkur.
Ríkisstjórnin er þannig komin í hlutverk verktakans í Dauðarósum sem fórnar sjávarútveginum svo kynda megi áfram þenslubálið á höfuðborgarsvæðinu. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún, með fulltingi allra þingmanna stjórnarflokkanna, hafa lagt eld að sjávarbyggðunum og ætla að sitja og horfa á meðan þær brenna til grunna.
Þeir sem vilja forða sér geta sótt 200 þúsund kallinn sinn til ríkisins áður en þeir setjast í rúturnar á leið til Reykjavíkur.
--------
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.9.2007 | 10:53
Sauðir í umferðinni
Yfirlögregluþjóninn á Sauðárkróki kippti sér ekki mikið upp við tafirnar, og taldi að menn mættu eiga von á að verið væri að smala féi á haustin. Hefur meira að segja verið gert í marga áratugi, þ.e.a.s. að fara í göngur.
En væntanlega finnst mörgum að náttúran og sveitin eigi bara að vera til að dáðst að. Helst bakvið girðingu eða í gegnum gler.
Og alls ekki á þjóðvegum landsins!