24.11.2008 | 09:34
Að kenna gömlum hundi að sitja
Langt er síðan ríkisstjórninni var gerð grein fyrir að íslenskir bankar væru orðnir alltof stórir og skuldsettir fyrir íslenskt samfélag. Fyrir lá fjöldi viðvarana, sem voru algjörlega hunsaðar. Forystumenn þjóðarinnar voru alltof önnum kafnir við að ferðast með einkaþotum heimshornanna á milli, jafnvel í boði útrásargreifanna.
Afleiðingin er sú að nú þarf þjóðin að taka á sig 700 milljarða króna neyðarlán frá alþjóðasamfélaginu, vegna hins algjöra dugleysis og ráðaleysis sem ríkisstjórnin hefur sýnt í viðbrögðum sínum við þeirri kreppu sem dunið hefur yfir.
Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn felur í sér að ríkisstjórnin ætlar að halda áfram að reiða sig á krónuna, sem flestir telja handónýta, án þess að það komi sérstaklega fram hvernig þeir ætla að gera það. Nefnt er mikilvægi stöðugleika, vextir verði hækkaðir enn meira, gjaldeyrishöftum beitt og já, bankar eiga ekki lengur að fá lán frá Seðlabankanum.
Gamlar tuggur
Síðan segir í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:
Þetta mun gera okkur kleift að slaka á hömlum á lánveitingum Seðlabankans og smám saman reiða okkur aftur á stýrivexti sem aðalstjórntæki peningamála innan ramma sveigjanlegrar gengisstefnu. Í þessu efni reiknum við með að krónan styrkist fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009 og að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010.
Hljómar þetta ekki ansi kunnuglega? Hversu oft höfum við ekki heyrt ríkisstjórnina, seðlabankann og greiningardeildirnar tala svona? Og enn hljómar platan, - þrátt fyrir að margir af okkar virtustu hagfræðingum segi að stjórnun peningamála með stýrivöxtum samhliða sveigjanlegri gengisstefnu gangi ekki fyrir þetta pínulitla myntkerfi okkar.
Það getur nefnilega verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Það eina sem þessi ríkisstjórnarhundur virðist kunna, er að leggjast á bakið og þykjast vera dauður.
(Birtist í Fréttablaðinu 24. nóvember 2008)
![]() |
Rætt um vantrauststillögu á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 18:08
Snuð fyrir almenning?
Ríkisstjórnin boðar að óskað hefur verið eftir að lækka laun æðstu embættismanna og að þeir hefðu ákveðnar tillögur um breytingar á eftirlaunafrumvarpinu alræmda.
Þetta er annar föstudagurinn í röð sem forystumenn ríkisstjórnarinnar blása til blaðamannafundar þar sem miklar fréttir eru boðaðar. Nú á að róa reiðan almenning og reyna að forða að fólk haldi áfram að fjölmenna á mótmælafundi.
Í gær var lagt fram þingsályktunartillaga þess efnis að íslenska þjóðin ætti að taka á sig 700 milljarða króna lán frá alþjóðasamfélaginu og gera má ráð fyrir að álíka upphæð vegna Icesave reikninganna. Allt í allt, hugsanlega 1400 milljarðar króna.
Eða 4,6 milljónir kr. per mannsbarn í landinu.
Mikið hlýtur fólki að hlýna núna um hjartarætur og verma sig við tilhugsunina um að það fái allavega barnabætur greiddar út mánaðarlega, í bland við atvinnuleysisbæturnar.
![]() |
Óska eftir launalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 15:46
Nýtt Ísland - nýr landbúnaður?
"Aldrei hefði ég trúað að ég ætti eftir að fara að hvetja til aukinnar sjálfbærni í landbúnaði." sagði einn gamalreyndur bóndi við mig nýlega. "Ha, hvað áttu við?"spurði ég. "Nú, landbúnaður hefur ekki beint verið þekktur fyrir að huga að sjálfbærni, en nú held ég að við eigum ekki annarra kosta völ," svaraði hann. "Sjálfbærni er eiginlega ekkert annað en heilbrigð skynsemi í núverandi efnahagsástandi."
Aukin sjálfbærni myndi þýða að við stokkum spilin upp á nýtt og förum að íhuga hvernig við getum orðið sem mest sjálfstæð um okkar þarfir, en án þess að skaða möguleika afkomenda okkar til að mæta sínum þörfum. Svíar hafa unnið markvisst í að auka sjálfbærni sinna dreifðu byggða og þar á meðal í verkefni sem nefnist Hållbara bygder. Þar er rannsakað hvernig bændur geta nýtt lífrænt eldsneyti til að hita hús, þróaðar leiðir til staðbundinnar matvælaframleiðslu, miðlun upplýsinga um sjálfbærni, skoðuð nýting á annars konar orku og margt fleira. Þetta eru allt verkefni sem eru í umræðunni nú þegar Íslendingar velta fyrir sér hvernig þeir geta sparað og nýtt það sem er til hér á landi.
Aukin sjálfbærni í orkuöflun
Skortur á gjaldeyri hefur gert umræðuna um aukna sjálfbærni enn meira áríðandi. Kaup á jarðefnaeldsneyti eru ca. 11% af innflutning Íslendinga og hægt væri að spara umtalsvert af verðmætum gjaldeyri ef við skiptum út olíunni fyrir íslenska orkugjafa. Æ erfiðara er að finna og vinna olíu (eins og umræðan um Drekasvæðið sýnir), mikið af jarðefnaeldsneyti er unnið á pólitískt eldfimum svæðum og síðast en alls ekki síst sleppir brennsla jarðefnaeldneytis út CO2 sem eykur hlutfall gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Með því að framleiða sjálf stóran hluta af því eldsneyti sem við þurfum fyrir landbúnaðinn, erum við að taka stórt skref í átt að auknu öryggi landsins hvað varðar orku og matvælaframleiðslu.
Aukin sjálfbærni í orku þýðir að draga þarf úr notkun jarðefnaeldneytis eins og díselolíu og bensíns.
Hvað er verið að gera?
Lífrænir orkugjafar eru helst lífdísel, metangas og etanól/metanól. Tilraunir standa nú yfir með möguleika á að rækta repju víðs vegar um landið, en tiltölulega auðvelt er að nota repjufræin til að útbúa lífdísel sem hægt er að nota á óbreyttar díselvélar. Metan væri hægt að framleiða úr mykju eða öðrum lífrænum úrgangi. Þegar búið er að tappa gasinu af er eftir mun verðmætari og betri áburður. Kúabændur búa þannig yfir gríðarlegum fjársjóði til metanframleiðslu, en hver gripur í fjósinu framleiðir um 1,2 tonn af mykju á mánuði. Svo maður gleymi ekki sauðfjár-, svína- og kjúklingabændum. Landbúnaðarháskólinn hefur verið í tilraunum með metan og hefur keyrt metanbíla í um tvö ár með ágætis árangri. Etanól/metanól er framleitt úr korni eða úr öðrum lífmassa og sá t.d. Orf líftækni fyrir að etanól yrði aukaafurð fyrirtækisins við ræktun á próteinum með korni.
"Ég sé bara ekki af hverju ég á ekki að geta framleitt mína eigin orku sjálfur, " hélt viðmælandi minn áfram, "og ef olíufélögin ætla ekki að taka þátt í þessari þróun með okkur, þá geta þeir bara étið það sem úti frýst."
Ég held að þetta verði bara mín lokaorð að sinni.
(Birt í Bændablaðinu 18. nóvember sl.)
24.1.2008 | 13:10
Mótmælt!
Borgarstjórnarfundurinn gengur með miklum ágætum eða þannig. Hvar er klappliðið frá Valhöll núna?
24.1.2008 | 09:57
Tími til að staldra við
Stjórnmál geta verið erfið og árásir mótherja oft hatrammar. Verst er það nú samt þegar maður verður fyrir persónulegum árásum frá samherjum, líkt og Björn Ingi Hrafnsson varð fyrir frá hendi Guðjóns Ólafs Jónssonar.
Ég heyrði í einum kunningja mínum í Reykjavík fyrst þegar fréttin af fatakaupunum barst. Hann hefur starfað mikið með íþróttahreyfingunni og sagði að á þeim stutta tíma sem Björni Ingi Hrafnsson hefði unnið með ÍTR hefði meira jákvætt gerst en allan þann tíma sem Steinunn Valdís og Anna Kristinsdóttir voru formenn.
Þetta er vont mál, og raunar má segja að allt ruglið á undanförnu í Reykjavíkurborg dragi mjög úr trausti og trú manna á stjórnmálamönnum og áhuga fólks á að starfa fyrir stjórnmálaflokka.
Líkt og 25% fylgið í Gallup könnuninni sýnir.
Því er nú tími til að staldra við!
![]() |
Björn Ingi hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2008 | 23:34
Hillary vann Nevada!
Hillary Clinton var að vinna forkosningarnar í Nevada, þrátt fyrir stuðning stærsta verkalýðsfélagsins í fylkinu og John Kerry við Obama. Bravó!
En hrakspárnar halda áfram, ýmsir fjölmiðlar vestanhafs virðast hreinlega ekki ráða við sig. Þeir skilja ekki neitt í neinu og segja endalaust frá einhverju slæmu í sambandi við hana, og hamast við að hrósa Obama. Nú síðast að niðurstaðan í Nevada sé raunar slæm frétt fyrir Hillary, þar sem Obama fékk þar 80-90% af fylgi svartra kjósenda. Ekki orð um að hún fékk meirihluta atkvæða kvenna, nánast allra tekjuhópa og meirihluta fólks af latínskum uppruna.
Eða að hún er núna búin að vinna þrjár forkosningar í röð, þvert á allar hrakspár.
En bandarískir kjósendur eru greinilega að gera upp sinn hug sjálfir, loksins, loksins! Kannski fer maður nú raunverulega að trúa því að kona muni gegna valdamesta embætti heims...
15.1.2008 | 21:58
Hvar var Helgi Seljan??
Sjaldan eða aldrei hef ég séð jafn litlaust og lélegt viðtal og Kastljósviðtalið við Árna Mathiesen í kvöld. Hann fékk bara að mala endalaust, lýsa frati á hæfni dómnefndarinnar, nefndi ekki á orð hæfasta umsækjandann (sjá hér starfsferilskrá viðkomandi), og notaði feril sinn í stjórnun fiskveiða sem dæmi um hvernig ráðherrar hafa ítrekað haft "vit" fyrir sérfræðingum.
Við vitum hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir fiskistofnana.
Ætli verði ekki eins með dómstólana?
Ég spyr bara: Hvar er Helgi Seljan þegar á þarf að halda...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.1.2008 | 12:53
Hvenær hefur hann liðið fyrir að vera sonur DO?
Ég gat nú bara ekki orða bundist yfir þessari setningu hjá Þorgerði Katrínu um Þorsteinn Davíðsson á visir.is: ..."óþolandi að menn séu látnir gjalda þess hverra manna þeir eru."
Hvenær hefur Þorsteinn Davíðsson liðið fyrir það að vera sonur Davíðs Oddssonar? Hann fékk starfið, er það ekki. Yfirleitt þarf manni að vera mismunað eða missa af einhverju til að maður sé látin gjalda einhvers.
Frekar má orða það þannig að þeir sem matsnefndin taldi mun hæfari hafi liðið fyrir það að vera ekki synir ákveðins fyrrum ráðherra.
Ég fagna að það sé kominn þingmeirihluti fyrir frumvarpi Lúðvíks Bergvinssonar um breytta skipan hæstaréttadómara og hvet Alþingi til að gera einnig gagngerar breytingar á skipan héraðsdómara í átt að faglegri vinnubrögðum.
PS. Eru einhver álög tengd Árna nafninu í Suðurkjördæmi?
30.12.2007 | 14:56
Gleðilegt nýtt stjórnmálaár!
Silfrið náði nýjum hæðum í dag, með umræðu sem var feiknar skemmtileg og á stundum jafn óþægileg fyrir nánast alla flokkana.
Sjálfstæðisflokknum var lýst sem bæði sigurvegara Alþingiskosninganna en um leið klúðrara ársins eftir REI málið mikla. Menn eru einnig loksins farnir að taka eftir spillingunni innan flokksins og ég gat ekki annað en skellt upp úr yfir Hönnu Birnu. Hún gat algjörlega haldið andlitinu og neitað að REI málið væri klúður ársins (þrátt fyrir orð formanns síns þess efnis) og séð ekki neitt óeðlilegt við dómarasætinu til Þorsteins Davíðssonar. Gat meira að segja látið skína í smá vandlætingu yfir því hvað menn væru farnir að vanmeta reynslu aðstoðarmanna ráðherra.
Vinstri Grænir fengu sína útreið. Flokkurinn væri ekki stjórntækur og yrði það ekki fyrr en skipt yrði um formann. Hann væri líka sá flokkur sem væri að tryggja Sjálfstæðisflokknum áframhaldandi völd, með því að geta ekki hugsað sér að vinna með Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Af álitsgjöfunum var ljóst að flestir vænta þess að Svandís Svavarsdóttir taki við, enda hefur hún sýnt og sannað að hún er fyllilega stjórntæk, ólíkt hinu S-inu.
Minn flokkur fékk sinn skerf. Framsóknarflokkurinn væri í einhverju afturhvarfi til fortíðar, og fyrrum félagi minn lýsti því yfir að hann yrði að hætta að styðja við sérhagsmuni og fara að huga að almannahagsmunum. Björn Ingi Hrafnsson fékk beint framan í sig að hann yrði alltaf stimplaður spilltur frá Agli og Þorgerður Katrín benti á að formaðurinn og varaformaðurinn væri sjaldan eða aldrei samstíga í málflutningi sínum. Þessu yrði ekki breytt (að mati þeirra sem ekki voru í Framsókn í þættinum) nema með breyttri forystu. En hver er þá eftir? Hmmm... Væntanlega best að fara undir feld með allt þetta, enda alltaf athyglisvert að heyra sjónarmið annarra en flokksmanna um manns eigin flokk.
Frjálslyndir voru dæmdir sem svona samansafn. Kristinn H. lengst til vinstri eða bara enn í Framsókn og Jón Magnússon til hægri við alla hægrimenn.
Eiginlega kom Samfylkingin einna best út úr þessu öllu saman. Össur var yndislegur eins og alltaf og skemmti sér konunglega yfir Hönnu Birnu, Bjarna mínum og Þorgerði Katrínu. Stjórnmálaáhugamaðurinn ég vona innilega að hann haldi áfram að blogga á næturnar, á meðan Framsóknarkonan ég vona jafn innilega að hann hætti þessu sem fyrst. Hann gæti endað með flokkinn í sömu prósentuhæðum og þegar þeir voru að mælast sem hæst... :)
Óska öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs og takk kærlega fyrir innlitin á árinu!
Eygló
18.12.2007 | 23:20
Jólameyjar, Litli Pungur og Bjálfansbarnið
Umræða um jafnrétti hefur verið áberandi á undanförnu, og meira að segja Egill Helgason varð að játa sig sigraðan fyrir jafnréttissjónarmiðunum eftir eitilharða árás VG femínista fyrir nokkru. Því fannst mér engin ástæða til að láta okkar margumtöluðu jólasveina í friði.
Það vill nefnilega gleymast að jólasveinarnir okkar eru ekki 9 eða 13, heldur væntanlega einhvers staðar á bilinu 50-70. Og meira segja í hópi þessara hrekkjalóma má finna vígalega kvenskörunga.
Samkvæmt bókinni Saga daganna voru kvenkynsjólasveinar kallaðir jólameyjar og þær tvær sem nokkuð örugglega má telja að hafi verið kvenkyns, komu af Vestfjörðunum. Var önnur kölluð Flotsokka og kom til byggða rétt fyrir jól. Ef einhver var þá ekki búinn að prjóna sokkinn sinn, stal hún sokknum og fyllti hann af floti sem hún hljópst á brott með. Hin var úr Önundarfirði og hét Flotnös. Hún þurfti enga sokka heldur troð heilum mörtöflum upp í mjög svo víðar nasir sínar.
Svo eru einnig nokkur nöfn jólasveina sem vekja upp ákveðnar efasemdir um kyn þeirra. Úr Steingrímsfjarðarromsunni er m.a. fjallað um Reddu, Sleddu og Klettaskoru og eiga þessi nöfn sérlega vel heima með jafnskemmtilegum nöfnum karlkynsjólasveina eins og Litli Pungur, Lungnaslettir, Lækjaræsir og Bjálfansbarnið.