Stríðið gegn Íslandi

Hagfræðingurinn Michael Hudson var í Silfri Egils í dag og sagði Ísland vera undir fjárhagslegri árás.  Lánardrottnar landsins ætluðu að gera allt sem þeir gætu til að tryggja að Ísland myndi borga skuldir sem bankarnir stofnuðu til og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri hér til að tryggja að þessar skuldir yrðu greiddar.  Þótt það myndi þýða að við yrðum að selja allar auðlindir okkar, tapa heimilum okkar og rústa velferðarkerfi landsins.

Við ættum því einfaldlega ekki að borga.   Í staðinn fyrir að burðast við að leita allra leiða við að borga skuldir sem við stofnuðum ekki til, þá ættu lánardrottnar landsins að reyna að útskýra hvernig í ósköpunum við eigum að geta greitt?

Án þess að rústa landinu, velferðarkerfinu og framtíð barna okkar? 

Kannski er orðið tímabært að skoða reynslu Argentínumanna?  Þetta rakst ég á í the Economist:

 "...Argentina’s government stopped servicing its debt more than three years ago, on December 23rd 2001. It was the biggest sovereign default in history. Despite liberal help from the IMF, the government could not meet the punishing yields exacted by skittish investors or balance its books in the midst of a protracted recession. It devalued the peso, then decoupled it altogether from the dollar, dismantling the “convertibility system” that had killed hyperinflation a decade before. At its worst, the peso lost three-quarters of its value, wreaking havoc on the finances of banks, companies and households, which could no longer meet their dollar liabilities."

Ríkisstjórnin bauð lánardrottnum sínum einfaldlega ca. 30 cent per dollara þegar hún gerði sér grein fyrir að það væri engin leið til að standa í skilum.  Lánardrottnar lofuðu að þeir myndu aldrei taka tilboðinu og ríkisstjórnin hótaði að hún myndi aldrei hækka sig. 

Hver vann? Á endanum tóku 80% af lánardrottnunum tilboðinu.

Er þjóðin ekki útskúfuð úr samfélagi þjóðanna? Á G20 fundinum í London 2. apríl 2009 (sex árum seinna) var Christina Fernandez de Kirchner forseti Argentínu meðal fundargesta.  

Spurning er því orðin lánin eða lífið. 


Dylgjur og aðdróttanir

Ólína Þorvarðardóttir var á Sprengisandi ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Tryggva Þór Herbertssyni.  Ég held að sjaldan eða aldrei hafði manneskja sem vill kalla sig stjórnmálamann orðið uppvís að öðrum eins málflutningi.

Ef þetta er það eina sem Samfylkingin hefur fram að færa gegn tillögum og hugmyndum Sigmundar Davíðs um aðstoð við heimili og fyrirtæki í landinu þá er málstaður þeirra enn aumari en ég hefði nokkurn tímann getað trúað.

Greinilegt er á pistli sem hún skrifar á bloggsíðu sína eftir þáttinn að Ólína veit upp á sig skömmina.

Svei!


Flokksræði gegn lýðræði

Ég fylgdist með umræðunni á þinginu á þingrásinni til um eitt í nótt.  Síðustu á mælendaskrá sýndist mér vera Herdís Þórðardóttir.  Þar áður var Dögg Pálsdóttir, Jón Magnússon, Birgir Ármannsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Jón Magnússon aftur, Herdís Þórðardóttir, Dögg Pálsdóttir aftur, Pétur Blöndal, Ragnheiður Elín aftur, Pétur aftur, og Sturla Böðvarsson um fundarstjórn forseta.  Á undan Herdísi talaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Ég verð nú að viðurkenna að ég lækkaði í hljóðinu eftir Þorgerði Katrínu.  Mér heyrðist menn eiginlega vera búnir að segja allt sem segja þarf, - fyrir ansi löngu síðan.

En nei, nei, - menn eru alls ekki í neinu málþófi heldur bara málefnalegri umræðu. En af hverju er ekki komin fram nein breytingartillaga við frumvarpið?  Eina sem Sjálfstæðismenn hafa lagt til undir stjórn BB er að málið verði lagt til hliðar, geymt fram yfir kosningar, tekið fyrir á sumarþingi, bara frestað.

Hljómar ægilega kunnuglega, - var þetta ekki einnig málflutningurinn vegna breytinganna á Seðlabankanum?

Þá umræðu leiddi BB líka...

Allt er gert til að tefja málið, fresta því og standa í veg fyrir að hægt sé að tryggja aukið lýðræði í landinu.

Af hverju í ósköpunum er Sjálfstæðisflokkurinn á móti lýðræði?  Skyldi það vera vegna þess að fylgismenn hans trúa einfaldlega ekki á lýðræði, heldur flokksræði?

 


20% leiðréttingin...

Hér eru einföld og góð útskýring á hugmyndafræðinni á bakvið leiðréttingu skulda:

Bernanke og kosningatrix

Fulltrúar aðgerðarleysis í samfélaginu fara mikinn við að berja niður hugmyndir um aðgerðir til aðstoðar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum í landinu. Síðasta útspilið var hreint og klárt skítkast um hagfræðing sem dirfðist að tala fyrir hugmynd um fimmtungs lækkun á höfuðstól skulda heimila og fyrirtækja í landinu.
 
Orð eins og arfavitlaus, atkvæðaveiðar, og kosningatrix eru notuð í gríð og erg í þeirri von að fólk skoði ekki hugmyndina betur.
 
20% leiðrétting skulda
 
Hugmyndin sjálf er tiltölulega einföld.  Jón og Gunna skulduðu Gamlabanka 100 kr.  Gamli banki afskrifar allar húsnæðisskuldir um t.d. 50% (mat á lánasöfnun er í gangi þessa dagana á vegum skilanefndar og FME, og á að ljúka á næstu vikum).  Skuld Jóns og Gunnu er því metin á 50 kr. og hún er færð yfir í Nýjabanka á því mati.  Athugið að það eru kröfuhafar gömlu bankanna sem tapa 50 kr. í þessu dæmi, en þeir hafa þegar afskrifað stórann hluta sinna krafna. Nýibanki selur Íbúðalánasjóði (ÍLS) skuldina á 50 kr. og losnar við hana úr bókum sínum.  Í stað þess að rukka Jón og Gunnu um 100. Kr. – færir Íbúðalánasjóður höfuðstólinn niður í 80 kr. og rukkar Jón og Gunnu um þá upphæð (og vexti af henni). ÍLS tapar aðeins peningum á þessu ef, og að því marki sem, allir Jónar og Gunnur eru að meðaltali borgunarfólk fyrir minna en 50 kr. af þessum 80 kr. Ástæðan fyrir því að niðurfellingin er ekki hærri, er til að einnig sé hægt að lækka höfuðstól lána Íbúðalánasjóðs, annarra fjármálastofnana og lífeyrissjóða.
 
Til einföldunar hafa margir bent á að lækkunin samsvari í raun verðbótum síðustu 18-24 mánuði eða leiðréttingu skulda vegna hrunsins.
 
Rannsóknir sem vitnað var í á fréttaveitunni Bloomberg sýna að fimmtungs lækkun eða meira á höfuðstóli leiðir til að fleiri standa í skilum en ef lengt er í lánum, greiðslum frestað eða gripið til annars konar greiðslujöfnunar.  Við greiðslujöfnun standa 55% lántakanda ekki í skilum, á meðan um 28% lántakanda standa ekki í skilum ef höfuðstóll er lækkaður innan sex mánuða.
 
Kostar þetta ekki einhver ósköp?
 
Skuldir Íslendinga liggja þegar að stórum hluta afskrifaðar í nýju bönkunum.  Þar eru þær bókfærðar á allt öðru og mun lægra verði en snýr að hinum venjulega Íslendingi.  Oliver Wyman vinnur núna að því að ljúka verðmati og skv. upplýsingum þaðan þykir lánasafnið sem ætlunin er að flytja yfir í nýju bankana mjög lélegt. Nýju bankarnir geta því ekki tapað einhverju sem er þegar afskrifað.  Ef 80% er rukkað í stað 100%, munu fleiri geta staðið í skilum og færri verða gjaldþrota.  Meðalgreiðsla hvers og eins lækkar en fleiri geta borgað.
Og á móti má spyrja hvað það muni kosta ef algjört kerfishrun verður hér á landi? Hvað mun kosta að skoða mál hverrar og einnar fjölskyldu og hversu margar þeirra verða gjaldþrota á meðan mál þeirra eru í skoðun?
 
Orð Bernankes og Roubini
 
Í Bandaríkjunum hafa menn miklar áhyggjur af skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Þar eru um 20% heimila með neikvætt eigið fé í húsnæði sínu, þ.e. þau skulda meira en virði húsnæðisins er.  Til samanburðar eru 40% íslenskra heimila í sömu stöðu. Húsnæðisverð hefur hrunið og gjaldþrotum fjölgar stöðugt.  Þegar í byrjun árs 2008 hvatti seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, lánveitendur til að lækka höfuðstól fasteignalána og dr. Nouriel Roubini, einn þekktasti hagfræðingur Bandaríkjanna, hefur lagt til að öllum fasteignalánasamningum í Bandaríkjunum verði rift svo hægt sé að lækka skuldabyrði heimilanna.
 
Mikill er máttur Framsóknar ef þessir menn eru farnir að tala fyrir lækkun höfuðstóls fasteignalána til þess eins að styðja kosningabaráttu Framsóknarflokksins.

(Birtist fyrst í Eldhúsdegi Fréttablaðsins 1.4.2009)

 


VG tefur Helguvík

Atvinnuleysi er mikið áhyggjuefni, ekki hvað síst á Suðurnesjum þar sem fjöldi atvinnulausra er nú 14% af íbúum eða um 1900 manns. Þar hafa menn lengi reynt að byggja upp fleiri stoðir undir atvinnulífið, s.s. með fjárfestingu í ferðaþjónustu, uppbyggingu Keilis og hugmyndum um heilsutengda ferðaþjónustu.  Jafnframt hafa menn horft til uppbyggingar stóriðju í Helguvík.

Norðurál hefur þegar hafið framkvæmdir, en telur lykilforsendu til að ljúka fjármögnun á verkefninu að gengið verði frá fjárfestingarsamningi við íslenska ríkið.  Samningsdrögin hafa verið tilbúin um hríð og  Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, lagði svo loks fram stjórnarfrumvarp um heimild til samninga um álver í Helguvík.

Strax þá kom í ljós að ekki stóð öll ríkisstjórnin að þessu stjórnarfrumvarpi.  Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, lýsti því yfir að hún væri algjörlega á móti málinu, enda ættu Suðurnesjamenn væntanlega að finna sér "eitthvað annað að gera".

Stóra spurning var hins vegar hvort hún væri ein í þessari afstöðu sinni eða hvort ágreiningurinn væri algjör á milli stjórnarflokkanna.  Í meðferðum þingsins er að koma í ljós að ágreiningurinn milli Samfylkingarinnar og VG er djúpstæður,- og að VG virðist ætla að gera allt til að tefja eða drepa málið.

Þjóðin hlýtur því að spyrja sig hvort þetta verði venjan ef ríkisstjórnarflokkarnir fá meirihluta eftir kosningar.  Að í hvert skipti sem atvinnuskapandi verkefni komi á dagskrá, muni VG tefja málið og drepa því á dreif, jafnvel þótt meirihluti sé fyrir því á þinginu.

 

 

 


Freudian slip?

Stundum verður manni bara á að segja það sem maður meinar.

Ekki orðlaus...

Ég er nokkuð viss um að Sjálfstæðismenn hringinn í kringum landið óska þess að Davíð Oddsson hefði svona einu sinni orðið orðlaus...

Um leið og þeir hugsuðu að þarna hafi allavega 5% fokið í næstu skoðanakönnun.

 

 

 

 


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. passar auðvaldið

Steingrímur J. Sigfússon hefur ákveðið að færa niður skuldir VBS og Saga Capital um 8 þúsund milljónir króna. Þetta gerir hann með því að bjóða þeim vexti sem eru langt undir því sem öðrum fyrirtækjum og hvað þá einstaklingum bjóðast, takist þeim á annað borð að verða sér úti um lán.

Þessi sami Steingrímur hefur úthúðað Framsóknarmönnum fyrir að dirfast að leggja til að húsnæðislán almennings verði færð niður sem nemur verðtryggingu og/eða gengisbreytingum síðustu mánaða.

Þessi sami Steingrímur situr í ríkisstjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur kallað tillögur Framsóknarflokksins stærstu millifærslu fjármagns frá einstaklingum til fyrirtækja sem sögur fara af.

Ef almenningur, með 20 ára húsnæðislán á 4,5% vöxtum fengi sömu kjör og þessir fjárfestingabankar, það er að segja endurfjármögnun á 2% vöxtum, jafngilti það að húsnæðislánin væru færð niður um 20%. Kunnugleg tala ekki satt!?!

Steingrími og Jóhönnu þykir ekkert sjálfsagðara en borga niður lán fjárfestingabanka og annarra fjármagnseigenda. Að færa niður fasteignalán almennings telja þau hinsvegar svo fáránlegt að það þarf ekki einu sinni að ræða.


mbl.is Steingrímur: Góð vaxtakjör nauðsynleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af pólitískum ofsóknum

Framsóknarflokkurinn sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag vegna brottrekstrar Vigdísar Hauksdóttur frá ASÍ:

Lýðræðið í landinu byggist fyrst og fremst á því að fyrirheitið sem felst í nafninu lýðræði sé virt og efnt með almennri þátttöku landsmanna í starfi stjórnmálaflokka, stefnumótun þeirra og framboðum.

Áratugir eru síðan fólk hefur a.m.k. opinberlega verið beitt þvingunum og misrétti vegna stjórnmálaskoðana enda rétturinn varinn bæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum.

Það skýtur því mjög skökku við að forseti ASÍ, sem er áberandi áhrifamaður í Samfylkingunni skuli neyða starfsmann sambandsins til að segja sig frá starfi, vegna stjórnmálaþátttöku.

Er nú illt í efni fyrir hundruð einstaklinga sem taka þátt í sveitarstjórnarmálum og landsmálum um land allt með skilningi og án afskipta vinnuveitenda sinna, þegar sjálfur forseti Alþýðusambandsins hefur gefið það fordæmi að réttmætt sé að segja fólki upp vegna stjórnmálaþátttöku.

Löng hefð er fyrir því að forystumenn verkalýðssamtaka séu á sama tíma í framboði og/eða áhrifamenn í stjórnmálaflokkum. Nöfn eins og Gylfi Arnbjörnsson, Guðmundur Þ. Jónsson, Guðmundur J. Guðmundsson, Björn Jónsson, Snorri Jónsson, Ögmundur Jónasson, Halldór Grönvold, Skúli Thoroddsen, Ásmundur Stefánsson, koma upp í hugann og hægt væri að telja tugi annarra…

Vigdís Hauksdóttir taldi að hún væri að fara troðna slóð þegar hún gaf kost á sér til þings fyrir Framsóknarflokkinn.Forseti Alþýðusambandsins ákvað að hún hefði ekki sömu réttindi og aðrir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband