19.8.2009 | 10:19
Ráðherrar í hár saman... aftur
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru enn á ný ósammála. Nú eru það orkuauðlindirnar sem ætla að reynast stjórnarflokkunum erfiðar.
Orkuveitan er með úrskurð frá samkeppnisyfirvöldum um að þeir verði að selja 10% hlut sinn í HS orku. Þeir hafa verið að leita tilboða, söluferlið er búið að vera opið og allir hefðu átt að vita að ekki væru úr mörgum kaupendum að velja.
Magma Energy er núna búið að leggja fram kauptilboð, sem taka verður afstöðu til.
VG vill ekki selja á meðan iðnaðarráðherra virðist telja það mjög jákvætt að selja útlendingum þennan hlut. Er það í anda fyrri greinaskrifa flokksmanna hennar, s.s. eins og Helgi Hjörvarr sem sá sóknarfæri í að selja íslensk orkufyrirtæki eða leigja þau einkaaðilum.
Stjórnarformaður Orkuveitunnar vill fá á hreint hvað ríkisstjórnin vill eiginlega og hvort ríkið hafi áhuga á að kaupa þennan hlut.
Ég er viss um að meginhluti þjóðarinnar getur tekið undir með honum og spurt:
Hvað vill þessi ríkisstjórn eiginlega?
18.8.2009 | 16:31
Hvar er gagnsæið?
Reiðibylgja gengur nú islenskt samfélag eftir að DV flutti frétt þess efnis að enn á ný ætti að hugsanlega að afskrifa skuldir fjármálaspekúlanta, án nokkurrar umræðu eða gagnsæis. Fréttin hefur nú verið borin til baka en breytir ekki því að menn spyrja enn hvað er að gerast í bankakerfinu.
Á vefnum hjá Agli Helgasyni hefur verið mjög áhugaverð umræða þar sem spurt er hvort nú sé að fara fram einkavæðing nr. 2 í enn þá meiri leyndarhjúp en sú fyrri? Höfum við ekkert lært?
Ég hef miklar áhyggjur af því sem er að gerast í þrotabúum gömlu bankanna. Gagnsæið er nákvæmlega ekkert, vanmáttur eftirlitsstofnana alger og Alþingi virðist meira að segja sætta sig við leyndarhjúpinn, sem umlykur allar skilanefndirnar og þá sérstaklega Landsbankann og Glitni.
Engar skýrar og afmarkaðar reglur virðast vera um verkefni, markmið, ábyrgð og valdsvið skilanefnda né slitastjórna umfram það sem almennt gerist hjá skiptastjórum. Skilanefndirnar sjálfar segjast fyrst og fremst vera ábyrgar gagnvar kröfumhöfum, en enginn veit hverjir þessir kröfuhafar eru eða hvort þeir koma yfir höfuð að störfum skilanefndanna. Engar reglur virðast vera um hvernig og hve oft skilanefndir eða slitastjórnir gera grein fyrir störfum sínum og eftirlitið með þeim virðist vera mjög lítið.
Þessu þarf að breyta sem allra fyrst.
Einnig fannst mér mjög áhugaverð hugmynd sem Egill Helgason segir að Þórlindur Kjartansson hafi komið með um niðurfellingu skulda hjá fyrirtækjum:
Best væri ef ráðherrar gerðu viðamiklar kröfur um gagnsæi þegar til niðurfellingar krafna kemur. Setja ætti sem skilyrði fyrir niðurfellingu krafna að allar upplýsingar um fjárhagsstöðu viðkomandi fyrirtækis væru gerðar opinberar eins og gert er í gjaldþroti.
Það eina sem gildir er gagnsæi varðandi ákvarðanir. Þegar fyrirtæki eru seld þá þarf söluferlið að vera opinbert og öllum áhugasömu gefinn kostur á að bjóða.
Úthlutun eigna til útvaldra í reykfylltum bakherbergjum á að heyra sögunni til.
17.8.2009 | 10:12
Helber sögufölsun
Steingrímur J. Sigfússon, Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson og fleiri stjórnarliðar hafa haldið því fram á undanförnu að alltaf hafi verið ætlunin að birta samningana við Breta og Hollendinga.
Það hrökk nánast ofan í mig þegar ég heyrði þessar fullyrðingar fyrst.
Eru menn algjörlega búnir að gleyma því að þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar báðu um að sjá samningana þá var hummað og haað. Skv. talsmönnum ríkisstjórnarinnar átti að ríkja trúnaður um samningana, og á meðan fór fram e-hv umræða á bakvið tjöldin um að það væri bara vesen að vera upplýsa þingmenn of mikið og myndi bara flækja málin...
Frá því að samningarnir voru undirritaðir liðu nær tvær vikur þar til hollenska samningnum var lekið til RÚV og Indefence hópsins af einhverjum sem hefur ofboðið framkoma íslenskra stjórnvalda.
Í framhaldinu var svo loksins ákveðið að aflétta trúnaði af breska samningnum. Töluverðan tíma tók samt að fá fram hið svokallaða Settlement agreement, þar sem íslenska samninganefndin gaf frá sér forgang í þrotabúið skv. íslenskum gjaldþrotalögum.
Og svo fullyrða þessir stjórnarliðar og talsmenn þess að samþykkja óbreyttan samning að allt hafi alltaf átt að vera upp á borðinu.
Ótrúleg ósvífni.
16.8.2009 | 12:49
Flumbrugangur og fullkomið ábyrgðarleysi...
Margrét Sverrisdóttir var á Sprengisandi í dag. Þar tjáði hún sig m.a. um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Sagði hún að Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar virtist einkennast af flumbrugangi og ábyrgðarleysi.
Ég verð að viðurkenna að ég hefði talið Margréti mun trúverðugri ef ég hefði einhvern tímann, bara svona einu sinni, heyrt hana tala vel um eitthvað sem Framsóknarmenn hafa gert.
Meira að segja sú staðreynd að við höfum verið að leita meira til fortíðarinnar, til upprunans, virtist hún telja gagnrýnisvert.
Hugsanlega svíður að sjá Framsóknarflokkinn ná vopnum sínum og vera orðinn að forystuafli í stjórnarandstöðu á Íslandi á sama tíma og barnið hennar, Frjálslyndi flokkurinn, er horfinn af yfirborði jarðar og hún sjálf komin í Samfylkinguna, -sem ber höfuðábyrgð á Icesave hryllingnum.
En kannski eru þessar vangaveltur mínar bara settar fram í flumbrugangi og af fullkomnu ábyrgðarleysi
14.8.2009 | 12:53
Ice-land í dag...
Ég fór heim í gærkvöldi miður mín þrátt fyrir frábæran samstöðufund á Austurvelli.
Icesave málið virtist vera fast í gömlu vinnubrögðunum. Stefna forystumanna stjórnarflokkanna virðist vera að þvingja stjórnarliða til að samþykkja gagnslausa fyrirvara, og algjörlega hunsa hugmyndir og mikla vinnu andstæðinganna samningsins við að finna lausn. Tekist var á um það langt fram á nótt.
Í morgunn vaknar maður svo við stóru smjörklípuna...að búið er að leka gögnum og þess vegna hafi viðræður stoppað.
Þetta er einfaldlega ekki rétt. Viðræður hættu vegna þess að andstæðingar samningsins eru ekki tilbúnir að sætta sig við mjög veika fyrirvara sem "rúmast" innan samningsins líkt og forsætisráðherra orðaði það í gærkvöldi. Menn vilja sjá raunverulega fyrirvara sem vernda hagsmuni og framtíð þjóðarinnar, ekki neitt "píp"!
Væntanlega á svo að nota daginn í dag til að berja enn frekar á efasemdarmönnum í stjórnarliðinu og koma ringulreið á með ásökunum um landráð og svik.
Svona er Ísland í dag.
13.8.2009 | 16:01
Á Austurvöll kl. 17.00
Ég minni á samstöðufundinn á Austurvelli í dag kl. 17.00
10.8.2009 | 10:43
Stjórnin slær á sáttahönd
Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, ræðst harkalega á stjórnarandstöðuna í pistli á vefsíðu sinni vegna Icesave málsins.
Þar reynir hann að færa rök fyrir ábyrgðarleysi núverandi ríkisstjórnar á öllu sem tengist Icesave málinu og gleymir algjörlega ábyrgð Samfylkingarinnar og nú Vinstri Grænna á þeim hörmulega samningi sem við stöndum frammi fyrir. Svo heldur hann áfram:
"Það er hinsvegar fásinna að ætla að stjórnarandstaðan muni koma að lausn málsins eða liðka fyrir um lausn þess eins og gefur hefur verið til kynna. Ætlun þess söfnuðar er eingöngu að fella ríkisstjórnina á þessu máli, reka fleyg í raðir stjórnarflokkanna og vinna pólitískt skemmdarverk gegn sinni eigin þjóð. Ábyrgðarleysi andstöðunnar er því algjört og fullkomið og þinglið hennar virðist ekki láta sig þjóðarhag neinu varða."
Ég veit ekki hvar Björn Valur var um helgina.
En honum til upplýsingar lagði fjöldi þingmanna úr öllum flokkum mikla vinnu á sig við að útbúa bæði lagalega og efnahagslega fyrirvara við ríkisábyrgðina. Fyrirvara sem við töldum að myndu tryggja lagalegan rétt okkar og gefa okkur tækifæri til að standa undir ríkisábyrgðinni ef til hennar kæmi.
Þessar tillögur virðast nánast hafa verið hunsaðar af forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði í kjölfarið fram sem "þverpólitíska sáttaleið" voru bara einhvers konar umorðun á fyrri tillögum fulltrúa Steingríms og Jóhönnu í fjárlaganefnd og tóku ekkert tillit til þeirrar raunverulegu þverpólitísku sáttaleiðar sem reynt var að feta um helgina.
En þetta ætti varaformaðurinn að hafa vitað, ef hann var á fundinum.
Hvað varðar ofsóknarbrjálæði varaformanns fjárlaganefndar vegna ríkisstjórnarinnar og hinn margumtalaðan fleyg þá verður hann bara að eiga það við sig. Ég er ekki að vinna í þessu máli til að sprengja þessa ríkisstjórn, heldur eru það börnin mín og framtíð þessarar þjóðar sem eru mér efst í huga.
Eitthvað sem virðist sárlega hafa skort á í aðgerðum og málflutningi vinstri stjórnarinnar.
En það ætti Björn Valur að vita ef hann væri nú á annað borð í þeirri vinnu sem þjóðin réði hann í, í stað þess að stinga af út í hafsauga í hvert sinn sem erfið mál koma upp.
1.8.2009 | 14:48
Málpípur auðvaldsins
Grein Evu Joly í Morgunblaðinu í dag hefur eðlilega vakið mikla athygli. Í greininni tekur hún upp hanskann fyrir íslensku þjóðina, sem er nokkuð sem íslensk stjórnvöld hefðu með réttu átt að gera strax í október í fyrra. Betra seint en aldrei, en þó hefði óneitanlega verið þægilegra að vita til þess að hægt væri að treysta á forystumenn ríkisstjórnarinnar til að berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar.
Þannig hefðu Steingrímur og Jóhanna kannski betur eytt föstudeginum í að skrifa greinar á borð við grein Evu Joly og birt í dagblöðum um alla Evrópu, þar sem almenningur er upplýstur um vanda þjóðarinnar og nágrannaþjóðir okkar beðnar um aðstoð svo við getum staðið við þær skuldbindingar sem okkur ber að standa við og ekkert umfram það.
Í stað þess fór föstudagurinn hjá þeim skötuhjúum í að boða til blaðamannafundar þar sem þau lögðust flöt fyrir AGS, Bretum og Hollendingum. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að heimurinn hafi nánast snúist á hlið þegar Jóhanna og Steingrímur eru orðin málpípur auðvaldsins, ekki bara hér á landi heldur um allan hinn vestræna heim.
Eva Joly segir í grein sinni: Ábyrgðarlaus afstaða sumra ríkja, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart hruni íslenska efnahagskerfisins sýnir að þau eru ófær um að draga lærdóm af hruni þess samfélags sem Ísland var holdgervingur fyrir þ.e. samfélags óhefts markaðsfrelsis, einkum frjálsra fjármálamarkaða sem þessir sömu aðilar tóku þátt í að móta Það er því ljóst að þeir sem ráða ferðinni hafa ekkert lært, heldur á að halda áfram á sömu braut.
Það merkilega er að þessi orð hennar eiga ekki síst við þau Jóhönnu og Steingrím. Sorglegt, en satt.
31.7.2009 | 12:22
Gylfi í pólitík!
Í grein í Morgunblaðinu skrifar Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherrann um Icesave skuldbindingarnar: "Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir sáralitlum raunvexti útflutningstekna landsmanna á næstu 15 árum, sem er líftími Icesave-samkomulagsins, þá verða þær ríflega 100 milljarðar evra samanlagt á tímabilinu. Greiðslur vegna Icesave verða hins vegar varlega áætlað um það bil 2 milljarðar evra, einn milljarður í höfuðstólsgreiðslur og annað eins í vaxtagreiðslur. "
Útflutningur skapast vegna þess að fyrirtæki framleiða ákveðin verðmæti og flytja þau út. Það kostar að framleiða vörur og flytja út og útflutningstekjur fyrirtækja eru ekki eignir íslenska ríkisins!
Er ráðherrann að lýsa því yfir að ríkið eigi að taka gjaldeyristekjur eignarnámi? Hvert er hans umboð til að lýsa því yfir?
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur ítrekað stórlega misskilið hlutverk sitt og umboð í ríkisstjórninni. Hann er ekki kjörinn af þjóðinni og hefur ekkert pólitískt umboð til sinna verka. Það sækir hann til ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.
Þrátt fyrir það hefur hann verið í pólitík nánast frá upphafi.
Má þar minna á yfirlýsingar hans um að Norræni fjárfestingarbankinn hefði hætt að veita lán til Íslands vegna Icesave. Hið rétta er að Norræni fjárfestingarbankinn hætti að veita lán til Íslands þar sem hann var búinn að lána alltof mikið til landsins miðað við núverandi lánshæfismat og er erfitt að sjá það breytast við að landið taki á sig enn meiri skuldbindingar. En það sér Gylfi...
Væri ekki nær að hann myndi einbeita sér að því að móta nýtt lagaumhverfi fyrir fjármálamarkaðinn líkt og ESB hefur bent á eða að tryggja að Fjármálaeftirlitið vinni sína vinnu?
Vinnuna sem Gylfi var ráðinn í, í staðinn fyrir vinnuna sem enginn kaus hann í.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
13.7.2009 | 17:09
Er Ísland komið í þrot?
Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vann áætlanir sínar eftir efnahagshrunið taldi sjóðurinn að þjóðarbúið réði ekki við meiri erlendar skuldir en sem næmi 240% af landsframleiðslu. Ef skuldir væru meiri en það færi Ísland í þrot. Þá taldi AGS að skuldir okkar næmu 160% af landsframleiðslu. Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku kom fram að erlendar skuldir eru ekki 160%, heldur um 250% af landsframleiðslu.
Svo virðist sem AGS hafi ekki haft allar upplýsingar þegar upphaflega matið var gert og ekki komist að hinu sanna fyrr en á vormánuðum. Þessi skuldsetning er á mörkum þess sem AGS telur að Ísland geti staðið undir. Þessum upplýsingum hefur verið leynt og svo virðist sem aðeins örfáir hafi í raun haft hugmynd um heildarstöðu íslenska þjóðarbúsins. Þá neitar ríkisstjórnin að láta af hendi lykilupplýsingar um fjármál ríkisins. Þannig hef ég ítrekað óskað eftir mati á verðmæti bankanna, en fjármálaráðuneytið og FME neitað. Þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins kallað eftir því hvernig ætlunin er að greiða allar þessar erlendu skuldir. Jafnframt hefur komið fram að almennir þingmenn stjórnarflokkanna fengu þessar upplýsingar fyrst í ofangreindri frétt Stöðvar 2.
Nú þegar virðist hafa verið gripið til ráðstafana til að skera niður erlendar skuldir þjóðarbúsins. Þannig voru þrír bankar keyrðir í þrot um það leyti sem AGS gerði sér grein fyrir skuldastöðunni, væntanlega til að losna við erlendar skuldir þessara banka. Þá hafði AGS samband við Norðurlandaþjóðirnar, Breta og Hollendinga og náði að lengja í lánum og lækka vexti. Þessar aðgerðir eru þó bara dropi í hafið. Hvað gerist næst? Verður farið í að losa um skuldir sjávarútvegsins og orkugeirans? Þessum spurningum verða stjórnvöld að svara strax. Sú leynd sem hvílir yfir öllum aðgerðum stjórnarinnar er óþolandi og ekki til þess fallin að auka traust almennings til hennar.
Mögulegt gjaldþrot Íslands er ekki einkamál Steingríms og Jóhönnu. Það snýst ekki um pólitíska framtíð einstakra ráðherra eða líf einnar ríkisstjórnar. Ef það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að ná umræðunni upp úr þeim flokkspólitísku skotgröfum sem stjórnin hefur komið henni í er kominn tími til að leggja spilin á borðið.
(Birtist fyrst í FBL 6.7. 2009)