Af hverju AGS?

Tilgangur veru AGS hér á landi er opinberlega þríþættur.  1) Endurvekja traust á íslenskum efnahag og gera gengi krónunnar stöðugt.  2) Endurreisa bankana og gera þeim kleift að standa á eigin fótum.  3) Ná jöfnuði í ríkisfjármálum og viðhalda afgangi á fjárlögum til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi á Íslandi og átti fjármuni inn á bók fyrir hrun.  Ég tel að Íslendingar geri sér almennt grein fyrir því að ná þarf niður hallarekstrinum, þótt við séum ósammála um leiðir og hversu hratt á að gera það.  Við þurfum ekki AGS til að segja okkur til um það.  Endurreisn bankanna verður fjármögnuð með útgáfu á sérstökum skuldabréfaflokki.  Ekki þarf lán frá AGS til þess.

Þá er eftir fyrsti liðurinn, traust á íslenskum efnahag og gera gengið stöðugt.  Miklar efasemdir eru um hvort lánsfé geti tryggt gengisstöðugleika.  Sem dæmi má benda á að við tókum stór lán til að byggja upp varagjaldeyrisforða fyrir nokkru.  Þau lán þarf núna að endurgreiða 2011-2012. Lánsfé getur hugsanlega haldið gengi krónunnar stöðugu til skamms tíma en alls ekki til langs tíma.  Þetta sýnir reynslan og rannsóknir.

Lánsfé frá AGS á því væntanlega að nota til að tryggja að við getum endurgreitt þessi eldri lán og til að tryggja að Landsvirkjun geti staðið við skuldbindingar sínar þ.e. endurfjármögnun á eldri skuldum.

Spurningin er hvort það sé Icesave virði, eða 400-600 milljarðar króna? Væri hugsanlega ódýrara að semja upp á nýtt við núverandi lánveitendur? 

Ýmsir gætu jafnframt haldið því fram að enn á ný sé AGS að vinna fyrir erlenda kröfuhafa. Þeirra hlutverk virðist fyrst og fremst vera að tryggja að erlendir lánadrottnar fái sitt og helst gott betur.

Skítt veri með íslensku þjóðina!


Ofbeldi forsætisráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, heldur áfram með sömu gömlu vinnubrögðin.  Nú eru það hins vegar ekki einstakir ráðherrar sem verða fyrir andlegu ofbeldi heldur heil þjóð.  Nú á að leggja allt undir til að kúga íslensku þjóðina til að sætta sig við afarkosti Breta og Hollendinga og öll meðul virðast vera leyfileg.

Síðasta útspilið var birting skýrslu Seðlabankans og efnahags- og viðskiptaráðuneytis um áhrif tafa á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS.  Seðlabankastjóri og þaðan af síður fjármálaráðherra virtust ekki hafa gert sér grein fyrir að ætlunin væri að birta þessa greinargerð.

Ragnar Árnason, bankaráðsmaður, segir í viðtali við MBL að birting greinargerðarinnar geti í sjálfu sér haft mikil áhrif á alþjóðlega fjármálamarkaði. Þar segir hann: „Birting á þessum greinargerðum er ekki til þess að styrkja stöðu Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og örugglega til að veikja stöðu Íslands í samningaviðræðum við Hollendinga og Breta vegna Icesave. Ég tel að afleiðingar þess að ganga ekki að skilyrðum í Icesave-málinu og jafnvel að þurfa að þola frekari frestun á þessari svokölluðu fyrirgreiðslu AGS verði ekki nærri eins afdrifaríkar og túlkun forsætisráðherra, meðal annarra, gefur til kynna. Þá mun það augljóslega veikja lánstraust Íslands út á við að takast á við nýjar skuldbindingar,“ segir Ragnar.

Það skyldi nú aldrei vera að það sé kominn titringur í Samfylkinguna vegna áhuga miðjumanna og sósíalista í Noregi á að aðstoða okkur og draga þannig enn frekar úr líkum á að Íslendingar vilji líta við ESB?

 


Dagur innkallar...

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, tilkynnti á fundi Samfylkingarfélagsins í Grafarholti að innköllun aflaheimilda myndi hefjast 1. september 2010 eða í upphafi næsta fiskveiðiárs, skv. Pressunni.

Það er mjög þakkarvert af varaformanninum að tilkynna þetta með allavega 11 mánaða fyrirvara þannig að sjávarútvegsfyrirtæki og sjávarbyggðir víðs vegar um land geta byrjað að undirbúa sig.  Eflaust hefur þessi tilkynning átt mikið erindi við Samfylkingarfólk í Grafarholtinu enda mikið ÚThverfi í Reykjavík, þótt það hafi hingað til ekki verið þekkt fyrir mikla ÚTgerð hins vegar.

Hins vegar virðist þessi tilkynning varaformannsins hafa e-hv komið hinum 18 einstaklingum sem voru skipaðir af öllum hagsmunaaðilum í sameiginlega nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu á óvart.  En þeir geta þá víst sparað sér mikla vinnu og átök um að komast að sameiginlegri niðurstöðu, - þar sem varaformaðurinn er búinn að komast að niðurstöðu fyrir þá.

Þá er bara einni lítilli og ekki ýkja merkilegri spurningu eftir ósvarað. 

Skyldi Jón Bjarnason vita af þessu?


55% samdráttur þjóðarframleiðslu?

Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson skrifa grein í FBL í dag. Þar benda þeir m.a. á að þjóðarframleiðsla Íslendinga hefur dregist saman um 55% frá árinu 2007 ef mælt er í evrum. Breytingin í krónum mælist innan við 10%.  Á sama tíma eru skuldirnar okkar óbreyttar, hafa ekki fallið heldur tvöfaldast hlutfallslega.

"Í öllum samanburði verður að vera samnefnari, það dugar ekki að bera saman epli og appelsínur. Þegar breyting á þjóðarframleiðslu Íslendinga, sem styðst við íslensku krónuna, er borin saman við breytingar í þjóðarframleiðslu evrulanda þarf að notast við sömu myntina. Þjóðarframleiðsla Íslands hefur hrunið um 55%, mælt í evrum, frá árinu 2007, þó að breytingin í krónum mælist innan við 10%, skuldirnar eru hins vegar óbreyttar og hafa ekki fallið heldur tvöfaldast, hlutfallslega. Þjóðarframleiðsla Íra hefur á sama tíma minnkað um 10%, mælt í þeirra eigin mynt, evrum, en skuldirnar eru óbreyttar. Íslendingar hafa því orðið margfalt verr úti en þær þjóðir sem veikast standa af þeim sem byggja hagkerfi sitt á alþjóðlegri mynt."

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, benti á að samdrátturinn hér væru nú ekki svo svakalegur í samanburði við evru-svæðið í viðtali við Visir.is nýlega. Þar sagði í fréttinni að samdráttur í landsframleiðslu verði sjö prósent í ár, en áður hafði verið spáð milli níu til ellefu prósenta samdrætti á landsframleiðslu.  „Þetta er mjög ánægjulegt," segir Gylfi og bendir á að á evrusvæðinu verði fjögurra prósenta samdráttur. „Þótt samdrátturinn sé meiri hér en þar er munurinn því kannski ekki jafn svakalegur og menn höfðu óttast."

Er þetta það sem Ársæll og Heiðar kalla að bera saman epli og appelsínur?

 


Stýrivextir og "ráð" AGS

Sú staðreynd að Seðlabankinn lækkaði ekki stýrivexti eru vonbrigði, en ættu samt ekki að koma á óvart.  Seðlabankinn starfar náið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að efnahagsáætlun sjóðsins fyrir Ísland.  Eitt helsta áhersluatriði sjóðsins er ekki að lækka stýrivexti heldur að aflétta gjaldeyrishöftunum.  Að mati sérfræðinga Seðlabankanas og AGS er ekki hægt að gera bæði í núverandi ástandi, bara annað hvort og allir sem þekkja AGS ættu að vita að þeim hefur aldrei hugnast gjaldeyrishöft. 

Því var það eitt af fimm lykilatriðum til þess að það væri hægt að endurskoða efnahagsáætlunina og greiða út næstu afborgun af láninu að Seðlabankinn legði fram áætlun um hvernig hann ætlaði að afnema gjaldeyrishöftin.  

Í Asíukreppunni keyrði AGS upp stýrivexti í fleiri tugi prósenta frekar en að innleiða gjaldeyrishöft.  Allt til þess að tryggja stöðugleika í viðkomandi myntum. Afleiðingarnar voru hræðilegar fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Joseph Stiglitz, einn harðasti gagnrýnandi AGS, fagnaði því einmitt að sjóðurinn hefði nú lært af reynslunni í Asíu og innleitt gjaldeyrishöft hér samhliða hærri stýrivöxtum.  Einhver gleymdi hins vegar að segja honum að gjaldeyrishöftin voru innleidd að frumkvæði þáverandi ríkisstjórnar og Seðlabankans, ekki AGS.

Þannig að þegar valið stendur á milli þess að aflétta gjaldeyrishöftum eða lækka stýrivexti, þá tel ég það ekki spurningu um hvað AGS munu „ráðleggja“ íslenskum stjórnvöldum áfram.


Baldur siglir ekki

Baldur fór ekki seinni ferðina í gær og fer ekki fyrri ferðina í dag.  Athugun er svo með seinni ferð kl. 13.  Ef marka má veðurspána eru ekki miklar líkur á að hún verði farin og jafnvel líkur á að ekki verði siglt fyrr en á fimmtudag. 

Þegar ákveðið var að fá Baldur til að leysa af Herjólf var vitað að ferjan gæti ekki siglt ef ölduhæð fer yfir 3,5 metra við Surtsey.  Á haustin er yfirleitt vindasamt við Suðurlandið, hver lægðin á fætur annarri gengur yfir landið með roki, rigningu og tilheyrandi ölduhæð.

Spurning er hvort að menn hefðu ekki átt að gera sér grein fyrir þessu fyrr?

Þetta er ekki bara spurning um að fólk komist til og frá Eyjum, heldur fara allar nauðsynjar til Eyja með ferjunni og fiskur bæði frá Eyjunum og til. Þannig hef ég heyrt að margir séu þegar farnir að hamstra mjólk og aðra dagvöru.

Hvernig þætti Reykvíkingum annars ef Ártúnsbrekkunni, Reykjanesbrautinni og Hafnarfjarðarveginum væri bara lokað í nokkra daga? Ég held það myndi nú heyrast hljóð úr horni!


mbl.is Baldur siglir ekki fyrri ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa um svör frá fjármálaráðherra

7. september 2009, Reykjavík

Steingrímur J. Sigfússon
Fjármálaráðherra
Fjármálaráðuneytinu

 

Í fyrirspurn sem ég beindi til fjármálaráðherra um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna var mér neitað um svar á grundvelli þess að spurningarnar mínar vörðuðu einkaréttarlega aðila en ekki opinber málefni.  Í svarinu er einnig vísað til neitunar á svörum vegna þskj. 144 og 213.

Ég get engan veginn samþykkt að það flokkist undir einkaréttarlega hagsmuni þegar íslenska ríkið tekur ákvörðun um að fjárfesta fleiri tugi og hundruð milljarða króna án þess að réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar fái að kynna sér ítarlega viðskiptaáætlanir og efnahagsreikninga viðkomandi fyrirtækja.  Ég hef ítrekað óskað eftir því að fá þessar upplýsingar í viðskiptanefnd, sem fer með málefni bankanna, en hef aðeins fengið annað hvort yfirborðskenndar upplýsingar frá embættismönnum eða mér hreinlega neitað um svör. 

Því hef ég ekki talið mig eiga annars kost en óska formlega eftir svörum beint frá ráðherra í samræmi við 56. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég bendi jafnframt á að hvað varðar fyrirspurn um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna þá viðurkenndi fjármálaráðherra í umræðu á Alþingi að hann teldi hluta spurninganna ekki varða einkaréttarlega aðila heldur pólitíska stefnumörkun.  Þrátt fyrir það neitaði fjármálaráðherra að svara öllum spurningunum skriflega.

Ástæður fyrir því að ég tel spurningar mínar ekki varða einkaréttarlega hagsmuni heldur opinbera eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi þeir gifurlegir fjármunir sem íslenska ríkið hyggst setja inn í bankakerfið, eða allt að 325 milljarðar króna.  Þegar hefur verið gengið frá fjármögnun Nýja Kaupþings og Íslandsbanka án þess að kjörnir fulltrúar hafi fengið að sjá eina einustu viðskipaáætlun eða efnahagsreikning bankanna.  Hygg ég að enginn fjárfestir myndi sætta sig við þess háttar vinnubrögð og tel ég þessar upplýsingar lykilforsendur til að ég sem þingmaður geti gætt hagsmuna kjósenda. Því hef ég ítrekað spurt um verðmæti þeirra eigna sem íslenska ríkið er að kaupa á þingskj. 60, 61 og 144.

Í öðru lagi hafði ég áhuga á gjaldeyrisjöfnuði.  Gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana má skilgreina sem mismun á gengisbundnum eignum og skuldbindingum innan og utan efnahagsreiknings.  Gjaldeyrisjöfnuður er því mælikvarði á gjaldeyrisáhættu lánastofnana.  Seðlabankinn setur reglur um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana og er markmiðið með reglunum að takmarka gengisáhættu með því að koma í veg fyrir að gjaldeyrisjöfnuður fari fram úr tilteknum mörkum. 
 
Fyrir hrun var hægt að verja sig gegn gengisáhættu með svokölluðum gjaldeyrisafleiðum,  eða gjaldeyrisskiptasamningum. Fyrir hrun voru mikil viðskipti með gjaldeyrisafleiður gagnvart krónu.  Sér í lagi var stöðutaka gegn krónu.  Einn af hugsanlegum áhrifaþáttum í veikingu krónunnar fyrir hrun var þessi stöðutaka.  Þar sem bankarnir áttu eignir í erlendri mynt langt umfram skuldir gerði veiking krónunnar það að verkum að bankarnir högnuðust verulega. Þannig er athyglivert er að skoða hvenær hlutfallið byrjar að hækka árið 2006, eftir að hafa verið nálægt núlli árum saman.

Ástæða fyrirspurnar minnar er hugsanlegir hagsmunaárekstrar hjá ríkisvaldinu. Ríkið er orðið mjög stór aðili á fjármálamarkaði og því ekki alltaf sem hagsmunir þess sem eigandi fara saman við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu. Ef krónan styrkist munu bankarnir tapa fé vegna þess að hrein eign í erlendri mynt er jákvæð.  Slíkt er hins vegar gott fyrir fyrirtæki og heimili sem skulda í erlendri mynt.  Ef krónan veikist, hækka erlend lán heimilanna og fyrirtækjanna og greiðslubyrðin eykst en bankarnir hagnast og þar með íslenska ríkið. Því er eðlilegt að fjármálaráðherra svari því hvernig staðan sé og hvernig hann hyggst koma í veg fyrir þennan hagsmunaárekstur og tryggja að ríkið gæti ólíkra hagsmuna almennings og fjármálakerfisins.

Ég spurði einnig hver áhrif veikingar og styrkingar krónunnar væru á hag nýju bankanna miðað við stöðu á gjaldeyrisjöfnuði þeirra.  Einfalt mál hefði verið fyrir ráðherrann að svara þessu á almennan máta, til að upplýsa mig og almenning um hver áhrif veikingar og styrkingar krónunnar geta verið.

Í þriðja lagi hef ég áhuga á verðtryggingarjöfnuði.  Verðtryggingarjöfnuð má skilgreina sem mismun á verðtryggðum eignum og skuldum innan og utan efnahagsreiknings.  Verðtryggingarjöfnuður er því mælikvarði á áhættu lánastofnana vegna verðbólgu.

Ég tel að núverandi staða í bankakerfinu sé að bankarnir eigi verðtryggðar eignir, m.a. fasteignalán til heimila, umfram verðtryggðar skuldir á borð við innlán. Því getur það verið hagstætt fyrir bankana ef verðbólga eykst og ríkið hagnast þar með á verðbólgu. Í fyrirspurn minni spurði ég um þessa stöðu og hvort fjármálaráðherra hygðist grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings vegna verðbólgu. Eðlilegt er að ráðherra svari því hvernig hann hyggst tryggja að ekki komi upp hagsmunaárekstrar milli ríkisins, sem eiganda stórs hluta fjármálakerfisins og hagsmuna íslensks almennings, ef staðan er líkt og áður var lýst. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að ríkið getur haft mjög mikil áhrif á þróun verðbólgu.

Ég hefði einnig talið einfalt mál fyrir ráðherra að svara því hvort það séu líkur á að nýju bankarnir hagnist á verðbólgu ef verðtryggðar eignir eru miklar í hlutfalli við verðtryggðar skuldir.  Svarið hefði einfaldlega getað verið já, það er hugsanlegt að nýju bankarnir geti hagnast á verðbólgu ef verðtryggðar eignir eru miklar í hlutfalli við verðtryggðar skuldir.

Því er það að mínu mati fullkomin hræsni að í svarinu skuli vera fullyrt að áhersla ráðuneytisins sé á að tryggja sem allra mest gagnsæi og ég hlýt að telja að ráðherra leggi raunar upp með að misskilja spurningarnar og hunsa 54. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 49. gr. þingskapalaga.

Ég fer því fram á að fjármálaráðherra svari spurningum mínum á þingskj. 61 og 144 eftir bestu getu og samkvæmt lögum.
 
Virðingafyllst,

Eygló Harðardóttir

Afrit sent:
Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis,
Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins


Hroki og hleypidómar Gylfa

Gylfi Arnbjörnsson fer fram af sínum alkunna hroka í viðtali við Fréttablaðið í morgunn.  Í stað þess að svara gagnrýni minni á aðgerðaleysi ASÍ um afnám verðtrygggingar, eitt helsta hagsmunamál íslenskra heimila, þá fullyrðir hann að ég þekki greinilega ekki nokkurn skapaðan hlut til.

Ég sagði aldrei í grein minni að ASÍ skipaði fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna.  Hins vegar ætti Gylfi, sem formaður ASÍ, að kannast við að samtökin sem hann starfar fyrir eru regnhlífasamtök fyrir verkalýðsfélögin í landinu.  Þeir sem kusu hann til formennsku skipa sjálfir eða sitja í stjórnum lifeyrissjóða og hafa geysilegra hagsmuna að gæta þar.  Þessu til viðbótar semur ASÍ um tekjur lífeyrissjóðanna. 

Einnig er einkar athyglisvert að googla Gylfa Arnbjörnsson og lífeyrissjóðir.  

Lífeyrissjóðirnir hafa ekki viljað hreyfa við verðtryggingunni, enda hefur verðtryggingin verndað þá gegn alltof áhættusamri fjárfestingarstefnu.

Gylfi heldur því svo fram að eina leiðin til að endurskoða verðtrygginguna sé að taka upp evru.  Einkennilegt hvað málflutningur Samfylkingarinnar og ASÍ er samhljóða í þessu máli.  Nánast jafn sláandi og þegar Gylfi þurfti að halda aukaþing ASÍ fyrir síðustu kosningar undir slagorðinu hagur, vinna og velferð á meðan yfirskrift landsfundar Samfylkingarinnar og kosningaslagorð var vinna og velferð.

Í stað þess að fullyrða að Gylfi hafi ekkert vit á því sem hann er að tala um vil ég benda honum á að kynna sér aðstæður í Eystrasaltslöndunum þar á meðal í greininni The Fall and Rise and Fall Again of the Baltic States og grein Michael Hudson um Ísland, Eystrasaltslöndin og ESB.

Þar hafa menn verið með tengingu við evruna í um áratug.  Það breytti litlu eða engu um þá miklu erfiðleika sem  þessi lönd eru að berjast við, - í staðinn fyrir að lán fólks hafi margfaldast hafa launin verið lækkuð með handafli, skólum og sjúkrahúsum lokað, veitingastaðir og verslanir standa auðar og fólk flýr land.

Í stað þess að bíða eftir evrunni á hvíta hestinum líkt og Gylfi og skoðanabræður hans í Samfylkingunni  geri ég þá kröfu að við hysjum upp um okkur buxurnar og förum að haga okkur þannig að við getum sjálf afnumið verðtrygginguna. Tel ég ríkisvaldið geti þar gengið fram með góðum fordæmi sbr. frumvarp okkar Framsóknarmanna um leiðir til að afnema verðtrygginguna.


Er afneitunin á enda?

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra hefur talað hvað mest gegn leiðréttingu skulda heimilanna og hugmyndum framsóknarmanna þess efnis. Það er þó alltaf ánægjulegt þegar menn snúa af villu síns vegar líkt og ráðherrann gerði í viðtali við Fréttablaðið um helgina. Þar sagði hann m.a.:

„Það er að sjálfsögðu rétt að afskrifa skuldir sem eru umfram greiðslugetu og veðrými eigna. Það varð mikið hrun á eignavirði og veruleg hækkun skulda á sama tíma. Skuldir í samfélaginu eru langt umfram eignir og það er engum til góðs að viðhalda þeirri stöðu. Það dregur úr getu efnahagslífsins til að skapa verðmæti á ný."

Strax í febrúar lögðu Framsóknarmenn fram hugmyndir sínar um efnahagslegar aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum. Var það trú okkar og von að vel yrði tekið í hugmyndirnar og þær yrðu okkar framlag í þá vinnu sem fram undan væri við að leysa þann efnahagsvanda sem íslenska þjóðarbúið tekst á við. Því miður varð það ekki reyndin og kom okkur í raun á óvart hversu hart stjórnarflokkarnir og sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar brugðust við þessum hugmyndum. Þar fór núverandi félagsmálaráðherra fremstur í flokki.

Tillögurnar voru of kostnaðarsamar, að mati Samfylkingarinnar, þótt stórfelld afföll af innheimtu væru fyrirséð og í kjölfarið gjaldþrot tugþúsunda ef ekki væri gripið inn í. Í staðinni veifuðu menn óskýrum hugtökum líkt og greiðsluaðlögun, tilsjónarmanni, velferðarbrú og skjaldborg um heimilin sem enginn skildi fyllilega. Því átti reyndar að redda með sérstöku kynningarátaki ríkisstjórnarinnar ef marka má stjórnarsáttmálann. Þá mátti ekki hreyfa við verðtryggingunni, enda andstætt vilja eins helsta bakhjarls Samfylkingarinnar, ASÍ, sem vildi verja sitt helsta valdatæki, lífeyrissjóðina.

Seðlabankinn þjónaði húsbændum sínum og birti skýrslur um að greiðslubyrði langflestra væri viðráðanleg, en gleymdi að taka tillit til frystingar lána. Þá var starfshópur skipaður til að fylgjast með og meta stöðuna. Á meðan jukust vanskil hratt og íslensk heimili settu nánast heimsmet í skuldasöfnun. Creditinfo birti nýlega upplýsingar um að ef fram heldur sem horfir verði um 30 þúsund einstaklingar, 10% þjóðarinnar, á vanskilaskrá innan árs og 5.000 einstaklingar eru þegar komnir í greiðsluþrot það sem af er árinu. Félagsmálayfirvöld tilkynna um aukið álag og fleiri barnaverndarmál og innanbúðarmenn í bankakerfinu verða vitni að sífellt minni greiðsluvilja hjá viðskiptavinum, jafnvel þeim sem þó geta borgað.

Og ríkisstjórnin fylgist með og metur stöðuna. Þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa staðfastlega neitað að ræða afskriftir skulda eða leiðréttingu af neinu tagi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaformaður félags- og tryggingamálanefndar, sagði fyrir nokkrum dögum að afskriftir lána væru einfaldlega ekki á dagskrá. „Það eru engir fjármunir til í þetta og ég sé ekki hvaðan þeir ættu að koma."

En hvað veldur þessum skyndilega viðsnúningi ráðherrans? Er AGS búinn að skipta um skoðun og leyfa ríkisstjórninni að leiðrétta skuldir almennings? Eða er einfaldlega að koma í ljós að framsóknarmenn höfðu rétt fyrir sér fyrir 6 mánuðum síðan? Er svigrúm að myndast til að leiðrétta skuldir við millifærslu lánasafna milli nýju og gömlu bankanna?

Grunnforsendan fyrir því að hægt væri að framkvæma hugmynd Framsóknar um leiðréttingu skulda var einmitt þetta uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna. Í uppgjörinu væri tekið tillit til gæða lánasafnanna og væntanlegra afskrifta. Við það væri hægt að færa niður hluta af höfuðstól lánanna og auka líkur á að lántakendur geti almennt staðið í skilum.

Bankarnir hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir að þetta eru tapaðar kröfur og mikilvægt er að sem flestir geti og vilji halda áfram að borga. Hálft ár er liðið síðan framsóknarmenn lögðu fram tillögur um hvernig bregðast ætti við. Félagsmálaráðherra virðist vera að ná þessu, því þegar hann var spurður hver borgi fyrir þessa leiðréttingu sagði Árni:

„Við verðum að horfast í augu við það að þetta eru að miklu leyti tapaðar kröfur. Það á að vera svigrúm í bankakerfinu til að takast á við tapið. Þegar lánin voru færð milli gömlu og nýju bankanna var gert ráð fyrir afskriftum."

Við skulum bara vona að 20% dugi enn til og að rúmur umhugsunartími ráðherrans og samverkamanna hafi ekki valdið íslenskum heimilum óbætanlegum skaða.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. águst 2009)


Icesave fyrirvarar taka II...

Fjárlaganefnd rembist nú eins og rjúpan við staurinn við að útbúa varnagla við varnaglana við Icesavesamningana sem samþykktir voru við 2. umræðu. 

Nefndin virðist vera að einbeita sér að tveimur atriðum; annars vegar að ríkisábyrgðin taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar eru búnir að samþykkja fyrirvarana og hins vegar að skýrt sé að ríkisábyrgðin falli niður árið 2024. Spurningin er hvort menn hefðu ekki átt að vera búnir að þessu við upphaf 2. umræðu eins og við Framsóknarmenn lögðum áherslu á? 

Menn ruku í að klára málið út úr nefnd, illa sofnir og langþreyttir án þess að leita álits sérfræðinga eða Breta/Hollendinga á því hvort fyrirvaranir héldu. Í lok umræðunnar var svo lofað að farið yrði gaumgæfilega yfir öll vafaatriðin sem bent hafði verið á í umræðunni og leitað til þessara sérfræðinga, - sem sagt nýir og betri stjórnarliðar þar á ferð...

Það entist ekki lengi. 

Nú er verið að hunsa það algjörlega, bara talað við innanbúðarmenn hjá ríkisstjórninni og innistæðutryggingasjóðnum, enga sérfræðinga í enskum lögum og fyrst og fremst verið að reyna að berja saman samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn. 

Enda ekkert óeðlilegt að þeir flokkar sem mesta ábyrgð bera á málinu öllu þurfi að koma sér saman um hvernig best sé að moka yfir skítinn. 

 


mbl.is Ríkisábyrgðin falli niður 2024
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband