Hver stal trjánum?

Varla hefur það verið Trölli, enda var hann meira í að stela jólunum og eins og einu jólatréi.  En að öllu gamni sleppt þá hefur það verið kunnuglegt að fylgjast með tilburðum Gunnars Birgissonar og verktakafyrirtækisins Klæðningu við að verja gjörðir þeirra í Heiðmörkinni.

Málavextir eru að verktakar á vegum Klæðningar voru teknir við að grafa mikinn skurð vegna vatnsleiðslu í Heiðmörk, þ.á.m. í Þjóðhátiðarlundinum, á landsvæði Reykjavíkurborgar og án framkvæmdaleyfis. Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur ætlar að kæra Klæðningu og Kópavogsbæ fyrir jarðrask og spjöll í Heiðmörk vegna lagningar vatnsleiðslunnar. Gengið verður frá kærunni í dag og hún send lögreglu til meðferðar. Fréttamenn stöðvar 2 grófu upp að svo virðist sem hluti trjánna, sem rifin voru upp vegna framkvæmdanna,voru flutt á geymslusvæði í Hafnarfjarðarhrauni en bara hluti þeirra. Stærstu tréin eru ekki þar.  

Gunnar Birgisson mætti svo sjálfur í Kastljósið í kvöld þar sem hann hélt því fram að allt þetta væri Reykjavíkurborg að kenna þar sem þeir hefðu klikkað á að gefa út framkvæmdaleyfi samkvæmt samningi á milli sveitarfélaganna og að Klæðning hefði bara verið að passa að trjánum yrði ekki stolið.  

Þetta allt saman rifjaði upp minningar frá búsetu minni í Kópavogsbæ en áður en ég gerðist Eyjakona bjó ég í Salahverfi í Kópavogsbæ. Á þeim tíma stóðu Gunnar og verktakafyrirtækið hans að mikilli "jarðvegssýnatöku" við Elliðavatn.  Ekki var búið að ganga fyllilega frá öllum leyfum og pappírum, og var gerð athugasemd við að verið væri að taka út grunna fyrir byggingaframkvæmdir. Gunnar hélt því statt og stöðugt fram að þetta væri allt fullkomlega eðlilegt, - bara smá jarðvegssýni.  Síðan keyrði maður fram hjá Gunnari og gröfunum hans við sístækkandi holu (sem minnti ansi mikið á grunn) við Elliðavatn.  Veit ekki betur en að jarðvegssýnaholan hafi verið nýtt sem grunnur fyrir hús.

Kannski er ekki að undra að Klæðningu fannst ekkert óeðlilegt við að hefja gröftinn án framkvæmdaleyfis, - því það læra börnin sem fyrir þeim er haft...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jörðin Gunnarshólmi var lögð undir Kópavog árið 1948.

Gunnar Birgis horfir hlíðarbrekku móti,
hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
óvinafjöld, þó hörðum dauða hóti.
"Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil ég una ævi minnar daga
alla sem Guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!" – Svo er Gunnars saga.

Því Gunnar Birgis vill heldur bíða hel
en horfinn vera Kópavogsins ströndum.
Grimmilegir fjendur, flárri studdir vél,
fjötruðu mörg góð tré í heljarböndum.
Hugljúfa samt ég sögu Gunnars tel,
þar sem ég undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógnarbylgju ólma
algrænum trjám prýddan Gunnarshólma.

Steini Briem (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 15:41

2 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Ég trúi þessari sögu hjá þér. Það virðist vera anzi mikill valdhroki hér á ferð. Ef til vill er Hr.Gunnar búinn að vera of lengi við völd burtséð frá hvaða flokki hann kemur frá. Gunnar virðist vera einræðisherra í Kópavogi. Hann fékk þó góða kosningu í maí síðastliðnum og Kópavogsbúar verða að sitja uppi með hann í nokkur ár í viðbót.  Mér skilst á mönnum sem til þekkja að í mörg, mörg, ár hafi enginn verktaki fengið að vinna jarðvegsframkvæmdir nema Klæðning hf. Gunnar er víst búinn að selja sinn hlut í fyrirtækinu og sel ég það ekki dýrara en keypt.

Vísan hér að ofan er nokkuð góð.

Birgir Guðjónsson, 21.2.2007 kl. 18:39

3 identicon

Já, það er gott að búa í Kópavogi.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband