18.11.2009 | 07:43
Höfuðstólslækkun nauðsynleg
Alþingi samþykkti nýlega lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þessi lög marka að vissu leyti tímamót, því í fyrsta sinn hefur ríkisstjórnin viðurkennt að vandi heimilanna í landinu verði ekki leystur nema með almennum aðgerðum. Þetta höfum við framsóknarmenn ásamt fjölmörgum einstaklingum og félagasamtökum bent á mánuðum saman og endurfluttum við á dögunum þingsályktunartillögu okkar frá fyrra þingi um almennar afskriftir höfuðstóls lána.
Ljóst er að þessar aðgerðir hljóta að vera aðeins fyrsta skrefið í aðgerðum til bjargar skuldsettum heimilum. Ekki er nóg að taka á greiðslubyrði lánanna. Með því er aðeins verið að festa í lög það gríðarlega óréttlæti sem alger forsendubrestur hefur haft í för með sér. Taka þarf á skuldabyrðinni sjálfri með niðurfærslu höfuðstóls. Það er í hæsta máta óeðlilegt að almenningur, sem tók lán í samræmi við gildandi lög og reglur, eftir ráðgjöf meintra sérfræðinga, skuli einn bera allt það tjón sem hlotist hefur af misvitri löggjöf, fjársveltum eftirlitsstofnunum, andvaraleysi ráðamanna og ekki síst háskaleik óreiðumanna, sem margir hverjir hvöttu þennan sama almenning til skuldsetningarinnar.
Þá er ekki að fullu ljóst hver áhrif þessarar lagasetningar verða. Óvissan er í raun svo mikil að fallist var á breytingatillögu þar sem gert er ráð fyrir að starfshópur verði skipaður sem hafa skuli eftirlit með framgangi laganna og grípa inní, m.a. með tillögur að lagabreytingum gerist þess þörf.
Þrátt fyrir að við höfum, ásamt fjölmörgum öðrum, bent á nauðsyn þess að bregðast hratt og örugglega við greiðsluvanda heimilanna, líta þessi lög fyrst nú dagsins ljós, rúmu ári eftir hrun. Ekki er hægt að kenna um breytingum í stjórnarráðinu, því Samfylkingin hefur setið í félagsmálaráðuneytinu allan þann tíma. Því sætir furðu að ekki aðeins hafi tekið heilt ár að vinna að undirbúningi almennra aðgerða, heldur ekki síður að þegar þær koma fram skuli þær ganga jafn skammt og raun ber vitni auk þess að bera þess öll merki að vera lítt ígrundaðar og unnar á handahlaupum. Stofnun um fjármálalæsi, Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri hafa þegar gert alvarlegar athugasemdir við hin nýju lög.
Vonandi er sú staðreynd að félagsmálaráðherra hefur snúist hugur varðandi almennar aðgerðir til að lækka greiðslubyrði heimilanna merki um að ríkisstjórnin sé loks farin að hlusta. Mikilvægt og sanngjarnt er að áfram verði unnið að almennum aðgerðum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt að greiðslujöfnun dugar ekki til og áætlað að afskrifa þurfi um 600 milljarða króna af lánum heimilanna. Sérfræðingar í íbúðalánum hafa útskýrt hvernig Íbúðalánasjóður gæti leikið lykilhlutverk í nauðsynlegum leiðréttingum á íbúðalánum, en þær hugmyndir hafa verið kynntar félags- og tryggingarráðherra án árangurs. Stjórnvöld verða að fara að hlusta á þessa sjálfsögðu kröfu, og hætta að hunsa tilmæli opinberra aðila eins og talsmanns neytenda og kröfu almennings um réttlæti og sanngirni.
Nauðsynlegt er að stíga strax næstu skref og félagsmálaráðherra á nú þegar að kalla til samráðs baráttuhóp þeirra opinberu aðila og samtaka sem áherslu hafa lagt á almenna leiðréttingu höfuðstóls lána. Samráð við þessa aðila verður ekki hunsað lengur því betur má ef duga skal.
Eygló Harðardóttir
Gunnar Bragi Sveinsson
(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 12.nóvember 2009)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.