Krafa um svör frá fjármálaráðherra

7. september 2009, Reykjavík

Steingrímur J. Sigfússon
Fjármálaráðherra
Fjármálaráðuneytinu

 

Í fyrirspurn sem ég beindi til fjármálaráðherra um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna var mér neitað um svar á grundvelli þess að spurningarnar mínar vörðuðu einkaréttarlega aðila en ekki opinber málefni.  Í svarinu er einnig vísað til neitunar á svörum vegna þskj. 144 og 213.

Ég get engan veginn samþykkt að það flokkist undir einkaréttarlega hagsmuni þegar íslenska ríkið tekur ákvörðun um að fjárfesta fleiri tugi og hundruð milljarða króna án þess að réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar fái að kynna sér ítarlega viðskiptaáætlanir og efnahagsreikninga viðkomandi fyrirtækja.  Ég hef ítrekað óskað eftir því að fá þessar upplýsingar í viðskiptanefnd, sem fer með málefni bankanna, en hef aðeins fengið annað hvort yfirborðskenndar upplýsingar frá embættismönnum eða mér hreinlega neitað um svör. 

Því hef ég ekki talið mig eiga annars kost en óska formlega eftir svörum beint frá ráðherra í samræmi við 56. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég bendi jafnframt á að hvað varðar fyrirspurn um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna þá viðurkenndi fjármálaráðherra í umræðu á Alþingi að hann teldi hluta spurninganna ekki varða einkaréttarlega aðila heldur pólitíska stefnumörkun.  Þrátt fyrir það neitaði fjármálaráðherra að svara öllum spurningunum skriflega.

Ástæður fyrir því að ég tel spurningar mínar ekki varða einkaréttarlega hagsmuni heldur opinbera eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi þeir gifurlegir fjármunir sem íslenska ríkið hyggst setja inn í bankakerfið, eða allt að 325 milljarðar króna.  Þegar hefur verið gengið frá fjármögnun Nýja Kaupþings og Íslandsbanka án þess að kjörnir fulltrúar hafi fengið að sjá eina einustu viðskipaáætlun eða efnahagsreikning bankanna.  Hygg ég að enginn fjárfestir myndi sætta sig við þess háttar vinnubrögð og tel ég þessar upplýsingar lykilforsendur til að ég sem þingmaður geti gætt hagsmuna kjósenda. Því hef ég ítrekað spurt um verðmæti þeirra eigna sem íslenska ríkið er að kaupa á þingskj. 60, 61 og 144.

Í öðru lagi hafði ég áhuga á gjaldeyrisjöfnuði.  Gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana má skilgreina sem mismun á gengisbundnum eignum og skuldbindingum innan og utan efnahagsreiknings.  Gjaldeyrisjöfnuður er því mælikvarði á gjaldeyrisáhættu lánastofnana.  Seðlabankinn setur reglur um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana og er markmiðið með reglunum að takmarka gengisáhættu með því að koma í veg fyrir að gjaldeyrisjöfnuður fari fram úr tilteknum mörkum. 
 
Fyrir hrun var hægt að verja sig gegn gengisáhættu með svokölluðum gjaldeyrisafleiðum,  eða gjaldeyrisskiptasamningum. Fyrir hrun voru mikil viðskipti með gjaldeyrisafleiður gagnvart krónu.  Sér í lagi var stöðutaka gegn krónu.  Einn af hugsanlegum áhrifaþáttum í veikingu krónunnar fyrir hrun var þessi stöðutaka.  Þar sem bankarnir áttu eignir í erlendri mynt langt umfram skuldir gerði veiking krónunnar það að verkum að bankarnir högnuðust verulega. Þannig er athyglivert er að skoða hvenær hlutfallið byrjar að hækka árið 2006, eftir að hafa verið nálægt núlli árum saman.

Ástæða fyrirspurnar minnar er hugsanlegir hagsmunaárekstrar hjá ríkisvaldinu. Ríkið er orðið mjög stór aðili á fjármálamarkaði og því ekki alltaf sem hagsmunir þess sem eigandi fara saman við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu. Ef krónan styrkist munu bankarnir tapa fé vegna þess að hrein eign í erlendri mynt er jákvæð.  Slíkt er hins vegar gott fyrir fyrirtæki og heimili sem skulda í erlendri mynt.  Ef krónan veikist, hækka erlend lán heimilanna og fyrirtækjanna og greiðslubyrðin eykst en bankarnir hagnast og þar með íslenska ríkið. Því er eðlilegt að fjármálaráðherra svari því hvernig staðan sé og hvernig hann hyggst koma í veg fyrir þennan hagsmunaárekstur og tryggja að ríkið gæti ólíkra hagsmuna almennings og fjármálakerfisins.

Ég spurði einnig hver áhrif veikingar og styrkingar krónunnar væru á hag nýju bankanna miðað við stöðu á gjaldeyrisjöfnuði þeirra.  Einfalt mál hefði verið fyrir ráðherrann að svara þessu á almennan máta, til að upplýsa mig og almenning um hver áhrif veikingar og styrkingar krónunnar geta verið.

Í þriðja lagi hef ég áhuga á verðtryggingarjöfnuði.  Verðtryggingarjöfnuð má skilgreina sem mismun á verðtryggðum eignum og skuldum innan og utan efnahagsreiknings.  Verðtryggingarjöfnuður er því mælikvarði á áhættu lánastofnana vegna verðbólgu.

Ég tel að núverandi staða í bankakerfinu sé að bankarnir eigi verðtryggðar eignir, m.a. fasteignalán til heimila, umfram verðtryggðar skuldir á borð við innlán. Því getur það verið hagstætt fyrir bankana ef verðbólga eykst og ríkið hagnast þar með á verðbólgu. Í fyrirspurn minni spurði ég um þessa stöðu og hvort fjármálaráðherra hygðist grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings vegna verðbólgu. Eðlilegt er að ráðherra svari því hvernig hann hyggst tryggja að ekki komi upp hagsmunaárekstrar milli ríkisins, sem eiganda stórs hluta fjármálakerfisins og hagsmuna íslensks almennings, ef staðan er líkt og áður var lýst. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að ríkið getur haft mjög mikil áhrif á þróun verðbólgu.

Ég hefði einnig talið einfalt mál fyrir ráðherra að svara því hvort það séu líkur á að nýju bankarnir hagnist á verðbólgu ef verðtryggðar eignir eru miklar í hlutfalli við verðtryggðar skuldir.  Svarið hefði einfaldlega getað verið já, það er hugsanlegt að nýju bankarnir geti hagnast á verðbólgu ef verðtryggðar eignir eru miklar í hlutfalli við verðtryggðar skuldir.

Því er það að mínu mati fullkomin hræsni að í svarinu skuli vera fullyrt að áhersla ráðuneytisins sé á að tryggja sem allra mest gagnsæi og ég hlýt að telja að ráðherra leggi raunar upp með að misskilja spurningarnar og hunsa 54. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 49. gr. þingskapalaga.

Ég fer því fram á að fjármálaráðherra svari spurningum mínum á þingskj. 61 og 144 eftir bestu getu og samkvæmt lögum.
 
Virðingafyllst,

Eygló Harðardóttir

Afrit sent:
Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis,
Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Gott hjá þér Eygló að senda ráðherranum bréf og heimta svör.

Þessi ríkisstjórn sagði fyrir kosningar að allt ætti að vera upp á borði en líklegast var það einungis sagt í orði.

Haltu áfram á sömu leið og skrifaðu fleiri greinar.

Mér lýst vel á formanninn  ykkar og nokkuð vel á flokkinn þótt ég hafi gagnrýnt hinn gamla Framsóknarflokk hér áður fyrir vegna spillingar og taldi ég mig hafa rétt fyrir mér í því á sínum tíma.

Ég veit að málflutningur ykkar á þessum tíma á mikinn hljómgrunn hjá þjóðinni.  En það er annað að segja hlutina eða framkvæma.

Þar sem allir flokkar gegnum tíðina hafa verið gjör spilltir þá er ég um þessar mundir að leita mér að farvegi og fyrirgef ég þeim flokkum spillingu fortíðarinnar en nú er það nútíðin sem blasir við og munið þið það að nýja Ísland vill allt upp á borð og opna stjórnsýslu.

Flott hjá þér Eygló að birta bréfið.

Við mætum vonandi nokkrir félagar á fundi hjá ykkur á næstunni ef flokkurinn heldur áfram að standa vaktina eins og hann hefur gert frá bankahruninu.

Kær kveðja.

Árelíus Örn Þórðarson, 9.9.2009 kl. 01:16

2 identicon

Sæl Eygló Þóra.

Sem þingmaður hvað getur þú gert sem þingmaður þegar ráðherra neitar að afhenda þér umbeðnar upplýsingar?   Er það virkilega svo að þingmenn séu jafn illa settir og almenningur en því vil ég tæplega trúa.

Annað nauðsynlegt mál sem þarf að fá á hreint frá ráðherra en það er frétt í Fréttablaðinu í fyrradag þar sem rætt er við Jóhannes í skilanefnd Kbbanka um málaferli nefndarinnar gegn Breska ríkinu 1 júlí sl og ekkert á það minnst í fjölmiðlum. Jóhannes var æði fámáll um gang mála en lýsti í grófum dráttum að skilanefndin hefði skilað sínu áliti í dóminum og Breska Fjármálaráðuneytið sínu en eitthvað kom fram fyrir 8 október sem hann vildi ekki tjá sig um en rannsóknarnefnd Alþingis ætti að skoða þetta þegar dómur falli??  Voru þetta skjöl sem hefðu breytt Icesafe??   Þetta þarf að fá á hreint

með góðri kveðju

ÞG

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 18:33

3 identicon

Þarftu þá ekki eftir kvöldfréttir að halda nýjann fund um "spillingarlausa" framsókn? ÞÞ

þþ (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband