10.8.2009 | 10:43
Stjórnin slær á sáttahönd
Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, ræðst harkalega á stjórnarandstöðuna í pistli á vefsíðu sinni vegna Icesave málsins.
Þar reynir hann að færa rök fyrir ábyrgðarleysi núverandi ríkisstjórnar á öllu sem tengist Icesave málinu og gleymir algjörlega ábyrgð Samfylkingarinnar og nú Vinstri Grænna á þeim hörmulega samningi sem við stöndum frammi fyrir. Svo heldur hann áfram:
"Það er hinsvegar fásinna að ætla að stjórnarandstaðan muni koma að lausn málsins eða liðka fyrir um lausn þess eins og gefur hefur verið til kynna. Ætlun þess söfnuðar er eingöngu að fella ríkisstjórnina á þessu máli, reka fleyg í raðir stjórnarflokkanna og vinna pólitískt skemmdarverk gegn sinni eigin þjóð. Ábyrgðarleysi andstöðunnar er því algjört og fullkomið og þinglið hennar virðist ekki láta sig þjóðarhag neinu varða."
Ég veit ekki hvar Björn Valur var um helgina.
En honum til upplýsingar lagði fjöldi þingmanna úr öllum flokkum mikla vinnu á sig við að útbúa bæði lagalega og efnahagslega fyrirvara við ríkisábyrgðina. Fyrirvara sem við töldum að myndu tryggja lagalegan rétt okkar og gefa okkur tækifæri til að standa undir ríkisábyrgðinni ef til hennar kæmi.
Þessar tillögur virðast nánast hafa verið hunsaðar af forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði í kjölfarið fram sem "þverpólitíska sáttaleið" voru bara einhvers konar umorðun á fyrri tillögum fulltrúa Steingríms og Jóhönnu í fjárlaganefnd og tóku ekkert tillit til þeirrar raunverulegu þverpólitísku sáttaleiðar sem reynt var að feta um helgina.
En þetta ætti varaformaðurinn að hafa vitað, ef hann var á fundinum.
Hvað varðar ofsóknarbrjálæði varaformanns fjárlaganefndar vegna ríkisstjórnarinnar og hinn margumtalaðan fleyg þá verður hann bara að eiga það við sig. Ég er ekki að vinna í þessu máli til að sprengja þessa ríkisstjórn, heldur eru það börnin mín og framtíð þessarar þjóðar sem eru mér efst í huga.
Eitthvað sem virðist sárlega hafa skort á í aðgerðum og málflutningi vinstri stjórnarinnar.
En það ætti Björn Valur að vita ef hann væri nú á annað borð í þeirri vinnu sem þjóðin réði hann í, í stað þess að stinga af út í hafsauga í hvert sinn sem erfið mál koma upp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég bendi á mína nýjustu færslu:
http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/926657
------------------------------
Þetta virðist vera orðinn, að staðal málflutningi samfylkingarsinna, að þ.sé ábyrgðarfullt, að vera sammála þeim, en ábyrgðalaust að vera það ekki.
Þeir segjast hafa komið fram með lausn, hlusta greinilega ekkert á útskýringar á göllum þeirrar lausnar. Þ.e. nánast eins og Samfó, sé orðið að sértrúarsöfnuði. Hvert sem litið er á blogginu, éta Samfó sinnar, orð sem hrjóta af vörum talsmanna Samfó, að því er best verður séð, gangrýnislaust.
Það er eins og hugsunin sé, það eina sem skiptir máli er að trúa.
---------------------------------------------
Varðandi spurninguna, hvort Icesave verði gjaldfellt af Hollendingum og Bretum:
þá átta ég mig ekki, af hverju. Bretar og Hollendingar, vita hvað mikið fé er til, í Tryggingasjóðnum. Þ.e. nákvæmlega, ástæðan fyrir því að þeir heimta Icesave ábyrgðir, því þeir vita að fjármagnið í sjóðnum er ekki nema brotabrot þess sem þarf.
Án ábyrgðar, fá þeir ekkert meira úr sjóðnum umfram það fjármagn, sem þar er að finna í dag.
Þess vegna, er það alls ekki, að þjóna þeirra hagsmunum, að bregðast við með þeim hætti, að gjaldfella lánið með þeim hætti.
Þvert á móti, fæ ég ekki betur séð, að það þjóni þeirra hagsmunum, að fá meira greitt en það fé sem er til í sjóðnum í dag.
Með öðrum orðum, að þeirra hagsmunir séu að semja við Íslendinga. Þannig, að þvert ofan í fullyrðingar um hið gangstæða, sé samningsaðstaða Íslendinga hreint ekki neitt sérstaklega slæm.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.8.2009 kl. 12:03
Sammála því að ,,árás" Björn Vals er mjög óheppileg á þessum tímapunkti þegar réttsýnir og skynsamir menn innan stjórnarliðsins reyna að ná breiðri samstöðu á Alþingi, sem er grundvallaratriði í uppbyggingarstarfinu sem er framundan. Þingmenn verða að sýna gott fordæmi til að þjóðin geti snúið bökum saman og unnið sig saman út úr ógöngunum.
Þessi tónn frá stjórnarliða er eins og að skvetta olíu á eld.
Jón Baldur Lorange, 10.8.2009 kl. 12:20
Var að skrifa nýjan pistil:
http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/928408/
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.8.2009 kl. 13:07
Ætli Björn Valur segi ekki það sem aðrir hugsa? Þeir fyrirvarar sem voru "hunsaðir" voru allir þess eðlis að þeir hefðu fellt samkomulagið. Efnislega get ég ekki fjallað um það. Ég ætla að setja minn fyrirvara á þá sýn þína að þú sért ekki að fella þessa ríkisstjórn. Merkilegt hvað Einar Björn skrifar sig andlitsbláan um þetta mál. Tók saman öll skrif hans um þetta eina mál og komst að þeirri niðurstöðu að hann hlyti að vera sinn eigin herra eða í augnablkinu í sumarfríi.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 15:49
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru núna ábyrgðarlausir flokkar, sem afneita fortíð sinni. Tímabært er að hætta að dekstra liðið, sem olli hruni Íslands. ÞÞ
þþ (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 20:59
Bankarnir eru algjörlega gjaldþrota með aragrúa gjaldþrota fyrirtækja í yfirmettuðum rekstri á bakinu og skuldarar þeirra eru á bótum með vonlausa fjármálavitleysu. En samt munu bankar vera til jafnvel eftir raðgjaldþot svikakerfis og pólitíkusar og kostendur þeirra munu vilja hafa hönd í bagga með því. Ég reikna því með að stjórnin geispi golunni í síðasta lagi upp úr áramótunum og litla og stóra íhaldið, samspillingin og sjálfhyglingarflokkurinn, hlaupi saman á ný.
Baldur Fjölnisson, 10.8.2009 kl. 22:25
Þeir bera vissulega sína ábyrgð sem einn angi fjórskipta einflokksins. En mér finnst nú ekki fara mikið fyrir slökkvistarfi annars hluta einflokksins. Þetta virðist mest vera einhvers konar fjárkúgun, líkt og í árdaga slökkviliða í Rómarveldi. Þá kveikti slökkvilðið gjarnan sjálft eldana og heimtaði greiðslu fyrir að slökkva þá. Og ef það gekk ekki þá keyptu þeir draslið fyrir slikk og slökktu síðan í því.
Baldur Fjölnisson, 10.8.2009 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.