Jóhanna og verðtryggingin

Tveir erlendir sérfræðingar hafa nýlega komið til landsins og bent okkur á hvers konar paradís við höfum búið til fyrir lánardrottna með verðtryggingunni. Michael Hudson, prófessor í hagfræði og hagsögu, orðaði þetta þannig í grein sem birtist í Fréttablaðinu: „Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánardrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.“

Ann Pettifor, rithöfundur og stjórnandi Advocacy International, skrifar á vefnum Debtonation um heimsókn sína til Íslands: „I learned a lot. The one fact that angered me most is that Icelanders that took out loans with domestic banks have had those loans ‘indexed’ to inflation - by law it appears. Clearly, Iceland was another bank-owned-state, governed in the interests of creditors. If their new government is to represent the interests of the Icelandic people, and not just those of creditors, then legally-binding indexing must be repealed.”

Verðtryggingu hefur aldrei verið beitt í útlánum lánastofnana til heimila í ríkjum OECD að Íslandi undanskildu. Notkun verðtryggingar hefur einskorðast við ríkisskuldabréf og þá aðeins í átta af OECD ríkjunum. Hlutfall verðtryggingar á ríkisskuldabréfum er einnig langhæst hér á landi.

Ég get ekki annað en tekið undir orð Michael Hudson og Ann Pettifor um að kerfið hér á landi virðist miðast fyrst og fremst við hagsmuni lánardrottna. Þetta er sérstaklega sláandi núna þegar höfuðstóll fasteignalána hefur hækkað um rúm 20% á sama tíma og markaðsvirði eignanna hefur lækkað um svipaða prósentu.

Því mætti ætla að velferðarstjórnin undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur myndi hafa afnám verðtryggingarinnar í skrefum sem eitt af stóru málunum í 100 daga áætluninni. Enda hefur forsætisráðherra okkar ítrekað flutt þingsályktanir þess efnis.

En hvað segir í 100 daga áætluninni? Þar er ekki eitt orð um verðtrygginguna. Hins vegar ætlar ríkisstjórnin að finna tíma til að leggja fram frumvarp um persónukjör, endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka, nýja náttúruverndaráætlun og mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.

Í stjórnarsáttmálanum sjálfum er ein stutt setning um verðtrygginguna: „Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.“

Ætli forsætisráðherra sé búinn að finna hörpu til að spila á, meðan eignir Íslendinga fuðra upp?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Rétt hjá þér Eygló,en afhverju voru þið ekki löngu búinn að afnema verðtrygginguna,??? Þið voru nú í stjórn í 12 ár með sjálfstæðisflokknum,svo ég spyr aftur afhverfu voru þið ekki búinn að afnema verðtrygginguna,??ég hef tekið eftir því að framsóknarflokkurinn og sjálfstæðisflokkurinn eru með lausnir á öllum vandamálum í dag,þegar þið eru ekki í stjórn,en þegar þið voru saman í stjórn.þá var ekkert gert,nem eyða og eyða í vitleysu og koma þjóðinni á kaldan klakka,???ekki virðist þessi ríkisstjórn nú ráða við þetta,því miður,maður veit nú ekki hverjum er treystandi til að koma þessari þjóð úr þessari kreppu,því miður,en kannski eru að koma nýtt og betra fólk fram sem getur gert einkvað og vill gera einkvað,allavega er þú Eygló með nokkuð góðan púns þarna,??Ég lít allavega ekki björtum augum á framtíðina núna,og ég treysti allavega ekki þeirri stjórn sem situr við stjórnvöldin í dag,ég held að hún ráði ekki við efnahagsmálin og vandamál heilmillana og leysa þann mikla vanda varðandi atvinnulausa,því miður,hús sér bara inngöngu í ESB (gefa auðlindir og stúta íslenskum landbúnaði) í stað þess að nota þessa orku og leysa vandamálin hér á fróni,reyndar er hugmyndarfræði Ögmundar ekki mikill,hann heldur að lausnin sé að hækka skatta á sykur,???HA HA HA,þetta er bara orðið hlægilegt,því miður,og dæmir hver fyrir sig. kær kveðja.konungur þjóðveganna.

Jóhannes Guðnason, 16.5.2009 kl. 20:43

2 identicon

Ég er svo sammála þér Eygló um verðtrygginguna....en það er dálítið undarlegt að heyra Framsóknarmenn gagnrýna hvernig komið er hafandi setið í ríkisstjórn hátt í tvo undanfarna áratugi.

Hafið þið Framsóknarmenn einungis nýlega rýnt í áhrif verðtryggingar á heimili landsins og það að ENGIN önnur OECD ríki hafa verðtryggingu á lán til heimila?

Ég bara spyr....

Kveðja, Valgerður

Valgerður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 20:45

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

10-20% allra ríkisskulda bréfa í Bandaríkjunum eru verðtryggð. að segja að verðtryggingsé eitthvað sér íslenskt er lýgi eða fáfræði.

ofan í lag er verðtrygging besta möguleiga leið fyrir lántakendur, þá sérstaklega eignalítið fólk. stöðug greiðsla er mun mikilvægari heldur en breytilegir vextir og afborganir eins og er annarstaðr en þar sem verðtrygging er til staðar. 

að afnema verðtrygginguna í dag þegar það er komin verðhjöðnun (höfuðstóll verðtryggðralána lækkar) er árás allan almenning þessa lands. 

Fannar frá Rifi, 16.5.2009 kl. 22:35

4 identicon

Við hljótum nú að miða okkur við þau ríki sem við tilheyrum eins og OECD ríkjunum eða hvað? Ef að gjaldmiðillinn er ástæða þess að við verðum að hafa verðtryggingu þá verðum við að breyta því hið snarasta...annað er óraunhæft...og nei það var ekki glæsileg staða á tímum fyrir verðtryggingu en nú erum við bara komin alveg á hinn endann...tryggjum hag fjármagnseigenda hvað sem það kostar !!

Valgerður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 23:45

5 identicon

Góð grein hjá þér.  Það má segja um M. Hudson og A. Pettifor að "glöggt er gests augað".  Þau vita nokkuð vel hversu kjánalegt íslenska "fjármálakerfið" er og margt sem því fylgir.  Eyði ekki fleiri orðum á þennan óskapnað sem verðtryggingin er í íslenska "hagkerfinu". 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 11:59

6 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Það er merkilegt að það þarf útlendinga til að hlustað sé á ábendingar um að verðtryggingin valdi skaða. En látum það liggja á milli hluta, þetta er hárrétt hjá þér Eygló, verðtrygginguna þarf að afnema. Höfum samt í huga að þessi ósómi er verk framsóknarmanna (Ólafslög).

Það er rétt hjá Fannari frá Rifi að verðtryggingin er ekki séríslenskt fyrirbæri en hún þekkist óvíða á almennum lánamarkaði, hennar gætir fyrst og fremst á skuldabréfamarkaði erlendis og þá yfirleitt á ríkisskuldabréfum. Það er hins vegar rangt hjá Fannari að verðtryggingin haldi greiðslubyrði óbreyttri þótt vextir hækki, það gerir jafngreiðslulánafyrirkomulagið (sem er einn versti óvinur íslenskra heimila og hagkerfisins, sérstaklega þegar það tengist verðtryggingunni).

Sömuleiðis er það rangt að höfuðstóll verðtryggðra lána lækki því langstærstur hluti verðtryggðra lána er með klausu um að höfuðstóllinn lækki EKKI þótt verðhjöðnun eigi sér stað (ég hef satt að segja ekki heyrt um einn einasta verðtryggðan lánasamning sem ekki inniheldur þessa klausu). Afnám verðtryggingar á verðhjöðnunartímum er því síður en svo árás á íslensk heimili (nema kannski fyrir það að raunvextir eru hærri en nafnvextir þegar verðhjöðnun ríkir).

Góðar stundir!

Guðmundur Sverrir Þór, 17.5.2009 kl. 17:05

7 identicon

Heyrði Lobba einhvern tímann lýsa verðtryggingarumræðunni eitthvað á þá leið að það virtist ráða afstöðu manna til verðtryggingar hvort þeir kynnu að reikna eða ekki.

Helsta röksemdin virðist vera að verðtryggingin hljóti að vera ómöguleg af því hún sé ekki til í útlandinu. Þá kjósa menn að líta framhjá þeirri staðreynd að í útlandinu er afar fátítt að 300.000 manna samfélag sé að basla við að halda úti sjálfstæðri mynt, í hagkerfi sem sögulega er afar sveiflukennt. (menn kusu reyndar líka að horfa framhjá þeirri sögu undanfarin ár)

Verðtryggingin kippir út helsta áhættuþætti lánveitanda og lækkar þannig ávöxtunarkröfuna sem þýðir lægri vextir lánsins.

Ég hjá eftir því að einhver hér að ofan heldur því fram að í skilmála verðtryggðra lána sé bundinn einhverskonar einstreymisloki, þ.e. höfuðstóll lækki ekki í verðhjöðnun.

Ég ákvað nú að tékka á þessu og er nú með veðbréfin að húsinu mínu hérna fyrir framan mig. Höfuðstóll er einfaldlega bundinn neysluverðsvísitölu, hvort sem hún fer upp eða niður.

Alger forsenda þess að kippa út verðtryggingu á Íslandi er að skipta um mynt. Með þeim sveiflum sem óhjákvæmilegar eru með örmynt eins og krónuna er verðtrygging langskynsamlegasta útfærsla langtíma lánasamninga sem í boði er.

Hrannar Magnússon (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 18:45

8 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Hrannar: Ég vil benda þér að fara inn á heimasíðu einhvers bankanna og bera saman verðtryggð og óverðtryggð fasteignalán í reiknivélum þeirra. Ég hef t.d. farið inn á reiknivél Íslandsbanka og breyturnar sem ég hef slegið inn eru eftirfarandi:

Verðtryggt lán: Höfuðstóll 10 milljónir til 40 ára með 2,5% verðbólgu. Heildarendurgreiðslubyrði er ríflega 48 milljónir króna.

Óverðtryggt lán: Allt það sama fyrir utan að ég sló inn 15% vexti í stað þeirra 9,5% vaxta sem bankinn býður núna. Heildarendurgreiðslubyrði er 40,3 milljónir.

Þarna er sem sé verið að bera saman verðtryggt lán á þeirri forsendu að verðbólga á lánstímanum sé sú sem verðbólgumarkmiðið gerir ráð fyrir og hins vegar óverðtryggt lán með 15% vöxtum. Er það lánveitanda virkilega hagstæðara að borga 7,7 milljónum meira? Ég tala nú ekki um 47,2 milljónir sem er raunin þegar gert er ráð fyrir 5% verðbólgu í verðtryggða láninu.

Þegar ég var blaðamaður á Mogganum beindi ég þessari spurningu til Lobba í grein, eftir að hann hafði gagnrýnt skrif mín á Útvarpi Sögu, og svarið var skætingur um að þessi stráklingur á Mogganum kynni ekki að reikna (það stóð svart á hvítu í greininni að dæmið væri fengið úr reiknivél Glitnis eins og bankinn hét þá).

Hagfræðingur sem fullyrðir að það sé hagstæðara fyrir fólk að borga meira er í mínum huga fúskari og það er sömuleiðis rangt að verðtryggingin kippi út helsta áhættuþættinum, hún færir hann bara yfir til neytandans. Ég get komið með fullt af hagfræðilegum rökum fyrir því hvers vegna verðtrygging er slæm og aldrei að vita nema ég skrifi um það á minni bloggsíðu en ég hlífi Eygló við að nota hennar blogg sem vettvang til þess.

Guðmundur Sverrir Þór, 17.5.2009 kl. 20:17

9 Smámynd: Hrannar Magnússon

Kæri GSÞ.

Án þess að hafa komist í reiknivélina sem þú segist hafa farið í (því Íslandsbanki býður ekki upp á lán á föstum vöxtum í krónum, heldur lán með breytilegum vöxtum og reiknar þau ekki út) verður ekkert fullyrt um forsendur þínar.

Þó held ég að það sé fullljóst að miðað við niðurstöðuna er verið að bera saman epli og appelsínur. Líklegast þykir mér að ástæðan sé að þú hafir borið saman verðtryggt jafngreiðslulán og fastvaxtalán með jöfnum afborgunum.

FYI er heildarendugreiðsla af 15% dæminu þínu ríflega 60 milljónir kr. (þú notar PMT fallið í excel)

Ég sagði áhættuþætti LÁNVEITANDA sem auðveldar honum vaxtaákvörðun 40 ár fram í tímann. Það auðveldar honum líka fjármögnun lánsins, hvort heldur er með innlánum eða skuldabréfaútgáfu. Þá er miðað við langtímafjármögnun, en ekki aðferðina sem bankarnir notuðu á sína lánapakka langtímalánin fjármögnuð með skammtímaskuldabréfum.

Það má heldur ekki gleyma sögunni. Við búum einfaldlega við háa verðbólgu í sögulegu samhengi. Ein helsta ástæðan er krónan. Fyrir tíma verðtryggingar bjuggum við við það kerfi að lán þeirra sem skulduðu voru greidd af þeim sem skulduðu ekki. Innlán brunnu upp í bönkunum á móti lánunum.

Að halda að um framtíðina gildi önnur lögmál en um fortíðina finnst mér voðalega 2007...

Hrannar Magnússon, 19.5.2009 kl. 03:42

10 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll aftur Hrannar!

Hér er tengill á reiknivél Íslandsbanka fyrir krónulán með föstum vöxtum: http://www.islandsbanki.is/einstaklingar/reiknivelar/husnaedislan/hefdbundid-lan/

Og hér er tengill á reiknivél fyrir óverðtryggð lán: http://www.islandsbanki.is/einstaklingar/reiknivelar/husnaedislan/overdtryggd-lan/

Með því að fylgja þessum tenglum ættirðu að geta kontrollerað útreikningana vandræðalaust.

Verðtryggð jafngreiðslulán eru þau lán sem almennt eru til umræðu þegar talað er um verðtryggingu lánsfjár og þeir sem mæla henni bót nota einmitt það "öryggi" sem felst í jafngreiðslulánunum máli sínu til stuðnings. 

Ég er að tala um sama áhættuþátt og þú, þ.e. áhættuþátt lánveitanda. Hann er færður yfir á lánþegann sem ber alla verðbólguáhættuna en hefur verið talin trú um að verðtryggingin verji hann gegn verðbólgunni.

Það sem alltaf gleymist þegar verðtryggingin og verðbólgan eru settar í sögulegt samhengi er að á Íslandi ríkti ekki vaxtafrelsi á þeim árum. Lánveitendur voru bundnir af vaxtaákvörðunum hins opinbera sem gerðu að raunvextir voru alltaf neikvæðir. Í dag ríkir fullt vaxtafrelsi sem felur í sér að bankar gætu brugðist strax við verðbólgunni. Það eina sem er 2007 er að halda að önnur lögmál gildi um Ísland en öll önnur lönd í heiminum. 

Guðmundur Sverrir Þór, 21.5.2009 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband