Bernanke og kosningatrix

Fulltrúar aðgerðarleysis í samfélaginu fara mikinn við að berja niður hugmyndir um aðgerðir til aðstoðar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum í landinu. Síðasta útspilið var hreint og klárt skítkast um hagfræðing sem dirfðist að tala fyrir hugmynd um fimmtungs lækkun á höfuðstól skulda heimila og fyrirtækja í landinu.
 
Orð eins og arfavitlaus, atkvæðaveiðar, og kosningatrix eru notuð í gríð og erg í þeirri von að fólk skoði ekki hugmyndina betur.
 
20% leiðrétting skulda
 
Hugmyndin sjálf er tiltölulega einföld.  Jón og Gunna skulduðu Gamlabanka 100 kr.  Gamli banki afskrifar allar húsnæðisskuldir um t.d. 50% (mat á lánasöfnun er í gangi þessa dagana á vegum skilanefndar og FME, og á að ljúka á næstu vikum).  Skuld Jóns og Gunnu er því metin á 50 kr. og hún er færð yfir í Nýjabanka á því mati.  Athugið að það eru kröfuhafar gömlu bankanna sem tapa 50 kr. í þessu dæmi, en þeir hafa þegar afskrifað stórann hluta sinna krafna. Nýibanki selur Íbúðalánasjóði (ÍLS) skuldina á 50 kr. og losnar við hana úr bókum sínum.  Í stað þess að rukka Jón og Gunnu um 100. Kr. – færir Íbúðalánasjóður höfuðstólinn niður í 80 kr. og rukkar Jón og Gunnu um þá upphæð (og vexti af henni). ÍLS tapar aðeins peningum á þessu ef, og að því marki sem, allir Jónar og Gunnur eru að meðaltali borgunarfólk fyrir minna en 50 kr. af þessum 80 kr. Ástæðan fyrir því að niðurfellingin er ekki hærri, er til að einnig sé hægt að lækka höfuðstól lána Íbúðalánasjóðs, annarra fjármálastofnana og lífeyrissjóða.
 
Til einföldunar hafa margir bent á að lækkunin samsvari í raun verðbótum síðustu 18-24 mánuði eða leiðréttingu skulda vegna hrunsins.
 
Rannsóknir sem vitnað var í á fréttaveitunni Bloomberg sýna að fimmtungs lækkun eða meira á höfuðstóli leiðir til að fleiri standa í skilum en ef lengt er í lánum, greiðslum frestað eða gripið til annars konar greiðslujöfnunar.  Við greiðslujöfnun standa 55% lántakanda ekki í skilum, á meðan um 28% lántakanda standa ekki í skilum ef höfuðstóll er lækkaður innan sex mánuða.
 
Kostar þetta ekki einhver ósköp?
 
Skuldir Íslendinga liggja þegar að stórum hluta afskrifaðar í nýju bönkunum.  Þar eru þær bókfærðar á allt öðru og mun lægra verði en snýr að hinum venjulega Íslendingi.  Oliver Wyman vinnur núna að því að ljúka verðmati og skv. upplýsingum þaðan þykir lánasafnið sem ætlunin er að flytja yfir í nýju bankana mjög lélegt. Nýju bankarnir geta því ekki tapað einhverju sem er þegar afskrifað.  Ef 80% er rukkað í stað 100%, munu fleiri geta staðið í skilum og færri verða gjaldþrota.  Meðalgreiðsla hvers og eins lækkar en fleiri geta borgað.
Og á móti má spyrja hvað það muni kosta ef algjört kerfishrun verður hér á landi? Hvað mun kosta að skoða mál hverrar og einnar fjölskyldu og hversu margar þeirra verða gjaldþrota á meðan mál þeirra eru í skoðun?
 
Orð Bernankes og Roubini
 
Í Bandaríkjunum hafa menn miklar áhyggjur af skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Þar eru um 20% heimila með neikvætt eigið fé í húsnæði sínu, þ.e. þau skulda meira en virði húsnæðisins er.  Til samanburðar eru 40% íslenskra heimila í sömu stöðu. Húsnæðisverð hefur hrunið og gjaldþrotum fjölgar stöðugt.  Þegar í byrjun árs 2008 hvatti seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, lánveitendur til að lækka höfuðstól fasteignalána og dr. Nouriel Roubini, einn þekktasti hagfræðingur Bandaríkjanna, hefur lagt til að öllum fasteignalánasamningum í Bandaríkjunum verði rift svo hægt sé að lækka skuldabyrði heimilanna.
 
Mikill er máttur Framsóknar ef þessir menn eru farnir að tala fyrir lækkun höfuðstóls fasteignalána til þess eins að styðja kosningabaráttu Framsóknarflokksins.

(Birtist fyrst í Eldhúsdegi Fréttablaðsins 1.4.2009)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir sem tala á móti þessum leiðréttingum eru þeir sem til dæmis hafa hagnast á verðtryggingunni og þeirri arfavitlausu verðlausu seðlaprentun sem þar fer fram.

Í sumum tilfellum er það fólk sem byggði húsin sín hér á árum áður fyrir neikvæða vexti    en því réðu víst pólitíkusar og sennilega stjórnarmenn í lífeyrissjóðum og bönkum svo ekki skal ásaka almenning, en sumir græddu þó samt. 

En nú höfum við bæði töluverða reynslu af "- vöxtum" og "+ vöxtum" og hér áður fyrr þótti það mjög eðlilegt að vextir ættu það til að "leika" sér dálítið í kringum verðbólgustigið.  Í raun var sá leikur óþarfi og átti aldrei að verða, því eðlilegast hlýtur að teljast að vaxtastigið sé eitthvað umfram verðbólgustig, kannski 4 % - 6 % og þá væri búið að afnem verðtryggingu.  Pólitíkusar þess tíma kunnu ekki ráð við verðbólgunni svo þeir gáfust hreinlega upp og fengu þá hugmynd frá "snjöllum ráðgjöfum" að búa til vaxtagraut og blanda í hann "verðtryggingu".  Sá grautur hefur alla tíð síðan soðið uppúr   og á hörmulegasta hátt fyrir marga.  Það var nægilegt að einhver "fjármálasnillingurinn", stundum seðlabankastjóri úti í hinum stóra heimi, "ropaði óvart" einhverri vitleysu út úr sér á fundi eða að einhver kaffiekrueigandi í Brasilíu segðist sennilega þurfa að hækka kaffibaunirnar sínar......... þá rauk íslenska verðtryggingin upp úr öll valdi, vextir, verðbætur á vexti og ég veit ekki hvað hækkaði og auðvitað varð að leggja hluta af þessu bulli við "höfuðstólinn" sem hækkaði lánin og svo endurtekur þessi vitleysa sig og endurtekur.  Reynum að vera eins og skynsamar þjóðir, hættum seðlaprentun í formi verðtryggingar.  Afnemum verðtryggingu strax hún eykur aðeins vandamál þjóðarinnar, þess "vísitöluleikur" sem skapar verðbóta og vaxtaokrið og reyndar aukna verðbólgu er einungis fyrir "gráðuga" sem er skít sama um það hvernig þeir komast yfir seðla en fjölskyldum og ýmsum öðrum blæðir. 

Gerum leiðréttingu í takt við það sem þú talar um í þinni grein eða í takt við aðrar góðar hugmyndir sem komið hafa fram.  Það er ekki verið að taka neitt frá neinum en það er hins vegar verið "taka frá" verðtryggðum og gengistryggðum fjölskyldum og jafnvel gera eignalausa ef ekkert verður að gert.

AFNEMUM VERÐTRYGGINGU MEÐ NEYÐARLÖGUM

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 18:48

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég var á fundi þar sem hagfræðiprófessor útskýrði þessa hugmynd mjög vel á 15 mín.. Hann er ca. 20% lægri en aðrir menn á vöxt. Hann byrjaði erindi sitt á því að segja. "Ég ætla að vera framsóknarmaður næstu 20 mínúndur".

Eftir erindið fannst mér hann amk. 20% stærri en aðrir menn.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 1.4.2009 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband