Þýfi Herberts og Gylfi fógeti

Einar Guðjónsson svarar Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, í Morgunblaðinu í dag.

----------------------------------------------------

"GYLFI Magnússon skrifar sögu í gær en hún er alveg ókláruð svo ég leyfi mér að birta hana hér rétta.

Herbert fékk lánað hjá lífeyrissjóði Tryggva og Þórs og útlendum bönkum svo hann gæti lánað Tryggva og Þór 100 krónur hvorum. Sá sem átti að gæta þess að lögum væri fylgt í viðskiptum þeirra þriggja er Fógetinn í Skírisskógi sem við skulum kalla Gylfa.

Hann gaf hinsvegar Herberti leyfi til að fara sínu fram í viðskiptum við Tryggva og Þór þar með talið að kveikja í húsum þeirra, breyta skjölum og þá leyfði hann Herberti að svíkja þá sem hann fékk peningana að láni frá.

Herbert er nú kominn á vinabæjarmót á Tortóla og segir ekki meira af honum hér.

Gylfi fógeti á nú skuldir Tryggva og Þórs en þær hefur hann eignast með því að hengja upp tilkynningu þar um og með því sé hann að tryggja að kerfið virki. Það virkar, segir fógetinn, vegna þess að Herbert kveikti í húsum þeirra Þórs og Tryggva og að auki fuðra nú upp öll akurlönd þeirra fyrir sakir eftirlits fógetans með lána- og brunastarfi Herberts.

Gylfi fógeti eignaðist semsé skuldir Tryggva og Þórs fyrir ekkert með tilkynningu á torginu. Það sem meira er þá ákvað hann að hver króna sem þeir fengu að láni skyldi borgast til baka með margföldunarstuðli sem Gylfi fógeti ákveður sjálfur. Nú um stundir er miðað við gengi íslenskrar krónu eins og hún er skráð á Tortólu.

Með góðu eða illu eiga þeir að borga Gylfa fógeta lánið til baka að lágmarki með hundraðföldu álagi. Þá eiga þeir líka að senda börnin sín að vinna í kolanámum svo að fógetinn geti borgað málamyndakrónurnar þrjár sem hann lofaði að borga skiptastjóra Herberts fyrir skuldir Tryggva og Þórs.

Gylfi fógeti er hinsvegar að velta fyrir sér hvar hann eigi að kaupa sér mótorhjól en á þeim er hægt að komast hratt úr Skírisskógi. Hann skilur ekki hvernig töpuð krafa gerði líf hans svona gott. Af því að einhver verður að borga.

Tryggvi og Þór sitja eftir í logandi húsum sínum og vita að þeir eru á Íslandi

EINAR GUÐJÓNSSON,

Bjargarstíg 14, Reykjavík."

Birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2009

-------------------------------------------------------

Já, það er gott að búa á Íslandi um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Fógetinn í Skírisskógi sem við skulum kalla Gylfa."

Ertu að grínast í mér?  Það voru sjálfstæðismenn sem voru með Fjármálaráðuneitið og Forsetisráðuneitið 18 ár samfellt fyrir hrunið.  Það var fyrverandi formaður sjálfstæðisflokksins sem var seðlabanki, og yfir FME var sjálfstæðismaður.  Gylfi kom ekki nálægt neinu þessu.

Magnús (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 17:23

2 identicon

"sem var seðlabanki" átti auðvita að standa "sem var seðlabankastjóri"

Magnús (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 17:41

3 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Gylfi er gersamlega að gera í buxurnar, hann gerir grín að öðrum sem reyna koma með tillögur, en hefur engar tillögur sjálfur, þetta er greinilega verkefni sem er ofvaxið fyrir Gylfa að sjá um, bara eins og þessi stjórn eins og hún er búin að haga sér.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 21.3.2009 kl. 18:00

4 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Hvað er eiginlega að á þessu heimili ykkar. Ætlið þið að ganga til í kosninga með þetta bull í farteskinu.

Ingimundur Bergmann, 21.3.2009 kl. 21:48

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst það ekki skipta máli hver var yfir hverju.  Nú eru 20 mánuðir frá því að krónan tók að falla.  Á þessum tíma hefur gengisvísitalan farið úr 110,7 í tæp 200 (eða um 45% lækkun krónunnar) og inn á milli farið upp í 250.  Þessi breytinga á gengi krónunnar hefur valdið 23, 3% hækkun á vísitölu neysluverðs.  Mergur málsins er að hvorki núverandi ríkisstjórn né sú síðasta hafa gert eitt eða neitt einhverju skiptir til að lina áhrifin af þessu á almenning í landinu. 

Þessi orðhengilsháttur viðskiptaráðherra verða hugsanlega hans eftirmæli.  Ég veit það ekki.  En hvaða lausn er hann með?  Ef menn vilja virkilega dauðrota hagkerfið, þá förum við eignaupptöku- og gjaldþrotaleiðina.  Ef við viljum reyna að blása lífi í hagkerfið, þá förum við þá leið sem ég er búinn að benda á, hér á blogginu, frá því 28.9. (Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum).  Það er leið niðurfærslu og afskrifta á lánum heimila og fyrirtækja.  Hvort að valið er að fara í flata 20% niðurfærslu, 20% niðurfærslu með tekjuþaki, eignaþaki eða stöðuþaki (þ.e. forstjórar fá ekki niðurfærslu eins og sumir bulla um) skiptir ekki máli.  Það þarf að fara í niðurfærslu- eða afskriftir og það þarf að vera skattfrjálst.  Síðan þarf að aftengja eða setja þak á verðtryggingu.

Hér er texti úr tilvitnuðu bloggi frá 28. september 2008, þ.e. daginn áður en ákveðið var að þjóðnýta Glitni.  Færslan er svar við yfirlýsingu Péturs Blöndals um að ríkisstjórnin eigi sko alls ekki að borga upp skuldir fólks, en það væri í lagi að veiti því niðurgreidda sálfræðiaðstoð:

Nú svo ég snúi mér aftur að Pétri.  Hann vill ekki að ríkisstjórnin borgi skuldir fólks, en finnst honum allt í lagi, að fólk þurfi að taka á sig hækkun húsnæðislánaskulda sem nemur 4 - 6 földum árslaunum sínum vegna þess að gengið hrynur og verðbólga hækkar.  Jú, ríkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir.  Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo.  Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.  Svo gæti ríkið í samvinnu við sveitarfélögin afnumið fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eða a.m.k. lækkað verulega.  Loks getur ríkisstjórn og Seðlabanki lagt út í viðmiklar aðgerðir til að styrkja íslensku krónuna. 

Marinó G. Njálsson, 21.3.2009 kl. 21:57

6 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Tryggvi Þór kemur að mér skilst með grein í vikunni það sem hann fer yfir málin með þessa 20% niðurfærslu, veitir ekki af að skýra málin fyrir þessum blessaða viðskiptaráðherra.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 21.3.2009 kl. 22:37

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hann var með erindi á aðalfundi Hagsmunasamtaka heimilanna um þetta mál.  hann þurfti svo sem ekkert að skýra það út fyrir mér, þar sem ég útfærði þessa leið í bloggfærslu um miðjan febrúar og síðan nánar í eftirfarandi tveimur færslum:

Það er víst hægt að færa lánin niður

Svona á að fara að þessu  (sjá sérstaklega PowerPoint skjöl sem fylgja). 

Ef einhver vill, þá er hægt að koma með ítarlegri útfærslu.

Marinó G. Njálsson, 21.3.2009 kl. 22:54

8 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Æ! Marinó ég er orðinn þreyttur á þessu 20% niðurfellingarkjaftæði þínu. Ég var líka á fundinum í gær og hlýddi á Herbert eða hvað hann heitir. Miklu auðveldara er að fara greiðsluaðlögunarleið ríkisstjórnarinnar. Þannig:

80.000 manns mæta í viðtöl hjá greiðsluaðlögunarfulltrúum tveir eru fyrir Reykjavíkursvæðið og einn í hverjum landsfjórðungi, samtals sex. Ef að meðaltali tekur þrjár klst. að afgreiða hvern eru þetta 240.000 vinnustundir deilt með sex sem gera 40.000 vinnustundir. Ef að virkar vinnustundir eru 30 á fulltrúa viku gera  þetta 13.333 vikur þannig þetta ætti að klárast auðveldlega á 40 árum. Þetta ætti því að klárast fyrir árið 2050 eða í síðasta lagi 2074 á 200 ára afmæli stjórnarskrárinnar og þá er margfalt tilefni til að fagna á Þingvöllum. Allavega ætla ég að mæta þó að þetta tefjist til 2174.

En eins og áður sagði er ég orðin þreyttur á þessum 20% niðurfellingarmálflutningskjaftæði þegar aðrar aðferðir eru mun fljótvirkari..

Kristján Sigurður Kristjánsson, 22.3.2009 kl. 00:13

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góður, Kristján.  Ég skil að sneiðin er ekki ætluð mér.

Marinó G. Njálsson, 22.3.2009 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband