Stendur ekki á okkur!

Í frétt á visir.is veltir Birgir Ármannsson, helsti talsmaður Davíðs Oddssonar á Alþingi, fyrir sér hverju sætir að ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram fleiri mál.

Í fréttinni kemur fram að: "Ríkisstjórnin hefur einungis lagt fram 16 mál á þingi af þeim 30 frumvörpum og þingsályktunartillögum sem ríkisstjórnin hefur afgreitt frá sér frá því hún tók við völdum í lok janúar..."

Aðeins níu af þessum 30 málum varða hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna. 

Birgir spyr síðan:  „...hvort þessi mál liggi óafgreidd í þingflokkum stjórnarflokkanna eða hvort samningar við Framsóknarflokkinn taki svona langan tíma..." 

Ég get fullyrt að þetta snýr ekki að samningum við okkur.  Öllum er frjálst að leggja fram frumvörp og þingsályktunartillögur og munum við framsóknarmenn að sjálfsögðu styðja öll góð mál og reyna að vinna að þeim innan þingsins. Þess vegna höfum við einmitt verið að kalla eftir frumvörpum og þingsályktunartillögum frá stjórnarflokkunum sem tengjast hagsmunum atvinnulífs og heimila.

Það sama hlýtur að gilda um Sjálfstæðisflokkinn, er það ekki? 

Að þeir séu tilbúnir að leggja fram sín eigin mál til að bæta hag heimilanna eða fyrirtækjanna í staðinn fyrir að tuða bara?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju þarft þú að setja þig í einhverjar skætings-stellingar þegar þú talar um aðra þingmenn, ef svo vill til að þeir eru úr Sjálfstæðisflokknum? Hvers vegna getur þú ekki tekið þátt í málefnalegri umræðu án þess að klína "helsti talsmaður Davíðs Oddssonar" aftan við nafn Birgis Ármannssonar? Það virðist ekki einu sinni vera að þingmaðurinn hafi eitthvað verið að beina orðum sínum sérstaklega að Framsóknarflokknum, þannig að það er alveg óþarfi að rjúka í manninn. Hann var augljóslega að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að grípa til allra afsakana til að þurfa ekki að sýna árangur, þar á meðal afsökunarinnar um að það sé svo erfitt að þurfa alltaf að vera að semja við Framsóknarmenn.

En hvað hefur svo Birgir þessi unnið til að þú skeytir á hann að hann sé "helsti talsmaður Davíðs Oddssonar"? Jú, hann andmælti því að lög um breytingu á lögum um Seðlabanka yrðu keyrð í gegn án nægilegrar umræðu.

En það gerðu fleiri.

Með sama skætingi væri væntanlega sjálfgefið að kalla félaga þinn á þingi fyrir Framsóknarflokkinn Höskuld Þórhallsson "sérstakan verjanda Davíðs Oddsson", þar sem hann leyfði sér að taka ekki þátt í sömu flausturslegu afgreiðslunni.

En það væri ekki sanngjarnt. Höskuldur þessi er enda auðvitað ekki "sérstakur verjandi Davíðs Oddsson", ekki frekar en Birgir er "helsti talsmaður Davíðs Oddssonar".

Þannig að hvað segir þú um að taka á þig rögg, kippa þér út úr lýðskrum-gírnum og ræða málin einlæglega og á málefnalegum nótum? VIð sem fylgjumst með þessu orðaskaki ykkar pólitíkusanna af hliðarlínunum hljótum að mega gera þá einföldu kröfu, ekki satt?

Kolbeinn (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband