Aðgerðir fyrir Íslendinga

Í gær kynntum við framsóknarmenn efnahagstillögur okkar um aðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Við leggjum mikla áherslu á að stýrivextir lækki sem fyrst auk þess sem fella þarf niður skuldir heimila og fyrirtækja í landinu.  Það yrði gert með því að húsnæðislán yrðu færð yfir til Íbúðalánasjóðs frá bönkunum, með þeim afskriftum sem þegar hafa orðið á lánunum við að flytjast frá gömlu bönkunum yfir til þeirra nýju. Íbúðalánasjóður myndi síðan fella niður 20% af skuldunum þvert á allt lánasafnið sitt, þannig að allir sætu við sama borð hvort sem þeir tóku gengistryggð lán eða verðtryggð lán.

Við teljum eðlilegt að fyrirtæki fengju sömu meðferð, að 20% af lánunum þeirra yrðu felld niður.  Þetta er hægt vegna þess að erlendir kröfuhafar bankanna eru þegar búnir að afskrifa fjárfestingar sínar hérlendis.  Þeir reikna með því að allt fé þeirra sé tapað.  En til að koma til móts við þá teljum við eðlilegt að þeir fái hlut í nýju bönkunum, á móti ríkinu.

Mikilvægt er að koma fasteignamarkaðnum aftur í gang, og það viljum við gera með því að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs í 30 milljónir kr., en lækka um leið hámarkshlutfall lánsins í 70%.  Stimpilgjöldum við kaup á fasteignum yrðu jafnframt afnumin.

Við teljum einnig mjög mikilvægt að auka peningamagn í umferð til að hjól atvinnulífsins fari að snúast á nýjan leik. Það viljum við gera með því að leyfa lífeyrissjóðum að eiga gjaldeyrisviðskipti.  Með því að leyfa þau geta lífeyrissjóðirnir selt minni hluta eigna sinna erlendis en ella fyrir jafnmargar krónur og komið með þessa fjármuni heim. Koma þarf á uppboðsmarkaði fyrir krónur, til að létta þrýsting á krónuna. Lífeyrissjóðirnir ásamt öðrum gætu boðið í krónur í stað þess að Seðlabankinn þyrfti að ganga á gjaldeyrisforðann. Ríkið myndi einnig samkvæmt okkar tillögum ábyrgjast millibankalán í skamman tíma, til að auðvelda fjármögnun fjármálastofnana.

Þessar aðgerðir munu að okkar mati lækka vexti, auka peningamagn í umferð, auka eftirspurn eftir vöru og þjónustu, draga úr atvinnuleysi, fækka gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja og koma fasteignamarkaðnum aftur í gang.

Hér er hægt að sjá tillögurnar nákvæmlega útlistaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl. Hvers vegna viðjið þið auka lánsupphæð í 30 milljónir? Ég spyr, af því mér finnst þetta geta haft óæskilegar afleiðingar, þ.e. að stuðla að óeðlilega háu húsnæðisverði? (Ef hægt er að fá há lán, þá hækkar íbúðaverð, það hefur reynslan sýnt). Auk þess gagnast þetta helst þeim sem eiga peninga (þ.e. a.m.k. 30% af verði eignarinnar). Hvers vegna ætti íbúðalánasjóður að spenna sig til þess að geta veitt hærri lán þeim sem í raun þurfa þess síst með? 

Ragnar Ólafsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 10:44

2 identicon

Hvers vegna nota Framsóknarmenn alltaf Íbúðalánasjóð í eigin kosningabaráttu? Og ætlar ríkið að leggja Íbúðalánasjóði til þessa milljarða sem þeir eiga að afskrifa eða?

Dísa (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 12:11

3 identicon

Ragnar: Við framsóknarfólk notum ekki Íbúðalánasjóð í kosningabaráttu. Við höfum lengi barist fyrir tilvist hans. Sjálfstæðismenn sóttu fast eftir því í stjórnarsamstarfi við okkur, að afhenda hann "einkavinavæddum" bönkunum. En Framsókn stóð fast á því að slíkt kæmi ekki til greina, og þeim bláu varð ekkert ágengt í því að leggja Íbúðalánasjóð niður, sem betur fer! Ég er einna stoltastur af þessari staðfestu flokksins, af öllu því sem hann hefur vel gert! Bankarnir ætluðu að knésetja sjóðinn, buðu 100% lán, og guð má vita hvað, en þeim tókst ekki ætlunarverk sitt, og Íbúðalánasjóður lifði þá alla undir verndarvæng Framsóknar, og er nú aðal bjögunarbátur í húsnæðis fjármálum okkar. Þess vegna er okkur Framsóknarfólki annt um tilvist og velferð Íbúðalánasjóðs. Hann er tæki til að halda fasteignamarkaði og verðgildi eigna almennings á réttu róli. Ef bankarnir hefðu með tilstyrk Íhaldsins komist yfir sjóðinn, eins og þeir ætluðu sér, hefðu þeir sem þar réðu ryksugað þar út í horn, tæmt þaðan hvern eyri, eins og í öðrum lánastofnunum, sjóðurinn væri horfinn og innihaldið trúlega farið, via Lux, til Tortola. Ábending: Það er víðast hvar venja að afkrifa skuldir sem ekki fást greiddar. Fjármálafyrirtæki gera þetta í stórum stíl, þetta er ekki uppfundið af okkur framsóknarfólki, en þetta er möguleiki, og eitthvað verður að gera í málinu.

Stefán Lárus Pálsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 13:48

4 identicon

En ætlið þið ekki að afskrifa 20% á línuna (á skuldara ÍLS), eru það ekki ca. 100 milljarðar? Hver tekur skellinn?
Og þið ætlið að lækka veðsetningarhlutfall úr 90% í 70% - hvernig eiga menn að brúa bilið?

Dísa (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 14:54

5 identicon

Sæll Stefán, mér sýnist þú vera að svara Dísu. Uppsetning athugasemda og nafna á síðunni er eitthvað skringileg og býður upp á þennan rugling. Mín spurning snérist um það hvers vegna ætti að hækka hámarkslán í 30 milljónir (sjá fyrstu athugasemdina). Svör við því vel þegin?

B.kv.,

Ragnar

Ragnar Ólafsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 15:27

6 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Eygló,

Hugmyndirnar eru góðra gjalda verðar en því miður hefur ekkert bólað á neinu hjá ríkisstjórninni. Eruð þið örugglega að gera rétt með því að styðja ríkisstjórn sem ætlar að slá skjaldborg um heimilin í landinu en engin veit hvar sú skjaldborg er eða í hverju hún er fólgin. Getur þú kannski frætt mig, kjósandann ekkert veit?

Kveðjur

Guðmundur

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 24.2.2009 kl. 22:46

7 Smámynd: Guðmundur Helgi Þorsteinsson

Fyrirgefðu Eygló,

Kjósandann sem ekkert veit?

Guðmundur Helgi Þorsteinsson, 24.2.2009 kl. 22:47

8 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Margt gott í þessum hugmyndum ykkar. Orð eru til alls fyrst og mikil þörf fyrir að tekið verði á efnahagsmálunum af festu.

Eyþór Laxdal Arnalds, 25.2.2009 kl. 00:03

9 identicon

Það er sérstakt að heyra Sjálfstæðismenn ennþá, eftir allt sem á undan er gengið, taka sér í munn setningar eins og að "mikil þörf sé fyrir að tekið sé á efnahagsmálum af festu"... en þetta á maður eftir að heyra næstu vikurnar.

Ragnar Ólafsson

Ragnar Ólafsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband