6.2.2009 | 14:48
Í bullandi fráhvarfi
Björn Bjarnason, alþingismaður, virðist haldinn miklum fráhvarfseinkennum ef marka má geðvonskulega pillu sem ég fékk frá honum á bloggi hans í gær. Valdhrokinn sem skín úr skrifum hans er yfirgengilegur og greinilegt að hann á erfitt með að höndla hlutverk sitt sem þingmaður eftir að hann missti ráðherraembættið. Orðrétt segir hann:
"Þá var þarna einnig rætt um frumvarp um greiðsluaðlögun frá framsóknarmönnum en það er þannig úr garði gert, að því verður ýtt til hliðar í þingnefnd. Eygló Harðardóttir var talsmaður Framsóknarflokksins í þessu máli. Nýjum þingmönnum fer ekki vel að tileinka sér þá takta, sem hún hefur gert, það er einfaldlega ekki nein innistæða fyrir þeim."
Fyrir utan þá einkennilegu áráttu lögfræðingagengis Sjálfstæðisflokksins að halda að enginn geti samið lög nema þeir, var það síðasta setningin sem vakti athygli mína. Væntanlega er Björn að vísa til orðaskipta okkar í ræðustól Alþingis í gær, þegar ég velti upp þeirri einföldu spurningu hvers vegna hefði tekið 18 ár og eitt efnahagshrun fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun.
Ekki veit ég þó hvaða takta hann er að vísa til, svo ég gekk á hann í morgun, þegar ég hitti hann við upphaf þingfundar. Viðbrögðin voru nú ekki eins og maður á að venjast frá samstarfsmönnum hér á Alþingi, en til að gera langa sögu stutta varð fátt um svör.
Hvort Birni þyki ég ekki sýna honum tilhlýðilega virðingu vegna aldurs og fyrri starfa, eða hvort hann sé bara orðinn of vanur því úr eigin flokki að fólk sitji og þegi fyrstu 1-2 kjörtímabilin áður en það fái náðarsamlegast leyfi til að tjá sig veit ég ekki. Hitt er víst að 14 ára vist í ráðherrastóli hefur ekki haft góð áhrif á hæfni hans til mannlegra samskipta, sérstaklega nú eftir að hann er orðinn almennur þingmaður á ný.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þið ættuð nú að vera orðin vön Birni, eftir alla ykkar stjórnarsetu með honum.
hilmar jónsson, 6.2.2009 kl. 15:20
Hann er að tala niður til þín Eygló með alþekktum hroka. Hann er vonandi á förum svo þú þurfir ekki að taka við fleiri skeytasendingum frá honum. Óska þér góðs gengis.
Finnur Bárðarson, 6.2.2009 kl. 16:28
Undarlegt. Sjálf ætlaðirðu að upphefja sjálfa þig með ófaglegu skoti á manninn fyrir framan alla landsmenn og kannski víðar í gær, í Alþingi okkar. Og núna talarðu um skapvonskupillu frá honum. Lágt skot, ljót ummæli, ónýtur fulltrúi fólksins.
EE (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 16:39
Ég hef verið að fylgjast með þér á þinginu.
Er mjög ánægð að sjá að þú lætur þitt ekkert eftir liggja þó svo að þú hafið ekki setir lengi á þingi. Ég kann bara vel við taktana hjá þér. Haltu þeim bara áfram frænka. Trúlega Eyfjafjalla taktur hjá þér gæskan.
Kristín Á. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 18:02
Og Mogga-bloggið sífellt með eymingja-manninn Í "Umræðunni" - þó hann leyfi ekki athugasemdir hjá sér!
Mætti halda að FLOKKURINN ætti blaðið enn!
Þeir þurfa að borga fyrir það fyrst - finnst okkur
Hlédís, 6.2.2009 kl. 22:05
Frumvarp Sjálfstæðisflokksins fær 3,4 vegna þeirra þúsunda sem hafa staðið í atvinnurekstri. Frumvarp Framsóknarflokksins fær 3,5. Síðuhöfundur, og flutningsmaður að samkynja frumvarpi sagði á Alþingi við umræðuna í andsvari við frumvarpi BB.
"Þannig mig langar bara að vita hvað það er sem, þarna, ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa eiginlega gegn því fólki sem staðið í atvinnurekstri".
Samkvæmt 2. gr. frumvarps Framsóknarflokksins stendur:
"Einstaklingur, sem á lögheimili á Íslandi og stundar ekki umfangsmikinn atvinnurekstur, á rétt á greiðsluaðlögun ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:"
Í skýringum á 2. gr. greinagerðar hvað "umfangsmikill atvinnurekstur" er segir:
"Grunnforsendur fyrir því að greiðsluaðlögun sé heimil eru annars vegar að skuldari eigi lögheimili hér á landi og hins vegar að hann stundi ekki umfangsmikinn atvinnurekstur. Með því er átt við að atvinnureksturinn sé mjög takmarkaður og sé ekki aðalatvinna skuldarans".
Þannig mig langar bara að vita hvað það er sem, þarna, Framsóknarflokkurinn hafa eiginlega gegn því fólki sem staðið í atvinnurekstri?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 7.2.2009 kl. 00:07
Það er nú "sannleikskorn" í því að ef maður kippir sér upp við álit annarra á sinni eigin framkomu, ætti maður að skoða sinn innri mann betur áður en farið er að gagnrýna aðra. Ef maður telur sig hafa gert rétt og ekki eiga gagnrýni skilið, þá færi maður nú varla að fjalla um það á blogginu.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 00:32
Í helgarblaði DV er ágæt samantekt eftir Hrein Loftsson um "hubris" heilkennið, geðveilu sem herjað hefur og herjar á marga valdamenn. En einnig á fræga leikara. Og - þó Hreinn nefni það ekki - á margar poppstjörnur. Um "hubris" heilkennið hefur samt verið mikið fjallað í ævisögum og tímaritsgreinum um raunveruleikabrenglun þekktra poppstjarna.
Einkenni geðveilunnar er stórlæti (hroki) og sjálfsdýrkun. Sjálfstraust hins sjúka nærist á undirgefni samstarfsfólks og valdafíkn.
Jens Guð, 7.2.2009 kl. 00:33
Eygló, geðillska Björns er ekki nýtt fyrirbæri, og ekki hrokinn heldur þetta er meðfætt hvorutveggja, og eldist ekki af karlinum. Í 19 ár sat hann sveittur við að úthúða Sovetríkjunum sálugu, svo hrundi Berlínarmúrinn og Sovétið í kjölfarið og Björn stóð uppi eins og pólitískt nátttröll, sviptur óvininum sem færði honum lifibrauðið. Fótfestan í pólitískri hvarf. En ættar sinnar vegna þurfti að liðsinna sveininum enda enn á góðum aldri og gegnum blár, og sannanlega bæði "innmúraður og innvígður" og því ófært að slíkur persónuleiki væri ekki á réttri hillu í"Flokknum"! Eftir harðan atgang og endurteknar misheppnaðar tilraunir tókst Davíð formanni að koma honum í embætti ráðherra. Ekki fullnægði það þó valdafíkn hans, heldur sat hann líka í borgarstjórn og hélt sig færan um að hnekkja veldi vinstri afla í borginni. En það mistókst algjörlega, og en meiri grámi settist yfir geðslagið sem opinberaðist greinilega í blogg afurðum hans. En og aftur er karlinn á pólitískum vergangi, búið að rjúfa 18 ára valdatíð Þeirra bláu, henda þeim út úr stjórnarráðinu, og bláa höndin er að missa tökin um allt þjóðfélagið. Þjóðin fékk nóg. Nú er þeirra hvorki mátturinn né dýrðin, og ekki dugir lengur að ákalla Davíð, og Jón Ásgeir kannski að eignast Moggann!! Er hægt að leggja meira á einn innmúraðann en þetta? Menn verða fúlir út af minna tilefni, en ekki gefa karlinum svo mikið sem tommu eftir!
Stefán Lárus Pálsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.