12.1.2009 | 10:45
Ályktun SASS um heilbrigðismál
Stjórn SASS fundaði í gær og ályktaði um heilbrigðismál. Spurning er hvort þessi ályktun muni birtast á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins eins og ályktunin frá Ólafsvík.
"Stjórn SASS lýsir mikilli óánægju með þær hagræðingaraðgerðir
sem felast í sameiningu heilbrigðisstofnana á svæðinu sem munu
skerða þjónustu og fækka störfum á landsbyggðinni. Er það í
hróplegri mótsögn við þá stefnu ríkisvaldsins að fjölga beri
opinberum störfum á landsbyggðinni ef þess er kostur.
Stjórn SASS mótmælir harðlega þeirri ákvörðun að leggja niður
vaktþjónustu á skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á
Selfossi sem mun leiða til lokunar á fæðingarþjónustu
stofnunarinnar þar sem óhugsandi er talið að starfrækja
fæðingardeild sem ekki er studd af fæðingarlækni á bakvakt. Í
þessu sambandi ber að hafa í huga að að fæðingar á síðasta ári voru
um 200 talsins auk allrar annarrar þjónustu sem fæðingardeildin
veitir. Þessi þjónusta færist því til Landsspítalans með öllu því
óhagræði sem því fylgir fyrir notendur þjónustunnar. Auk þess er
bent á að öryggi sjúklinga og sængurkvenna getur verið ógnað
vegna ótryggra samgangna að vetri til.
Stjórn SASS lýsir einnig yfir mikilli óánægju með þá ákvörðun að
færa yfirráð Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja frá
Vestmannaeyjum. Fordæmin sýna að sú aðferðarfræði að flytja
forræði stofnana frá þjónustusvæðunum leiðir jafnan til skerðingar
á þjónustu. Samgöngum við Vestmannaeyjar er enn fremur
þannig háttað að til þess að komast á Selfoss þurfa Eyjamenn að
ferðast í um 4 tíma.
Stjórn SASS telur einsýnt að vegna landfræðilegrar sérstöðu
Vestmannaeyja og Hornafjarðar verður ekki um
samrekstrarmöguleika að ræða milli þessara stofnana.
Þá leggur stjórn SASS áherslu á að sveitarfélög hafi eftir sem áður
möguleika á að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnana með
þjónustusamningum við yfirvöld sbr. þann samning sem verið
hefur í gildi við Sveitarfélagið Hornafjörð."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hefur ráðaneytið látið sér detta í hug að flytja sængurkonur á Selfoss Akranes Keflavík þegar allt er í lagi og allt fullt í Reykjavík nei það held ég ekki en er það eitthvað öðruvísi en að flytja fólk hina áttina ég sé það ekki en svona er hagræðingin hún skal vera með því móti að flytja alla til Reykjavíkur en ekki frá Reykjavík.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 12.1.2009 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.