Hvernig ekki á að sameina!

Með einum  blaðamannafundi, mjög svo takmörkuðu upplýsingaflæði og alls engu samráði tókst Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, að koma heilbrigðiskerfinu á Íslandi á hliðina. Starfsmenn hafa lagt niður störf eða verið reknir, harðorðar ályktanir eru skrifaðar og sveitarfélög óska í ofboði eftir viðræðum um að bjarga stofnununum úr klóm Guðlaugs.
 
Sparnaðartillögur ráðherrans gera ráð fyrir að fækka stofnunum úr 23 í 6 og eiga breytingarnar að taka gildi eftir tæpa tvo mánuði. Markmiðið er að skera niður um 1,5 milljarða með þessum aðgerðum.
 
Vinnubrögðin við tilkynninguna eru einkar óvenjuleg.  Kvöldið fyrir blaðamannafundinn er stjórnendum væntanlegra umdæmissjúkrahúsa tilkynnt hvað stæði til.  Stjórnendur minni sjúkrahúsanna fengu flestir símtal innan við klukkutíma fyrir fundinn þar sem þeim var tilkynnt að glærupakki væri á leiðinni í tölvupósti og þeir ættu að kynna hann fyrir starfsmönnum á sama tíma og blaðamannafundurinn væri haldinn. Forstöðumennirnir máttu þannig, án neins fyrirvara, tilkynna starfsfólki sínu að þeim sjálfum væri hér með sagt upp, stofnunin yrði lögð niður sem sjálfstæð stjórnsýslueining, sjúkraflutningar yrðu stórauknir til að styðja við olíufélögin og konur á landsbyggðinni ættu helst að hætta að fæða börn. Ef þær héldu því til streitu að eignast blessuð börnin skyldu þær gjöra svo vel að gera það í dagvinnutíma.
 
Samráð við sveitarfélögin var ekkert. Samráð við starfsfólk var ekkert. Heilbrigðisnefnd Alþingis fékk engan tölvupóst, engar upplýsingar,-  nema þær að nefndarmenn gætu komið upp í ráðuneyti einhvern tímann seinna til að fá upplýsingar um umfangsmestu skipulagsbreytingar sögunnar á íslenska heilbrigðiskerfinu.
 
Í síðasta mánuði gaf fjármálaráðuneytið út rit um hvernig eigi að standa að sameiningu ríkisstofnana. Í innganginum kemur fram að sameiningar og aðrar meiriháttar breytingar skili sjaldan þeim árangri sem vonast er eftir, eða í undir 15% tilvika.  Helstu ástæðurnar eru taldar vera:

  • Markmið og framtíðarsýn eru ekki nógu skýr eða ekki útskýrð nógu vel.
  • Fjárhagsleg samlegð er ofmetin.
  • Undirbúningi og skipulagningu er áfátt.
  • Ekki tekst að kveikja nægan áhuga á sameiningunni.
  • Starfsmannamálum er ekki sinnt nógu vel.
  • Breytingastarfið lognast út af áður en því er lokið.

Til að auka árangurinn ráðleggur fjármálaráðherra samráðherrum sínum hvernig þeir eigi að standa að sameiningum.

  • Gera frumathugun  til að skilgreina markmið og kanna hversu fýsilegt er að sameina. (Engin frumathugun hefur verið lögð fram.)
  • Eiga samráð til að afla málinu stuðnings og taka ákvörðun um sameiningu.  (Samráðið er ekkert.)
  • Undirbúa framkvæmd sameiningar með gerð vandaðrar samrunaáætlunar. (Á að liggja fyrir eftir 10 daga.)
  • Hrinda sameiningu í framkvæmd með virkri þátttöku starfsmanna. (Hvernig skilgreinir Guðlaugur eiginlega virka þátttöku?)
  • Gera úttektir til að meta árangur og draga lærdóm af sameiningu. (Hversu líklegt er að það verði gert?)


„Tíminn frá því að ákveðið er að sameina þar til sameining á sér formlega stað getur tæplega verið styttri en 6 mánuðir," segir vegvísirinn.
 
Að öllu sögðu má ljóst vera að þessar harkalegu aðgerðir heilbrigðisráðherra eru ekki byggðar á faglegum forsendum. Þær eru heldur ekki góð stjórnsýsla og kunna jafnvel að brjóta í bága við lög.

Og því miður lítur út fyrir, ef mark er takandi á samráðherra Guðlaugs Þórs og embættismönnum fjármálaráðuneytisins, að þrátt fyrir þá þjónustuskerðingu, uppsagnir og almennt tjón sem aðgerðirnar munu valda á heilbrigðiskerfinu muni þær ekki ná þeim tilgangi sem vonast er eftir.

(Birtist fyrst á Smugunni 9. janúar 2009)


mbl.is Læknar lýsa áhyggum af breytingum á St. Jósefs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhver árangur ríkasta aðferðin við að leggja landsbyggðina í rúst (fækka fólki) er að draga úr hverskonar þjónustu við fólkið sem býr þar.

Ef ráðherrar og aðrir ráðamenn vildu kynna sér hverning dreifing fólksins er í kjördæmunum eftir að þau voru stækkuð og jafnvel í sveitarfélögum eftir stækkun þeirra,þá myndu þeir sjá að fyrst fækkar fólki sem á heima lengst frá þjónustunni. 

Þegar fólki með fasta búsetu allt árið fækkar mjög,þá endar það með því að þeir sem ekki vilja fara,verða að fara líka vegna fólksfæðar.Þá verður þar landauðn.  Vill almenningur í landinu það ?

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 10:10

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Guðlaugur Hvað?

Ertu búin að gleyma stjórnarárum Framsóknarflokksins?

En það er rétt hjá þér að upplýsingaflæðið frá núverandi ríkisstjórn er mjög bágborið svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mjög bágborið og það var það einnig varðandi þessar breytingar á heilsugæslunni.

En til að greiða fyrir allan þennan yfirgripsmikla rekstur ríkising og þetta yfirgengilega bákn þá þarf annað hvort að hækka skatta eða draga saman seglin. Þeð eru engar aðrar leiðir.

Hinsvegar þarf að fara yfir allan  ríkisreksturinn og skera niður á réttum stöðum. Það er líklega það sem hefur klikkað hjá þeim blessuðum. Lækka eftirlaunin þeirra.

Sigurður Sigurðsson, 10.1.2009 kl. 17:33

3 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Frábær pistill!

Ég vinn einmitt á einni af þessum stofnunum sem á að sameina, á Norðurlandi. Ég er ekki á móti því að sameina eitthvað í sjálfu sér, en vinnubrögðin eiga ekki að vera svona! Hafðu þökk fyrir vandaða greinargerð Eygló.

Einar Sigurbergur Arason, 11.1.2009 kl. 04:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband