Tilkynning um framboð

Helgina 16.-18. janúar verður ný forysta Framsóknarflokksins valin. Þá verður tekið stórt og mikilvægt skref til endurreisnar og endurnýjunar Framsóknarflokksins.

Framsóknarstefnan og samvinnuhugsjónin hafa átt hug minn og hjarta undanfarin ár. Ég tel miklu skipta að Framsóknarflokkurinn komi út af flokksþingi með skýra stefnu og sterka forystu, sem byggi á samvinnu, samstöðu og valddreifingu í samfélaginu. Fyrir rúmum níutíu árum tóku menn höndum saman til að berjast gegn fákeppni, einokun og kúgun auðvaldsins. Það var hlutverk Framsóknarflokksins við stofnun og það þarf að verða hans megin hlutverk að nýju.

Í þeirri stöðu sem nú er uppi í samfélaginu er ekki síður mikilvægt að standa vörð um hinar dreifðu byggðir landsins. Samþjöppun og fákeppni er ekki bara af hinu slæma í atvinnulífinu, heldur einnig í búsetu þjóðarinnar. Landsbyggðin sér nú fram á að verða á ný hjartað í íslensku atvinnulífi og tryggja þarf samkeppnisstöðu hennar á þeirri leið.

Að þessum verkefnum vil ég vinna og því hef ég ákveðið að gefa kost á mér til embættis ritara Framsóknarflokksins.

Ég hef haft mikla ánægju af flokksstarfinu og samstarfi við félagsmenn í gegnum starf mitt sem ritari Landssambands Framsóknarkvenna, ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Ég var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir tvennar síðustu alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður. Í nóvember tók ég sæti á Alþingi við afsögn Guðna Ágústssonar.  Að auki
hef ég gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. setið í skólamálaráði, stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem  stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands. Í atvinnulífinu hef ég sinnt margvíslegum störfum í
landbúnaði, sjávarútvegi, verslun og ferðaþjónustu, með sérstaka áherslu á kynningar- og markaðsmál.

Mikið starf er framundan við að sameina krafta Framsóknarmanna, rétta hlut okkar og koma sjónarmiðum samvinnustefnunnar á framfæri við þjóðina. Við þurfum öll að taka höndum saman til að hefja endurreisnina og baráttuna og það innra starf vil ég leiða í góðu samstarfi við formann, varaformann og aðra félagsmenn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Gangi þér vel. Vonandi tekst að endurreisa flokkinn með sínum upphaflegu markmiðum. ESB virðist vera að kljúfa marga flokka en það þarf ekkert að kljúfa flokka til að samþykkja að kanna hvaða kostir og gallar eru í boði.

Menn verða einfaldlega að lúta vilja almennings í þeim málum. Ef kosningarnar snúast eingöngu um það hvort menn vilja aðild eður ei er hætt við að flokksstefnan verði ekki aðal málið í næstu kosningum.

Offari, 7.1.2009 kl. 18:51

2 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Innilega til hamingju með framboðið Eygló.

Kær kveðja.

Kristbjörg Þórisdóttir, 7.1.2009 kl. 21:02

3 identicon

Sæl  og til hamingju með framboðið og gangi þér vel að fella flokkseigendurna:) við stöndum saman í því.

Bryndís Bjarnarson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 22:44

4 identicon

Æi ég bara skil ekki hvað eiginlega þú ert að þvælast í handónýtum og maðkétnum stjórnmálaflokki eins og Framsókn, svona alvöru manneskja eins og ég held svo sannarlega að þú sért Eygló. En lengi er von á einum !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 23:38

5 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Ég skal vera yddarinn þinn

Þorvaldur Guðmundsson, 7.1.2009 kl. 23:46

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Spurning hvort ekki sé fyrir löngu tímabært að leggja þá tillögu fram um að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður.

Það eru allt of mörg vandamál samfélagsins sem stafa frá þessari ljónagryfju!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.1.2009 kl. 10:23

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hinn eini og sanni Framsóknarflokkur er til húsa á Selfossi og heitir Bjarni Harðarson.

Baldur Hermannsson, 8.1.2009 kl. 13:30

8 Smámynd: Jörundur Garðarsson

Er Framsóknarflokkurinn ekki Frjálshyggjuflokkurinn sem rústað hefur landsbyggðinni og sett landið á hausinn.  En að allri alvöru slepptri: má búast við að Nýi Frjamsóknarflokkurinn komi með einhverja stefnu um framtíð Nýja Íslands?

Jörundur Garðarsson, 8.1.2009 kl. 16:21

9 identicon

Gangi þér vel Eygló...bjóst jafnvel við því að þú myndir berjast við strákana um formanninn?  Mér finnst frábært hvað þú hefur fallega hugsjón en því miður hljómar hún eins og útópía í dag.  En það er nauðsynlegt að hafa framtíðarsýn að stefna á, annars kemst maður ekkert áfram.  Miðað við síðustu fréttir um fjandsamlegar yfirtöku áttu mikið verk fyrir höndum.  En vonandi tekst að losa meinsemdirnar úr flokknum.  Gleymdu því þó ekki að "framsóknarfyrirtækin" frægu störfuðu ekki í anda þess að útrýma "fákeppni, einokur og kúgun auðvaldsins".  Vona að þú hljótir kosningu.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband