29.12.2008 | 11:00
Í sárri neyð...
Ég lærði í Svíþjóð og fékk þar að upplifa hvernig það er að vera námsmaður erlendis. Að þurfa algjörlega að reiða sig á sjálfan sig, hafa engan sem maður getur skotist til í mat þegar ísskápurinn er galtómur og alls engan til að lána manni fyrir strætó og klósettpappír.
Því var það með mikilli samúð og samhug sem ég fylgdist með fréttum af erfiðleikum námsmanna erlendis þegar bankarnir hrundu. Ég skildi vel óöryggið sem fylgir því að sjá kannski fram á að geta ekki greitt húsaleiguna, og hafa enga ættingja til að leita skjóls hjá og áhyggjurnar yfir því hvernig ætti að redda pening fyrir mat, almenningssamgöngum, rafmagni og leikskólagjöldum barnanna. Hversu ömurlegt það hlaut að vera að horfa á áætlanir sínar um fjármögnun námsins og dvalarkostnaðarins verða að engu.
Því var ég mjög ánægð að lesa í lok október að ríkisstjórnin með menntamálaráðherra í broddi fylkingar ætlaði að grípa til aðgerða í sex liðum til að leysa úr vanda námsmanna erlendis. Mesta athygli vakti að námsmenn gætu sótt um neyðarlán til LÍN sem myndi samsvara tveggja mánaða námsláni.
Leið svo og beið uns fjallið tók sótt og fæddist lítil mús.
Eftir að hafa setið sveitt við yfir 115 umsóknum, ákvað stjórnin að aðeins 7 þeirra uppfylltu skilyrði sjóðsins. Og hver eru þau? Umsækjendur þyrftu að vera í sárri neyð... það er að segja þessir sjö og hinir yrðu bara að þreyja þorrann.
Hvernig væri nú að skikka menntamálaráðherra, stjórnarformanninn Gunnar Birgisson og félaga hans í stjórn LÍN til að reyna að lifa af námslánunum erlendis í eins og svona tvo til þrjá mánuði?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já og smekkleg ummæli Bæjarstjórans að unga fólkið væri oft svo óþolinmótt. Held að hann hefði gott af því að fara í svona megrunarnámsferð... í 2-3ár í það minnsta!
Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 14:34
Þetta er til háborinnar skammar! Síðast þegar ég vissi voru þeir enn að finna út úr því hver skilgreiningin á "sárri neyð" ætti að vera. Þeir hafa nú ekki enn gefið það upp. Smánarlegt!
Hafdís (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 15:49
Enda fátækt ekki til á Íslandi svo vitnað sé í fyrrum (og þó) stjórnmálaforingja. Fátækt á Íslandi væri hugtak yfir fólk sem fengi félagslega útrás við að standa í biðröðum. Meira að segja eftir mat. Þetta er ekkert annað en aumingjapólítík. Hvetja fólk til að missa allt niðrum svo það eigi rétt á aðstoð.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 20:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.