Kjördæmapot menntamálaráðherra?

Búið er að ráða skólameistara við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Áætlaður kostnaður við skólann á skv. fjárlagafrumvarpinu er 52,3 milljónir kr.

Kostnaður við skólann er um 14% af fyrirhuguðum niðurskurði til framhaldsskóla skv. tillögum ríkisstjórnarinnar. Einhvern veginn finnst manni það skjóta skökku við að verið sé að setja á stofn  nýjan skóla á sama tíma og starfandi skólar standa frammi fyrir harkalegum niðurskurði og uppsögnum starfsmanna.

Allavega voru það rökin fyrir að slegið var á frest stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Enda einstaklega óhentug landfræðileg staðsetning með tilliti til kjördæmaskipanar... 

 


mbl.is Guðbjörg skipuð skólameistari í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Eygló.  Ég skil mætavel hvers vegna þú ert örg yfir þessu miðað við nýboðaðan niðurskurð í fjárlögum.   Þetta mál hefur samt verið lengi í vinnslu og mikil þörf fyrir skólann í Mosfellsbænum.  Hann verður nú ekki stór í sniðum til að byrja með.  Brúarland, hið gamla og fallega hús sem stendur við Vesturlandsveginn, verður glætt nýju lífi.  Mér er málið mjög skylt þar sem ég á ungling sem er í 10. bekk en hefur þó þegar lokið samræmdum prófum í ensku og stærðfræði.  Hann er þ.a.l. að nema fyrstu áfanga í þessum fögum á framhaldsskólastigi í vetur.  Til þess þarf hann að ferðast nokkrum sinnum í hverri viku í Borgarholtsskóla í Grafarvogi, sem er næstur landfræðilega.  Það myndi nú spara fjölskylduna tíma, peninga og fyrirhöfn ef hann gæti nú skokkað í skólann að Brúarlandi.  Ég er nú ekki viss um að Hafnfirðingurinn hún Þorgerður sé nú ekki svo mjög upptekinn af okkur Mosfellingum.  Ef svo væri mætti hún frekar potast í að setja á stofn útibú frá Sýslumanni svo ekki þurfi að ferðast frá Mosó til Hafnarfjarðar til að eiga þangað erindi.  Við erum svo sem ekkert að drukkna í of mikilli opinberri þjónustu hér í Mosó.  En tímasetningin í dag er vissulega pínu skjön, svona kostnaðarlega.  Réttur skóli en á röngum tíma.  Kannski.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 18:18

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég held þetta sé spurning um sömu vinnureglur allsstaðar. Það sem mér finnst "spúkí" er ef þessi skóli á að fá fyrirgreiðslu en annar skóli við utanverðan Eyjafjörð ekki.

Ég held enginn sjái ofsjónum yfir nýjum skóla - ef allir sitja við sama borð.

Einar Sigurbergur Arason, 18.12.2008 kl. 18:57

3 identicon

Rétt nafni og ég er alveg sammála því að sömu reglur eigi að gilda alls staðar.  Var ekki meiningin með minni athugasemd að mótmæla því.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 19:05

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hvað hafa Mosfellingar gert til þess að verðskulda óvild og ofsóknir Framsóknarflokksins? Framhaldsskólarnir á höfuðborgarsvæðinu eru sprungnir, það vantar fleiri, sennilega þrjá. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hefur verið lengi í bígerð og það er löngu tímabært að hann taki til starfa. Eins gott að þú ræður engu um framvindu menntamála á Íslandi.

Baldur Hermannsson, 18.12.2008 kl. 20:22

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Eingar Á. Það er meira en áratugur síðan sýslumörkum var breytt þannig að Mosfellsbær og Seltjarnanes fluttust frá Sýslumanninum í Hafnafirði til Sýslumannsins í Reykjavík.

Hvað skólan varðar þá óska ég ykkur Mosfellingum til hamingju með að fá framhaldsskóla í bæinn. Hvað kostnaðinn varðar, sem Eygló talar um, þá geri ég ráð fyrir að það sé þá kostnaður, sem færist að mestu frá þeim skólum, sem börnin annars væru í ef þau væru ekki í þessum skóla. Þetta er því ekki nema að litlum hluta aukin kostnaður við menntakerfið í heild.

Sigurður M Grétarsson, 18.12.2008 kl. 23:35

6 identicon

Hvað hafa Eyfirðingar gert til að verðskulda óvild og ofsóknir menntamálaráðherra? Um er að ræða 4000 manna samfélag þar sem 16 ára börnin hafa hingað til verið send 40 til 90 km á heimavist við næsta framhaldsskóla. Af því er kostnaður við dreifbýlis- og ferðastyrki fyrir utan þann skaða sem óhjákvæmlega hlýst af því að slíta óþroskaða unglingana frá foreldrum sínum og heimabyggð, það er ekki alveg í samræmi við þær áherslur sem mér finnst viðeigandi í nútímanum þó að einu sinni hafi þetta þótt sjálfsagt. Undirbúningur við framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð hefur líka staðið yfir lengi og það er löngu tímabært að hann hefji starfsemi. Það er bara því miður ekki raunhæft að það gerist alveg á næstunni vegna ástandsins. Ég skil það og virði. Þessvegna er það eins og að vera kýldur í magann að sjá það að augljóslega gengur ekki eitt yfir alla í þessum efnum.

Bjarki (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 23:35

7 identicon

Reyndar grunar mig að þessi pistill hjá Eygló sé að einhverju leyti til þess að vekja athygli á því að stjórnmálamenn á höfuðborgarsvæðinu gera sitt til að höfða til kjósenda í sínum kjördæmum (sem að þeir auðvitað eiga að gera) án þess að það sé kallað einhverjum nöfnun. En þegar stjórnmálamaður af landsbyggðinni leggur til einhverskonar umbætur fyrir fólkið sem kaus hann þá fær hann samstundis á sig kjördæmapots stimpil, sem þykir sko ekki fínt.

Bjarki (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 23:49

8 Smámynd: Baldur Hermannsson

Sigurður og Bjarki, framhaldsskóli þarf að hafa vissa lágmarksstærð til þess að vera öflug menntastofnun. 600 nemendur lætur nærri lagi. Annars stendur hann á brauðfótum. Vandi ansi margra smáskóla úti á landi er sá að þeir veita nemendum sínum ófullnægjandi menntun. Þessir nemendur fá kannski áttur, níur eða jafnvel tíur í áföngum en eru svo skotnir í kaf á fyrstu vikunum þegar þeir koma í Háskólann. Það er líka alrangt að unglingar í dreifbýli hafi eitthvað vont af því að fara í kaupstað og sækja skóla. Þvert á móti er það afar þroskandi eins og allir Laugvetningar þekkja.

Baldur Hermannsson, 19.12.2008 kl. 00:00

9 identicon

Rétt hjá þér Sigurður M. v/sýslumannsins. Ég er greinilega ekki nógu góður viðskiptavinur stofnunarinnar. 

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 08:28

10 identicon

Ég held að þú bullir Baldur varðandi stærð skóla vs. gæði þeirra, það er altént ekkert lögmál að mínu mati. Ef það er svona æðislega þroskandi fyrir 16 ára unglinga að fara í framhaldsskóla fjarri heimili sínu er það þá ekki miklu frekar lausn á vandamáli Mosfellinga að þeir sendi sína unglinga út á land í einhvern af þessum vannýttu skólum? Eða eru foreldrar á höfuðborgarsvæðinu ekki líklegir til að kaupa þessa pælingu? Og hví skyldu foreldrar á landsbyggðinni þá gera það frekar? Og samkvæmt hvaða skrípaskilgreiningu er Dalvík, Ólafsfjörður og Siglufjörður "dreifbýli"?

Bjarki (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband