Við þurfum samvinnu

Á götum úti heyrist kallað eftir nýrri hugsun og nýjum hugmyndum fyrir nýtt Ísland.

Vinstri grænir segja að best sé að gera ekki neitt, á meðan Samfylkingin telur að Evrópusambandið leysi öll heimsins vandamál. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að gera upp við frjálshyggjuna og skilur ekki hvað hugtakið að axla ábyrgð þýðir og Frjálslyndi flokkurinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Eini flokkurinn sem virðist ætla að svara kalli almennings eftir endurnýjun og uppgjör við fortíðina er Framsóknarflokkurinn.

Ný forysta verður valin í janúar og sú forysta verður að endurspegla gildi samvinnustefnunnar um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu. Móta þarf stefnu flokksins upp á nýtt og byggja hana á áherslum um sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum og jafnrétti þar sem allir hafa málfrelsi og jafnan atkvæðisrétt, sjálfstæði einstaklinganna, mikilvægi menntunar og fræðslu, samvinnu og umhyggju fyrir samfélaginu. En hvernig útfærir maður falleg orð yfir í stjórnmálastefnu?

Samvinnustefnan leggur mikla áherslu á ábyrgð einstaklinganna á sjálfum sér og sínu lífi. Er það meitlað í stein að skólar eða heilsugæsla eigi að vera rekin af hinu opinbera, þótt þeir séu fjármagnaðir með skattfé? Foreldrar og kennarar sem hafa áhuga á mótun skólastarfs í sínu samfélagi eiga að geta stofnað skóla. Þetta hefur verið gert í nágrannalöndum okkar, þar á meðal Bretlandi og Svíþjóð. Þar hafa verið stofnuð samvinnufélög um skólana þar sem meðlimir velja fulltrúa í stjórn og nemendur, kennarar og foreldrar taka þannig virkan þátt í stjórnun þeirra. Námið er svo skipulagt í samræmi við þarfir viðkomandi samfélags á grunni hugsjóna um sjálfshjálp, samfélagslega vitund og sanngirni.

Ýmsir möguleikar eru varðandi þróun heilbrigðisþjónustu þar sem hægt er að byggja á samvinnu og samfélagslegri vitund. Þannig er hægt að hætta að einblína á "hagræðingu" og "styttingu biðtíma" og fara í staðinn að hugsa um val sjúklinga og möguleika þeirra til að hafa áhrif á þá þjónustu sem þeir fá. Heilbrigðisstarfsmenn og almenningur gætu þannig tekið sig saman og stofnað t.d. heilsugæslu, fæðingarheimili, mæðravernd eða endurhæfingarstöðvar. Sjúkratryggingar Íslands settu svo kröfur fyrir greiðslu, sem gætu m.a. verið að eigendur yrðu meðlimir í samvinnufélagi, en ekki hluthafar, lýðræði ríkti meðal meðlima og þeir tækju virkan þátt í rekstrinum miðað við framlag þeirra. Tilgangur samvinnufélagsins væri þannig að hámarka þjónustu, en ekki bara hagnað.

Jafnrétti og jafnræði hefur alltaf verið ofarlega í huga samvinnumanna og hefur sú stefna endurspeglast mjög skýrt í stefnu Framsóknarflokksins. Eitt stærsta skrefið í átt að jafnrétti á vinnumarkaði var tekið með lögum um Fæðingarorlofssjóð auk þess sem mikil áhersla er lögð á jafnrétti í öllu flokksstarfi, sem hefur m.a. leitt til þess að nú eru konur í meirihluta í þingflokki Framsóknarflokksins. En betur má ef duga skal. Útrýma þarf kynbundnum launamun, jafna hlut karla og kvenna á vinnumarkaði og auka fræðslu um jafnréttismál. Samvinnuhugsjónin er öflugt tæki til þess.

Til að ná árangri þurfum við að gera samvinnu og samstöðu að lykilhugtökum í íslensku samfélagi.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Björn Björnsson

vá hvað þú hefur rétt fyrir þér " en X-B neibbs  og aftur nei takk, framsóknarflokkurinn í hvaða mynd ef einungis verður stuðst við X-B þá er mér sama en ef einhver gömul öfl þaðan koma verður almenningsfé sóað á ný undir annarri yfirskrift, segðu þig úr flokknum og þá skal ég hugsa málið en að draga einhvern inn til stjórnunar sem hefur notaður sem skiptimynt alþingis til nokkura ára nei....

 Er í alvöru sniðugt að efla gamla flokka og halda uppi sömu deilum og dægurþrasi  undanfarinna ára, veit ekki betur en að ný hugsun og ný hagstjórn verði að koma frá nýju fólki sem myndar nýtt afl !!!  nema skoðanir framsóknarmanna breytist eins og vindur blæs, og ekki er það sjaldan.

Ekkert persónulegt við þig alls ekki og reyndar góð skrif hjá þér og vonandi sérðu þér fært að yfirgefa X-B og nýta krafta þína, því í X-B mun held ég engin njóta þeirra, "  flestir sjá að gömul flokksöfl eru dauð næstu kosningar " vonandi.......úff...."  læt vaða.

"fer auðvitað eftir hver á hvað blað og stjórnar hvaða sjónverpstöð" 

Gunnar Björn Björnsson, 16.12.2008 kl. 11:05

2 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Sæl Eygló ég hef bent á það á Blogginu mínu að þeir sem skipuleggja mótmæli ættu kannski að beina kröftum sýnum í að gefa út dagblað á samvinnu grundvelli við getum nota það form í allskonar rekstur og Tel ég að fjölmiðlar væru vel settir sem samvinnufélög þar er inn maður eitt atkvæði og þá er nokkuð ljóst að það væri ekki að gæta hagsmuna auðvaldsins eða annarra sérhagsmuna.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 16.12.2008 kl. 17:37

3 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Eygló: Af núverandi forvígisfólki Framsóknar þá verður þú að teljast einna duglegust við að vinna hugmyndavinnuna.

Hefur þér dottið í hug að bjóða þig fram í forystusveitina? Til varaformanns eða ritara eða því um líkt?

Tillagan er ekki sett til höfuðs öðrum þeim sem sækjast eftir kjöri í þessar stöður, en við þurfum sárlega góða hugmyndasmiði í forystusveitinni. Og nýtt fólk, sem verður ekki auðveldlega tengt við glappaskot fortíðarinnar.

Gunnar Björn: Hingað til hefur reynslan verið sú að ný framboð koma því miður ekki miklu til leiðar á landsvísu. Meira að segja framboð sem fólk spáði miklu fylgi eins og þegar Jóhanna stofnaði Þjóðvaka.

Meira að segja Samfylkingin var mjög langan tíma áhrifalaus stjórnarandstöðuflokkur eftir stofnun sína, og var þó samruni eldri framboða.

Hættan er sú að ný framboð þjappi ýmsum kjósendum saman að þeim eldri flokkum sem þeir álíta að gætu komið í veg fyrir stjórnarkreppu. Eða þá að næsta þing verði svo sundurleitur hópur að við fáum alvöru-stjórnarkreppu, og hvert heldurðu að yrði þá fylgi nýju framboðanna í næstu kosningum þar á eftir?

Til að nýtt framboð virki þá þarf skipulagningin á bak við það að vera extra-góð. Það er mjög mikið happdrætti hvernig til tekst. Eflaust á nýtt framboð betri möguleika á góðu fylgi nú en áður hefur reynst, en ef það hefur fyrst og fremst reynslulausu fólki á að skipa - eða sundurlyndri hjörð - þá gæti það orðið skammlíft.

Því er vænlegra til árangurs að fólk skrái sig í þann stjórnmálaflokk sem stendur því næst og sameinist um að breyta honum.

Framsóknarflokkurinn hefur mest tækifæri til breytinga nú um stundir. Auðvitað getur brugðið til beggja vona hvernig til tekst, það skiptir miklu máli að það veljist heiðarlegt fólk til forystu sem er ekki sterklega orðað við úreltar klíkur. En tækifærið er tvímælalaust fyrir hendi.

Einar Sigurbergur Arason, 17.12.2008 kl. 00:23

4 Smámynd: Gunnar Björn Björnsson

Góð athugasemd, vel tekið en ég er einungis að tjá mig eftir því sem ég veit og heyri þá er framsókn " ekki í sókn " og ef svo er þá er ekki ýkja erfitt að auka það litla fylgi sem flokkurinn átti eftir, auðvitað er það rétt að nýir flokkar eigi erfitt uppdráttar " En Einar höfum við áður staðið fyrir framan jafn miklar hörmungar og nú ber vitni" Mér finnst ekkert minna viturlegt að koma á fót nýjum flokki nú því að allt verður betra en gömlu flokkarinn eftir þennan darraðardans ;) og því fyrr því betra. Skora á alla þingmenn sem eitthvað er eftir af sjálfsvirðingu hjá að hugleiða vel og ígrunda úrsagnir úr sínum flokkum, því Titanic er að sökkva og allir þingmenn með.  Í stjórn sem stjórnarandstöðu.   Það mun vera borinn virðing við ykkur fyrir vikið.

Gunnar Björn Björnsson, 17.12.2008 kl. 02:10

5 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mikið er á ánægður að heyra þig vekja athygli á samvinnuhugsjóninni. Hún á fullt erindi til okkar í dag.

Jón Halldór Guðmundsson, 18.12.2008 kl. 16:35

6 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Já, hún á fullt erindi, en hún þarf nýja ímynd. Fyrir mörgum tengist hún fákeppni. Af hverju? Af því að mörg kaupfélög störfuðu þar sem aðrir voru ekki í hliðstæðum rekstri. Ef þau hefðu ekki verið, þá hefðu menn verið komnir upp á eitthvað annað. Ætli fákeppnin hefði ekki verið bara jafnsvæsin, ef ekki verra ástand?

Einar Sigurbergur Arason, 18.12.2008 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband