Atvinnuleysi í boði Sjálfstæðismanna

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur náð nýjum hæðum og eru nú tæp 10% íbúa skráðir atvinnulausir, eða 1150 einstaklingar. Þessi tala á væntanlega eftir að hækka á næstu vikum og mánuðum, því vitað er um fjölda manns sem nú vinna uppsagnarfrest sinn. Stór hluti þeirra sem eru atvinnulausir hafa starfað í byggingariðnaði og þjónustu tengd Keflavíkurflugvelli.

Einkennilegt er hversu lítið hefur heyrst af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og sveitarfélagsins vegna þessarar stöðu. Vegna samsetningar fyrirtækja í atvinnulífinu hefði mátt vera fyrirsjáanlegt að mikill samdráttur yrði á svæðinu. Hlutfall fyrirtækja í byggingariðnaði og fasteignaumsýslu er hátt, auk þess sem umsvif á Keflavíkurflugvelli hafa ætíð skipt Suðurnesjamenn mjög miklu. Stutt símtal til CreditInfo Ísland hefði einnig getað leitt í ljós að staða margra þessara fyrirtækja var viðkvæm og þau líklegri til að lenda í greiðsluörðugleikum og uppsögnum starfsmanna.

Algjört andvaraleysi

Eitt af því fáa sem hagfræðingar virðast vera sammála um þessa dagana er hvernig hið opinbera á að beita sér á þenslu- og krepputímum. Á þenslutímum á að draga saman framkvæmdir, en á krepputímum á að ráðast í framkvæmdir til að auka jafnvægið í efnahagslífinu. Dæmi um þetta eru boðaðar aðgerðir Obama, verðandi Bandaríkjaforseta um auknar opinberar framkvæmdir. Markmið hans er að fjölga störfum um 2,5 milljónir, m.a. með endurnýjun vega, brúa og skóla. Þessar aðgerðir eru boðaðar þrátt fyrir að atvinnuleysi í Bandaríkjunum sé enn töluvert minna en á Suðurnesjum, eða um 6,7%.

En hvað með íslensk stjórnvöld? Enn er beðið eftir svörum frá ríkisstjórninni um stækkun álversins í Helguvík, lítið fréttist af framkvæmdum við dreifikerfi raforku á svæðinu sem er undirstaða orkufreks iðnaðar, öllum framkvæmdum á vegum Samgönguráðuneytisins hefur verið slegið á frest og sveitarfélagið lauk byggingu og endurnýjun skóla og íþróttaaðstöðu á meðan á mestu þenslunni stóð. Afleiðingin er sú að sjóðir sveitarfélagsins, undir stjórn Sjálfstæðismanna, eru tómir og engir varasjóðir til að bregðast við því mikla atvinnuleysi sem nú er orðin staðreynd.

Heilbrigðisráðuneytið undir stjórn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar bætir svo um betur með uppsögnum og samdrætti hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er passlega búið að gleyma loforði um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ.

Aðgerðir strax!

Síðustu fjárlög íslenska ríkisins hunsuðu algjörlega kenningar hagfræðinga um að eiga eitthvað til mögru áranna, enda ráðamenn alltof önnum kafnir að við að klippa á borða, fagna útrásinni og fljúga um í einkaþotum. Afleiðingin er sú að nú er ekkert svigrúm til að bregðast við þeirri hrikalegu stöðu sem komin er upp í samfélaginu.

Ætli stjórnvöld að koma í veg fyrir að við missum allt þetta fólk af landi brott, margt fyrir fullt og allt, ber þeim að skjóta styrkum stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum og það strax. Tryggja þarf að framkvæmdir við dreifikerfi raforku fari strax af stað, byggt verði nýtt hjúkrunarheimili og hætt við niðurskurð til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, framkvæmdir við Helguvík fari af stað, og þorskseiðaeldisstöð verði staðsett á Suðurnesjum, svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta þarf ríkisstjórnin að gera núna, áður en það er of seint.

(Greinin birtist í Víkurfréttum)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eygló ertu ekki að mismæla þig aðeins?  Er atvinnuleysið ekki í boði samfylkingarinnar?  Viðskiptaráðherra sem er út úr kú,  Utanríkisráðherra sem eyðir tíma og gríðarlegum fjármunum í að koma okkur í öryggisráðið sem var fyrir það fyrsta vonlaust frá upphafi svo ekki sé talað um gagnleysið í því.  Umhverfisráðherra sem berst gegn álveri í helguvík og iðnaðarráðherra sem vinnur þá í raun gegn flokkssystir sinni? 

Vertu nú sanngjörn og nefndu allavega báða stjórnarflokkana. 

Hafþór Skúlason (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 18:53

2 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Eygló ég var að benda á aðferð á blogginu mínu um að kalla til iðnaðarmenn og fyrirtæki í iðnrekstri til að koma til móts við vinnumálastofnun að koma fólki til hjálpar og koma sem flestum í verknám það hlýtur að vera hagkvæmt ef Menntamálaráðherra myndi skilja málið.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 12.12.2008 kl. 19:53

3 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Hvort skyldi þessi ríkisstjórn verða kölluð Jólasveinastjórnin eða Bakkabræðrastjórnin eftir sinn dag? Ath. ég er ekki að vísa til Bakkavarar heldur ákveðinna þjóðsagna þegar ég nefni Bakkabræður.

Báðir stjórnarflokkarnir þurfa að taka sig á. En skellur sjálfstæðismanna er kannski meiri að því leyti að þeir hafa verið í stjórn síðan '91 og alltaf gortað sig af því að þeir séu bestir allra í að stjórna með stöðugleika og hagsæld.

Er ekki kominn tími á að hugsa meira inn á miðjuna og á svið félagshyggju og samvinnu?

Einar Sigurbergur Arason, 15.12.2008 kl. 01:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband