30.12.2007 | 14:56
Gleðilegt nýtt stjórnmálaár!
Silfrið náði nýjum hæðum í dag, með umræðu sem var feiknar skemmtileg og á stundum jafn óþægileg fyrir nánast alla flokkana.
Sjálfstæðisflokknum var lýst sem bæði sigurvegara Alþingiskosninganna en um leið klúðrara ársins eftir REI málið mikla. Menn eru einnig loksins farnir að taka eftir spillingunni innan flokksins og ég gat ekki annað en skellt upp úr yfir Hönnu Birnu. Hún gat algjörlega haldið andlitinu og neitað að REI málið væri klúður ársins (þrátt fyrir orð formanns síns þess efnis) og séð ekki neitt óeðlilegt við dómarasætinu til Þorsteins Davíðssonar. Gat meira að segja látið skína í smá vandlætingu yfir því hvað menn væru farnir að vanmeta reynslu aðstoðarmanna ráðherra.
Vinstri Grænir fengu sína útreið. Flokkurinn væri ekki stjórntækur og yrði það ekki fyrr en skipt yrði um formann. Hann væri líka sá flokkur sem væri að tryggja Sjálfstæðisflokknum áframhaldandi völd, með því að geta ekki hugsað sér að vinna með Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Af álitsgjöfunum var ljóst að flestir vænta þess að Svandís Svavarsdóttir taki við, enda hefur hún sýnt og sannað að hún er fyllilega stjórntæk, ólíkt hinu S-inu.
Minn flokkur fékk sinn skerf. Framsóknarflokkurinn væri í einhverju afturhvarfi til fortíðar, og fyrrum félagi minn lýsti því yfir að hann yrði að hætta að styðja við sérhagsmuni og fara að huga að almannahagsmunum. Björn Ingi Hrafnsson fékk beint framan í sig að hann yrði alltaf stimplaður spilltur frá Agli og Þorgerður Katrín benti á að formaðurinn og varaformaðurinn væri sjaldan eða aldrei samstíga í málflutningi sínum. Þessu yrði ekki breytt (að mati þeirra sem ekki voru í Framsókn í þættinum) nema með breyttri forystu. En hver er þá eftir? Hmmm... Væntanlega best að fara undir feld með allt þetta, enda alltaf athyglisvert að heyra sjónarmið annarra en flokksmanna um manns eigin flokk.
Frjálslyndir voru dæmdir sem svona samansafn. Kristinn H. lengst til vinstri eða bara enn í Framsókn og Jón Magnússon til hægri við alla hægrimenn.
Eiginlega kom Samfylkingin einna best út úr þessu öllu saman. Össur var yndislegur eins og alltaf og skemmti sér konunglega yfir Hönnu Birnu, Bjarna mínum og Þorgerði Katrínu. Stjórnmálaáhugamaðurinn ég vona innilega að hann haldi áfram að blogga á næturnar, á meðan Framsóknarkonan ég vona jafn innilega að hann hætti þessu sem fyrst. Hann gæti endað með flokkinn í sömu prósentuhæðum og þegar þeir voru að mælast sem hæst... :)
Óska öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs og takk kærlega fyrir innlitin á árinu!
Eygló
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.