500 milljón kr. bakreikningur

REI málið virðist engan enda ætla að taka.  Í grunninn finnst mér þetta ekki snúast um Björn Inga Hrafnsson, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson eða kaupréttarsamninga eins og mætti halda af fjölmiðlaumræðunni.  Þetta snýst um hvað á að vera í einkarekstri og hvað á að vera á vegum hins opinbera.

Ég hef haft áhyggjur af því hvert við værum að stefna með einkavæðingu ýmissa opinberra fyrirtækja.  Einkavæðing bankanna hefur t.d. skilað litlu fyrir íbúa landsbyggðarinnar og hefur hennar einna helst orðið var í lokun útibúa og skertri þjónustu.  Einkavæðing Símans þýddi enn á ný að störfum fækkað á landsbyggðinni og þjónustan skertist.  

Óhugur fór ætíð um mig þegar Sjálfstæðismenn lýstu yfir áhuga sínum á að einkavæða Íbúðalánasjóð eða leggja hann hreinlega niður og nú síðast kom salan á 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.  Í kjölfarið fylgdu síðan nokkur af minni sveitarfélögunum og seldu sinn hluta.  Á tímabili leit meira segja út fyrir að Geysir Green Energy myndu eignast meirihluta í Hitaveitunni.  Því var það ákveðinn léttir þegar Reykjavíkurborg (Orkuveitan) og Hafnarfjarðarbær stóðu í lappirnar og tryggðu að stærsti hluti HS yrði áfram í opinberri eigu. 

En áhrifin létu samt ekki á sér standa.  Nýlega var því ljóstrað upp að HS teldi sig ekki hafa efni á að leggja vatnslögn til Vestmannaeyja í stað þeirrar sem er að liðast í sundur.  Það hreinlega borgaði sig ekki, og þar sem reka yrði fyrirtækið almennilega til að greiða nægan arð til þeirra sem greiddu 7 milljarða króna fyrir aðeins 15% hlut ríkisins yrðu peningarnir í lögnina að koma annars staðar frá. 

(Lesist: Frá ríkinu) 

Og nú með stóra REI málinu kom síðasta kjaftshöggið.  Að Orkuveitan hefði í raun ekki staðið í lappirnar heldur ætlaði að leggja HS inn í REI og sameina hana þannig Geysir Green Energy.  Geysir Green Energy teldi sig meira að segja hafa forkaupsrétt á hlut Hafnarfjarðarbæjar ef þeir skyldu ákveða að selja. 

Þýðir þetta ekki bara hækkandi raforkuverð og/eða lakari þjónusta?

Ég er ekki hissa að Árni Sigfússon og aðrir sveitastjórnarmenn segjast nú bara ekki skilja neitt í neinu, og helst vilja að REI hefði aldrei orðið til.  Við í Eyjum verðum víst bara að vona að ríkið verði  almennilegt við okkur eða að bæjarstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi sett til hliðar 500 milljónir kr. til að setja í nýja vatnslögn af öllum milljörðunum sem þeir fengu fyrir sinn hlut. 

Jafnvel meira ef/þegar við þurfum að setja á stofn Bæjarveitur Vestmannaeyja á ný.


mbl.is Engar ákvarðanir teknar um Hitaveitu Suðurnesja á næstu vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Jæja , ég er hjartanlega sammála þér í fyrstu tveimur málsgreinunum. Það þarf að halda mál-þing fyrir fólk frá landsbyggðinni sem er með hugmyndir að atvinnuuppbyggingu. Losa frumkrafta íbúa, síðan tæku atvinnuþróunarfélögin við að vinsa úr það sem þeim líst best á. án þess þó að einstaklingarnir á bak við hugmyndina einangrist.  Einnig þyrfti að vera skýr og greiður aðgangur í áhættu lánsfé frá ríkistjórninni, Í gegnum stjórn sem er mönnuð fólki úr öllum landsfjórðungum, semsagt þetta væri "project" þvert á nýsköpunarsjóð og byggðastofnun.  Jafnvel gæti Framtakssjóðurinn Brú og fleiri séð tækifæri í einhverjum verkefnum.  ( Kannski hefur þetta verið reynt !!! )

Varðandi þessa vatnslögn til eyja verð ég að viðurkenna að ég hef ekki fylgst með.

Ekki förum við að hafa eyjarnar vatnslausar.  ÞAð bara gengur ekki.

Er ekki nauðsynlegt annars, að þrífa fiskinn þegar hann kemur að landi og hann unninn frekar og ekki síður viljum við karlmennirnir að þið eyjapæjur - ilmið vel.

Birgir Guðjónsson, 16.10.2007 kl. 01:11

2 identicon

Hræðilega fannst mér Bjarni Ármannsson koma illa út úr Kastljósi gærkvöldsins. Hann var fölur, niðurlútur og raunar eins og hann væri að ljúga frammi fyrir alþjóð. Villi var hins vegar mjög trúverðugur, enda pollrólegur eins og hann hefði akkúrat ekkert að fela. Bjarni Ármanns. er raunar að koma mjög illa út úr öllu þessu máli.

Stefán (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband