13.9.2007 | 16:13
Barnvænni Vestmannaeyjar
Bravó! Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur ákveðið að lækka leikskólagjöld. Grunngjaldið á að lækka um 18,3% og munu foreldrar með barn í átta tíma vistun með fæði spara sér 4.480 kr. á mánuði. Borga núna 26.580 kr. í stað 31.060 kr. áður.
Eða um 53.760 kr. á ári.
Því er um töluverða kjarabót að ræða fyrir foreldra leikskólabarna.
Þetta er líka dæmi um hvað áhrif árvökulir íbúar geta haft með því að láta í sér heyra. Anna Rósa Hallgrímsdóttir, ný Eyjakona, tók sig til og skrifaði grein um há leikskólagjöld í Fréttum fyrir um 2-3 vikum. Henni hafði blöskrað algjörlega munurinn á leikskólagjöldum í Eyjum og í Reykjavík og tók sig til og gerði verðsamanburð á milli nokkurra sveitarfélaga og kom þá í ljós að leikskólagjöld í Eyjum voru langhæst.
En betur má ef duga skal.
Enn þá eru leikskólagjöld í Eyjum töluvert hærri en í Reykjavík. Samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar kostar átta tíma vistun með fæði 20.150 kr. auk þess sem systkinaafsláttur er töluvert hærri.
Samkvæmt þessu munar því 77.160 kr. á fyrsta barn eftir því hvort við búum í Eyjum eða Reykjavík á ársgrundvelli, og dýrara verður það bara ef börnin eru fleiri í leikskóla.
Því segi ég bara: KOMA SVO!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.