13.6.2007 | 17:22
Vantar ekki kennara!
Fyrir stuttu var frétt þess efnis í fjölmiðlum að mikill skortur væri á kennurum í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins. Síðan var farið hringinn í kringum landið, og aldrei þessu vant virtust flestir skólastjórar á landsbyggðinni sem talað var við vera búnir að ráða kennara eða voru með mjög hæfa leiðbeinendur í viðkomandi stöðum.
Það er greinilega af sem áður var.
Fréttamaðurinn virtist vera hálf hissa á þessari staðreynd og leitaði skýringa. Einhver nefndi að það væri ekki jafn mikið framboð af öðrum störfum á landsbyggðinni og því héldist skólum þar betur á kennurum en á höfuðborgarsvæðinu.
Ég myndi vilja benda á aðra skýringu. Ekki er mjög langt síðan farið var að bjóða upp á kennaranám í fjarnámi og fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar voru settar á stofn víðsvegar um landið. Þetta leiddi m.a. til þess að margir leiðbeinendur og aðrir heimamenn ákváðu að drífa sig í Kennaraháskólann eða Háskólann á Akureyri. Þetta fólk hefur verið að mennta sig fyrir ákveðin störf í sinni heimabyggð. Oft hefur það líka getað unnið við kennslu samhliða námi og fest enn frekar rætur í viðkomandi sveitarfélagi og skóla.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sú byggðastefna sem var lengi við lýði að staðsetja allt háskóla- og iðnnám í Reykjavík eigi stóran þátt í fækkun fólks á landsbyggðinni. Fólk fór til Reykjavíkur til að læra, kynntist þar sínum maka, fjárfesti í húsnæði og eignaðist sín börn þar. Þegar námi var lokið, var oft mjög erfitt eða ómögulegt að snúa aftur.
Því tel ég mjög mikilvægt að núverandi stjórnvöld haldi áfram að byggja upp fjarnám og símenntun á landsbyggðinni. Þar skipta þættir eins og háhraðatengingar miklu máli sem og auknar fjárveitingar til helstu menntastofnunar landsins, Háskóla Íslands til að gera honum kleift að bjóða sem flestar námsgreinar í fjarnámi.
Því fjarnám styrkir byggð í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg hárrétt hjá þér Eygló. Ekki má gleyma því að símenntunarmiðstöðvarnar/háskólasetrin bjóða upp á námshvetjandi aðstöðu fyrir ungt fólk þar sem hópar nemenda sameinast um að stunda námið af kappi.
Þorbjörn, 13.6.2007 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.