Íslenska fyrirmyndin

Að undanförnu hefur hinn nýi Jafnaðarmannaflokkur Íslands (annars þekkt sem Samfylkingin) töluvert talað um ágæti skandinavíska módelsins umfram hið íslenska. 

Um leið hafa fulltrúar flokksins reynt að gera sem minnst úr þeirri staðreynd að í fjórum Norðurlöndunum af fimm sitja nú borgaralegar ríkisstjórnir.  Það sem meira er, er að borgaralegu stjórnir hafa verið að líta til Íslands sem fyrirmyndar um hvernig megi bæta skandinavíska módelið.

Ekki eintóm paradís
Ljóst er að í samanburði við flest lönd í heimi eru samfélög Norðurlandanna á flestu leyti til fyrirmyndar um velmegun, jöfnuð, menningu og almenna hagsæld.  En fáar þjóðir greiða eins mikla skatta og Danir og Svíar, eða allt að 50-60%.  Skattar á atvinnurekstur eru líka miklu hærri í þessum löndum en hér.  Afleiðingin hefur meðal annars verið allt að því þrefalt hærra atvinnuleysi en þekkst hefur hér. 

Danska ríkisstjórnin hefur þegar gripið til skattalækkana til að breyta þessu og koma nýjum krafti í efnahagslífið.  Svíinn Fredrik Rehnfeldt lét það verða eitt sitt fyrsta verk eftir að hann tók við sænska forsætisráðherrastólnum að leggja til skattalækkanir.  Enda hafa þeir fyrirmyndina hér á Íslandi þar sem sterkt og öflugt efnahagslíf hefur rennt enn styrkari stoðum undir íslenska velferðarkerfið. 

Góður efnahagur – aukin velferð
Vegna góðrar stöðu efnahagsmála hafa framlög til velferðarmála aukist. Framlög ríkisins til heilbrigðismála jukust að raungildi um 27,5 milljarða króna frá árinu 1998 eða 49%.  Framlög ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála jukust að raungildi um 23 milljarða króna frá árinu 1998 eða 45%. 

Árangurinn er m.a. sá að samkvæmt nýrri skýrslu tölfræðinefndar Norðurlanda, Nososco, Social tryghed i de nordiske lande 2004, reyndust lífeyristekjur íslenskra lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Norðurlöndunum árið 2004.  Kjör þeirra eru einnig betri og hafa batnað hraðar en í flestum löndum heims.  Ný skýrsla Evrópusambandsins um fátækt, Poverty and Social Exclusion, segir að hlutfall aldraðra, 65 ára og eldri, við eða undir fátæktarmörkum sé næstlægst á Íslandi af öllum Evrópuríkjum eða 10%.  Aðeins Lúxemburg er með lægra hlutfall.  Draumalönd Samfylkingarinnar mælast með 11% í Svíþjóð, 18% í Finnlandi og Danmörku og 19% í Noregi.

Gerum enn betur
Framsóknarflokkurinn vill gera enn betur á næsta kjörtímabili.

Við leggjum eftirfarandi til: Hærra frítekjumark á atvinnutekjur lífeyrisþega, auka heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu sveitarfélaganna, breyta fjölbýlum í einbýli á dvalar- og hjúkrunarheimilum og bjóða upp á sveigjanlegri starfslok á vinnumarkaði.

Því á vinnu byggist vöxturinn og á vextinum byggist velferðin. 

Greinin birtist í vikunni í Fréttum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband