Bleiku spurningarnar

Ég er einkar góð í bleiku spurningunum í Trivial Pursuit.  Svo góð að ég og maðurinn minn höfum verið ósigruð í töluverðan tíma í þess ágæta spili í fjölskyldupartýum nánast frá því að við hófum sambúð.  Verkaskiptingin er mjög einföld og góð.  Ég svara bleikum spurningunum og hann öllum hinum litunum. 

Hann veit allt um hluti sem skipta litlu máli Cools.s. bókmenntir, vísindi, íþróttir, landafræði o.s.frv og ég með hverjum Angelina Jolie var gift áður en hún hóf sambúð sína með Brad Pitt og hvaðan Alexandra prinsessa (fyrrum) í Danmörku er.

Áhugi minn á fræga fólki nær ekki bara til núlifandi frægra einstaklinga, heldur hef ég óskaplega gaman af því að liggja í Wikipedia og öðrum "fræði"-ritum og lesa um fræga einstaklinga frá fyrri tíð.  Og þá sérstaklega konur. 

Nú síðast var ég að lesa um Yelizaveta Petrovna (Elísabetu) keisaraynju Rússlands, forvera Katrínar miklu. Hún var dóttir Péturs mikla og Martha Skavranskaya, og var aldrei ætlað að vera leiðtogi landsins og sagan hefur gert hana að aukapersónu í myndum um Katrínu miklu. En ætti að mínu mati að vera mun þekktari. Elisabet tók völdin með hljóðlátri byltingu, um miðja nótt með því að sannfæra hersveit að fylgja sér til Vetrarhallarinnar, handtaka alla ráðherrana og þáverandi valdhafa Anna Leopoldovna og lýsa sjálfa sem keisaraynju.  Í stjórnartíð hennar var hún geysilega vinsæl, samdi frið við Svía og leyfði Rússum að stjórna rússneska ríkinu.

Það er einkar athyglisvert hvernig hegðun þeirra er oft dæmd á allt annan máta en karla. 

Dæmi um þetta er viðhorfið gagnvart einu konunni í 2100 ára sögu Kína til að sitja sem keisari. Hún var Wu Zhao og ríkti yfir Kína frá 690-705 sem keisari.  Þar áður hafði hún stjórnað sem hjákona keisaranna og feðganna Taizong og Gaozong, og síðan eftir dauða þeirra í gegnum tvo syni sína þar til hún loks varð sjálf keisari 690.  Kínverska ríkið hafði aldrei verið stærra en í valdatíð hennar, hún opnaði landið gagnvart viðskiptum við erlend ríki, stóð að útbreiðslu búddisma og skipti út aðalsmönnum fyrir menntamenn í stjórnkerfinu.

Þeir sem aðhylltust kenningar Konfúsiusar notuðu hana svo sem dæmi um hvernig kona ætti ekki að hegða sér og gerðu hana að nánast fulltrúa hins illa.

Enda dirfðist hún að verða keisari og stjórna líkt og karlmaður.

Meira af bleikum spurningum síðar... 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Þú ættir að gerast sem fyrst meðlimur í "Hinu konunglega fjélagi" á Íslandi, sem er félag íslenskra royalista. Skemmst er að minnast þess, er félagið sendi áskorun til Ríkisútvarpsins þess efnis, að sýnt yrði „beint frá brúðkaupi ríkisarfans í Danaveldi þann 14. maí 2004“. Þáverandi útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, brást snarlega við og svaraði royalistum um hæl og staðfesti að ríkissjónvarpið myndi sýna beint frá þessum merkisatburði. Ekki er mér kunnugt um það hvort félagið fór fram á beina útsendingu frá nýlegri fæðingu prinsessunnar í Danaveldi?

Júlíus Valsson, 1.5.2007 kl. 13:12

2 Smámynd: Saumakonan

Isss það verður sko ekker spilað Trivial næst þegar þú kemur í heimsókn... kjaftaðir af þér þarna   Dreg bara fram Pictionary eða Actionary....     

Saumakonan, 1.5.2007 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband