Léttust um 25%

Fólk er að þyngjast, og það sem er einna alvarlegast er að börnin okkar eru að þyngjast mjög mikið.  Gildir þetta hér á Íslandi og í öllum hinum vestrænum ríkjum. Ástæðan er einföld, - við erum að hreyfa okkur minna og borða meira og þá sérstaklega af unnum afurðum og sykri.

En er ekki hægt að snúa þessari þróun við?

Í Svíþjóð hafa fimm skólar tekið þátt í verkefninu Stopp (Stockholm Obesity Prevention Project)til að draga úr þyngd skólabarna. Það hefur verið gert með því að hætta að bjóða upp á sætindi, bjóða upp á hollara snarl og auka hreyfingu barnanna. Árangurinn hefur verið ótvíræður, en nemendur sem eru of þung fækkaði um heil 25% þau fjögur ár sem verkefnið hefur staðið.

Á Dagens Nyheter segir frá hvernig skólarnir bjóða nú upp á hádegismat skv. tillögum næringarfræðinga og aðeins er boðið upp á ávexti sem snarl, nýmjólkinni skipt út fyrir léttmjólk og hvítt brauð fyrir gróft. Síðast en ekki síst fá börnin mun meiri hreyfingu.  Farið er tvisvar í viku í leikfimi og oft í sund, auk þess sem boðið er upp sérstakan tíma þar sem nemendur fá að prófa ýmsar tegundir af íþróttum s.s. handbolta, karate, körfubolta og blak.  Árangurinn í Stopp skólunum var borinn saman við fimm aðra skóla þar sem ekkert var gert í að draga úr þyngd barnanna. Í þeim skólum hafði hlutfall of þungra barna aukist á sama tímabili.

Eftir að hafa lesið þessa grein fór ég að velta fyrir mér hvernig staðan væri í mínu sveitarfélagi.  Grunnskóli Vestmannaeyja stendur sig á margan hátt vel. Boðið er upp á ávexti á morgnana, áhersla er á að börn komi með hollt nesti að heiman og það er bannað að koma með sæta drykki í skólann. Dóttir mín sem er í fyrsta bekk fer einu sinni í viku í leikfimi og einu sinni í viku í sund.

En væri ekki hægt að gera meira?  

Ég tel að það væri vel hægt að leggja aukna áherslu á hreyfingu frá byrjun skólagöngunnar, fara jafnvel í sund og leikfimi tvisvar í viku, sem myndi tryggja að börnin fengju líkamlega hreyfingu fjóra daga af sjö.

Af hverju ekki fá Lýðheilsustofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga til að setja á stað svona verkefni innan grunnskólanna og helst leikskólanna líka.  Þannig væri hægt að auka heilbrigði barnanna okkar og vonandi þjóðarinnar til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú allt gott og blessað. Sjálfsagt að í skólum sé á boðstólum sæmilega hollur matur og með hitaeiningainnihaldi við hæfi. Vandamálið byrjar hins vegar á heimilunum, allt of mikill matur í boði, snakk, nammidagar, og sætir drykkir í óhófi. Íþróttir og útivera megna ekki lengur að halda í við kaloríurnar. Því miður er það svo að  enginn opinber stefna getur haldið aftur af þyngd fólks, þann bagga verðum við víst að bera sjálf. 

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 13:11

2 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Þakka góðan pistil höfundar. Vil og andmæla Jóhanni. Tel að opinber stefna geti gagnast þó vandamálið sé fyrst og fremst heima við. Tek þannig einnig undir með Jóhanni...

Ég held að skipuleg fræðsla og aðhald í næringu og hreyfingu barna innan skólanna muni að lokum skila sér til foreldra, jafnvel á þann veg að börnin hafi vit fyrir foreldrunum. Sammála Jóhanni að opinber stefna leysir ekki vandann en hú er eitt af mörgum tólum til að takast á við hann. Mér verður um og ó er ég hugsa til holdafars barna, bæði hér vestra sem og heima en beggja vegna atlantsála þyngjast börn uggvænlega.

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 23.4.2007 kl. 22:55

3 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Í Selásskóla þ.s dóttir mín var uppí 7.bekk þar er bannað að koma með sér  í skólan, sætindi og ávaxtasafa. Það er boðið upp á létt-mjólk og vatn. Síðan þarf nemandin að koma með umbúðirnar heim til sín, sem til fellur af nestinu.

Í dag er hún í Árbæjarskóla og svo virðist sem skólasjoppan sé að selja köku-sætindi og annað sem mundi fá falleinkun hjá Lýðheilsustofnuin. Stelpurnar eru hins vegar ekki vanar því og krefjast þess að hollir ávextir séu á boðstólum í sjoppunni. Ég mundi álykta að þetta væri skóla-uppeldið. Ég vill einnig benda á að Selásskóli hefur verið mjög vakandi fyrir hollu fæði, í um áratug ef ekki lengur. Líklegast hafa fleiri skólar sömu sögu að segja.

Þannig Eygló eru Svíarnir ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Eflaust er hægt að gera meira, t.d að tengja íþróttafélögin meira ínn í skólastarfið. Síðan virðist mér, að síðan skóladagurinn lengdist fram í júní, að nemendur njóti þess í skemmtun og leik utandyra og er það vel.

Birgir Guðjónsson, 24.4.2007 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband