560 þús. tonn af CO2!

Þegar vinstri menn eru spurðir um hvað eigi að koma í stað stóriðju, er gjarnan bent á ferðaþjónustu.  Steini Briem, mikill bloggvinur minn, hefur t.d. ritað heilu ritgerðirnar um ágæti ferðaþjónustu umfram stóriðju.  Spár um fjölgun ferðamanna telja að innan skamms muni um einn milljón erlendra ferðamanna koma hingað árlega.  Ef hver og einn þeirra eyðir um 100 þús. kr mun atvinnugreinin velta um 100 milljörðum króna árlega um land allt.  

Gefum Steina orðið:  “Um 400 þúsund erlendir ferðamenn komu hingað í fyrra og fyrstu tvo mánuði þess árs fjölgaði þeim um 20,5% miðað við sama tímabil í fyrra.  MEÐ SAMA ÁFRAMHALDI VERÐA FERÐAMENNIRNIR ÞVÍ ORÐNIR EIN MILLJÓN Á ÁRI EFTIR EINUNGIS FIMM ÁR, árið 2012, og heildartekjurnar af þeim hefðu þá aukist um 55 milljarða króna Á ÁRI á þessu fimm ára tímabili, úr 45 milljörðum nú í 100 milljarða króna á ári.” 

Ég spurði á móti: Hvað með mengunina frá ferðaþjónustunni?  Einn ferðamaður sem flýgur fram og tilbaka frá London til Keflavíkur mengar um 0,42 tonn af CO2.  Hann vill heimsækja stærsta þjóðgarð Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð og ekur 904 km fram og tilbaka frá Reykjavík til Hornafjarðar.   Mengun frá sparneytnum bíl er 0.14 tonn af CO2.

Til einföldunar gefum okkur að 1 milljón ferðamanna komi allir frá London og fari bara til Hornafjarðar og aftur (og skilji 100 milljarðana eftir í mínu kjördæmi Wink). Heildarmengunin af CO2 yrði 560 þús. tonn árlega eða svipað og landbúnaður, og alls ekki langt frá öllum samgöngum landsins eða fiskiskipunum árið 2004.  

Fjölgun ferðamanna þýðir einnig að bæta þarf samgöngukerfið til muna og jafnvel byggja vegi og húsnæði á viðkvæmum eða vernduðum svæðum.  Þetta er umræða sem Norra Dalarna í Svíþjóð hafa þurft að fara í gegnum og tapað ítrekað.  Fyrst 1998 og nú aftur þar sem sænska ríkisstjórnin hefur hafnað hugmyndum um að byggja upp útvistarsvæði til skíðaiðkunar sem myndi tengja fjöllin Städjan og Idre í Dalarna.

En þetta er umræða sem er ekki einu sinni hafin hér á landi.

PS. Góðu fréttirnar eru að við getum keypt okkur syndaaflausn eða mengunarkvóta hjá ClimateCare  fyrir aðeins tæpar 500 milljónir kr. á ári.  Suðurlandsskógar gætu jafnvel séð þetta sem viðskiptatækifæri og við keypt kvótann af þeim.  Þannig værum við 99,5 milljörðum króna í plús. 

Af hverju var enginn búinn að benda Alcan á þetta? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

FERÐAÞJÓNUSTAN ER NÚ ÞEGAR Á VIРFIMM ÁLVER Á REYÐARFIRÐI hvað landsframleiðslu snertir. Ef byggðarlögin úthluta og selja sjálf aflakvóta til skipa sem skráð eru hjá þeim fyrir 50 krónur kílóið í þorskígildum, rúmlega þrisvar sinnum lægra verð en þeir eru nú seldir á, 155 krónur, fengju þau sjálf samtals 18 milljarða króna á ári í auðlindarentu, 14% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða í fyrra, sem þau gætu notað í eigin þágu, til dæmis til jarðgangnagerðar.

Þannig gætu til dæmis Vestmanneyingar, sem eru með 9% heildaraflakvótans í þorskígildum talið, fengið 1,62 milljarða króna á ári í auðlindarentu og greitt upp jarðgöng, 38 milljarða króna, á milli lands og Eyja á 23 árum fyrir sína eigin auðlindarentu, miðað við 2.500 króna veggjaldi fyrir fólksbíla og 7.500 krónum fyrir stærri bíla. Þjóðhagslegur ábati þessara gangna yrði 25 milljarðar króna, samkvæmt Hagfræðistofnun.

Ég fæ ekki séð að slíkt aflamarkskerfi gengi gegn Vatneyrardómi Hæstaréttar frá árinu 2000 og 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti óbreyttu núverandi kvótakerfi. Sjávarútvegsráðherra, í umboði þjóðarinnar, úthlutar aflakvótum til eins árs í senn, hnykkt hefur verið á því í stjórnarskránni að þjóðin eigi nytjastofna á Íslandsmiðum og rætt hefur verið um það árum saman að nauðsynlegt sé að breyta þessu kerfi. Þjóðin á að sjálfsögðu veiðiréttinn, því fiskurinn er einskis virði ef enginn má veiða hann og sjávarútvegsráðherra úthlutar veiðiréttinum.

Útgerðarmenn geta því engan veginn haldið því fram að þeir eigi fiskinn í sjónum, enda þótt þeir hafi keypt svokallaða "varanlega" aflakvóta, sem greiddir eru upp á nokkrum árum. Kvótinn yrði meira en þrisvar sinnum ódýrari í nýja kerfinu og nú eru skipin sjálf lítils virði ef enginn kvóti er "bundinn" við þau en í nýja kerfinu geta þau haldið áfram að veiða á svipaðan hátt og þau gera nú. Hins vegar leggja alltaf einhverjar útgerðir og fiskvinnslur upp laupana og hægt að úthluta nýjum útgerðum aflakvóta. Einnig fiskvinnslum og fiskútflytjendum sem myndu þá greiða útgerðum fyrir að veiða fiskinn fyrir sig.

Nú er verð á aflakvótum svo hátt, 2.200 krónur fyrir "varanlegt" kíló af þorski í nóvember í fyrra, að bankarnir eiga í raun útgerðirnar og nú ætla þeir að leggjast í sama víking í Noregi. Verðið á kvótunum hækkar hér stöðugt og nú er sagt að það sé komið upp fyrir 2.500 krónur fyrir kílóið afþorski. Núverandi kerfi stuðlar því að óhagkvæmni, og engan veginn hagkvæmni, fyrir bæði útgerðirnar og byggðarlögin þegar á heildina er litið. Þannig hefur íbúum á Vestfjörðum fækkað um fjórðung frá því að núverandi kvótakerfi var tekið upp árið 1984 og fjölmörg fyrirtæki lagt þar upp laupana, til dæmis Einar Guðfinnsson í Bolungarvík árið 1993.   

Reykjavík er með 10% af heildaraflakvótanum en þar sem Reykjavíkurborg fær nú þegar mikinn arð af þjónustu við alla landsbyggðina er eðlilegt að sú auðlindarenta, 1,8 milljarðar króna á ári, gangi árlega beint til þeirra byggðarlaga sem misst hafa mestan kvóta undanfarið, eða fari í samgöngubætur á landsbyggðinni, til dæmis jarðgangnagerð. Þannig væri hægt að greiða upp jarðgöng á milli Syðridals í Bolungarvíkurbæ og Hnífsdals í Ísafjarðarbæ á framkvæmdatímanum, 17 mánuðum.  

Um 420 þúsund ferðamenn komu hingað í fyrra og þeir eyddu hér um 100 þúsund krónum á mann, samkvæmt Ferðamálastofu, samtals um 42 milljörðum króna. Þar að auki komu hingað tugir þúsunda ferðamanna með mörgum og stórum skemmtiferðaskipum og þeir ryksuguðu hér upp rándýrar lopapeysur og fóru í lystireisur til Þingvalla, Gullfoss, Geysis og Mývatnssveitar, þar sem jarðböð hafa dregið að sér tugi þúsunda gesta á ári.

Ísland er nú fjórða samkeppnishæfasta land í heimi í ferðaþjónustu og hlutfall hennar í vergri landsframleiðslu er 6,3%. Landsframleiðslan mun hins vegar aukast um allt að 1,2% þegar álframleiðsla Alcoa Fjarðaáls verður komin í fullan gang. Ferðaþjónustan er því á við fimm slík álver og meðallaun í ferðaþjónustu hafa verið hærri hér síðastliðinn aldarfjórðung en almennt á vinnumarkaðnum, samkvæmt ársgamalli skýrslu Hagfræðistofnunar, Áhrif raungengis á ferðaþjónustu.

Og að sjálfsögðu munu laun hækka hér í ferðamannaþjónustunni, alveg eins og laun í áliðnaði geta hækkað með aukinni eftirspurn eftir áli. Og ferðamannastraumur til Vestmannaeyja mun stóraukast með jarðgöngum á milli lands og Eyja, sem tekur 6 ár að grafa. Það sama á einnig við um til dæmis Vestfirði, enda er ferðaþjónusta og fiskveiðar stóriðja þessara landshluta. Þar verða aldrei reist álver, enda er ekki hægt að stóriðja í hverjum firði og eyju þessa lands. Það hefði aldrei hvarflað að Mjallhvíti og dvergunum sjö að reisa stóriðju í sínum litla ranni, enda undu þau glöð við sitt eftir að vonda Sjallastjúpan hafði skipað Framsóknar-Jóni að gera Mjallhvíti höfðinu styttri.

Erlendir ferðamenn koma hingað til Íslands hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Allir í veröldinni, sem þekkja eitthvað til landsins, vilja koma hingað. Almenn velmegun og ferðamennska eykst stórum skrefum í heiminum, til dæmis í Indlandi og Kína, þar sem millistéttirnar stækka nú ört. Ef "einungis" eitt prómill Kínverja kæmi hingað til Bing Dao, Íseyjunnar, sem þeir kalla svo, á hverju ári, væru það 1,3 milljónir manna, ef reiknað er með að Kínverjum fjölgi ekkert frá því sem nú er. Og á Indlandi býr rúmlega milljarður manna. Við getum ekki bannað erlendum ferðamönnum og flugfélögum að fljúga hingað. Slíkt myndi brjóta í bága við samninga um alþjóðleg viðskipti sem við höfum nú þegar gert.

Hins vegar gætum við látið erlenda ferðamenn greiða tiltölulega hátt gjald fyrir að skoða ákveðna staði, til dæmis Gullfoss, Geysi og Þingvelli, svipað og við getum tekið gjald af annarri náttúruauðlind, nytjastofnum á Íslandsmiðum, sem eru í eigu þjóðarinnar, samkvæmt stjórnarskránni, og hafa reyndar alltaf verið það frá upphafi landnáms. Ingólfur Arnarson, "fyrsti" meðlimur þjóðarinnar hefði getað numið allt landið og miðin og látið Auði djúpúðgu fá allan veiðiréttinn (allan aflakvótann) í Breiðafirði, ef hann hefði viljað, gegn gjaldi, til dæmis 1.000 fiskum á ári. Auður hefði getað framselt þennan veiðirétt til einhvers annars nýbúa hér, eða látið húskarla sína veiða og verka fiskinn, snætt hann sjálf eða selt hann til annarra, þess vegna til útlanda, ef eftirpurn hefði verið eftir honum þar.     

Aðalatriðið er ekki að selja hér sem mest af orku, heldur að nýta hana sem allra best og fá sem mest fyrir hana. Fleiri álver hér eru engin lausn fyrir einn eða neinn, hvað þá að æða áfram í þenslunni, sem verið hefur hér undanfarin ár með tilheyrandi verðbólgu og heimsmeti í háum vöxtum. Það gerir fjölda fólks gjaldþrota á næstunni. Við gerum ekkert annað en að vinna fyrir vöxtunum og missum á endanum íbúðirnar okkar. Við verðum því að fara mun hægar í sakirnar á næstunni í þessum orkumálum okkar, huga að skýrri framtíðarsýn og því hver ímynd Íslands eigi að vera.

Ímynd Íslands er okkur mörg þúsund milljarða króna virði og á öllum sviðum er hreinleikinn okkar vörumerki alls staðar í heiminum. Fiskurinn, hugvitið, menntunin, menningin, náttúran og tækniþekkingin, hreinn sjór, hreint land og hreint loft. Írar hafa orðið forríkir á örfáum árum og þar vinna fjölmargir útlendingar. Eru fallvötn og álver á Írlandi?

Á milli Íslands og útlanda liggja tveir sæstrengir, hinn þrettán ára gamli CANTAT-3, 7,5 Gb/s, á milli Kanada, Íslands og Evrópu, og hinn þriggja ára gamli FARICE-1, 33x2,5 Gb/s ljósleiðari á milli Íslands, Færeyja og Skotlands, sem Ísland á 80% í, en CANTAT-3 á að vera varaskeifa fyrir hann. SHEFA-2, sjö hundruð kílómetra langur ljósleiðari, 20x10 Gb/s, mun hins vegar tengja Færeyjar og Skotland núna í október. Íslenska ríkisstjórnin er að spá í að leggja nýjan streng, FARICE-2, seint á næsta ári en hvorki er búið að ákveða hvar strengurinn á að liggja, né hvar hann á að koma í land. Það má því segja að íslensk stjórnvöld séu steinsofandi í þessum málum öllum, ekkert kemst að nema álver, samgönguráðherrann úti á túni og vegir hans órannsakanlegir með öllu.

Póst- og fjarskiptastofnun segir að þjóðhagslega hagkvæmt sé að ráðast strax í að leggja nýjan sæstreng. Landspítalinn, allir háskólar landsins nema Hólaskóli, og fjöldi rannsóknastofnana varð sambandslaus í desember síðastliðnum þegar CANTAT-3 bilaði en mörg fyrirtæki og stofnanir hér notuðu eingöngu þann streng fyrir netumferð sína, enda þótt hann sé byggður á gamalli tækni og dýr í rekstri. Þegar strengurinn var tekinn í notkun árið 1994 gerðu verkfræðingar ráð fyrir að hann yrði fullnýttur árið 2011. Þá var strengurinn 5 gigabit (2x2,5 Gb) en hann var fullnýttur á innan við 3 árum. Síminn á 6% í CANTAT-3, sem er um 7.800 kílómetra langur.

Ef framleiða ætti vetni eða metanól, sem kæmi í stað alls bensíns og olíu sem bíla- og fiskiskipaflotinn okkar notar nú, þyrfti til þess 3,7 terawattstundir (TWh) á ári, samkvæmt Braga Árnasyni fyrrverandi prófessor. Þá myndi útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hérlendis minnka um 57% frá því sem það er nú en talið er að úr vatnsorku og jarðhita á Íslandi væri hægt að framleiða um 50 TWh af raforku á ári. Ein terawattstund er 1.000 gígawattstundir. Enn er ekki hagkvæmt að selja héðan raforku um sæstreng til Evrópu, enda myndi það skapa meiri atvinnu fyrir okkur að nýta hana hér.

En þ
að er ekki nóg að líta eingöngu til þeirrar tækni og möguleika sem voru fyrir hendi í gær. Það verður einnig að velta fyrir sér möguleikum framtíðarinnar, hvað muni verða hægt að gera á næstu árum og hvað sé verið að þróa og smíða erlendis. Nú er til dæmis búið að smíða rafbíl sem kemst upp í 100 kílómetra hraða á örfáum sekúndum og við munum að öllum líkindum hlaða rafbíla okkar með tiltölulega ódýru næturrafmagni, sem nú þegar er framleitt hér. Fiskiskipin okkar munu hins vegar verða knúin áfram af til dæmis kanadískri jurtaolíu (biodísel) frá Krossanesverksmiðjunni á Akureyri. Stefnt er að því að framleiða þar allt að 60 þúsund tonnum af jurtaolíu á ári, sem mun duga fiskiskipum okkar sem nú nota hráolíu, en verð á henni hefur sjaldan verið hærra en nú.

Bensín og olía verða örugglega ekki notuð á bíla og fiskiskip hér í framtíðinni. Hversu margar borðtölvur voru til hér árið 1980, fartölvur árið 1990 og gemsar árið 1995? Þekktuð þið öll Netið og möguleika þess árið 1990 og hefði ykkur öllum dottið í hug þá að bráðnauðsynlegt yrði að auka verulega möguleika á gagnaflutningi um sæstrengi til útlanda til að skapa hér skemmtilega atvinnu sem gæfi góðan arð, milljarða króna árlega? Og fólk um allan heim myndi greiða stórfé fyrir að taka þátt í íslenskum tölvuleik á Netinu sem héti Eve Online og snerist um geimskip og ímyndað líf í geimnum? Bill Gates varð ekki ríkur af því að spekúlera mikið í álverum.

En það var til álver hér fyrir 30 árum, meira að segja álkrónur sem flutu á vatni, fljótandi gengi og verðbólgan um 60%, en þá eins og nú þurftum við fleira en álið (nú 35% af útflutningi okkar) og fiskinn (nú 60%), enda óskynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni og jafnvel þótt körfurnar séu tvær.

Bið að heilsa þínum kláru dætrum, sem vonandi munu erfa bæði landið og auðlindarentuna, en engan "varanlegan" kvóta, og vona að hárgreiðsla Eyjameyja ruglist ekki í Stórhöfðarokinu, þar sem túberað hár var fundið upp, en tíkarspenar voru fyrst uppgötvaðir í Tíkartánum. Gleðilega páska, Eyjamenn!

Steini Briem (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 21:45

2 identicon

Sæl Eygló, góð færsla hjá þér.
Það er hreint ótrúlegt að fólk sem vill kenna sig við umhverfisvernd vilji margfalda fjölda ferðamanna hingað til lands. Heldur einhver í fullri alvöru að ferðamannaiðnaðurinn sé umhverfisvænn?

Svona umhverfisins vegna vona ég að hugmyndir Ómars Ragnarssonar um "eldfjallaþjóðgarða sem milljónir heimsækja árlega" verði að engu :)


Fór í smá gúggl-leik og fann þessa grein; http://www.lv.is/Files/2006_4_6_bjarni_bjarnason_samradsf_2006.pdf

"Áliðnaðurinn er í hraðri þróun eins og annar iðnaður og mengun frá álverum hefur minnkað mikið á undanförnum árum. Vonir eru bundnar við það að þróa megi nýja gerð af forskautum fyrir álver í stað kolaskautanna, svokölluð eðalforskaut. Þau hafa þann kost að losa súrefnið úr súrálinu án þess að hvarfast við það og mynda CO2. Forskaut af þessutagi eru nú þegar í tilraunarekstri en óvíst er hvort og hvenær þau taki við af kolaskautum. Lánist þetta mun súrefni streyma frá álverunum í framtíðinni í stað koltvísýrings og framleiðsluferlið verður að mestu mengunarlaust."

Væri æði ef þetta yrði að veruleika :) ..En því miður hef ég ekki heyrt af neinum tilraunum sem miða að því að láta flugvélar framleiða súrefni í stað koltvísýrings.


Lítur allt út fyrir að ég kjósi ykkur (hef ekki gert það áður), en verð þó að segja, mikið agalega eru þessar "ekkert stopp" auglýsingar ykkar pirrandi :). Og já, svo ætti Bingi að leyfa komment á blogginu sínu, hafi hann ekki tíma til að svara sjálfur ætti hann að geta fengið e-n annan í djobbið, held að það skipti máli uppá tengsl við kjósendur.

jana (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband