Ísland í BBC

BBC virðist vera farið að sýna Íslendingum aukinn áhuga.  Allavega fannst mér það eftir að hafa fyrst rekist á grein á bbc.co.uk um vilja Íslendinga, Norðmanna, Svisslendinga og íbúa Liechtenstein til að vera fyrir utan ESB og svo hlustað á frétt á BBCWorld Service um orkuframleiðslu á Íslandi, - bara núna í morgun.

Greinin Happy to be outside the EU club er áhugaverð.  Mér finnst alltaf gaman að lesa um skoðanir annarra á okkur.  Töluvert hefur verið rætt um ESB-aðild hér á blogginu, og höfundur greinarinnar, Kjetil Wiedswang virðist telja að þessi fjögur lönd hafi það ágætt fyrir utan Evrópusambandið.  Við fáum hrós fyrir að vera fljót að taka upp reglur sambandsins, jafnvel fljótari en ESB ríkin sjálf og rífast lítið eða ekki neitt á leiðtogafundum.  Þetta segir hann um Ísland: "The second largest non-EU member of the EEA is Iceland, which has a single reason for not being a EU member - a deep fear of the EU Common Fisheries Policy. That fear is absolutely rational and Iceland's position is not going to change any time soon."

Hann telur einnig litlar líkur á að þetta breytist á næstunni, þar sem "...the EU's 27 insiders and four Western outsiders seem reluctantly satisfied with the arrangement."

Í umfjöllun BBCWorld Service um Kárahnjúka og álverið í Reyðarfirði var talað við Ómar Ragnarsson og Jón Sigurðsson.  Var mjög vel unnin og hlutlaus, - rætt um mikilvægi framkvæmdanna fyrir byggð á Austfjörðum og umhverfisskaðann sem virkjunin hefur í för með sér. Spurningin sem spurð er í lokin er: "So which is worth more - green energy or unproductive wilderness?" Hafnfirðingar fá víst að svara þessu fljótlega.

En stóra spurningin sem ég myndi vilja fá svar við er:

Skyldum við geta þakkað Baugi þessa athygli? Wink


mbl.is Fjallað um umhverfis- og stóriðjumál Íslands í BBC og Independent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Klámskjóður nokkrar fengu ekki inni á hóteli hér á dögunum og þá fór landið á hliðina vegna þess að svo margir misstu spón úr aski sínum um land allt en nú eru störf í ferðaþjónustu allt í einu orðin einskis virði vegna þess að einhverjir í Hjálpræðishernum í Hafnarfirði heimta stærra álver! Er þetta trúverðugur málflutningur? Á nú að fara að flytja inn enn fleiri útlendinga, fleiri þúsund, ef ekki tugi þúsunda, til að vinna í ferðaþjónustunni, eins og gert var í fiskvinnslunni, og stækka og reisa ný álver fyrir Íslendingana?! Störf við stóriðju höfða mun meira til karla en kvenna og hér er ekkert atvinnuleysi. Er nú ekki löngu kominn tími til að leggja áherslu á konur í þessu landi? Hins vegar vinna bæði karlar og konur í ferðaþjónustunni, að sjálfsögðu. Ferðaþjónusta fer stórum vaxandi hér, árlegur vöxtur hennar er gríðarlegur og störfum í þessari þjónustu fjölgar um mörg þúsund á ári. Stóriðja og ferðaþjónusta fara ekki saman, því byggja þarf stórvirkjanir og stór raflínumöstur út um allar koppagrundir til að koma nauðsynlegri raforku til stóriðjuveranna, sem valda þar að auki mengun. Erlendir ferðamenn koma ekki hingað til að sjá slíka hluti. Það er nóg af þeim í þeirra heimalöndum. Þeir koma hingað til að njóta óspilltrar náttúru sem lítið er af í þeirra heimabyggð. Raflínur út og suður spilla öllum sjónlínum til fjalla og jökla og hvorki íslenskir né erlendir ferðamenn vilja sjá slíka hluti.


Gríðarlega mörg fyrirtæki njóta góðs af fjölgun ferðamanna hér með beinum hætti, til dæmis Flugfélag Íslands en hjá þeim var 8% fjölgun farþega í fyrra, Icelandair, IcelandExpress, hótel, veitingastaðir og bílaleigur. Störf í ferðaþjónustu eru ágætlega launuð hér og með auknum fjölda ferðamanna hingað til lands yrði hægt að greiða enn hærri laun í ferðaþjónustunni, alveg eins og hægt yrði að greiða hærri laun í álverum ef eftirspurn eftir áli eykst. Hins vegar er alls óvíst hvernig hún verður í framtíðinni, því fyrr eða síðar verður farið að nota önnur efni í stað áls, ódýrari eða umhverfisvænni í framleiðslu. Auk þess verður að öllum líkindum skrifað undir nýtt alheimssamkomulag um losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Danmörku árið 2009, eftir einungis tvö ár, og Kyoto-bókunin rennur út árið 2012. En að sjálfsögðu munum við halda áfram að nota hér rafmagn í einhverjum mæli, til dæmis tiltölulega ódýrt næturrafmagn til að hlaða rafbíla á nóttunum, en nú þegar hefur verið framleiddur rafbíll sem kemst upp í hundrað kílómetra hraða á nokkrum sekúndum. Þá mun Krossanesverksmiðjan og fleiri verksmiðjur framleiða umhverfisvænt eldsneyti fyrir fiskiskipaflotann okkar. Mengun af umferð og fiskiskipum verður því mun minni í framtíðinni en nú er, enda þótt hún komi til með að aukast.


Við þurfum ekki á frekari stóriðju að halda hérlendis. Hér búa einungis 304 þúsund manns og ef íbúunum fjölgar um 1% á ári, eins og árið 2004, verðum við orðin 320 þúsund eftir fimm ár. Á Húsavik er ekkert atvinnuleysi og þar vinna margir útlendingar vegna þess að innfæddir Húsvíkingar hafa flutt í burtu og búa nú til dæmis í Reykjavík, þar sem þeir hafa keypt húsnæði og öll þjónusta er mun betri en á Húsavík. Það er mjög hæpið að þeir færu að taka sig upp með allt sitt hafurtask, selja húsnæðið, segja upp vel launaðri vinnu og flytja aftur til Húsavíkur til að vinna í álveri, bæði hjónin. Það þarf mörg hundruð manns til að halda álveri gangandi. Ekki dytti Dalvíkingum í hug í einhverri alvöru að reisa hjá sér álver eða svipuð kompaní. Þeir hafa þar til dæmis Sæplast og fullkomið frystihús, sem greiðir góð laun, er með góðan aðbúnað og með marga Íslendinga í vinnu. Á Húsavík hafa menn til dæmis tekjur af hvalaskoðun og enginn veit hversu miklu meiri tekjur okkar af ferðamönnum yrðu ef við veiddum enga hvali, því þessar veiðar okkar eru mjög óvinsælar um allan heim. Hvers vegna þá að taka þessa áhættu með veiðunum þegar ávinningurinn er enginn og menn hlæja að þessari heimsku, sem jafnvel sjálfur fríherrann Munchhausen hefði verið stoltur af?! Hversu mikil eru ruðningsáhrif heimskunnar?


Hingað munu koma erlendir ferðamenn, hvort sem við viljum það eða ekki. Við getum ekki bannað þeim það. Við höfum gert alþjóðlega samninga um heimsviðskipti og slíkt gengi ekki. Þá myndu aðrar þjóðir geta bannað okkur að ferðast til sín og hætta að kaupa af okkur fisk. Við gætum hins vegar sett einhvers konar aðgangskvóta á erlenda ferðamenn hér til að vernda náttúruauðlindir okkar, svipað og við höfum sett kvóta á aðgang að sjávarauðlindum okkar. Ferðamenn yrðu þannig að greiða tiltölulega hátt gjald til að sjá til dæmis Gullfoss og Geysi. Sumir væru tilbúnir að greiða slíkt gjald en aðrir ekki. Einnig gætu til dæmis rútubílstjórar innheimt sérstakt gjald af sínum farþegum fyrir að keyra þá að Dettifossi. Ef einhverjum finnst slíkt fáránleg hugmynd má benda þeim á að ef 1% Kínverja kæmi hingað til Bing Dao, Snjóeyjunnar sem þeir kalla svo, yrðu það 13 milljónir manna á ári, og velmegun vex nú geysilega ört í Kína og mörgum öðrum löndum í heiminum. Og ferðamennska vext geysilega ört á hverju ári um veröld alla, þrátt fyrir hörmungar og stríð í ákveðnum heimshlutum. Út vil ek.


Erlendir ferðamenn eru farnir að koma hingað í stórum stíl allt árið. Þeir fá sín frí allan ársins hring, þegar vetur er hér, er sumar á suðurhveli jarðar og víða í Asíu er regntími en ekki vetur. Ferðamennirnir vilja til dæmis sjá norðurljósin hér á vetrin, þannig að þau eru nú þegar margseld, sjá snjó, fara á skíði og snjóbretti, keyra upp á jökla og skemmta sér í Reykjavík. Og á sumrin vilja þeir sjá hér til dæmis hvali, miðnætursólina, ganga á fjöll, sigla á flúðum, spila golf, njóta næturkyrrðarinnar og fuglasöngsins, óspilltrar náttúru. Raforkuver, stóriðjur og raflínur út um allar þorpagrundir er ekki óspillt náttúra. Haldi einhver slíkt er það misskilningur. Fyrir nokkrum áratugum voru grafnir djúpir skurðir um landið þvert og endilangt en nú er verið að fylla upp í þá aftur. Slíkt er að sjálfsögðu einnig hægt að gera í Hafnarfirði, ef mönnum sýnist svo, en norður í Svarfaðardal voru slíkir menn kallaðir Bakkabræður og fór mörgum sögum af þeim.


Erlendir ferðamenn hér voru um 400 þúsund talsins í fyrra og gjaldeyristekjur af þeim voru þá samkvæmt Seðlabanka Íslands um 47 milljarðar króna, um 155 þúsund krónur á hvern einasta Íslending, þar sem við erum nú 304 þúsund talsins, eða sjö milljörðum, 18%, meira en árið áður. Ferðamenn eyða hér um 100 þúsund krónum hver og einn að meðaltali, samkvæmt Ferðamálastofu, og um 20% fleiri ferðamenn komu til landsins fyrstu tvo mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. Haldi ferðamönnum áfram að fjölga hér með sama hraða verða þeir orðnir ein milljón talsins eftir fimm ár, árið 2012. Þá yrðu tekjur af þeim orðnar um 100 milljarðar króna á ári, um 300 þúsund krónur á hvern Íslending, helmingi meiri en nú, fjölgi okkur Íslendingum um 1% á ári, eins og árið 2004, en þá verðum við orðnir um 320 þúsund eftir fimm ár. Afleidd störf í ferðaþjónustu eru að sjálfsögðu fjölmörg. Margir vinna til dæmis við leiðsögu, leigubíla- og rútuakstur, sölu á veitingahúsum, börum og skemmtistöðum. Samkvæmt launakönnun VR í fyrra voru til dæmis meðallaun í gestamóttöku um 200 þúsund krónur á mánuði, starfsfólks hótela, veitingahúsa og ferðaskrifstofa um 260 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og í flutningaþjónustu 280 þúsund krónur og í flugsamgöngum um 300 þúsund krónur á mánuði.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 00:19

2 identicon

Ó, þá náð að eiga álver,
einkavin í hverri þraut.
Ó, þá heill að halla mega
höfði sínu í álsins skaut.
Ó, það slys því hnossi að hafna,
hvílíkt fár á þinni braut,
ef þú blindur vilt'ei varpa
von og sorg í álsins skaut.

Eigir þú við böl að búa,
bíðir freistni, sorg og þraut,
óttast ekki, bænin ber oss
beina leið í álsins skaut.
Hver á betri hjálp í nauðum?
Hver á slíkan vin á braut,
hjartans vin sem hjartað þekkir?
Höllum oss í álsins skaut.

Ef vér berum harm í hjarta,
hryggilega dauðans þraut,
þá hvað helst er stærra álver
hjartans fró og líknar skaut.
Vilji bregðast vinir þínir,
verðirðu einn á kaldri braut,
flýt þér þá að halla og hneigja
höfuð þreytt í álsins skaut.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband