Froðufellandi framkvæmdastjóri ÞSSÍ

Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ), spilaði út í útvarpi í gær í beinni frá Afríku.  Orsök dramans var skýrsla utanríkisráðherra um fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands. Sjaldan eða aldrei hafa jafn heiftarleg viðbrögð sést hjá starfsmanni í utanríkisþjónustu, sem gerir yfirleitt út á yfirvegun í vinnubrögðum.  Því er ekki að undra að maður spyrji sig hvað orsakar í raun þessi viðbrögð Sighvats Björgvinssonar.  

Er það vinnan við skýrsluna?  Vinna við að endurskoða þróunarsamvinnu hefur staðið yfir frá því í nóvember og framhaldi af þeirri vinnu var tilkynnt að utanríkisráðherra hyggðist endurskoða lögin um ÞSSÍ.  Í fréttatilkynningunni frá ráðuneytinu sagði: "...kannað verði hvort þörf sé á breyttu skipulagi þróunarsamvinnu Íslands.  Meðal álitaefna sem skoðuð verða eru kostir og gallar núverandi lagaramma ÞSSÍ, svo og fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands, bæði tvíhliða og á fjölþjóðlegum grundvelli."  Við gerð skýrslunnar var málþing haldið, talað við framkvæmdastjórann, stjórn stofnunarinnar, þá starfsmenn sem náðist og fjölda annarra sem koma að þróunarsamvinnu hérlendis. Skýrslan er tilbúin og ráðherra tilkynnti um leið að ekkert lagafrumvarp yrði lagt fram á núverandi þingi um leið og hún skýrði sín sjónarmið. 

Sem sagt engar breytingar á þessu kjörtímabili og því getur það varla verið ástæðan.

Ég ætla að leyfa mér að koma með aðra kenningu.  Frá því að Valgerður Sverrisdóttir tók við utanríksráðuneytinu hefur hún sýnt og sannað að hún hefur lítinn áhuga á að fylgja í fótspor fyrri ráðherra.  Hún ætlar ekki að fjölga sendiráðum, og enn þá síður úthluta einhverjum bitlingum til fyrrum stjórnmálamanna, og skiptir þá litlu hvort leitað er til hennar af eigin flokksmönnum eða öðrum. Nýjar áherslur í þróunarsamvinnu hafa einnig vakið athygli.  Meira segja einn helsti gagnrýnandi Framsóknar, Dofri Hermannsson, gat ekki annað en lýst yfir ánægju sinni með þær breytingar á vefsíðunni sinni: "Hún afvopnaði friðargæsluliðið, sendi jeppagengið heim og ljósmæður út í staðinn."

Gæti verið að Sighvatur Björgvinsson óttist að eins verði farið með hann og jeppagengið og að bitlingunum fækki jafnvel um einn á vegum ráðuneytisins?

Það skyldi nú aldrei vera…


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Það virðist vera sem Valgerður sé að finna sig betur í utanríkisráðuneytinu en í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu.  Kannski svona fegin að vera laus við viðurnefnið "Álgerður".......

Sigfús Þ. Sigmundsson, 9.3.2007 kl. 10:01

2 Smámynd: Pétur Þór Jónsson

Sammála Eygló, vísa í blogg mitt í dag um sama hlut.

Pétur Þór Jónsson, 9.3.2007 kl. 13:38

3 identicon

Þjóðnýting hefur mér vitanlega aldrei verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins.Því hrökk ég við, þegar Eygló Harðardóttir ,eitt þingmannsefna  Framsóknarflokksinsí Suðurkjördæmi lýsti því yfir á heimasíðu sinni fyrir nokkrum dögum að það sama ætti að gilda um fiskimiðin og þjóðlendurnar,sem eru þinglýst eign íslenska ríkisins eftir að ríkið hefur tekið þau lönd sem það segir að landeigendur geti ekki sannað að þeir eigi, og dómar hafa steðfest það.Nú standa sjávarjarðabændur í málaferlum gegn íslenska ríkinu.Landsbyggðin og sveitarfélög á landsbyggðinni til dæmis Vestmannaeyjar sem eingöngu lifa á sjávarútvegi,gæti maður ætlað, að myndu vilja hafa eitthvað um það að segja ef ríkið, sem er að tveim þriðju staðsett í kringum Seltjarnarnesið, og íbúar þar telja sumir hverjir sjávarútvegin óværu á þjóðinni, fer að þjóðnýta fiskimiðin.Mér finnst að frambjóðendur Framsóknarflokksins og þá ekki síst varaformaður flokksins verði, eftir að Eygló Harðardóttir lýsti þessari skoðun sinni, að skýra frá því hver sé stefna flokksins varðandi þjóðnýtingu fiskimiðanna kringum landið.  

Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 22:23

4 identicon

Já, hann Bráðhvatur gerði Gerði grikk en hann hefur trúlega fengið sólsting eða flugu í höfuðið. Það er svo mikið af sól og flugum þarna niðurfrá og það má ekki á milli sjá hvort það er meira af sól eða flugum þarna. Það hlýtur líka að vera erfitt og lýjandi að vera framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það getur liðið meira en mannsaldur frá því maður byrjar að romsa þessum titli upp úr sér þar til því verkefni er lokið. En mannsaldur er nú ekki svo langur í Afríku, þannig að þetta sleppur nú sjálfsagt fyrir horn þar um slóðir.

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 22:36

5 identicon

Þegar umhverfisráðherrann
hverfist umhverfis ráðuneytið
þá umhverfist alltaf ráðuneytið
um umhverfisráðuneytismann.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband