Fræðsla virkar

Í nýlegum tölum frá Landlæknisembættinu kemur fram að fóstureyðingum hefur fækkað hér á landi síðustu fimm ár.  Skv. fréttinni er ástæðan talin vera aukin fræðsla og forvarnir. Þetta er alveg frábært að heyra.

Ég hefði haft mjög gaman af því að sjá samanburð við Bandaríkin.  Þar hefur verið stefna Bush-stjórnarinnar að draga úr fræðslu um getnaðarvarnir í skólakerfinu og frekar leggja áherslu á "abstinence" eða halda sig frá kynlífi.  Í nýlegri heimildamynd sem ég sá, að mig minnir á einhverri af norrænu stöðvunum, var verið að fjalla um hvernig árangurinn af þessari stefnu er frekar aukning í kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum og var Houston, Texas tekin sérstaklega fyrir. 

Það hefur verið skoðun sérfræðinga hér á landi, og að ég held almennt á Norðurlöndunum, að það eina sem virkar til að draga úr ótímabærum þungunum og þar af leiðandi fóstureyðingum er aukin fræðsla og notkun getnaðarvarna.

Annað sem vakti athygli mína í samanburðinum við Norðurlöndin er að Svíþjóð er með fleiri fóstureyðingar og virðast þær ekki hafa dregist saman líkt og hér.  Af hverju skyldi það vera? Sænska ríkið hefur niðurgreitt getnaðarvarnir í fjölda mörg ár og er með mjög góða kynfræðslu í grunn- og menntaskólum.  Gæti þetta tengst því að íslenskar konur eru líklegri til að ganga með, ef þær á annað borð verða ófrískar á meðan sænskar konur velja í fleiri tilvikum að fara í fóstureyðingum?

Gaman væri ef einhver gæti svarað þessari spurningum. 


mbl.is Árlegum fóstureyðingum fer fækkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hérlendis eru börn ungra mæðra oft alin upp af ömmu eða ömmum barnsins, því móðirin er enn í námi og tekjulítil, jafnvel ennþá í framhaldsskóla. Þetta þykir oft hinn eðlilegasti hlutur hér. Það gerir stórfjölskyldan en hún er að verða séríslenskt fyrirbrigði. Sænsku stelpurnar fara því frekar í fóstureyðingu en þær íslensku, því mæður sænsku stelpnanna eru trúlega ekki eins tilbúnar að ala upp barnabörn sín. Ítölum og Rússum fækkar og þeir eiga oft bara eitt barn. Rússar vegna fátæktar og Ítalir vegna þess að þeir vilja eyða tíma sínum og peningum í annað en barnauppeldi. Hver kona þarf að eiga 2,1 barn til að þjóðinni fækki ekki, ef enginn innflutningur er af fólki, og Íslendingar og Albanir eru þær þjóðir sem eiga flest börn í Evrópu.

Fólk í Suður-Evrópu býr oftast hjá foreldrum sínum til sirka þrítugs þegar það giftist en því dettur ekki í hug að taka upp á því að eiga börn áður það flytur að heiman. Ungar rússneskar stelpur færu flestar í fóstureyðingu en þá eiga þær á hættu að geta ekki orðið ófrískar aftur, því sjúkrahúsin í Rússlandi eru hrikaleg. Guð forði hins vegar ítölsku stelpunum frá öllu slíku. Ef þær verða óléttar gifta þær sig í hvelli og það á sérstaklega við um stelpurnar á Suður-Ítalíu. Það myndi aldrei hvarfla að þeim að gifta sig í hvítu ef þær væru áberandi óléttar eða búnar að eignast barn. Ég átti einu sinni suður-ítalska kærustu og hún bað mig að spyrja pabba sinn hvort við mættum giftast. Ég vildi nú ekki taka þátt í slíkri forneskju og þar með var það búið. 

Ísland varð fyrsta landið í heiminum fyrir 72 árum til að lögleiða fóstureyðingar með lögum númer 38 frá 1935. Hérlendis eru framkvæmdar um 900 fóstureyðingar á ári og fjöldi fóstureyðinga hér hefur verið 23% af fjölda fæðinga undanfarin ár. Í 93% tilvika er ástæðan fyrir fóstureyðingu félagsleg og í 73% tilvika er fóstureyðingin sú fyrsta hjá viðkomandi konu. Fóstureyðingum meðal stúlkna undir tvítugu hefur fækkað hér:

http://www.landlaeknir.is/template1.asp?pageid=628&nid=692

Steini Briem (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 14:35

2 Smámynd: Saumakonan

Ég bjó í Svíþjóð í allmörg ár og einmitt átti eina dóttur mína þar...    Þegar ég varð ófrísk og fór til læknis til að staðfesta þungunina þá var ég strax spurð " já og ætlaru í fóstureyðingu?"   Ég bara horfði á lækninn hálf hissa á spurningunni og sagði strax nei.    "já en þú átt 2 fyrir... og ertu ekki í skóla?" kom frá lækninum....    EHHHHH????

Ég náttúrulega veit ekki hvort þetta var eitthvað einsdæmi en mér fannst eins og læknunum fyndist algerlega eðlilegt að maður bara færi í eyðingu sisvona bara "afþví" !    Eins fannst mér á td vinkonum mínum að þeim þætti svona algerlega í lagi... (2 sem FÓRU í fóstureyðingu) og ein sagði við mig að ef dóttir hennar myndi verða ófrísk (þá 16 ára) þá myndi hún senda hana í fóstureyðingu eins og skot!

Hugsunarhátturinn fannst mér vera allt öðruvísi og þrátt fyrir niðurgreiddar getnaðavarnir og fræðslu þá var eins og það væri "ekkert mál" að fara í eyðingu!

Enda varð ég illilega vör við það þegar ég lenti svo inná spítala og þurfti að liggja í einhverjar vikur þar á "kvennadeild"... allt í kringum mig voru konur að fara í eða koma úr fóstureyðingum og þetta sló mig svolítið hvernig "afsakanirnar" voru...  ein átti 3 og vildi ekki fleiri...   önnur átti 1 úr fyrra sambandi og vildi ekki koma með annað "strax" í nýju sambandi...   þónokkrar voru "of ungar"  (ca 16-17 ára) og svona gekk þetta...      

Ég get alveg skilið þær konur sem lenda í að vera nauðgað eða þá að eitthvað virkilegt sé að annaðhvort barni eða móður að ÞÁ sé farið í fóstureyðingu... en að nota þetta sem "neyðar getnaðarvörn" er mér algerlega óskiljanlegt!  

Saumakonan, 7.3.2007 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband